Þegar vinna að lagasetningu um mannréttindi hófst á vettvangi Sameinuðu þjóðanna einkenndust umræðurnar af mismunandi afstöðu ríkisstjórna til mannréttindahugtaksins sem var nátengd stjórnmálaviðhorfum og aðstæðum í ríkjunum. Þessi ágreiningur leiddi fljótlega til skiptingu mannréttinda í tvo meginflokka sem annars vegar nefndust borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (fyrsta kynslóð) og hins vegar efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi (önnur kynslóð).
Forystumenn Bandaríkjanna og Vestur-Evrópu lögðu höfuðáherslu á borgaralegu og stjórnmálalegu réttindin, sem þróast höfðu í vestrænni heimspeki í aldanna rás sem forsendur lýðræðislegra stjórnarhátta. Þetta voru “réttindi einstaklingsins” gagnvart ríkisvaldinu, nátengd hugmyndum um lýðræði; um að ríkisstjórnir sæki völd sín til fólksins, einstaklingarnir eigi rétt á því að velja valdamenn, veita þeim aðhald, gagnrýna þá og hafna þeim að vild og til þess að geta gert það verði þeir að njóta vissra réttinda, svo sem tjáningarfrelsis, trúarbragðafrelsis, samkomu– og félagafrelsis, kosningaréttar og kjörgengisréttar. Nú á dögum eru borgaralegu og stjórnmálalegu réttindin nátengd lýðræðislegu stjórnarfari og hugmyndum manna um hina góðu lýðræðislegu stjórnarhætti (e. good governance) um réttsýna og heiðarlega stjórnsýslu og kröfum um að stjórnmálamenn og embættismenn séu til fyrirmyndar í hvívetna og misnoti ekki völd sín.
Leiðtogar sósíalísku ríkjanna í Austur-Evrópu og þeirra ríkja Þriðja heimsins svokallaða, sem þá áttu aðild að Sameinuðu þjóðunum, hölluðust hins vegar að hinum svonefndu efnahags- og félagsréttindum. Þeir lögðu meira upp úr gagnkvæmum skyldum einstaklinga hver við annan og stjórnvalda við samfélagið og litu svo á, að miklvægast væri að hafa í sig og á, njóta vinnuréttinda, heilsugæslu, menntunar og menningar.
Afstaða þeirra var í stórum dráttum sú, að ríkjum væri vissulega skylt að virða frelsi og mannréttindi og ekki mætti mismuna þegnunum á grundvelli kynferðis, kynþátta, trúarbragða eða tungumála. Frelsi einstaklinganna takmarkaðist hins vegar af þörfum ríkisins og rétturinn til stjórnarþátttöku byggðist á stjórnskipulagi og þróunarstigi hinna einstöku ríkja. Í kommúnistaríkjunum var þessi réttur bundinn við flokkinn; innan hans kunnu menn að hafa einhver áhrif á val forystumanna en ekki utan hans.
Sósíalistar voru andsnúnir því að veita einstaklingnum aðild að þjóðarétti með færi á að leita réttar síns á alþjóðavettvangi vegna mannréttindabrota heima fyrir. Þessi afstaða breyttist með hruni sovétveldisins en er ennþá við lýði í Kína og mörgum ríkjum „þriðja heimsins”. Mörg þeirra fylgja þeirri stefnu, að hvert ríki fyrir sig eigi að skilgreina mannréttindi í ljósi þjóðfélagsaðstæðna, efnahagslegrar þróunar og menningarhefða og því geti þau verið breytileg frá einu ríki til annars. Þau standa fast á því að utanaðkomandi afskipti af mannréttindamálum sé skerðing á fullveldisrétti ríkja.
Vesturveldin vísuðu ekki alveg á bug nauðsyn hinna efnahagslegra og félagslegra réttinda sem slíkra. Fræg er hin svonefnda fjórfrelsisræða Roosevelts Bandaríkjaforseta frá stríðsárunum, þar sem hann sagði að menn ættu að njóta tjáningarfrelsis, trúfrelsis, frelsis frá ótta við að á þá yrði ráðist og frelsis frá fjárhagslegum skorti.
