Félagsmálasáttmáli Evrópu

Formálsorð


Ríkisstjórnir þær, sem undirritað hafa sáttmála þennan og aðilar eru að Evrópuráðinu,

álíta, að markmið Evrópuráðsins sé að koma á nánari einingu meðal aðila þess í því skyni að vernda og framkvæma hugsjónir þær og meginreglur, sem eru sameiginleg arfleifð þeirra og að auðvelda efnahagslegar og félagslegar framfarir þeirra, einkum með því að viðhalda og efla mannréttindi og mannfrelsi,

álíta, að með Evrópusamþykktinni um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sem undirrituð var í Róm 4. nóvember 1950, og viðbótarbókun, sem undirrituð var í París 20. mars 1952, hafi aðildarríki Evrópuráðsins samþykkt að tryggja þegnum sínum þau borgaralegu og stjórnmálalegu réttindi og frelsi, sem þar um ræðir,

álíta, að tryggja beri að menn fái notið í félagslegra réttinda án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, trúarbragða, stjórnmálaskoðana, þjóðernis eða félagslegs uppruna,

eru staðráðnar í því að gera allt, sem þær orka sameiginlega til þess að bæta lífskjör og efla félagslega velferð þegna sinna, bæði í bæjum og sveitum, með viðeigandi stofnunum og aðgerðum,

hafa þær því orðið ásáttar um eftirfarandi :

I. kafli
 

Samningsaðilarnir eru sammála um, að það sé markmið stefnu þeirra, sem fylgja beri með öllum viðeigandi ráðum, bæði á innlendum og fjölþjóðlegum vettvangi, að skapa þau skilyrði, sem þarf, til þess að með góðum árangri megi framfylgja eftirfarandi réttindum og meginreglum:

1. Allir menn skulu eiga þess kost að vinna fyrir sér í starfi, sem þeir hafa sjálfir valið sér.
2. Allir launþegar eiga rétt á sanngjörnum vinnuskilyrðum.
3. Allir launþegar eiga rétt á öruggum og heilsusamlegum vinnuskilyrðum.
4. Allir launþegar eiga rétt á sanngjörnu kaupi, er nægi fyrir sómasamlegum lífskjörum þess sjálfs og fjölskyldna þess.
5. Allir launþegar og vinnuveitendur eiga rétt á að gerast aðilar að samtökum, innlendum eða fjölþjóðlegum, til verndar efnahagslegum og félagslegum réttindum sínum.
6. Allir launþegar og vinnuveitendur eiga rétt á að semja sameiginlega.
7. Börn og ungmenni eiga rétt á sérstakri vernd gegn líkamlegri og siðferðilegri hættu, sem að þeim steðjar.
8. Í sambandi við barnsburð og önnur tilvik, eftir því sem við á, eiga konur rétt á sérstakri vernd í starfi.
9. Allir menn eiga rétt á viðeigandi aðstöðu til að njóta leiðbeininga um starfsval með það fyrir augum að auðvelda þeim að velja sér starf, sem henti persónulegri hæfni þeirra og áhuga.
10. Allir menn eiga rétt á viðeigandi aðstöðu til verknáms.
11. Allir menn eiga rétt á að njóta góðs af hvers kyns ráðstöfunum, er miða að því að tryggja sem best heilsu þeirra.
12. Allir launþegar og skyldulið þess á rétt á félagslegu öryggi.
13. Sérhver, sem ekki hefir næg fjárráð, á rétt á félagslegri aðstoð og læknishjálp.
14. Allir menn eiga rétt á að njóta félagslegrar velferðarþjónustu.
15. Fatlaðir eiga rétt á verknámi, endurhæfingu og endurheimt aðstöðu, hver sem orsök og eðli fötlunarinnar kann að vera.
16. Fjölskyldan er hornsteinn þjóðfélagsins og á því rétt á viðeigandi félagslegri, lagalegri og efnahagslegri vernd til að tryggja fullan þroska sinn.
17. Mæður og börn eiga rétt á viðeigandi félagslegri og efnahagslegri vernd án tillits til hjúskaparstéttar og fjölskyldutengsla.
18. Þegnar sérhvers samningsaðila eiga rétt á að stunda hvers kyns arðbær störf í landi sérhvers annars samningsaðila með sama rétti og þegnar hins síðarnefnda, með þeim takmörkunum, sem byggjast á veigamiklum efnahagslegum eða félagslegum ástæðum.
19. Farandverkafólk og fjölskyldur þess, sem er þegnar samningsaðila, á rétt á vernd og aðstoð í landi sérhvers annars samningsaðila.
 
II. kafli
 

Eins og gert er ráð fyrir í III. kafla, skuldbinda samningsaðilar sig til að telja sig bundna af skyldum þeim, sem tilgreindar eru í eftirfarandi greinum og málsgreinum.


1. gr. - Réttur til vinnu

Í því skyni að tryggja, að réttur til vinnu sé raunverulega nýttur, skuldbinda samningsaðilar sig til:

1. að viðurkenna sem eitt helsta markmið þeirra og skyldu að koma á og viðhalda eins mikilli og öruggri atvinnu og mögulegt er, með það fyrir augum að koma á fullri atvinnu,
2. að vernda á raunhæfan hátt rétt launþega til þess að vinna fyrir sér í starfi, sem það hefir valið sér,
3. að koma á eða viðhalda ókeypis vinnumiðlun fyrir alla launþega,
4. að láta í té eða stuðla að viðeigandi starfsfræðslu, þjálfun og endurhæfingu.


