Jafnvel þótt ríki fullgildi alþjóðasamning, og teljist þar með bundið af honum að þjóðarétti, er ekki þar með sagt að samningurinn verði bindandi að landsrétti viðkomandi ríkis.
Tvær stefnur eru ráðandi um gildi alþjóðasamninga í landsrétti.
Önnur sem kallast „monismi” eða „eineðli” byggist á því að alþjóðasamningur verði sjálfkrafa hluti landsréttar, þegar löggjafarsamkunda viðkomandi ríkis samþykkir að fullgilda hann.
Hin stefnan nefnist „dualismi” eða „tvíeðli” og byggist á því, að staðfestingin ein dugi ekki, heldur verði að lögleiða samninginn sérstaklega með þeim hætti sem tíðkast við venjulega lagasetningu. Íslendingar, sem fylgja tvíeðliskenningunni, hafa einungis lögleitt tvo alþjóðasamninga á sviði mannréttinda með þessum hætti, Mannréttindasáttmála Evrópu og sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins (Barnasáttmálann).
Að vísu hefur í ýmsum tilvikum verið farið að fyrirmælum slíkra samninga um lagasetningu til að tryggja ákvæði þeirra, en mikið vantar enn á að því verki sé lokið.
Þegar alþjóðasamningur hefur ekki verið lögleiddur sem hluti landsréttar getur einstaklingur, t.d. á Íslandi, sem vill leita réttar síns vegna þess að hann telur að á sér hafi verið brotin ákvæði alþjóðasamnings, ekki beitt honum beint fyrir íslenskum dómstólum og dómstólar á Íslandi geta ekki dæmt á grundvelli ólögfestra alþjóðasamninga þótt þeim beri að túlka landslög með hliðsjón af þeim.
Einstaklingur getur því aðeins leitað réttar síns samkvæmt slíkum samningi, að á grundvelli hans starfi einhver sú stofnun sem hefur heimild til að taka við kærum frá einstaklingum og því aðeins, að ríki hans hafi fullgilt sérstaklega eða samþykkt með tilhlýðilegum hætti þau ákvæði samningsins sem veita slíka heimild. Þetta átti við um Mannréttindanefndina og dómstólinn í Strassbourg áður en Mannréttindasáttmálinn hlaut lagagildi og þetta á við um nefndirnar sem starfa á vegum alþjóðsamninga Sameinuðu þjóðanna. Þessar heimildir eru afskaplega mikilsverðar, sérstaklega fyrir einstaklinga í ríkjum, sem hinir sérstöku svæðisdómstólar í mannréttindamálum ná ekki til.