Lagður er þrenns konar skilningur í hugtakið mannréttindi:
Lagalegur skilningur: Réttindi sem eru skilgreind í réttindaskrám og alþjóðasamþykktum, til dæmis í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna.
Pólitískur skilningur: Réttindi sem talið er æskilegt að tryggja fólki hvort sem þau eru nefnd í alþjóðasamþykktum eður ei.
Siðferðilegur skilningur: Réttindi sem allir menn hafa óháð staðbundnum kringumstæðum eins og samfélagsgerð eða efnahag. Lagalegi skilningurinn á mannréttindum er einfaldastur og sá sem oftast er vísað til þegar stjórnvöld eru gagnrýnd fyrir mannréttindabrot. Hins vegar er ekki hægt að skilgreina hugtakið mannréttindi eingöngu út frá lögum. Ef svo væri hefðu ekki verið til nein mannréttindi, og þar af leiðandi engin mannréttindabrot, fyrir tíma alþjóðasamþykktanna. Hinum lagalega skilningi, eða hinu lagalega mannréttindahugtaki, er því fremur ætlað að taka af tvímæli sem óhjákvæmilega vakna þegar hinn pólitíski eða siðferðilegi skilningur er lagður til grundvallar. (Af vísindavef Háskóla Íslands).
Mannréttindum í lagalegum skilningi er ætlað að tryggja einstaklingum og hópum vernd fyrir hvers konar aðgerðum og vanrækslu gegn grundvallarréttindum og mannvirðingu. Mannréttindalög skylda ríki til vissra aðgerða á sama tíma og þau banna aðgerðir stjórnvalda sem gengið geta gegn mannréttindum einstaklinga eða hópa.
Mannréttindi eru réttindi sem okkur eru nauðsynleg til að lifa sem manneskjur. Mannréttindi eru siðferðisleg réttindi sem hver einstaklingur hefur rétt á að njóta. Mannréttindi færa einstaklingum jafnrétti og virðingu. Þau tryggja að allir hafi aðgang að grundvallar þörfum eins og fæði og húsaskjóli. Mannréttindi eru einnig vernd gegn ofbeldi í hvaða mynd sem það birtist og þau vinna gegn vanþekkingu og hatri.
Mannréttindi eru alþjóðleg. Þau ná yfir öll landamæri, eiga við alla menningarhópa, alla hugmyndafræði og öll trúarbrögð. Hvar einstaklingur býr, hverjir foreldrar hans eru, hvaða ríkisstjórn stjórnar í landi hans, gildir einu þegar mannréttindi eiga í hlut, þau eru alltaf réttindi allra einstaklinga.
Mannréttindi gera fólki kleyft að rækta og þroska með sér mannlega eiginleika og hæfni. Mannréttindi varðveita réttinn til þátttöku í samfélaginu, réttinn til að stunda vinnu og sjá fyrir sjálfum sér. Þau varðveita réttindi einstaklinga til þess að hlúa að þeirri menningu sem þeir tilheyra ásamt því að vernda réttinn til þess að lifa við friðsamlegar aðstæður og vera laus við þjáningu af völdum annarra.
Mannréttindi fela í sér virðingu fyrir öðrum og fyrir sjálfum sér. Þau fela í sér að hver einstaklingur ber ábyrgð á því að mannréttindi séu á engum brotin. Þegar mannréttindi eins einstaklings eru brotin þá hefur það áhrif á alla og allt samfélagið í heild sinni.
Það er því mikilvægt að hugsa til þess að mannréttindi eru aðeins eins sterk og vilji einstaklinga til að koma fram við hvert annað af virðingu og jafnrétti.
Mikilvægustu einkenni mannréttinda eru því:
-
Þau eru alþjóðleg og algild.
-
Þau beina athyglinni að meðfæddri mannlegri reisn og jafnræði allra einstaklinga.
-
Þau eru jöfn, óskiptanleg og samtengd.
-
Það er ekki hægt að gera undantekningar á mannréttindum og það er ekki hægt að taka þau í burtu frá einstaklingum eða hópum.
-
Þau leggja til skyldur, sérstaklega á ríki.
-
Þau eru tryggð alþjóðlega.
-
Þau eru lögvernduð.
-
Þau vernda einstaklinga og upp að vissu marki, hópa.
Meðal þeirra réttinda sem að alþjóðasamningar tryggja eru:
-
Réttur til lífs, frelsis og mannhelgi.
-
Réttur til félagafrelsis, tjáningarfrelsis og ferðafrelsis.
-
Réttur til að njóta fullkominnar líkamlegrar og andlegrar heilsu.
-
Réttur til frelsis frá handahófskenndum handtökum og/eða frelsissviptingu.
-
Réttur til réttlátrar málsmeðferðar.
-
Réttur til viðunandi og hagstæðra vinnuaðstæðna.
-
Réttur til fullnægjandi næringar, húsaskjóls og félagslegs öryggis.
-
Réttur til menntunar.
-
Réttur til jafnréttis gagnvart lögum.
-
Réttur til frelsis frá handahófskenndum afskiptum af einkalífi, fjölskyldu, heimili eða öðrum samskiptaaðilum og samskiptum.
-
Réttur til frelsis frá pyndingum og grimmilegri, ómannúðlegri eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu.
-
Réttur til frelsis frá þrælahaldi.
-
Réttur til þjóðernis.
-
Hugsana-, samvisku-, og trúfrelsi.
-
Réttur til þess að kjósa og taka þátt í opinberum viðburðum.
-
Réttur til þess að vera þátttakandi í menningu samfélagsins.
Eru þessi réttindi tryggð öllum einstaklingum í hinum ýmsu alþjóðasamningum óháð kynþætti, litarhafti, kyni, tungumáli, stjórnmálaskoðunum eða öðrum skoðunum, þjóðerni eða félagslegum uppruna, eignum, eða þjóðfélagsstöðu.