2. gr. - Réttur til sanngjarnra vinnuskilyrða

Í því skyni að tryggja, að réttur til sanngjarnra vinnuskilyrða sé raunverulega nýttur, skuldbinda samningsaðilar sig til:

1. að sjá til þess, að daglegur og vikulegur vinnustundafjöldi sé hæfilegur og að vinnuvikan verði smám saman stytt að því marki, sem aukin framleiðni og önnur viðkomandi atriði leyfa,
2. að sjá til þess, að veittir séu almennir frídagar með kaupi,
3. að sjá til þess, að veitt sé a.m.k. tveggja vikna árlegt orlof með kaupi ,
4. að sjá til þess, að veittir séu aukafrídagar með kaupi eða vinnutími sé styttur hjá launþega, sem vinnur hættuleg eða óheilnæm störf, eins og nánar er ákveðið,
5. að tryggja vikulegan hvíldartíma, sem, eftir því sem mögulegt er, sé veittur á þeim degi, sem samkvæmt hefð eða venju er viðurkenndur hvíldardagur í viðkomandi landi eða landshluta.


3. gr. - Réttur til öryggis við störf og heilsusamlegra vinnuskilyrða

Í því skyni að tryggja, að réttur til öryggis við störf og heilsusamlegra vinnuskilyrða sé raunverulega nýttur, skuldbinda samningsaðilar sig til:

1. að gefa út öryggis- og heilbrigðisreglugerðir,
2. að sjá um framkvæmd slíkra reglugerða með eftirliti,
3. að hafa, eftir því sem við á, samráð við samtök vinnuveitenda og launþega um ráðstafanir, sem ætlað er að bæta öryggi og heilbirgði á vinnustöðum.


4. gr. - Réttur til sanngjarns kaups

Í því skyni að tryggja, að réttur til sanngjarns kaups sé raunverulega nýttur, skuldbinda samningsaðilar sig til:

1. að viðurkenna rétt launþega til kaups, sem veiti því og fjölskyldum þess sómasamleg lífskjör,
2. að viðurkenna rétt launþega til hærra kaups fyrir yfirvinnu, með undantekningum í vissum tilvikum,
3. að viðurkenna rétt karla og kvenna til sama kaups fyrir jafnverðmæt störf,
4. að viðurkenna rétt launþega til hæfilegs uppsagnarfrests,
5. að heimila launafrádrátt einungis með þeim skilyrðum og að því marki, sem tiltekið er í landslögum eða reglugerðum eða kveðið er á um í heildarsamningum eða gerðardómum.

Réttindum þessum skal náð með frjálsum heildarsamningum, lögákveðinni skipan launamála, eða á annan hátt, sem hæfir aðstæðum í landinu.


5. gr. - Réttur til að stofna félög

Í því skyni að tryggja og stuðla að frelsi launþega og vinnuveitenda til að stofna staðbundin félög, landsfélög og fjölþjóðleg sambönd til að gæta hagsmuna þeirra á sviði efnahags- og félagsmála og til að ganga í slík félög, skuldbinda samningsaðilar sig til að sjá um, að landslög skerði ekki það frelsi né að þeim verði beitt til að skerða það. Í landslögum eða reglugerðum skal ákveða að hve miklu leyti trygging sú, sem þessi grein veitir, skuli taka til lögreglunnar. Það skal einnig ákvarðast í landslögum eða reglugerðum að hve miklu leyti tryggingin, sem grein þessi gerir ráð fyrir, skuli ná til manna í herþjónustu.

6. gr. - Réttur til að semja sameiginlega

Í því skyni að tryggja, að réttur til að semja sameiginlega verði raunverulega nýttur, skuldbinda samningsaðilar sig til:

1. að stuðla að sameiginlegum viðræðum milli launþega og vinnuveitenda,
2. að stuðla að frjálsum samningaumleitunum milli vinnuveitenda eða vinnuveitendafélaga og verkalýðsfélaga, þegar nauðsynlegt er eða við á, í þeim tilgangi að ákvarða laun og vinnuskilyrði með heildarsamningum,
3. að stuðla að stofnun og notkun viðeigandi sáttafyrirkomulags og gerðardóma eftir samkomulagi við lausn vinnudeilna

og viðurkenna:

4. rétt launþega og vinnuveitenda á sameiginlegum aðgerðum, þegar hagsmunaárekstrar verða, þ. á m. verkfallsrétti, með þeim takmörkunum, sem til kynnu að koma vegna gerðra heildarsamninga.


7. gr. - Réttur barna og ungmenna til verndar

Í því skyni að tryggja, að réttur barna og ungmenna til verndar sé raunverulega nýttur, skuldbinda samningsaðilar sig til:

1. að sjá um, að lágmarksaldur til ráðningar í starf sé 15 ár að tilskildum undanþágum fyrir börn, sem vinna tilgreinda létta vinnu, sem ekki er skaðleg heilsu þeirra, siðgæði eða menntun,
2. að sjá um, að hærri aldursmörk verði sett til ráðninga í ákveðin störf, sem álitin eru hættuleg eða óholl,
3. að sjá um, að fólk, sem enn er við skyldunám, verði ekki ráðið í vinnu, sem hindrað gæti það í að njóta námsins til fulls,
4. að sjá um, að vinnutími fólks yngra en 16 ára sé takmarkaður samkvæmt þörf þess til þroska, og sérstaklega í samræmi við þörf þess á starfsþjálfun,
5. að viðurkenna rétt ungra launþega og lærlinga á sanngjörnum launum eða öðrum viðeigandi greiðslum,
6. að sjá um, að tími sá, sem ungt fólk ver til starfsþjálfunar í venjulegum vinnutíma með samþykki vinnuveitenda, teljist hluti vinnudags,
7. að sjá um, að vinnandi fólk yngra en 18 ára fái minnst þriggja vikna orlof með kaupi árlega,
8. að sjá um, að fólk yngra en 18 ára sé ekki látið vinna næturvinnu, ef frá eru skilin viss störf, sem ákveðin eru með lögum eða reglugerðum,
9. að sjá um, að fólk yngra en 18 ára, sem vinnur störf, sem tiltekin eru í lögum eða reglugerðum, sé háð reglulegu lækniseftirliti,
10. að tryggja sérstaka vernd gegn líkamlegum og siðferðilegum hættum, sem steðja að börnum og ungmennum, og þá sérstaklega gegn þeim hættum, sem stafa beint eða óbeint af starfi þeirra.