Enda þótt borgaralegu og stjórnmálalegu réttindunum hafi þannig verið haldið sérstaklega fram á Vesturlöndum, hafa velferðarkerfi þeirra í eðli sínu óbeint byggst á viðurkenningu efnahags -, félags - og menningarlegra réttinda. Stjórnmálamenn óttast hins vegar að notkun hugtaksins „réttindi“ þar um og að hvers kyns tilraunir til að knýja slík „réttindi“ fram með tilstilli dómstóla muni draga úr valdi þeirra.
Rétt er að hafa í huga að í árdaga Sameinuðu þjóðanna var mannréttindasýn beggja fylkinganna býsna þröng, þótt með ólíkum hætti væri. Þetta voru tímar nýlendustefnu og bullandi kynþáttamisréttis, sem hvorki Bandaríkjamenn né Vestur-Evrópumenn sáu nokkuð athugavert við, hvað þá takmörkuð réttindi verkafólks og kvenna um heim allan, hópa sem voru þó byrjaðir að berjast kröftuglega fyrir réttindum sínum. Mannréttindi voru í margra augum, hvort sem það var meðvitað eða ekki, fyrst og fremst réttindi hvítra karlmanna borgarastéttanna gagnvart ofríki stjórnvalda.
Austur-Evrópuþjóðir og Þriðja heims þjóðirnar vildu réttindi til handa verkafólki, konum og fólki af mismunandi litarhætti og sjálfsákvörðunarrétt til handa nýlenduþjóðunum - en höfðu litla trú á hæfni einstaklinga til að sjá fótum sínum forráð. Þær töldu að það ættu stjórnvöld að gera og forsjárhyggjan var því alger.
Vegna þess hve brýnt þótti - eftir óhugnað heimstyrjaldarinnar síðari - að setja reglur um mannréttindi, sættust menn á bæði sjónarmiðin. Fræðimennirnir – málsmetandi menn víðs vegar að úr heiminum – sem fyrst réðu ferðinni í mannréttindaumræðunni fengu þau fyrirmæli að víkja til hliðar hugmyndafræðilegum ágreiningi um uppruna og eðli réttindanna og búa til alþjóðalöggjöf, sem allir gætu sætt sig við. Það tókst að lokum, þótt tímann sinn tæki.
Í mannréttindayfirlýsingunni sjálfri var kveðið á um öll réttindin; borgaraleg, stjórnmálaleg, efnahagsleg, félagsleg og menningarleg. Allir féllust á að viðurkenna þannig tilvist þeirra - en þegar tekið var til við að gera þau bindandi að alþjóðarétti leiddi ágreiningurinn til þess, að gerðir voru tveir alþjóðasamningar í stað eins - líkt og fyrirhugað hafði verið.
Menn urðu ásáttir um, að það hlyti óhjákvæmilega að fara eftir efnahagsaðstæðum ríkja hvernig efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum réttindum yrði framfylgt - og þess vegna yrði ekki hjá því komist að orða réttindaákvæðin með ólíkum hætti. Annar skyldi kveða á um þau réttindi, sem vesturlönd töldu viðunandi, að þegnar þjóðfélagsins gætu knúið fram með aðstoð dómstóla; hinn skyldi mæta sjónarmiðum þeirra, sem vildu leggja alla áherslu á skyldur ríkjanna og taka tillit til efnahags þeirra og þróunar.
Því var sett inn í samninginn um efnahags-, félags- og menningarlegu réttindin, að aðildarríkin tækjust á hendur eftir mætti að gera þær ráðstafanir sem þyrfti, ein sér eða með alþjóðasamvinnu og alþjóðlegri aðstoð, til að framkvæma í áföngum þau réttindi sem kveðið væri á um. Það er að segja; gert var ráð fyrir því frá upphafi, að framkvæmd réttindanna gæti orðið afstæð eftir efnahagsaðstæðum einstakra ríkja.
Borgaralegu og stjórnmálalegu réttindin áttu hins vegar að koma fljótt til framkvæmda. Á því vildi þó víða verða bið, því þau kostuðu líka sitt og meira en menn vildu vera láta. Það hefur til dæmis reynst mörgum ríkjum ofviða að koma upp viðunandi réttarkerfi, því til þess þarf mikla fjármuni; t.d. til þess að halda uppi starfhæfu dómstóla- og stjórnsýslukerfi, vel þjálfuðu og öguðu lögregluliði, háskólamenntuðum lögfræðingum (sækjendum, verjendum og dómurum), fangelsum með mannsæmandi aðbúnaði og þar fram eftir götum. Sum þróunarríkin eru svo víðáttumikil og samgöngur svo erfiðar að erfitt er að tryggja réttaröryggi. Þá kostar ekki lítið að halda uppi lýðræðislegu stjórnkerfi, með kosningum, starfhæfum þingum og öðru sem til þarf.
