Mannréttindakerfi Afríku fellur undir Einingarsamtök Afríku (AU). Samtökin leystu af hólmi OAU stofnunina (Organisation of African Unity) sem stofnuð var þann 25. maí árið 1963. Einingarsamtök Afríku starfa á grunni Stjórnarskrársáttmála Afríku sem var undirritaður í Lomé árið 2000. Einingarsamtökin voru formlega stofnsett árið 2001 þegar Stjórnarskrársáttmálinn gekk í gildi og starfsemi samtakanna hófst þann 9. júlí árið 2002.
Einingarsamtök Afríku starfa á ólíkari og víðtækari hátt en fyrirennari þess, en OAU einbeitti sér einna helst að þremur markmiðum; a) að vernda fullveldi Afríku b) að efla samstöðu Afríkuríkjanna c) og að stefna að fullu frelsi ríkjanna undan oki nýlendustefnunnar ásamt því að efla alþjóðlega samvinnu.
Jafnframt því að stefna að fyrri markmiðum OAU þá leggja Einingarsamtökin einnig sérstaka áherslu á virðingu og verndun mannréttinda, lýðræðis og að við völd séu skilvirkar og áreiðanlegar ríkisstjórnir.
Markmið með starfsemi Einingarsamtaka Afríku (AU) eru eftirfarandi;
-
stuðla að friði,
-
stuðla að öryggi og stöðugleika innan Afríku,
-
stuðla að lýðræði og lýðræðislegum stofnunum,
-
stuðla að skilvirkum og áreiðanlegum ríkisstjórnum,
-
stuðla að verndun og virðingu mannréttinda, samkvæmt mannréttindasáttmála Afríku og öðrum mannréttindasamningum.
Stofnanir Einingarsamtaka Afríku eru;
Afríkuráðið - The Assembly of the Union
Þetta er æðsta stofnun samtakanna og funda þar saman æðstu menn hvers aðildarríkis og/eða sérstakir fulltrúar þeirra að minnsta kosti einu sinni á ári. Stofnunin fer með ákvarðanatökuvald ásamt því að framfylgja eftirliti og sjá um stefnumótun Einingarsamtakanna. Stofnunin tekur við skýrslum eða álitsgerðum frá öðrum stofnunum samtakanna, fer yfir þær, greinir og tekur síðan ákvarðanir út frá þeim. Stofnunin sér einnig um að koma á fót nýjum stofnunum ásamt því að kjósa fulltrúa mannréttindanefndar samtakanna og dómara Mannréttindadómstólsins. Stofnun þessi fer einnig með það hlutverk að samþykkja árlega skýrslu Afríkunefndarinnar (The Commission).
Framkvæmdarráðið – The Executive Council
Þar sitja ráðherrar sem skipaðir eru af ríkisstjórnum aðildarríkjanna. Hlutverk Framkvæmdarráðsins er tvenns konar. Í fyrsta lagi á ráðið að samræma og taka stefnumótandi ákvarðanir í málum þar sem öll aðildarríkin hafa sameiginlegra hagsmuna að gæta eins og í málefnum er varða erlend viðskipti, umhverfisvernd, mannúðarmál, áfallastjórnun t.d vegna náttúruhamfara, menntun, menningu, heilsu, mannauðsstjórnun, þróunarmál og félagslegt öryggi. Í öðru lagi á ráðið að íhuga mál sem vísað er til þess ásamt því að hafa eftirlit með framkvæmd stefnumótunar sem mótuð er af Afríkuráðinu.
Afríkunefndin – The Commission
Í nefndinni sitja nefndarformaður, staðgengill nefndarformannsins og átta nefndarmenn ásamt starfsfólki. Nefndin starfar sem aðalskrifstofa Einingarsambands Afríku.
Nefnd fastafulltrúa – The Permanent Representatives Committee
Í nefndinni sitja fastafulltrúar hvers aðildarríkis og sér hún um allan undirbúning fyrir starf Framkvæmdarráðsins.
Sam-afríska þingið - Pan African Parliament
Þetta er sam–afrískt þing sem á að tryggja fulla þátttöku Afríkubúa í þeirri samþættingu sem stefnt er að í álfunni, á sviði ríkisstjórnunar, sem og í efnahags- og þróunarmálum. Fulltrúarnir sem á þinginu sitja eru kosnir eða skipaðir af þjóðþingum. Hvert aðildarríki hefur heimild til þess að skipa fimm fulltrúa á þingið og verður að minnsta kosti einn þeirra að vera kona.
Fyrst um sinn verður þingið ráðgefandi ásamt því að vera álitsgjafi. Þingið getur rætt um mannréttindamál og komið með ráðleggingar í málum er tengjast mannréttindum, lýðræði eða stjórnarháttum. Þingið á að vera ráðgefandi þangað til aðildarríkin ákveða að gefa því frekara löggjafarvald. Þegar aðildarríkin eru tilbúin til þess að veita þinginu löggjafarvald, er það á höndum Afríkuráðsins að skilgreina í hverju það löggjafarvald er fólgið.
Félags-, menningar- og efnahagsmálanefndin - ECOSOCC
Efnahags, félags og menningarráð Einingarsamtaka Afríku er ráðgefandi. Í ráðinu má finna ólíka starfshópa sem koma frá aðildarríkjum bandalagsins. Nefndin hefur það hlutverk að gefa Afríkubúum tækifæri á því að taka þátt í starfsemi Einingarsamtakanna.