8. gr. - Réttur vinnandi kvenna til verndar

Í því skyni að tryggja, að réttur vinnandi kvenna til verndar sé raunverulega nýttur, skuldbinda samningsaðilar sig til:

1. að sjá um, að konur fái frí frá störfum í samtals a.m.k. 12 vikur fyrir og eftir barnsburð, og sé það gert annað hvort með fullum launum, nægum greiðslum frá almannatryggingum eða styrk úr opinberum sjóðum,
2. að álita ólöglegt, að vinnuveitandi segi konu upp starfi meðan hún er fjarverandi í barnsburðarleyfi eða segi henni upp með fyrirvara þannig, að fyrirvarinn renni út á slíkum fjarvistartíma hennar,
3. að sjá um, að mæður, sem hafa ungbörn á brjósti, skuli eiga rétt á nægum tíma í því skyni,
4. (a) að hafa hönd í bagga með næturvinnu kvenna í iðnaði,
    (b) að banna ráðningu kvenna við námugröft neðanjarðar og, eftir því sem við á, við öll önnur störf, sem ekki hæfa þeim vegna þess, að þau eru í eðli sínu hættuleg, óholl eða erfið.


9. gr. - Réttur til leiðbeininga um stöðuval

Í því skyni að tryggja, að réttur til leiðbeininga um stöðuval sé raunverulega nýttur, skuldbinda samningsaðilar sig til að sjá um eða stuðla að, eftir því sem nauðsyn krefur, að komið verði á fót þjónustu til að aðstoða allt fólk, þar á meðal fatlaða, við að leysa vandamál varðandi stöðuval og frama í starfi, með hliðsjón af eiginleikum einstaklingsins og afstöðu hans til atvinnumöguleika. Aðstoð þessa ætti að veita ókeypis bæði ungmennum, þar á meðal skólabörnum, og fullorðnum.

10. gr. - Réttur til starfsþjálfunar

Í því skyni að tryggja, að réttur til starfsþjálfunar sé raunverulega nýttur, skuldbinda samningsaðilar sig til:

1. að sjá fyrir eða stuðla að tækni- og starfsþjálfun alls fólks, þ. á m. fatlaðra, eftir því sem þörf krefur og í samráði við samtök vinnuveitenda og launþega, og að veita aðstöðu til aðgangs að æðri tækni- og háskólamenntun, sem grundvallast eingöngu á hæfni einstaklingsins,
2. að sjá fyrir eða stuðla að því, að komið verði á fót þjálfunarkerfi og öðrum kerfisbundnum ráðstöfunum til að þjálfa unga drengi og stúlkur í hinum ýmsu störfum þeirra,
3. að sjá fyrir eða stuðla að, eftir því sem þörf krefur:
  • (a) nægri og aðgengilegri þjálfunaraðstöðu fyrir fullorðna launþega,
  • (b) sérstakri aðstöðu til endurþjálfunar fullorðna launþega, sem þörf er á vegna tækniþróunar eða nýrrar stefnu í atvinnumálum,
4. að hvetja til fullrar nýtingar á þeim möguleikum, sem fyrir hendi eru, með viðeigandi aðgerðum, svo sem:
  • (a) lækkun eða niðurfellingu hvers kyns gjalda,
  • (b) veitingu fjárhagsaðstoðar í viðeigandi tilvikum,
  • (c) að fella inn í venjulegan vinnutíma þann tíma, sem notaður er til framhaldsþjálfunar starfsmanns samkvæmt ósk vinnuveitanda,
  • (d)að tryggja með nægu eftirliti, í samráði við samtök vinnuveitenda og launþega, að árangur af námi og annarri þjálfun ungra launþega verði eins mikill og unnt er, og að ungir launþegar njóti nægrar verndar.


11. gr. - Réttur til heilsuverndar

Í því skyni að tryggja, að réttur til heilsuverndar sé raunverulega nýttur, skuldbinda samningsaðilar sig til að gera, annað hvort af sjálfsdáðum eða í samvinnu við opinberar stofnanir eða einkaaðila, viðeigandi ráðstafanir, er miði m. a. að því :

1. að útrýma eftir því sem auðið er orsökum heilsuleysis,
2. að sjá fyrir ráðgjafar- og fræðsluaðstöðu til að stuðla að bættu heilsufari og efla ábyrgðartilfinningu einstaklinga í heilbrigðismálum,
3. að koma eftir því sem auðið er í veg fyrir farsóttir, landlæga sjúkdóma og aðra sjúkdóma.


12. gr. - Réttur til félagslegs öryggis

Í því skyni að tryggja, að réttur til félagslegs öryggis sé raunverulega nýttur, skuldbinda samningsaðilar sig til:

1. að koma á eða viðhalda almannatryggingum,
2. að gera almannatryggingum það hátt undir höfði, að það jafnist a.m.k. á við það, sem krafist er til fullgildingar á alþjóðavinnumálasamþykkt (nr. 102) um lágmark félagslegs öryggis,
3. að reyna smátt og smátt að hefja almannatryggingarnar á hærra stig,
4. að gera ráðstafanir með gerð viðeigandi tvíhliða og fjölhliða samninga, eða á annan hátt, og samkvæmt þeim skilyrðum, sem sett er í slíkum samningum, til að tryggja:
  • (a) jafnrétti þegna annarra samningsaðila við eigin þegna, þegar um er að ræða rétt til að halda tryggingabótum án tillits til flutnings hins tryggða fólks milli landa samningsaðila,
  • (b) veitingu, viðhald og endurheimt tryggingaréttinda, með því t. d. að leggja saman trygginga- eða starfstímabil, sem lokið er samkvæmt löggjöf sérhvers samningsaðila.


