Birt sem augl. í Stjtíð. C 2001 nr. 35. Öðlaðist gildi 12. febrúar 2002.
Ríkin, sem aðilar eru að bókun þessari,
finna til hvatningar vegna yfirgnæfandi stuðnings við samninginn um réttindi barnsins sem sýnir hve útbreitt fylgið er við að stuðla að og berjast fyrir verndun réttinda barnsins,
lýsa því yfir enn á ný að réttindi barna þarfnast sérstakrar verndar og kalla á að stöðugt sé unnið að umbótum á aðstæðum barna án mismununar og að þau fái að þroskast og mennta sig við aðstæður þar sem friður og öryggi ríkir,
er brugðið vegna skaðlegra og útbreiddra áhrifa sem vopnuð átök hafa á börn og afleiðinganna, þegar til lengri tíma er litið, sem þau hafa í för með sér á varanlegan frið, öryggi og þróun,
fordæma að börn séu notuð sem skotmörk þar sem vopnuð átök eiga sér stað og að beinar árásir séu gerðar á fyrirbæri sem njóta verndar samkvæmt þjóðarétti, þar með talið staði þar sem búast má við að mikið sé af börnum, til dæmis skóla og sjúkrahús,
vekja athygli á að samþykktin um Alþjóðlega sakamáladómstólinn hefur verið samþykkt og sérstaklega að í henni er það talinn stríðsglæpur að kveðja til að gegna herskyldu börn undir 15 ára aldri eða skrá þau í herinn eða láta þau taka virkan þátt í hernaðarátökum, hvort sem um er að ræða vopnuð átök milli ríkja eða innanlands,
telja því að til þess að styrkja enn frekar framkvæmd þeirra réttinda sem viðurkennd eru í samningnum um réttindi barnsins þurfi að vernda börn í auknum mæli gegn því að taka þátt í vopnuðum átökum,
vekja athygli á að í 1. gr. samningsins um réttindi barnsins er tekið fram, að því er varðar þann samning, að barn merki hvern þann einstakling sem ekki hefur náð 18 ára aldri nema hann nái lögræðisaldri fyrr samkvæmt gildandi lögum sem hann lýtur,
eru sannfærð um að valfrjáls bókun við samninginn, þar sem aldursmörk vegna mögulegrar herkvaðningar í vopnaða heri og þátttöku í hernaðarátökum eru hækkuð, muni stuðla að árangri við framkvæmd þeirrar meginreglu að fyrst og fremst skuli tekið tillit til þess, að því er varðar allar ráðstafanir vegna barna, hvernig hagsmunum barnsins sé best borgið,
vekja athygli á að á tuttugustu og sjöttu alþjóðlegu ráðstefnu Rauða krossins og Rauða hálfmánans í desember 1995 var meðal annars mælst til þess að aðilar sem eiga í átökum geri allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að börn yngri en 18 ára taki ekki þátt í hernaðarátökum,
fagna því að samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 182 um bann við barnavinnu í sinni verstu mynd og tafarlausar aðgerðir til að afnema hana var samþykkt einróma í júní 1999 sem meðal annars bannar að þvinga eða skylda börn til herþjónustu til þess að nota þau í vopnuðum átökum,
fordæma og lýsa yfir alvarlegum áhyggjum yfir því að börn séu kvödd til, þjálfuð og notuð í átökum vopnaðra hópa, annarra en ríkisherja, innan landamæra og yfir landamæri og viðurkenna ábyrgð þeirra sem kveðja til, þjálfa og nota börn til slíkra verka,
minna á að það er skylda hvers sem á aðild að vopnuðum átökum að hlýða ákvæðum þjóðaréttar um mannúðarmál,
leggja áherslu á að þessi bókun er með fyrirvara um markmið og meginreglur í sáttmála Sameinuðu þjóðanna, þar með talin 51. gr., og viðeigandi viðmiðanir laga um mannúðarmál,
