Önnur mannréttindakerfi

Nokkrar tilraunir hafa verið gerðar til þess að koma upp mannréttindasamningum í Arabaríkjum Mið-Austurlanda. Þær hafa þó ekki átt erindi til erfiðis. Flest ríkin eru þó aðilar að Sameinuðu þjóðunum og ýmsum samningum sem tilheyra þeim, eins og til dæmis Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. 

Af þeim samningum sem sérstaklega hefur verið unnið að innan Arabaríkjanna má nefna Cairo yfirlýsinguna frá 1990 (The Cairo Decleration on Human Rights in Islam). Hún hefur þó aldrei verið fullgilt opinberlega og öll réttindi sem nefnd eru í yfirlýsingunni eru í samræmi við íslömsk Sharia lög.

Jafnframt Cairo yfirlýsingunni hafa arabískir mannréttindasérfræðingar útfært Mannréttindasáttmála Arabaríkja og tók Arababandalagið (League of Arab States) sáttmálann upp árið 1994. Sáttmálinn hefur þó aldrei verið fullgiltur vegna skorts á staðfestingu aðildarríkja Arababandalagsins.

 

Í Asíu hafa fjölmargar tilraunir verið reyndar til að koma upp svæðisbundnu mannréttindakerfi, án þess að nokkur þeirra hafi borið merkjanlegan árangur. Er menningarlegur fjölbreytileiki Asíu talinn valdurinn að því að erfitt er að ná samkomulagi um sameiginlegt mannréttindakerfi.

Margir þjóðarleiðtogar í Asíu hafa lýst yfir vantrú sinni á mannréttindi og telja hugtakið einungis hugsmíð Vesturlanda. Sumir hverjir telja jafnvel að umfjöllun um mikilvægi mannréttinda á alþjóðlegum grundvelli sé einungis nýlendustefna Vesturveldanna í nýjum búningi. Margir telja að menning Asíu sé of ólík þerri vestrænu og því eigi sömu samfélagslegu gildi ekki við.

 ASEAN

Samtök Suð-Austur Asíu, ASEAN, hafa þó náð nokkrum árangri og í október 2009 var Milliríkjanefnd um mannréttindi stofnuð (ASEAN Intergovernmental Commission on Human Rights). Voru fulltrúar hennar 10 skipaðir á 15. ráðstefnu ASEAN, einn frá öllum aðildarríkjum ASEAN.

ASEAN samtökin voru stofnuð í Bangkok þann 8. ágúst árið 1967. Löndin sem upprunalega stofnuðu samtökin voru Indónesía, Malasía, Filippseyjar, Singapore og Taíland. Í dag eru aðildarríkin tíu talsins.

Markmið samtakanna er, a) að kappkosta eflingu hagvaxtar, félagslega framför og menningarlega þróun á svæðinu. Til grundvallar á að liggja jafnræði og samvinna þjóðanna sem leiða á til friðsamlegs og happsæls samfélags Suð–Austur Asíuríkja, og b) að efla frið og stöðugleika á svæðinu með linnulausri virðingu fyrir réttvísi, réttaröryggi, samskiptum ríkjanna og hollustu við Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Milliríkjanefndin um mannréttindi (AICHR) starfa á grundvelli skipunarbréfs (terms of reference – TOR) sem samþykkt var á fundi utanríkisráðherra ASEAN í júlí 2009. Nefndin hefur sett sér starfsáætlun fyrir árin 2010-2015 og sett sér verklagsreglur. Gert er ráð fyrir að nefndin leggist í ákveðnar þematengdar rannsóknir á hverju ári starfsáætlunarinnar s.s. mansal, barnahermenn, konur og börn í vopnuðu átökum og hörmungum, réttur til upplýsinga í sakamálum, réttur til heilbrigðis o.s.frv.

Frá árinu 2011 hefur AICHR unnið að drögum að mannréttinda yfirlýsingu ASEAN sem mun setja viðmið um samstarf í mannréttindamálum í Suðaustur Asíu.

Nánari upplýsingar um ASEAN og AICHR.

Fjölmörg Asíuríki eiga einnig í samræðum um mannréttindamál við Evrópusambandið og nokkrar ráðstefnur hafa verið haldnar á milli nokkurra Asíuríkja og Evrópusambandsins.

Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16