13. gr. - Réttur til félagslegrar aðstoðar og læknishjálpar

Í því skyni að tryggja, að réttur til félagslegrar aðstoðar og læknishjálpar sé raunverulega nýttur, skuldbinda samningsaðilar sig til:

  1. að tryggja, að sérhverjum manni, sem hefir ónóg fjárráð og sem ekki getur aflað sér þeirra af eigin rammleik eða annars staðar frá, og þá sérstaklega með greiðslum samkvæmt tryggingakerfi, verði veitt næg aðstoð, og ef um veikindi er að ræða, sú umönnun, sem nauðsynleg er vegna ástands hans,
  2. að tryggja það, að fólk, sem slíkrar aðstoðar nýtur, bíði ekki fyrir þá ástæðu hnekki í sambandi við stjórnmálaleg eða félagsleg réttindi sín,
  3. að sjá til þess með viðeigandi opinberri þjónustu, að allir fái eftir þörfum notið ráðlegginga og persónulegrar aðstoðar til þess að koma í veg fyrir, bægja frá eða draga úr skorti, að því er þá sjálfa eða fjölskyldur þeirra varðar,
  4. að beita ákvæðum 1., 2. og 3. málsgreina þessarar greinar jafnt gagnvart eigin þegnum og þegnum annarra samningsaðila, sem löglega dvelja í löndum þeirra, í samræmi við skuldbindingar þeirra í Evrópusamþykktinni um félagslega aðstoð og læknishjálp, sem undirrituð var í París þ. 11. desember 1953.


14. gr. - Réttur til að njóta góðs af félagslegri velferðarþjónustu

Í því skyni að tryggja, að réttur til að njóta góðs af félagslegri velferðarþjónustu sé raunverulega nýttur, skuldbinda samningsaðilar sig til:

  1. að efla eða láta í té þjónustu, sem með því að beita félagslegum vinnubrögðum mundi stuðla að velferð og þroska bæði einstaklinga og hópa í samfélaginu og að aðlögun þeirra að hinu félagslega umhverfi,
  2. að hvetja til þátttöku einstaklinga og sjálfboðaliða eða annarra samtaka í því að koma á fót og viðhalda slíkri þjónustu.


15. gr. - Réttur líkamlega eða andlega fatlaðra til starfsþjálfunar, endurhæfingar og endurheimtar félagslegrar aðstöðu

Í því skyni að tryggja, að réttur líkamlega og andlega fatlaðs fólks til verknáms, endurhæfingar og endurheimtar félagslegrar aðstöðu sé raunverulega nýttur, skuldbinda samningsaðilar sig til:

  1. að gera nægar ráðstafanir til að skapa aðstöðu til þjálfunar, þ. á m., þegar það er nauðsynlegt, að koma á fót sérhæfðum stofnunum opinberra aðila eða einkaaðila,
  2. að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að útvega fötluðu fólki vinnu, einkum með hjálp sérhæfðrar ráðningarþjónustu, möguleikum á verndaðri vinnu og aðgerðum, sem miða að því að hvetja vinnuveitendur til að taka fatlað fólk í vinnu.


16. gr. - Réttur fjölskyldunnar til félagslegrar, lagalegrar og efnahagslegrar verndar

Í því skyni að tryggja nauðsynleg skilyrði fyrir fullum þroska fjölskyldunnar, sem er hornsteinn þjóðfélagsins, skuldbinda samningsaðilar sig til að efla efnahagslega, lagalega og félagslega vernd fjölskyldulífsins með aðgerðum eins og félagslegum bótum og fjölskyldubótum, skattareglum, útvegun fjölskylduhúsnæðis, aðstoð við nýgift fólk og öðrum viðeigandi aðgerðum.

17. gr. - Réttur mæðra og barna til félagslegrar og efnahagslegrar verndar

Í því skyni að tryggja, að réttur mæðra og barna til félagslegrar og efnahagslegrar verndar sé raunverulega nýttur, munu samningsaðilar gera allar viðeigandi og nauðsynlegar ráðstafanir, þ. á m. að koma á fót eða viðhalda viðeigandi stofnunum eða þjónustu.

18. gr. - Réttur til að stunda arðbært starf í landi annars samningsaðila

Í því skyni að tryggja, að réttur til að stunda arðbært starf í landi annars samningsaðila sé raunverulega nýttur, skuldbinda samningsaðilar sig til:

  1. að beita gildandi reglum frjálslega,
  2. að einfalda gildandi formsatriði og draga úr eða fella niður gjöld, sem erlendum launþegum eða vinnuveitendum þess er gert að greiða,
  3. að slaka á reglum um ráðningu erlendra launþega, í einstökum tilvikum eða almennt, og viðurkenna:
  4. rétt þegna sinna til að fara úr landi í því skyni að stunda arðbær störf í löndum annarra samningsaðila.


19. gr. - Réttur farandverkafólks og fjölskyldna þess til verndar og aðstoðar

Í því skyni að tryggja, að réttur farandverkafólks og fjölskyldna þess til verndar og aðstoðar sé raunverulega nýttur, skuldbinda samningsaðilar sig til:

