Tjáningarfrelsi

Rétturinn til frjálsrar tjáningar er ákaflega mikilvægur og hefur hann á sér fjölmargar hliðar. Tjáningarfrelsi er nauðsynlegt til þess að hægt sé að nýta sér önnur réttindi, eins og réttinn til félagafrelsis. Rétturinn til tjáningar getur hins vegar einnig rekist á önnur réttindi eins og til dæmis friðhelgi einkalífsins.

Rétturinn til frjálsrar tjáningar á rætur sínar að rekja til 18. aldar þegar evrópsk löggjafarþing fóru að krefjast réttinda til frjálsrar tjáningar. Síðan þá hefur mikil réttindabarátta farið fram á þessu sviði. Einstaklingar hafa krafist frekari réttinda til frjálsrar tjáningar og fyrir frelsi fjölmiðla. Tjáningarfrelsi er einnig í náinni tengingu við trúfrelsi og frelsi til stjórnmálalegra skoðana.

Tjáningarfrelsi og íslenskur réttur

Tjáningarfrelsi er verndað í 73. grein stjórnarskrárinnar og hljóðar hún svo;

  1. Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar.
  2. Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða.
  3. Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.

Þetta ákvæði var tekið upp í stjórnarskrána 1995, en þá var mannréttindakafli hennar endurskoðaður. Eldra ákvæðið var ekki jafn ítarlegt og hafði ekki átt stórt hlutverk í réttarframkvæmd á þessu sviði.

Réttur til að afla upplýsinga

Ein af forsendum lýðræðislegra stjórnarhátta er að borgarar samfélagsins geti fylgst með og kynnst athöfnum og starfsemi þeirra stofnana sem eru reknar í almenningsþágu.

Í upplýsingalögum, nr. 50/1996, hefur verið lögfestur réttur almennings til aðgangs að gögnum sem stjórnvöld geyma. Einn af mikilvægustu þáttum upplýsingalaganna er sá að sett var á fót úrskurðarnefnd sem almenningur getur leitað til ef stjórnvald synjar um aðgang að upplýsingum.

Lögin eiga við stjórnsýslu ríkisins og sveitarfélaga og einnig til starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur verið falið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt einstaklinga eða skyldur.

Réttur til aðgangs nær, skv 3. gr., til allra skjala er mál varða í fórum stjórnvalda, teikninga, uppdrátta, korta, mynda, örfilma og tölvugagna svo og dagbókarfærslna sem lúta að gögnum mála. Sá sem krefst þess að fá aðgang verður að skilgreina vel og afmarka beiðni sína og verður hver beiðni að varða tiltekið og ákveðið mál. Sum gögn eru þó alfarið undanþegin aðgangi en um önnur gögn þarf að fara fram mat á því hvort vegi þyngra, hagsmunir almennings að aðgangi eða þeir einka- eða almannahagsmunir sem mæla gegn aðgangi.

Fjölmiðlar

Fjölmiðlar njóta ekki sérréttinda varðandi aðgang að upplýsingum sem stjórnvöld hafa yfir að geyma. Annað gegnir um réttinn til að halda trúnað við heimildarmenn, en til þess að geta sinnt hlutverki sínu þurfa fjölmiðlar að njóta trúnaðar um samskipti við heimildarmenn. 

Í 25. gr. fjölmiðlalaga, nr. 38/2011, er fjallað um vernd heimildarmanna. Samkvæmt ákvæðinu er starfsmönnum fjölmiðlaveitu óheimilt að upplýsa hver sé heimildarmaður að grein, riti, frásögn, tilkynningu eða öðru efni, hvort sem það hefur birst eða ekki, hafi heimildarmaður eða höfundur óskað nafnleyndar. Starfsmönnum fjölmiðlaveitu er jafnframt óheimilt að láta af hendi gögn sem hafa að geyma upplýsingar um heimildarmann eða höfund í slíkum tilvikum. Heimildarvernd skv. 1. og 2. mgr. ákvæðisins verður einungis aflétt með samþykki viðkomandi heimildarmanns eða höfundar eða á grundvelli 119. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008. Réttur fjölmiðlamanna til að halda heimildum leyndum er tryggður í 53. gr. einkamálalaga, nr. 19/1991, og 119. gr. laga um meðferð sakamála. Samkvæmt einkamálalögunum er blaðamönnum óheimilt án leyfis þess sem í hlut á að greina frá heimildarmönnum. Samkvæmt lögum um meðferð sakamála er þeim það alltaf heimilt, en einungis skylt ef tiltekin skilyrði eru uppfyllt varðandi alvarleika þess brots sem undir rannsókn er. 

Viðurlög gegn kynþáttahatri

Í almennu hegningarlögunum er í 233. gr. lögð refsing við því að ráðast opinberlega með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt á mann eða hóp manna, m.a. vegna litarháttar eða kynþáttar.

Um takmarkanir á tjáningarfrelsi

Tjáningarfrelsið hefur um langa tíð verið álitið eitt af mikilvægustu réttindum einstaklings. Þrátt fyrir það hefur verið viðurkennt að heimilt sé að setja því ákveðnar skorður. Samkvæmt dómum hæstaréttar verða slíkar takmarkanir að uppfylla þrjú skilyrði. Þær verða að byggja á lögum, þjóna lögmætu markmiði og vera nauðsynlegar.

Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16