Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins, samtímis því sem Alþingi Íslendinga samþykkti á sérstökum fundi á Lögbergi að gefa þjóðinni þá afmælisgjöf að endurskoða mannréttindakafla stjórnarskrárinnar. Var það síðan eitt fyrsta viðfangsefni skrifstofunnar að fylgjast með fram komnum hugmyndum og tillögum þar um, fjalla um þær á fundum, stórum og smáum og vinna athugasemdir við frumvarpið, sem fram var lagt á Alþingi.
Að stofnun Mannréttindaskrifstofu Íslands stóðu á sínum tíma níu óháð félagasamtök og stofnanir sem öll koma að mannréttindum á einn eða annan hátt. Í kjölfar síaukinnar umræðu um mannréttindi á Íslandi sammæltust þessi samtök um að nauðsyn bæri til að sett yrði á fót óháð mannréttindastofnun hér á landi er ynni að framgangi mannréttinda með því að fræða þjóðina um grundvallarmannréttindi, safna upplýsingum og veita aðgang að upplýsingum um mannréttindi.
Stofnaðilar skrifstofunnar voru Íslandsdeild Amnesty International, Barnaheill, Biskupsstofa, Hjálparstarf kirkjunnar (sem þá nefndist Hjálparstofnun Kirkjunnar), Kvenréttindafélag Íslands, Lögmannafélag Íslands, Skrifstofa jafnréttismála, Rauði kross Íslands og UNIFEM á Íslandi. Nokkrar breytingar hafa orðið síðan; Lögmannafélagið hætti fljótlega en við hafa síðan bæst Landssamtökin Þroskahjálp, Öryrkjabandalag Íslands, Samtökin ‘78, Siðmennt, Háskólinn á Akureyri og Háskólinn í Reykjavík þannig að aðstandendur Mannréttindaskrifstofu Íslands eru nú fimmtán talsins. Stjórn er skipuð fulltrúum allra aðildarfélaganna auk þriggja löglærðra sérfræðinga á sviði mannréttinda.
Samþykktir
1. Nafn og aðsetur
Samtökin heita Mannréttindaskrifstofa Íslands, skammstafað MRSÍ, og á ensku the Icelandic Human Rights Centre, skammstafað ICEHR.
Heimili og varnarþing samtakanna er í Reykjavík.
Samtökin eru frjáls félagasamtök og skráð sem almennt félag í fyrirtækjaskrá.
Samtökin eru sjálfstæður lögaðili. Aðilar að samtökunum bera ekki persónulega ábyrgð á skuldum og öðrum skuldbindingum samtakanna nema með félagsgjaldi sínu.
Samtökin leitast við að starfa í samræmi við markmið og grunngildi Parísarviðmiða Sameinuðu þjóðanna frá 1991, það er viðmiðunarreglur þeirra um sjálfstæðar, innlendar mannréttindastofnanir. Fulltrúaráð aðildarsamtaka MRSÍ fer með æðsta vald samtakanna.
Stjórn valin af fulltrúaráði ber ábyrgð á starfsemi MRSÍ.
Skrifstofa MRSÍ fer með daglegan rekstur samtakanna á ábyrgð stjórnar. Framkvæmdastjóri stýrir skrifstofu samtakanna undir eftirliti og ábyrgð stjórnar.
2. Tilgangur og starfsemi
Tilgangur MRSÍ er að vinna að framgangi mannréttinda innanlands, jafnt sem á alþjóðavettvangi, veita sjórnvöldum aðhald og eftirlit og stuðla að því að mannréttindi séu virt. Samtökin vinna að því markmiði með því að:
a) safna upplýsingum um mannréttindamál innanlands og veita aðgang að þeim upplýsingum;
b) koma upplýsingum um mannréttindi á framfæri við almenning og stjórnvöld;
c) stuðla að fræðslu á sviði mannréttindamála; þar á meðal halda fræðslufundi og ráðstefnur
d) halda fræðslufundi og ráðstefnur
e) stuðla að rannsóknum á sviði mannréttindamála hér á landi og annars staðar;
f) hafa frumkvæði að opinni og upplýstri umræðu um mannréttindi í samfélagi og stjórnsýslu og á Íslandi
g) taka þátt í innlendu og alþjóðlegu samstarfi um mannréttindi og eflingu þeirra.
3. Aðild
Aðild að MRSÍ er annað hvort bein félagsaðild eða styrktaraðild.
Félagsaðilar að MRSÍ geta orðið frjáls félagasamtök, sem beint eða óbeint hafa mannréttindi að markmiðum sínum eða deila sýn samtakanna og styðja markmið MRSÍ og grundvallargildi. Þeir lögaðilar sem eiga aðild að MRSÍ í dag halda henni óbreyttri.