1. að viðhalda, eða ganga úr skugga um, að viðhaldið sé, nægri ókeypis þjónustu til að aðstoða slíkt verkafólk, einkum við að afla sér nákvæmra upplýsinga, og að gera allar viðeigandi ráðstafanir, sem landslög og reglugerðir leyfa, til að koma í veg fyrir villandi áróður varðandi útflutning og innflutning fólks,
2. að gera viðeigandi ráðstafanir innan lögsagnarumdæma sinna til að auðvelda brottför, ferðalög og móttöku slíks verkafólks og fjölskyldna þess, og láta í té innan lögsagnarumdæma sinna viðeigandi þjónustu á sviði heilbrigðismála, læknisþjónustu og góðra hollustuhátta meðan á ferðinni stendur,
3. að efla, eftir því sem við á, samvinnu félagslegra þjónustustofnana opinberra aðila og einkaaðila í löndum, sem flutt er frá eða til,
4. að tryggja slíku verkafólki, sem löglega dvelur í löndum þeirra, að því marki sem lög eða reglugerðir taka til slíkra mála eða þau eru háð eftirliti stjórnvalda, meðferð, sem sé ekki óhagstæðari meðferð eigin þegna, þegar um er að ræða:
  • (a) launakjör og önnur starfs- og vinnuskilyrði,
  • (b) aðild að stéttarfélögum og að njóta góðs af heildarsamningum,
  • (b)húsnæði,
5. að tryggja slíku verkafólki, sem löglega dvelur í löndum þeirra, meðferð, sem sé eigi óhagstæðari meðferð eigin þegna, að því er varðar skatta, gjöld eða framlög, sem lögð eru á vinnandi fólk,
6. að greiða fyrir því, eftir því sem hægt er, að fjölskylda erlends starfsmanns, sem fengið hefir heimild til að setjast að í landinu, geti flutt til hans,
7. að tryggja slíku verkafólki, sem löglega dvelur í löndum þeirra, meðferð, sem sé eigi óhagstæðari meðferð eigin þegna að því er varðar dómsmeðferð mála, er um getur í þessari grein,
8. að tryggja, að slíkt verkafólk, sem löglega dvelur í löndum þeirra, verði ekki gert landrækt nema öryggi þjóðarinnar stafi hætta af því, eða það gerist brotlegt við almenningshagsmuni eða siðgæði,
9. að leyfa innan lögmætra takmarka yfirfærslu þess hluta tekna og sparifjár slíks vinnandi fólks, sem það kann að óska eftir,
10. að láta þá vernd og aðstoð, sem kveðið er á um í grein þessari, einnig ná til farandverkafólks í eigin atvinnu að því marki, sem slíkar ráðstafanir eiga við.
 
III. kafli


20. gr. - Skuldbindingar

1. Sérhver samningsaðili skuldbindur sig til:
  • (a) að líta á I. kafla sáttmála þessa sem yfirlýsingu um markmið, sem hann mun vinna að á allan viðeigandi hátt, eins og um getur í inngangi þess kafla,
  • (b) að álíta sig bundinn af a.m.k. fimm af eftirtöldum greinum II. kafla sáttmála þessa: 1., 5., 6., 12., 13., 16. og 19. gr.
  • (c) að telja sig, auk þeirra greina, sem hann velur samkvæmt næsta staflið hér á undan, bundinn af þeim fjölda greina eða töluliða II. kafla sáttmálans, sem hann sjálfur velur, enda sé samanlagður fjöldi greina eða tölusettra málsgreina, sem hann er bundinn af, eigi minni en 10 greinar eða 45 tölusettar málsgreinar.
2. Greinar eða málsgreinar, sem valdar eru samkvæmt stafliðum b og c í 1. mgr. þessarar greinar, ber að tilkynna aðalritara Evrópuráðsins þegar fullgildingar- eða samþykktarskjal viðkomandi samningsaðila er afhent.
3. Sérhver samningsaðili getur síðar lýst því yfir með tilkynningu til aðalritarans, að hann telji sig bundinn af hvaða grein eða tölulið II. kafla sáttmálans sem er og hann hefir ekki þegar samþykkt samkvæmt skilmálum 1. málsgreinar þessarar greinar. Líta ber á slíkar síðar gefnar skuldbindingar sem óskiptan hluta fullgildingar eða samþykktar, og taka þær sama gildi þrjátíu dögum eftir dagsetningu tilkynningarinnar.
4. Aðalritaranum ber að senda öllum ríkisstjórnum, sem sáttmálann undirrita, og aðalframkvæmdastjóra Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar, allar tilkynningar, sem hann tekur við samkvæmt þessum kafla sáttmálans.
5. Sérhver samningsaðili skal halda uppi kerfisbundnu vinnueftirliti, sem hentar aðstæðum í landinu.
 
IV. kafli


21. gr. - Skýrslur um samþykkt ákvæði

Samningsaðilar skulu senda aðalritara Evrópuráðsins skýrslu á tveggja ára fresti í því formi, sem ráðherranefndin ákveður, um framkvæmd þeirra ákvæða II. kafla sáttmálans, sem þeir hafa samþykkt.

22. gr. - Skýrslur um ákvæði, sem ekki hafa verið samþykkt

Samningsaðilar skulu senda aðalritaranum með hæfilegu millibili, að beiðni ráðherranefndarinnar, skýrslur varðandi þau ákvæði II. kafla sáttmálans, sem þeir hafa ekki fallist á við fullgildingu eða samþykkt eða með síðari tilkynningu. Ráðherranefndin ákveður hverju sinni um hvaða ákvæði ber að óska eftir slíkum skýrslum, svo og form þeirra.

23. gr. - Sending samrita

1. Sérhver samningsaðili skal senda samrit af skýrslum sínum, sem um er getið í 21. og 22. gr., til þeirra innlendra samtaka, sem eru aðilar að þeim alþjóðlegu samtökum vinnuveitenda og verkalýðsfélaga, sem bjóða ber samkvæmt 2. mgr. 27. gr. að eiga fulltrúa á fundum undirnefndar ráðherranefndarinnar um félagsmál.
2. Samningsaðilar skulu senda aðalritaranum allar athugasemdir, sem berast frá þessum innlendu samtökum um áðurnefndar skýrslur, ef samtökin óska þess.


24. gr. - Athugun á skýrslunum

Skýrslurnar, sem aðalritaranum eru sendar samkvæmt 21. og 22. gr., skulu athugaðar af sérfræðinganefnd, sem einnig fái til athugunar þær athugasemdir, sem sendar hafa verið til aðalritarans samkvæmt 2. mgr. 23. gr.

