Gerð alþjóðasamninga á sér að jafnaði langan aðdraganda. Oft eru ráðstefnur haldnar þar sem saman koma fulltrúar ríkisstjórna, sérfræðingar, embættismenn og stjórnmálamenn. Rökræða þeir hver drögin á fætur öðrum og bítast um hin ýmsu ákvæði er varða hagsmuni þeirra.
Okkur Íslendingum stendur kannski næst að minnast gerðar Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem var rúm tíu ár í smíðum og er þá aðeins talinn tíminn frá því að Hafréttarráðstefnan hófst 1973 - en að undirbúningi hafði þá þegar verið unnið árum saman þar sem fulltrúi Íslands vann mikið starf.
Hjá Allsherjarþinginu þróast alþjóðasamningar oft með þeim hætti, að eftir ýtarlegar umræður á þinginu og í hinum ýmsu nefndum með tilheyrandi ályktunum er samþykkt yfirlýsing – declaration – um tiltekinn málaflokk. Slíkar yfirlýsingar eru ekki bindandi að alþjóðarétti en geta haft mikil áhrif til stuðnings þeim markmiðum, sem þar eru sett fram.
Telji nægilega mörg aðildarríkjanna að yfirlýsingin ein dugi ekki og þörf sé sterkari, bindandi lagareglna er unnið að gerð alþjóðasamnings og hann opnaður með formlegri samþykkt á Allsherjarþinginu til undirskriftar og fullgildingar. Undirskrift er ekki nægileg ein og sér - til þess að alþjóðasamningur öðlist gildi þarf tiltekinn fjöldi ríkja að fullgilda hann – og einungis þau ríki, sem fullgilda slíkan samning, eru bundin af honum að þjóðarétti – nema, eins og fyrr sagði, að um sé að ræða þjóðréttarvenju, áður óskráða eða nýja reglu sem hefur öðlast ígildi þjóðréttarvenju, þá eru öll ríki bundin.
Oft gera ríki fyrirvara við ýmis ákvæði alþjóðasamnings um leið og þau staðfesta hann, þar með lýsa þau því yfir að þau telji sig ekki geta gengist undir þessi ákvæði.
Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hefur verið stofnað til fjölmargra samninga á sviði mannréttinda. Jafnframt því hafa nokkrar yfirlýsingar verið gefnar út. Helstu mannréttindasamningar sem gerðir hafa verið innan Sameinuðu þjóðanna eru; alþjóðasamningur um afnám alls kynþáttamisréttis (ICERD), alþjóðasamningur um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (ICCPR), alþjóðasamningur um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi (ICESCR), samningur gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (CAT), samningur um afnám allrar mismununar gegn konum (CEDAW), samningur um réttindi barnsins (CRC), samningur um réttarstöðu flóttamanna og að lokum samningur um réttarstöðu farandverkamanna og fjölskyldumeðlima þeirra.
Jafnframt samningum þessum hafa fjölmargar yfirlýsingar verið gerðar ásamt valfrjálsum bókunum og viðaukum við samningana.
Hér til hliðar má finna þá samninga Sameinuðu þjóðanna sem Ísland er aðili að.