PROGRESS áætlunin - verkefni ársins 2009

Árið 2009 hélt Mannréttindaskrifstofa Íslands í fyrsta sinn utan um verkefnin sem unnin voru fyrir styrk PROGRESS áætlunarinnar.

Áherslur PROGRESS verkefnisins þetta árið 2009 voru þrjár:

Í fyrsta lagi lagði MRSÍ lóð sín á vogarskálar þeirrar umræðu sem þegar var orðin hávær í samfélaginu um skort á lögum gegn mismunun.

Í öðru lagi var leitast við að skrá viðhorf almennings til málefna ákveðinna hópa innan samfélagsins, þeas aldraðra, minnihlutatrúarbragða, fólks af erlendum uppruna, fólks með fötlun og samkynhneigðra.

Í þriðja lagi sneri verkefnið að því að efla fjölbreytni í samfélaginu, og takast á við mismunun.

Verkefnin sem Mannréttindaskrifstofan tók þátt í voru viðhorfskönnun, vitundarvakningarátak (Love Difference), „ástandskönnun“ (situation testing), ör-myndahátíð (micro film festival), og ráðstefnur um mismunun, hugtök og staðalímyndir henni tengdar.

Viðhorfskönnunin var samstarfsverkefni Mannréttindaskrifstofunnar og félags- og tryggingamálaráðuneytisins, en um framkvæmdina sá Capacent Ísland. Í henni var mismunun greind út frá sex forsendum: kynferði/kynhneigð, fötlun, trú, aldri og kynþætti/þjóðerni. Spurningarnar voru unnar með hliðsjón af Eurobarometer könnun Evrópusambandsins, "Discrimination in the European Union".

Niðurstöður könnunarinnar sýna að staða ýmissa hópa, s.s. samkynhneigðs fólks og þeirra sem aðhyllast minnihlutatrúarbrögð er talin betri hér á landi en í ýmsum öðrum Evrópulöndum þótt enn verði ýmsir hópar fyrir fordómum vegna tiltekinna eiginleika eða skoðana.

Hér má finna niðurstöður könnunarinnar í heild sinni.

hjarta_postkort

Í kjölfar könnunarinnar hleyptu Mannréttindaskrifstofa Íslands og félags-og tryggingamálaráðuneytið af stokkunum vitundarvakningarátakinu „Fylgdu hjartanu, sameinumst í fjölbreytninni!“

 Veggspjöldin voru birt í götugluggum víðsvegar um Reykjavík og Akureyri auk þess sem minni veggspjöldum og póstkortum með myndinni var dreift um allt land. Markmið átaksins var að vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi fjölbreytni fyrir íslenskt samfélag, og einnig að hvetja fólk til að líta í eigin barm, kveða niður fordóma og stuðla þannig að samfélagi þar sem allir íbúar íbúar njóta virðingar og jafnra tækifæra. 

Annað vitundarvakningarátak sem Mannréttindaskrifstofan stóð fyrir var „Takkmynd_auga_1“ auglýsingaherferðin en hún beindist mestmegnis að innflytjendum og birtist í plakötum, á internetinu og í sjónvarpi. Grundvallarhugmynd þessa átaks var sú tilfinning að nauðsynlegt er að innflytjendur finni að Íslendingar kunni að meta þau jákvæðu áhrif sem þeir hafa á landið, fjárhagslega sem og menningarlega. Átakið var þýtt á fjölda erlendra tungumála, en einnig á íslensku, með það í huga að höfða til Íslendinga nú þegar erfiðileikar eru í þjóðfélaginu sem ýtt geta undir neikvæðni í garð innflytjenda.

Um þessa herferð má lesa meira hér.

Á vegum Mannréttindaskrifstofu fóru einnig fram svokallaðar situation testing rannsóknir en í þeim einbeittu þáttakendur sér að því að kanna viðhorf almennings og starfsmanna í verslunum, klúbbum og á öðrum opinberum vettvangi til fólks af erlendum uppruna. Rannsóknin var gerð undir umsjón reyndra aðila, en sjálfboðaliðar af erlendum uppruna tóku að sér að fara í klúbba og aðra staði og fylgjast með viðbrögðum starfsfólks á opinberum stöðum við komu þeirra og beiðnum um þjónustu.

Ör-kvikmyndahátíð var haldin til að vekja athygli á mismunandi birtingarmyndum fordóma og til að efla fjölbreytni sem og auka skilning fólks á aðstæðum þeirra sem taldir eru öðruvísi á einhvern hátt. Aðgangur var ókeypis, og var kvikmyndagerðarmönnum boðið að mæta og ræða verk sín.

Að lokum má svo nefna hina sex opnu fundi sem einblíndu á staðalímyndir og hvaða orð beri að nota þegar umræðan snýr að jafnrétti. Hver og einn fundur var tileinkaður einum af hinum sex grundvöllum mismununar (kynferði/kynhneigð, fötlun, trú, aldri og kynþætti/þjóðerni), og einn að auki sem fjallaði um  jafnrétti kynjanna og staðalímyndir femínisma og femínista.  

Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16