25. gr. - Sérfræðinganefndin

1. Sérfræðinganefndina skipa eigi fleiri en sjö menn, sem ráðherranefndin skipar úr hópi óháðra og einstaklega réttsýnna sérfræðinga, sem eru viðurkenndir kunnáttumenn á sviði félagsmála á alþjóðavettvangi og tilnefndir eru af samningsaðilum.
2. Nefndarmennirnir skulu skipaðir til sex ára í senn. Heimilt er að endurskipa þá. Embættistími tveggja af þeim nefndarmönnum, sem fyrst eru skipaðir, skal þó renna út að fjórum árum liðnum.
3. Þá nefndarmenn, sem ganga eiga út í lok fjögurra ára byrjunartímabilsins, skal ráðherranefndin velja með hlutkesti þegar að fyrstu skipun lokinni.
4. Sérfræðinganefndarmaður, sem skipaður er í stað nefndarmanns, þegar embættistími hins síðarnefnda hefir eigi runnið út, haldi embætti til loka skipunartíma fyrirrennara síns.


26. gr. - Þátttaka Alþjóðavinnumálastofnunarinnar

Bjóða skal Alþjóðavinnumálastofnuninni að tilnefna fulltrúa til að taka þátt í umræðum sérfræðinganefndarinnar sem ráðunautur.

27. gr. - Undirnefnd félagsmálanefndar ráðherranefndarinnar

1. Skýrslur samningsaðilanna og niðarstöður sérfræðinganefndarinnar skal leggja fyrir undirnefnd félagsmálanefndar ráðherranefndar Evrópuráðsins til athugunar.
2. Undirnefndina skipa einn fulltrúi frá hverjum samningsaðila. Hún skal bjóða eigi fleiri en tveimur alþjóðlegum vinnuveitendasamtökum og eigi fleiri en tveimur alþjóðlegum verkalýðssamtökum, eftir eigin vali, að senda ráðgefandi áheyrnarfulltrúa á fundi nefndarinnar. Enn fremur getur hún ráðfært sig við allt að tvo fulltrúa alþjóðlegra stofnana, sem ekki eru ríkisstofnanir, en eru í ráðgefandi aðstöðu gagnvart Evrópuráðinu, um málefni, sem stofnanirnar eru sérstaklega hæfar að fjalla um, svo sem félagslega velferð og efnahagslega og félagslega vernd fjölskyldunnar,
3. Undirnefndin skal leggja fyrir ráðherranefndina skýrslu um niðurstöður sínar og láta fylgja henni skýrslu sérfræðinganefndarinnar.


28. gr. - Ráðgjafasamkoma

Aðalritari Evrópuráðsins skal senda ráðgjafasamkomunni niðurstöður sérfræðinganefndarinnar. Ráðgjafasamkoman skal senda ráðherranefndinni álit sitt á niðurstöðum þessum.

29. gr. - Ráðherranefndin

Ráðherranefndin getur lagt hvers kyns nauðsynlegar tillögur fyrir sérhvern samningsaðila á grundvelli skýrslu undirnefndarinnar og að höfðu samráði við ráðgjafasamkomuna. Þarf til þess tvo þriðju atkvæða meirihluta þeirra, sem rétt eiga til setu í nefndinni.

V. kafli


30. gr. - Takmarkanir á styrjaldar- eða hættutímum

1. Á styrjaldartímum eða öðrum hættutímum, þegar tilveru þjóðar er ógnað, getur sérhver samningsaðili gert ráðstafanir, sem takmarka skuldbindingar hans samkvæmt sáttmála þessum, að svo miklu leyti sem bráð nauðsyn krefur vegna ástandsins, enda brjóti þær ráðstafanir ekki í bága við aðrar skuldbindingar hans samkvæmt alþjóðalögum.
2. Sérhver samningsaðili, sem hefir notfært sér þennan takmörkunarrétt, skal innan hæfilegs frests láta aðalritara Evrópuráðsins í té tæmandi upplýsingar um ráðstafanir, sem gerðar hafa verið, og ástæður fyrir þeim. Einnig skal samningsaðilinn tilkynna aðalritaranum, þegar slíkum aðgerðum er lokið og þau ákvæði sáttmálans, sem hann hefir samþykkt, koma að fullu til framkvæmda á ný.
3. Aðalritarinn skal svo tilkynna öðrum samningsaðilum og aðalframkvæmdastjóra Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar um öll erindi, sem móttekin hafa verið samkvæmt 2. mgr. þessarar greinar.


31. gr. - Höft

1. Þegar réttindin og meginreglurnar, sem um getur í 1. kafla, hafa komist í framkvæmd samkvæmt ákvæðum II. kafla, mega þær ekki vera háðar neinum höftum eða takmörkunum, sem eigi eru tilgreind í þeim köflum, utan það sem lög kveða á um og sem nauðsynlegt er í lýðræðisþjóðfélagi til verndar réttindum og frelsi annarra, eða til verndar almannahagsmunum, öryggi þjóðarinnar, heilsu eða siðgæði almennings.
2. Höft þau, sem heimilt er samkvæmt sáttmála þessum að setja á réttindi og skyldur, er um getur í honum, má eigi setja í neinum öðrum tilgangi en þeim, sem mælt hefir verið fyrir um.


32. gr. - Samband sáttmálans og landslaga eða alþjóðasamninga

Ákvæði sáttmála þessa mega ekki brjóta í bága við ákvæði landslaga eða ákvæði neinna tvíhliða eða fjölhliða samninga eða samþykkta, sem þegar hafa tekið gildi eða kunna að taka gildi og gera ráð fyrir hagstæðari meðferð hins verndaða fólks.