hafa í huga að skilyrði um frið og öryggi sem byggjast á fullri virðingu fyrir markmiðum og meginreglum sáttmálans og að löggerningum um mannréttindi sé hlýtt eru lífsnauðsynleg til að veita megi börnum fulla vernd, sérstaklega í vopnuðum átökum og meðan á hernámi stendur,
viðurkenna sérstakar þarfir þeirra barna sem eru sérstaklega varnarlaus gagnvart herkvaðningu eða þátttöku í hernaðarátökum sem ganga þvert á þessa bókun vegna efnahagslegrar eða félagslegrar stöðu eða kynferðis,
eru minnug þess að nauðsyn krefst þess að hugað sé að efnahagslegum, félagslegum og stjórnmálalegum orsökum þess að börn taka þátt í vopnuðum átökum,
eru þess fullviss að þörf er á að efla alþjóðasamstarf við framkvæmd þessarar bókunar auk þess að þau börn sem eru fórnarlömb, vopnaðra átaka fái líkamlega og sálræna endurhæfingu og aðlagist samfélaginu á ný,
hvetja til þátttöku samfélagsins, sérstaklega barna og þeirra barna sem eru fórnarlömb, í að dreifa kynningar- og fræðsluáætlunum sem varða framkvæmd bókunarinnar,
og hafa orðið ásátt um eftirfarandi:
1. gr. Aðildarríki skulu gera allar raunhæfar ráðstafanir til að tryggja að liðsmenn vopnaðra herja þeirra sem ekki hafa náð 18 ára aldri taki ekki beinan þátt í hernaðarátökum.
2. gr. Aðildarríki skulu tryggja að einstaklingar sem hafa ekki náð 18 ára aldri séu ekki skyldaðir til herþjónustu í vopnuðum herjum þeirra.
3. gr. 1. Aðildarríki skulu hækka lágmarksaldur vegna skráningar sjálfboðaliða í heri landsins frá því sem tilgreint er í 3. mgr. 38. gr. samningsins um réttindi barnsins með tilliti til meginreglnanna í greininni og viðurkenna að samkvæmt samningnum eiga einstaklingar yngri en 18 ára rétt á sérstakri vernd.
2. Hvert aðildarríki skal, við fullgildingu bókunarinnar eða aðild að henni, afhenda til vörslu bindandi yfirlýsingu þar sem tilgreindur er sá lágmarksaldur sem það mun miða skráningu sjálfboðaliða í vopnaðar hersveitir landsins við og lýsing á þeim öryggisráðstöfunum sem það hefur samþykkt til að tryggja að slík skráning sé ekki vegna nauðungar eða þvingunar.
3. Aðildarríki sem leyfa skráningu sjálfboðaliða yngri en 18 ára í vopnaðar hersveitir lands síns skulu vinna að öryggisráðstöfunum til að tryggja að lágmarki að:
a) slík skráning sé í raun af frjálsum vilja;
b) slík skráning sé með upplýstu samþykki foreldra eða lögráðamanna einstaklingsins;
c) slíkir einstaklingar hafi fengið allar upplýsingar um þær skyldur sem felast í slíkri herþjónustu;
d) slíkir einstaklingar leggi fram áreiðanlegar sannanir um aldur sinn áður en þeir eru teknir í herinn.
4. Hvert aðildarríki getur hvenær sem er styrkt yfirlýsingu sína með því að senda tilkynningu í því skyni til aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna sem kunngjörir hana öllum aðildarríkjunum. Slík tilkynning öðlast gildi á þeim degi sem aðalframkvæmdastjórinn tekur við henni.
5. Krafan um að hækka aldurinn í 1. mgr. þessarar greinar gildir ekki um skóla, sem starfræktir eru eða stjórnað er af herjum aðildarríkjanna, í samræmi við 28. og 29. gr. samningsins um réttindi barnsins.
