Undanfarin ár hefur umræðan um nauðganir og ofbeldi gegn konum tekið breytingum. Hún er orðin opnari og í kjölfarið er ljóst að ofbeldi gegn konum er útbreitt vandamál sem takmarkast ekki við ákveðinn þjóðfélagshóp; heimilis- og kynferðisofbeldi getur átt sér stað á hvaða heimili sem er, án tillits til stöðu eða efnahags.
Ýmiss úrræði eru til staðar fyrir þolendur kynbundins ofbeldis. Má þar nefna Kvennaathvarfið, Stígamót, Konukot sem er athvarf fyrir heimilislausar konur og Neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis á Landspítalanum í Fossvogi.
Á síðustu árum hefur opinber umræða um ofbeldi gegn konum aukist og ofbeldi sem áður var umborið í skjóli einkalífsins hefur verið dregið fram í dagsljósið og viðurkennt sem ein af verstu birtingarmyndum kynjamisréttis.
Kynbundið ofbeldi brýtur gegn mannréttindum og grundvallarfrelsi kvenna. Yfirvöldum ber skylda til að leita allra leiða til að uppræta þann smánarblett sem ofbeldi gegn konum er á íslensku samfélagi og tryggja stjórnarskrárvarin réttindi þeirra til mannhelgi og jafnréttis.
Stjórnvöldum ber að virða þjóðréttarlegar skuldbindingar sínar er miða að öryggi, frelsi og virðingu fyrir konum, vernd gegn misrétti og því að gera konum kleift að lifa með reisn án ótta við ofbeldi. Íslenska ríkið á aðild að fjölda mannréttindasamninga og yfirlýsinga er snerta kynbundið ofbeldi, beint eða óbeint. Má þar nefna mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna frá 10. desember 1948, sáttmála Sameinuðu þjóðanna frá 18. desember 1979, um afnám allrar mismununar gagnvart konum, samninga um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og samning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum eða annarri grimmilegri og ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.
Einnig má nefna yfirlýsingu um afnám ofbeldis gegn konum, sem samþykkt var á 85. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, hinn 20. desember 1993 og framkvæmdaáætlun Sameinuðu þjóðanna um málefni kvenna frá árinu 1995 (Pekingáætlun).
Þá ber að nefna Mannréttindasáttmála Evrópu og Félagsmálasáttmála Evrópu en Evrópuráðið hefur á síðustu árum lagt áherslu á nauðsyn sérstakra aðgerða til að sporna gegn kynbundnu ofbeldi og hefur m.a. samþykkt yfirlýsingar og aðgerðaáætlanir er ætlað er að taka á vandanum. Á vettvangi Evrópuráðsins var árið 2011 samþykktur samningur um að koma í veg fyrir og berjast gegn ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi. Ísland hefur undirritað samninginn og er unnið að því að fullgilda hann.
Ofbeldi karla gegn konum tekur á sig margvíslegar myndir allt frá andlegu ofbeldi til lífshættulegra áverka sem leiða til dauða. Yfirlýsing Sameinuðu þjóðanna um afnám ofbeldis gegn konum skilgreinir ofbeldi gegn konum sem ,,ofbeldi á grundvelli kynferðis sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga kvenna, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.” Kynbundið ofbeldi felur í sér líkamlegt, kynferðislegt og sálrænt ofbeldi innan fjölskyldunnar og í þjóðfélaginu almennt, svo sem kúgun, barsmíðar, ofbeldi tengt heimanmundi, nauðgun í hjónabandi, limlestingu á kynfærum kvenna og aðrar hefðir sem eru skaðlegar konum, misnotkun kvenna í gróðaskyni, mansal og vændi, kynferðislega áreitni og hótanir á vinnustað og á menntastofnunum svo dæmi séu nefnd.
Alvarlegt kynbundið ofbeldi er staðreynd á Íslandi en eftirlitsnefndir Sameinuðu þjóðanna hafa m.a. lýst áhyggjum sínum af hárri tíðni heimilisofbeldis hér á landi og hversu vægt er tekið á kynbundnu ofbeldi innan réttarkerfisins. Hundruð kvenna og stúlkna eru fórnarlömb kynferðisofbeldis á ári hverju og fjöldi kvenna og barna lifir við hræðslu, kúgun, óöryggi, hótanir og ofbeldi á heimilinu sem, undir eðlilegum kringumstæðum, á að vera griðastaður.
Árið 2005 leituðu 119 einstaklingar til Neyðarmóttöku vegna nauðgunar, en um 140 konur komu vegna ofbeldis og hugsanlegs heimilisofbeldis á Slysa- og bráðadeild Landspítalans.
Stígamót er ráðgjafar og upplýsingamiðstöð fyrir þolendur kynferðisofbeldis, bæði konur og karla. Árið 2013 leituðu 706 einstaklingar til Stígamóta. Af þeim voru 323 að leita sér aðstoðar í fyrsta skipti. Frá stofnun Stígamóta árið 1989 til ársloka 2013 hafa 6.702 einstaklingar leitað þar aðstoðar.
Kvennaathvarfið er athvarf fyrir konur og börn þeirra þegar dvöl í heimahúsum er þeim óbærileg vegna andlegs eða líkamlegs ofbeldis eiginmanns, sambýlismanns eða annarra. Alls dvöldu 125 konur og 97 börn í Kvennaathvarfinu árið 2013 en í heildina leitaði 351 kona í athvarfið á árinu. Frá stofnun Kvennaathvarfsins árið 1982 eru skráðar um 12.392 komur í athvarfið.
Það er staðreynd að aðeins fáir ofbeldismenn svara til saka og kynferðisglæpamenn hljóta oft stutta refsidóma. Mörg dæmi eru um alvarlegt skilningsleysi réttarkerfisins á eðli og afleiðingum kynbundins ofbeldis. Hér að neðan er að finna margvíslegt efni sem tengist kynbundu ofbeldi á Íslandi.