33. gr. - Framkvæmd byggð á heildarsamningum

1. Í aðildarríkjum þar sem ákvæði 1., 2., 3., 4. og 5. mgr. 2. gr., 4., 6. og 7. mgr. 7. gr. og 1., 2., 3. og 4. mgr. 10. gr. II. kafla sáttmála þessa eru málefni, sem venjulega eru látin vera háð samkomulagi milli vinnuveitenda, eða samtaka þeirra, og verkalýðssamtaka, eða eru venjulega framkvæmd á annan hátt en með lagafyrirmælum, má telja skuldbindingum þessara málsgreina fullnægt og samþykkt þeirra gilda, ef ákvæðum þeirra er fullnægt með slíkum samningum, eða á annar hátt, að því er mikinn meirihluta hins vinnandi fólks varðar.
2. Í aðildarríkjum, þar sem ákvæði þessi eru venjulega háð lagafyrirmælum, er á sama hátt hægt að undirgangast skuldbindingarnar og telja framkvæmd þeirra gilda, ef ákvæðin eru framkvæmd með lagafyrirmælum að því er mikinn meirihluta hins vinnandi fólks varðar.


34. gr. - Landssvæði, sem sáttmálinn tekur til

1. Sáttmáli þessi skal ná til heimalands sérhvers samningsaðila. Sérhver ríkisstjórn, sem undirritar sáttmálann, getur tiltekið það landsvæði, sem hún telur vera heimaland sitt í þessu tilliti, með yfirlýsingu stílaðri til aðalritara Evrópuráðsins þegar undirritun fer fram eða þegar fullgildingar- eða samþykktarskjal er afhent.
2. Sérhver samningsaðili getur, þegar fullgilding eða viðurkenning á sáttmála þessum fer fram, eða hvenær sem er síðar, lýst því yfir með tilkynningu stílaðri til aðalritara Evrópuráðsins, að sáttmálinn skuli að öllu eða einhverju leyti ná til landsvæðis eða landsvæða utan heimalandsins, sem tiltekin eru í tilkynningunni, hverra milliríkjamál hannannast eða ber ábyrgð á. Samningsaðilinn skal tilgreina í tilkynningunni hvaða greinar eða málsgreinar í II. kafla sáttmálans hann samþykki sem bindandi að því er varðar landsvæðin, er um getur í tilkynningunni.
3. Sáttmálinn skal taka til landsvæðis eða landsvæða, sem um getur í áðurnefndri tilkynningu, frá og með þrítugasta degi eftir að aðalritaranum hefir borist tilkynningin.
4. Sérhver samningsaðili getur lýst því yfir síðar með tilkynningu stílaðri til aðalritara Evrópuráðsins, að hann samþykki sem bindandi fyrir eitt eða fleiri landsvæði, sem sáttmálinn hefir verið látinn ná til skv. 2. mgr. þessarar greinar, greinar eða málsgreinar, sem hann hefir ekki þegar samþykkt fyrir það eða þau landsvæði. Slíkar síðar gefnar skuldbindingar teljast óskiptur hluti upprunalegrar tilkynningar að því er viðkomandi landsvæði varðar og skulu hafa sama gildi frá og með þrítugasta degi eftir að tilkynningin er dagsett.
5. Aðalritarinn skal senda öðrum ríkisstjórnum, sem undirritað hafa sáttmálann, og aðalframkvæmdastjóra Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar, sérhverja tilkynningu, sem honum berst samkvæmt þessari grein.


35. gr. - Undirskrift, fullgilding og gildistaka

1. Aðildarríkjum Evrópuráðsins er frjálst að undirrita sáttmála þennan. Hann skal fullgilda eða samþykkja. Fullgildingar- eða samþykktarskjöl ber að afhenda aðalritara Evrópuráðsins.
2. Sáttmáli þessi tekur gildi á þrítugasta degi eftir afhendingu fimmta fullgildingar- eða samþykktarskjals.
3. Að því er varðar ríkisstjórn, sem undirritað hefir sáttmála þennan og síðar fullgilt hann, tekur sáttmálinn gildi á þrítugasta degi eftir afhendingardag fullgildingar- eða samþvkktarskjals.
4. Aðalritarinn skal tilkynna öllum aðildarríkjum Evrópuráðsins og aðalframkvæmdastjóra Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar um gildistöku sáttmálans, nöfn samningsaðila, sem fullgilt hafa hann eða samþykkt, og síðari afhendingu fullgildingar- eða samþykktarskjala.


36. gr. - Breytingar

Sérhvert aðildarríki Evrópuráðsins getur borið fram tillögu um breytingu á sáttmála þessum í erindi stíluðu til aðalritara Evrópuráðsins. Aðalritarinn skal senda öðrum aðildarríkjum Evrópuráðsins allar breytingatillögur, sem þannig eru bornar fram, en ráðherranefndin tekur þær síðan til athugunar, og því næst skulu þær bornar undir álit ráðgjafasamkomunnar. Breytingatillögur, sem ráðherranefndin hefir fallist á, skulu gilda frá þrítugasta degi eftir að allir samningsaðilar hafa tilkynnt aðalritaranum samþykki sitt. Aðalritarinn skal tilkynna öllum aðildarríkjum Evrópuráðsins og aðalframkvæmdastjóra Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar um gildistöku slíkra breytinga.

37. gr. - Uppsögn

1. Sérhver samningsaðili getur einungis sagt sáttmála þessum upp er liðin eru fimm ár frá gildistöku hans að því er hann varðar, eða í lok hvers tveggja ára tímabils eftir það, og í hverju tilfelli eftir að hafa tilkynnt aðalritara Evrópuráðsins það með sex mánaða fyrirvara, en hann skal tilkynna það hinum aðilunum og aðalframkvæmdastjóra Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar. Slík uppsögn skal ekki hafa áhrif á gildi sáttmálans að því er aðra samningsaðila varðar, enda séu slíkir samningsaðilar aldrei færri en fimm.
2. Sérhver samningsaðili getur samkvæmt ákvæðum næstu málsgreinar hér á undan, sagt upp hvaða grein eða málsgrein II. kafla sáttmála þessa, sem hann hefir samþykkt, enda sé fjöldi greina eða málsgreina, sem samningsaðilinn er bundinn af, aldrei minni en 10 í fyrra tilfellinu og 45 í því síðara, og halda skal þessi fjöldi greina eða málsgreina áfram að fela í sér greinar þær, sem samningsaðili valdi úr og sem sérstaklega er vikið að í 20. gr., 1. mgr., staflið b.
3. Sérhver samningsaðili getur sagt upp sáttmála þessum eða sérhverri grein eða málsgrein í II. kafla hans, samkvæmt þeim skilmálum, sem greindir eru í 1. mgr. þessarar greinar, að því er varðar hvert það landsvæði, sem sáttmálinn nær til samkvæmt tilkynningu, sem gefin hefir verið samkvæmt 2. mgr. 34. gr.