4. gr. 1. Vopnaðir hópar, aðrir en her ríkis, skulu ekki undir neinum kringumstæðum skrá einstaklinga yngri en 18 ára í herinn eða beita þeim í hernaðarátökum.
2. Aðildarríki skulu gera allar raunhæfar ráðstafanir til að koma í veg fyrir slíka skráningu og beitingu, þar á meðal að samþykkja nauðsynleg lagaákvæði til að banna slíkar aðgerðir og gera þær refsiverðar.
3. Beiting þessarar greinar samkvæmt bókun þessari hefur ekki áhrif á réttarstöðu neins þátttakanda í vopnuðum átökum.
5. gr. Ekki skal túlka neitt í þessari bókun þannig að það útiloki ákvæði í lögum aðildarríkis eða í alþjóðagerningum og ákvæðum þjóðaréttar um mannréttindi sem styður frekar að réttindi barnsins komi til framkvæmda.
6. gr. 1. Hvert aðildarríki skal gera allar nauðsynlegar ráðstafanir er varða lög og stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til að tryggja virka framkvæmd og fullnustu ákvæða þessarar bókunar innan lögsögu sinnar.
2. Aðildarríki skuldbinda sig til að breiða út og kynna með viðeigandi hætti meginreglur og ákvæði þessarar bókunar, jafnt fyrir fullorðnum sem börnum.
3. Aðildarríki skulu gera allar raunhæfar ráðstafanir til að tryggja að einstaklingar innan lögsögu þeirra sem hafa verið skráðir í herinn eða beitt í hernaðarátökum andstætt þessari bókun séu afvopnaðir eða veitt lausn frá þjónustu á annan hátt. Aðildarríki skulu, þegar nauðsynlegt er, veita þessum einstaklingum alla viðeigandi aðstoð til að þeir nái líkamlegum og sálrænum bata og aðlagist samfélaginu á ný.
7. gr. 1. Aðildarríki skulu vinna saman að framkvæmd þessarar bókunar, þar á meðal að koma í veg fyrir alla starfsemi sem er andstæð bókuninni og við endurhæfingu og aðlögun einstaklinga sem eru fórnarlömb aðgerða sem eru andstæðar þessari bókun, þar á meðal með tæknilegri samvinnu og fjárhagsaðstoð. Slík aðstoð og samvinna skal gerð í samráði við hlutaðeigandi aðildarríki og viðeigandi alþjóðastofnanir.
2. Aðildarríki sem eru í þeirri aðstöðu að geta veitt aðstoð skulu gera það í gegnum marghliða eða tvíhliða áætlanir eða aðrar áætlanir eða meðal annars í gegnum frjálsan sjóð sem stofnsettur er í samræmi við reglur allsherjarþingsins.
8. gr. 1. Hvert aðildarríki skal innan tveggja ára frá því að bókunin öðlast gildi að því er það aðildarríki varðar leggja fyrir nefndina um réttindi barnsins skýrslu þar sem fram koma ítarlegar upplýsingar um ráðstafanir sem gerðar hafa verið til að koma ákvæðum bókunarinnar í framkvæmd, þar á meðal ráðstafanir sem gerðar eru til að koma ákvæðunum um þátttöku og herskráningu í framkvæmd.
2. Eftir að hin ítarlega skýrsla hefur verið lögð fram skal hvert aðildarríki, í samræmi við 44. gr. samningsins, láta allar frekari upplýsingar í tengslum við framkvæmd bókunarinnar koma fram í skýrslunum sem þau leggja fyrir nefndina um réttindi barnsins. Önnur aðildarríki bókunarinnar skulu leggja fram skýrslu á fimm ára fresti.
3. Nefndin um réttindi barnsins getur óskað eftir að aðildarríki leggi fram frekari upplýsingar sem máli skipta fyrir framkvæmd bókunarinnar.
9. gr. 1. Bókun þessi skal liggja frammi til undirritunar af hálfu sérhvers ríkis sem er aðili að samningnum eða hefur undirritað hann.