Félagsaðild fellur niður
(a) ef félagsgjöld eru ekki greidd;
(b) þegar kröfur til félagsaðildar eru ekki lengur uppfylltar; eða
(c) við brottvikningu sem stjórn samþykkir með tveimur þriðju greiddra atkvæða.
Ákvörðun um brottvikningu má skjóta til aðalfundar.
Félag sem hyggur á úrsögn úr MRSÍ skal tilkynna það stjórn félagsins skriflega og tekur úrsögn gildi frá og með næsta aðalfundi. Félag sem segir sig úr MRSÍ á ekki fjárkröfu á hendur MRSÍ og getur ekki gert tilkall til eigna félagsins.
Lögaðilar, fyrirtæki á vegum einkaaðila eða opinberra aðila, samtök og félög, hvers kyns aðilar í viðskiptum, lánastofnanir og opinberar stofnanir geta gerst styrktaraðilar MRSÍ. Styrktaraðilar láta félaginu í té fjármagn eða sérstaka aðstoð til að vinna að markmiðum þess. Styrktaraðilar eiga rétt á upplýsingum um starf MRSÍ og mega sækja fulltrúaráðsfundi en hafa ekki atkvæðisrétt og eru ekki kjörgengir til stjórnar. Stjórn MRSÍ ákveður árlega lágmarksfjárhæð styrktargjalda en styrkaraðilar mega greiða hærri fjárhæð.
Styrktaraðild má segja upp hvenær sem er af styrktaraðilanum sjálfum eða stjórn MRSÍ. Umsókn um aðild að félaginu skal senda stjórn MRSÍ sem samþykkir eða synjar aðild á stjórnarfundi. Ákvörðun stjórnar um aðild skal staðfest á aðalfundi.
4. Fulltrúaráð
Hvert aðildarfélag skipar einn fulltrúa og einn til vara í fulltrúaráð MRSÍ fyrir hönd síns félags.
Fulltrúaðaráð fer með æðsta vald MRSÍ.
Á fundum MRSÍ fer hver fulltrúi með eitt atkvæði og ræður einfaldur meirihluti úrslitum nema annars sé sérstaklega getið í samþykktum.
5. Aðalfundur fulltrúaráðs
Aðalfund fulltrúaráðs skal halda árlega eigi síðar en í maímánuði. Til hans skal boða fulltrúaráð MRSÍ.
Boða skal fulltrúaráð til aðalfundar með minnst tveggja vikna fyrirvara í tölvupósti og skulu dagskrá og lagabreytingartillögur, ef einhverjar eru, fylgja fundarboði. Óskað skal eftir framboðum í stjórn í fundarboði. Ef framboð hafa ekki borist viku fyrir fund, tekur kjörnefnd til starfa og gerir tillögu að stjórn fyrir aðalfund.
Með aðalfundarboði skal senda aðildarfélögum og fulltrúaráði ársskýrslu stjórnar ásamt ársreikningi árituðum af löggiltum endurskoðanda samtakanna.
Tillögur um lagabreytingar skulu sendar stjórn eigi síðar en þremur vikum fyrir boðaðan aðalfund.
Stjórn er heimilt að boða til rafrænna fulltrúaráðsfunda, jafnt aðalfunda sem almennra, ef sérstakar aðstæður krefja.
Á aðalfundi skulu eftirtalin mál tekin fyrir:
- Kosning fundarstjóra og ritara
- Skýrsla stjórnar
- Endurskoðaður ársreikningur afgreiddur
- Starfsáætlun til næsta aðalfundar
- Fjárhagsáætlun
- Félagsgjöld ákveðin
- Lagabreytingar
- Kosning formanns, varaformanns og annarra stjórnarmanna
- Kosning kjörnefndar og eftir atvikum annarra nefnda
- Kosning endurskoðanda
- Önnur mál
Bera skal einstaka dagskrárliði undir atkvæði fundarmanna til samþykkis eða synjunar.
Einfaldur meirihluti mættra fulltrúa ræður úrslitum mála á aðalfundi og félagsfundum nema annað sé tekið fram í samþykktum þessum.
Á aðalfundi skal kjósa þriggja manna kjörnefnd sem gerir tillögu til næsta aðalfundar um formann, varaformann og stjórn, ef þörf krefur.
Aðalfundur er löglegur sé löglega til hans boðað.
6. Lagabreytingar
Lagabreytingar ganga í gildi þegar þær hafa hlotið samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða á aðalfundi.
7. Stjórn
Stjórn MRSÍ fer með málefni félagsins milli aðalfunda.
Stjórn skal skipuð formanni, varaformanni, ritara, gjaldkera og meðstjórnanda. Kosnir skulu tveir varamenn.