38. gr. - Viðauki

Viðaukinn við sáttmála þennan skal vera óskiptur hluti hans.
Þessu til staðfestu hafa undirritaðir undirritað sáttmála þennan með fullu umboði.
Gert í Torino hinn 18. dag októbermánaðar 1961 á ensku og frönsku, og skulu báðir textarnir vera jafngildir. Sáttmálinn er gerður í einu eintaki, sem varðveita skal í skjalasafni Evrópuráðsins. Aðalritarinn skal senda sérhverjum aðila, sem sáttmálann undirritar, staðfest endurrit hans.

VIÐAUKI VIÐ FÉLAGSMÁLASÁTTMÁLANN


Gildissvið félagsmálasáttmálans að því er varðar verndað fólk.

1. Án þess að það skuli hafa áhrif á 12. gr., 4. mgr. og 13. gr., 4. mgr., taka 1.-17. gr. því aðeins til útlendinga, að þeir séu þegnar annarra samningsaðila og hafi löglega búsetu eða vinni að staðaldri í landi viðkomandi samningsaðila, að því tilskildu að túlka ber greinar þessar í ljósi ákvæða 18. og 19. greinar.

Þessi túlkun á ekki að vera því til hindrunar, að samningsaðilar veiti öðru fólki sömu aðstöðu.

2. Sérhver samningsaðili mun veita flóttamönnum, eins og þeir eru skilgreindir í Samþykkt um réttarstöðu flóttamanna, undirritaðri í Genf hinn 28. júlí 1951, sem dvelja löglega í landi hans, eins góð kjör og unnt er, og alla vega ekki óhagstæðari en samkvæmt skuldbindingum þeim, sem samningsaðilinn hefir fallist á samkvæmt téðri samþykkt og hverjum öðrum alþjóðasamþykktum, sem taka til þessara flóttamanna.
 
I. kafli, 18. mgr., og II. kafli, 18. gr., 1. mgr.


Gert er ráð fyrir, að ákvæði þessi varði ekki komu til lands samningsaðila og skerði ekki ákvæði Evrópusamþykktar um gagnkvæmt jafnrétti borgaranna, sem undirrituð var í París hinn 13. desember 1955.

II. kafli


1. gr., 2. mgr.

Eigi skal túlka ákvæði þetta þannig, að það banni eða heimili nokkur ákvæði eða venju varðandi kröfu um aðild að stéttarfélagi.

4. gr., 4. mgr.

Skilja ber ákvæði þetta þannig, að það banni ekki tafarlausan brottrekstur vegna alvarlegra misgerða.

4. gr., 5. mgr.

Gert er ráð fyrir því, að samningsaðili geti veitt skuldbindingu þá, sem krafist er í málsgreininni, ef mikill meirihluti launþega verður ekki fyrir kauplækkun, hvorki samkvæmt lögum, heildarsamningum né úrskurðum gerðardóma, en undanskilið eru þeir launþegar, sem reglurnar taka ekki til.

6. gr., 4. mgr.

Gert er ráð fyrir því, að sérhver samningsaðili geti, að því er hann sjálfan varðar, takmarkað verkfallsrétt með lögum, að því tilskildu, að réttlæta megi hvers kyns frekari takmarkanir, sem þetta kann að hafa á verkfallsréttinn, með ákvæðum 31. greinar.

7. gr., 8. mgr.

Gert er ráð fyrir því, að samningsaðili geti veitt skuldbindingu þá, sem ráð er fyrir gert í málsgreininni, ef hann fylgir anda hennar eftir með lagaákvæðum þess efnis, að meginhluti fólks innan 18 ára aldurs skuli ekki látið vinna næturvinnu.

12. gr., 4. mgr.

Orðin "samkvæmt þeim skilyrðum, sem sett eru í slíkum samningum" í inngangi málsgreinar þessarar, teljast þýða meðal annars, að varðandi bætur, sem fáanlegar eru óháðar nokkru tryggingaframlagi, geti samningsaðili krafist þess, að lokið sé tilskildu búsetutímabili áður en hann veiti þegnum annarra samningsaðila slíkar bætur.

13. gr., 4. mgr.

Ríkisstjórnir, sem ekki eru aðilar að Evrópusamþykktinni um félagslega aðstoð og læknishjálp, geta fullgilt félagsmálasáttmálann að því er þessa málsgrein varðar, svo fremi þeir veiti þegnum annarra samningsaðila meðferð, sem sé í samræmi við ákvæði greindrar samþykktar.

19. gr., 6. mgr.

Að því er ákvæði þetta varðar er gert ráð fyrir því að orðin "fjölskylda erlends starfsmanns" merki a.m.k. eiginkonu hans og börn á framfæri yngri en 21 árs.

III. kafli


Gert er ráð fyrir því, að sáttmálinn feli í sér lagaskuldbindingar alþjóðlegs eðlis, og framkvæmd þeirra sé eingöngu háð eftirliti því, sem gert er ráð fyrir í IV. kafla hans.

20. gr., 1. mgr.

Gert er ráð fyrir, að "tölusettar málsgreinar" geti falið í sér greinar, sem aðeins séu ein málsgrein.

V. kafli


30. gr.

Orðin "á styrjaldartímum eða öðrum hættutímum" ber að skilja þannig, að þau nái einnig til stríðshótunar.

Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16