Staðreyndir um HIV og alnæmi
HIV er sú veira sem valdið getur alnæmi en eftir að fólk smitast brýtur veiran smátt og smátt niður ónæmiskerfi líkamans ef ekki koma til lyf sem duga. Í dag er raunin þó sú að mörg lyf eru komin á markaðinn sem haldið geta veirunni í skefjum. Lyfin hafa þó því miður ekki gagnast öllum, bæði vegna þess að sumir mynda óþol gegn þeim og eins geta fylgt þeim það miklar aukaverkanir að fólk á afar erfitt með að taka lyfin. En til allrar lukku er þessi hópur ekki stór og stöðugt er verið að þróa ný lyf. Það eru þó einungis smitaðir á Vesturlöndum sem hafa aðgang að þessum lyfjum. Enn deyja milljónir manna á ári hverju í þróunarlöndum af völdum veirunnar - en þetta fólk hefur ekki efni á dýrum eyðnilyfjum.
Alnæmi kallast það þegar HIV veirunni hefur tekist að brjóta ónæmiskerfi líkamans niður fyrir ákveðin viðmiðunarmörk, sem oftast er miðað við fjölda T-frumna líkamans (T-frumur eru hjálparfrumur, eins konar hornsteinar ónæmiskerfisins), en fari þær niður fyrir mælieininguna 200 er talað um að einstaklingurinn sé kominn með alnæmi.
Rætt er um að einstaklingur sé HIV jákvæður (hafi hann mælst með jákvæða svörun úr blóðprufu) eða með alnæmi eins og útskýrt var að framan. Svo er talað um alnæmi á lokastigi sem er þá lokastig sjúkdómsins og þegar svo er komið er lítið hægt að gera fyrir sjúklinginn. Sem betur fer er slíkt ástand orðið sjaldgæfara með tilkomu nýrra og bættra lyfjablandna.
HIV og umheimurinn
Síðan á fyrstu árum 9. áratugsins hefur HIV veiran lagt að velli um 22 milljónir manna og sýkt yfir 60 milljónir. Ljóst er að á meðan veiran er ekki undir stjórn þá mun hún halda áfram að rústa lífum milljóna manna um allan heim.
Víða um heim tíðkast mannréttindabrot sem ýta undir útbreiðslu eyðni og samfélagsmein sem eru óbeinar afleiðingar sjúkdómsins. Víða er að finna mikla fordóma gagnvart fólki sem smitast hefur af eyðni en einnig er sjálfsákvörðunarréttur kvenna og stúlkna að engu hafður og þær þurfa að þola kynferðisofbeldi sem verður til þess að þær smitast.
Í fangelsum á erlendri grundu breiðist HIV hratt út vegna þess kynferðisofbeldis sem þar á sér stað en einnig vegna lélegs aðgengis fanga að verjum. Einnig er mikill skortur á því að unnið sé að því að koma í veg fyrir að sjúkdómurinn breiðist út meðal eiturlyfjafíkla, meðal annars með útvegun sprautunála. Þá er í mörgum samfélögum lagt blátt bann við kynfæðslu, af trúarlegum- eða menningarlegum ástæðum og þannig er mikill skortur á almennri fræðslu til að koma í veg fyrir útbreiðslu veirunnar með kynmökum. Enn fremur hefur aukin áhersla ríkja (einkum Bandaríkjanna) sem gefa fé til fyrirbyggjandi aðgerða, líkt og svokallaðra kynlífsbindinda (e. abstinence), grafið undan herferðum gegn útbreiðslu veirunnar.
Þeir einstaklingar sem eru smitaðir af HIV verða oft fyrir fordómum og mismunun í því samfélagi sem þeir búa í. Eiginkonum manna, sem hafa látist úr eyðni, er í mörgum samfélögum hafnað af fjölskyldum sínum og fjölskyldum eiginmanna sinna og eignir þeirra eru iðulega af þeim teknar. Þúsundir barna sem misst hafa foreldra af völdum HIV eða eiga foreldra sem þjást af HIV hafa misst erfðarétt sinn og hafa jafnvel þurft að vinna fyrir sér á hættulegum vinnustöðum. Mörg hver hafa þurft að starfa við vændi og eru neydd til þess að búa á götunni þar sem þau eru í mikilli hættu á að verða fyrir ofbeldi og misnotkun. Þá er heilu fjölskyldunum í Afríku haldið uppi, af veikum mætti, af börnum og gamalmennum þar sem fjölskyldumeðlimir á brauðfæðingaraldri hafa allir látist úr eyðni.
HIV á Íslandi
Árið 2010 höfðu 253 einstaklingar greinst með HIV á Íslandi frá því að faraldursins varð fyrst vart fyrir rúmum tveimur áratugum. Um 8-12 manns greinast á ári hverju. Flestir þeir sem greinast nú eru gagnkynhneigðir.
Mikilvægt er að vinna gegn fordómum og styðja og efla þá sem hafa smitast auk þess að vinna að forvörnum. HIV-smitaðir geta lifað eðlilegu og góðu lífi en erfitt er að lifa með ríkjandi fordómum. Eins og alltaf þegar eitthvað hendir okkur er lykilatriði að vinna með andlega líðan og þetta á ekki síst við um þá sem greinast með HIV og fjölskyldur þeirra.