Þar sem mannréttindi eiga uppruna sinn að rekja til mannlegrar virðingar allra einstaklinga þá verða þau að eiga við um alla, menn, konur og börn. Allir eiga að njóta mannréttinda án mismununar eins og á kynferði, kynþætti, litarhafti, trú, tungumáli, stjórnmálaskoðunum, þjóðerni, félagslegri stöðu og eignum. Mannréttindi eiga því við um alla einstaklinga í hvaða ríki sem er án tillits til ríkjandi stjórnarfars eða efnahagslegrar stöðu þess ríkis sem þeir búa í.
Þetta alþjóðlega eðli mannréttinda aðskilur þau frá þeim réttindum sem veitt eru á grundvelli ríkja í formi ríkisborgararéttar, eða á samfélagslegum grunni sem veitt eru sérstökum hópum, eins og fötluðum, samkynhneigðum, öldruðum o.s.frv.