Formaður og varaformaður eru kjörnir sérstaklega á aðalfundi fulltrúaráðs, en stjórn skiptir að öðru leyti með sér verkum. Stjórnarfulltrúar skulu kosnir til eins árs í senn, en formaður til tveggja ára. Enginn stjórnarfulltrúi skal sitja lengur í stjórn en fjögur ár í senn. Fyrri störf formanns í stjórn MRSÍ skulu þó undanskilin. Stjórn skal setja sér starfsreglur, þ. á m. um trúnaðarskyldur og hæfi stjórnarmanna.
Verði sæti formanns laust tekur varaformaður sæti hans út kjörtímabilið og skal stjórn kjósa sér nýjan varaformann á næsta stjórnarfundi eftir að sæti formanns verður laust.
Stjórn ræður framkvæmdastjóra sem annast daglegan rekstur félagsins og getur komið fram fyrir hönd félagsins í málum sem eru innan verksviðs hans. Meirihluti stjórnar ritar firma félagsins. Stjórn skal hafa frumkvæði að mótun stefnu MRSÍ og hafa eftirlit með störfum framkvæmdastjóra og skrifstofu MRSÍ. Stjórn skal hafa yfirumsjón með fjáröflun til rekstrar MRSÍ í samstarfi við framkvæmdastjóra og hafa eftirlit með vörslu og meðferð fjármuna.
Stjórn tekur ákvarðanir um öll mál er varða starfsemi félagsins í samræmi við samþykktir þessar og stefnuskrá félagsins. Hún gerir fulltrúaráði grein fyrir störfum sínum og ber undir það mikilvæg stefnumótandi mál.
Stjórn er heimilt að skipa tímabundið nefndir eða vinnuhópa um einstök málefni eða málaflokka. Stjórn tilnefnir í opinberar nefndir og ráð eftir atvikum. Stjórn gefur út skipunarbréf til fulltrúa í slíkum nefndum eða vinnuhópum, þar sem meðal annars koma fram starfsskyldur, skipunartími og umboð til nefndarstarfa.
Stjórn skal að lágmarki funda sex sinnum á ári. Stjórnarformaður boðar til stjórnarfundar með minnst viku fyrirvara og skal með fundarboði senda út dagskrá fundar. Stjórnarfund skal boða ef stjórnarmaður óskar og skal hann haldinn innan fimm daga frá því að ósk þess efnis er sett fram. Stjórnarfundur er löglegur ef meirihluti stjórnarfulltrúa sækir fund, þ.á.m. með rafrænni þátttöku. Atkvæði formanns ræður úrslitum ef atkvæði eru jöfn.
Stjórn heldur fundargerðir þar sem bókaðar skulu niðurstöður hvers máls sem tekið er fyrir á fundi.
Komi upp alvarlegur ágreiningur innan stjórnar skal bera hann undir fulltrúaráð svo fljótt sem auðið er.
8. Starfsfólk MRSÍ
Stjórn MRSÍ ræður framkvæmdastjóra MRSÍ. Framkvæmdastjóri ræður annað starfsfólk skrifstofunnar í samráði við stjórn.
Framkvæmdastjóri, í umboði stjórnar, ber ábyrgð á daglegum rekstri og sér um að stefnu, sem aðalfundur og stjórn marka, sé framfylgt.
Framkvæmdastjóri getur, með samþykki stjórnar, gert tímabundna starfssamninga við ýmsa aðila um tiltekna þætti í starfi MRSÍ, hvort heldur er félagasamtök, opinberar stofnanir eða aðra sem láta sig sérstaklega varða viðfangsefni samtakanna, sbr. 2. grein samþykkta þessara.
9. Fulltrúaráðsfundir
Fulltrúaráðsfundir skulu haldnir þegar þörf krefur eða þegar stjórnarmaður, endurskoðandi eða 1/3 hluti fulltrúaráðs óska þess. Á félagsfundum má fjalla um öll þau mál er MRSÍ varða. Til fulltrúaráðsfunda skal boða með minnst sjö daga fyrirvara í tölvupósti og skal efni fundar fylgja fundarboði.
10. Umræðuvettvangur
Stjórn samtakanna skal skipuleggja árlegt þing sem skal vera vettvangur skoðanaskipta og upplýsinga um mannréttindamál. Stjórn samtakanna er heimilt að bjóða einstaklingum, félögum, stofnunum og einkaðilum að taka þátt í þinginu. Fella má þingið niður ef sérstakar aðstæður krefja.
11. Félagsslit
MRSÍ verður lögð niður með samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða á aðalfundi fulltrúaráðs. Verði MRSÍ lögð niður skulu eignir samtakanna renna til mannréttindamála í samræmi við tilgang samtakanna og ákvörðun aðalfundar fulltrúaráðs.