Framkvæmd borgaralegu og stjórnmálalegu réttindanna er því einnig afstæð eftir aðstæðum - og reyndar ekki aðeins efnahagslegum, því trúarlegar og menningarlegar aðstæður hafa einnig haft áhrif á framkvæmd þeirra.
Til þess að brúa ágreininginn milli fylgismanna réttindaflokkanna tveggja voru sett inn í inngangsorð beggja samninganna næstum samhljóða ákvæði þar sem segir að aðildarríkin; „viðurkenna, í samræmi við Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, að sú hugsjón að menn séu frjálsir, [...,] óttalausir og þurfi ekki að líða skort, rætist því aðeins að sköpuð verði skilyrði til þess að allir geti notið“ borgaralegra og stjórnmálalegra réttinda, jafnt sem efnahagslegra, félagslegra og menningarlegra réttinda.
Eini munurinn á orðalaginu í samningunum er að þau réttindi sem hvor um sig kveður á um kemur á undan hinum, - það er að segja, réttindin eru samtvinnuð þannig að forsenda þess að réttinda annars samningsins verði notið er sú, að þeir njóti einnig réttindanna sem hinn kveður á um.
Alkunna er, að þessi afstöðumunur varð hluti hinnar pólitísku togstreitu Kalda stríðsins og eimir talsvert eftir af henni ennþá. Með hruni sovétkerfisins í Austur-Evrópu sköpuðust hins vegar nýjar forsendur til umfjöllunar um mannréttindamál og menn fóru í vaxandi mæli að gera sér grein fyrir og viðurkenna samhengi allra réttindanna.
Því ferli lyktaði með yfirlýsingu mannréttindaráðstefnunnar í Vínarborg árið 1993 þar sem svo sterklega var tekið til orða í 1. grein hennar, að algildi mannréttinda væri hafið yfir allan vafa (the Universal nature of these rights and freedoms is beyond question) - menn væru fæddir með þessi réttindi og það væri skylda allra ríkisstjórna að vernda þau og virða í orði og á borði. Síðan var áréttað að öll mannréttindi væru algild, óaðskiljanleg, hvert öðru háð og innbyrðis skyld (all human rights are universal, indivisible, interdependent and interrelated). Fara bæri með öll mannréttindi af réttsýni og jafnræði, með sama vægi og sömu áherslum hvar sem væri í heiminum. Enda þótt hafa yrði í huga sérstöðu þjóða og landsvæða og mismunandi sögulegan, menningarlegan og trúarlegan bakgrunn þeirra, væri það skylda ríkja, óháð stjórnmála-, efnahags- og menningarkerfum, að vernda og efla mannréttindi og grundvallarfrelsi.
Að þessari yfirlýsingu stóðu - eftir mikið þóf - 172 ríki heimsins svo óhætt er að segja að kenningin um algildi og gagnkvæm tengsl og samtvinnun mannréttindanna njóti víðtæks stuðnings – þótt hann sé víða meiri í orði en á borði. Það fer þó ekki á milli mála að skilningur á því fer vaxandi, að skilja beri á milli gildis réttindanna sjálfra og þeirra aðstæðna sem ráðið geta framkvæmd þeirra. Annað mál er að mannréttindin eru misjafnlega rétthá að alþjóðarétti. Sum þeirra teljast ekki einasta samningsréttindi heldur hafa þau líka réttarstöðu þjóðaréttarvenju. Það á til dæmis við um bann við kynþáttamisrétti, þjóðarmorði, pyndingum og þrælahaldi svo og um sjálfsákvörðunarrétt fyrrum nýlenduþjóða.
Í mannréttindasamningum er tekið fram, að tilteknum réttindum megi aldrei víkja til hliðar, jafnvel ekki í yfirlýstu neyðarástandi eða í stríði, sem ella geta leitt til tímabundinnar takmörkunar sumra mannréttinda.
Þetta er svolítið mismunandi eftir samningum, til dæmis eru fleiri slík réttindi talin ófrávíkjanleg í alþjóðasamningi Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi en í Evrópusáttmálanum.