2. Bókun þessi er háð fullgildingu og er öllum ríkjum heimilt að gerast aðilar að henni. Fullgildingar- og aðildarskjöl skulu afhent aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til vörslu.
3. Í krafti umboðs síns sem vörsluaðili samningsins og bókunarinnar skal aðalframkvæmdastjórinn tilkynna öllum aðildarríkjum samningsins og öllum ríkjum sem hafa undirritað samninginn um hvert yfirlýsingarskjal skv. 13. gr.
10. gr. 1. Bókun þessi skal öðlast gildi þremur mánuðum eftir að tíunda fullgildingar- eða aðildarskjalið er afhent til vörslu.
2. Að því er varðar hvert ríki sem fullgildir bókun þessa eða gerist aðili að henni eftir að hún hefur öðlast gildi öðlast bókun þessi gildi einum mánuði eftir að það ríki hefur afhent eigið skjal um fullgildingu eða aðild til vörslu.
11. gr. 1. Sérhvert aðildarríki getur hvenær sem er sagt upp bókun þessari með skriflegri tilkynningu til aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna sem skal eftir það tilkynna það hinum aðildarríkjum samningsins og öllum ríkjum sem hafa undirritað samninginn. Uppsögnin skal öðlast gildi einu ári eftir að aðalframkvæmdastjórinn tekur við tilkynningunni. Ef aðildarríkið við lok þess árs á í vopnuðum átökum öðlast uppsögnin hins vegar ekki gildi fyrr en endi hefur verið bundinn á átökin.
2. Slík uppsögn skal ekki hafa þau áhrif að aðildarríkið sé leyst undan skuldbindingum sínum samkvæmt bókun þessari að því er varðar nokkrar aðgerðir sem eiga sér stað fyrir þann dag sem uppsögnin öðlast gildi. Uppsögnin skal eigi heldur á nokkurn hátt hafa áhrif á áframhaldandi meðferð máls sem þegar var til meðferðar hjá nefndinni fyrir þann dag sem uppsögnin öðlaðist gildi.
12. gr. 1. Sérhvert aðildarríki má bera fram breytingartillögu og fá hana skráða hjá aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Aðalframkvæmdastjórinn skal því næst senda breytingartillöguna til aðildarríkjanna ásamt tilmælum um að þau tilkynni hvort þau séu því hlynnt að haldin verði ráðstefna aðildarríkjanna til þess að taka til meðferðar tillögurnar og greiða atkvæði um þær. Ef að minnsta kosti einn þriðji hluti aðildarríkjanna er hlynntur slíkri ráðstefnu innan fjögurra mánaða frá þeim degi er tilmælin voru borin fram skal aðalframkvæmdastjórinn boða til hennar undir forystu Sameinuðu þjóðanna. Sérhver breytingartillaga sem samþykkt er af meiri hluta þeirra aðildarríkja sem ráðstefnuna sækja og atkvæði greiða skal lögð fyrir allsherjarþingið til samþykktar.
2. Breytingartillaga sem samþykkt er skv. 1. mgr. þessarar greinar skal öðlast gildi þegar allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt hana og hún hefur verið staðfest af tveimur þriðju hlutum aðildarríkjanna.
3. Þegar breytingartillaga öðlast gildi skal hún vera bindandi fyrir þau aðildarríki sem hafa staðfest hana en önnur aðildarríki skulu áfram bundin af ákvæðum þessarar bókunar og öllum fyrri breytingum sem þau hafa samþykkt.
13. gr. 1. Bókun þessi, en arabískur, enskur, franskur, kínverskur, rússneskur og spænskur texti hennar eru jafngildir, skal varðveitt í skjalasafni Sameinuðu þjóðanna.
2. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal senda staðfest afrit af bókun þessari til allra aðildarríkja samningsins og allra ríkja hafa undirritað samninginn.