Mannréttindanefnd Afríku – The African Commission on Human and Peoples´ Rights
Mannréttindanefndin var stofnsett árið 1987 og heyrir hún undir Mannréttindasáttmála Afríku. Nefndin samanstendur af ellefu fulltrúum sem Afríkuráðið kýs úr hópi fulltrúa sem aðildarríkin hafa valið. Nefndin hittist tvisvar á ári. Mannréttindasáttmáli Afríku fjallar um starfsemi nefndarinnar sem er þríþætt. Í fyrsta lagi fer nefndin yfir skýrslur sem aðildarríkin leggja til, í öðru lagi fer hún yfir þær kvartanir sem berast frá einstaklingum og ríkjum og í þriðja lagi túlkar nefndin ákvæði mannréttindasáttmálans.
Ríki sem eru aðilar að sáttmálanum þurfa að leggja fram skýrslur á tveggja ára fresti þar sem útlistað er hvaða aðgerðir ríkið hefur framkvæmt til þess að koma sáttmálanum í gildi.
Mannréttindadómstóll Afríku – The African Court on Human and Peoples´ Rights
Mannréttindasáttmáli Afríku gerði í upphafi ekki ráð fyrir að stofnaður yrði sérstakur mannréttindadómstóll. Árið 1998 varð breyting þar á þegar Einingasamtökin samþykktu viðauka við mannréttindasáttmálann. Viðaukinn kveður á um stofnun mannréttindadómstóls og gekk viðaukinn í gildi þann 25. janúar árið 2004. Í dómstólnum munu sitja ellefu dómarar sem kjörnir eru af Afríkuráðinu. Kjörtímabil dómaranna eru 6 ár en þeim er ekki heimilt að sitja lengur en í tvö kjörtímabil. Allir dómararnir, fyrir utan forseta dómstólsins, munu sinna starfi sínu í hlutastarfi.
Dómstóllinn á að vera ráðgefandi og er honum heimilt að gefa ráðgefandi álit um öll lögfræðileg málefni sem tengjast Mannréttindasáttmála Afríku eða öðrum samningum. Einnig geta allar stofnanir innan Einingarsamtakanna beðið dómstólinn um ráðgefandi álit. Afrísk félagasamtök sem viðurkennd eru af Einingasamtökunum geta einnig leitað eftir því að fá ráðgjöf og álit frá dómstólnum. Afríkunefndin (The Commission), ríki og ríkisstofnanir aðildarríkja geta sent mál til dómstólsins um leið og ríkið sem í hlut á hefur samþykkt og fullgilt viðaukann um stofnun dómstólsins. Einstaklingar og félagasamtök hafa þó ekki aðgang að dómstólnum. Dómstólnum er því ekki heimilt að rannsaka einstaklingsbundin mál, nema að ríkið sem í hlut á hafi lagt fram skriflega yfirlýsingu um að það telji dómstólinn hæfan til þess að taka á móti málinu.
Þegar mannréttindadómstóllinn hefur dæmt í máli þá er niðurstaða hans óhagganleg og ekki er hægt að áfrýja málinu. Dómar dómstólsins eiga að vera bindandi fyrir aðildarríki samtakanna. Í ársskýrslu sinni ber dómstólnum að taka fram hvaða ríki fara ekki eftir ákvörðunum hans. Er það á höndum framkvæmdaráðsins að rannsaka slík mál fyrir Afríkuráðið.
Nefnd Afríku um réttindi og velferð barnsins – African Committee of Experts on the Rights and the Welfare of the Child
Nefnd þessi var sett á fót í kjölfar stofnunar sáttmála Afríku um réttindi og velferð barnsins. Afríkuráðið kýs ellefu meðlimi úr hópi fólks sem aðildarríki sáttmálans hafa valið. Hlutverk nefndarinnar er að efla og vernda réttindi barna, safna viðeigandi upplýsingum um ákveðin mál, greina og meta vandamál sem tengjast börnum, skipuleggja fundi, móta reglur sem miða eiga að því að vernda réttindi barna og hafa eftirlit með útfærslu og framkvæmd þeirra réttinda sem sáttmálinn kveður á um.
Sem hluti af eftirlitsferlinu er ríkjum skylt að leggja fram skýrslur um framkvæmd samningsins á þriggja ára fresti.
Nefndin hefur heimild til þess að stunda rannsóknir á málefnum tengdum samningnum, inn í þá heimild fellur að nefndin getur rannsakað hvort ríki fari í raun eftir ákvæðum sáttmálans. Nefndin getur einnig farið fram á að ríki gefi frá sér upplýsingar um útfærslu ríkisins á samningnum.
Friðar- og öryggisráð (PSC)
Viðauki við mannréttindasáttmálann sem kveður á um Friðar- og öryggisráð Einingarsamtaka Afríku gekk í gildi 26. desember árið 2003, og hefur meirihluti aðildarríkja samtakanna samþykkt hann. Viðaukinn kveður á um að í ráðinu sitji 15 aðildarríki Einingarsamtakanna. Ráðið á að halda á lofti gildum samtakanna og fellur undir það íhlutun af mannúðarástæðum, virðing fyrir stjórnarskrárbundnum stjórnvöldum, viðhald réttarreglu og mannréttindi.
Í viðaukanum eru markmið Friðar- og öryggisráðsins upptalin og eru þau til dæmis þau að ráðið á gera ráð fyrir að átök og umfangsmikil mannréttindabrot eigi sér stað. Markmið ráðsins er einnig að efla og hvetja til lýðræðislegra stjórnarhátta, góðs stjórnarfars, réttarreglu, eflingu og virðingu mannréttinda og að virðing sé borin fyrir friðhelgi lífs og alþjóðlegum mannúðarlögum. Viðaukinn fjallar einnig um stofnun sérstaks varaherliðs sem er í viðbragðsstöðu ef ráðið ákveður að íhlutun sé viðeigandi vegna mannúðarástæðna.
Sérstakar tækninefndir – The Specialized Technical Committees
Þetta eru sérstakar nefndir sem sérhæfa sig í ákveðnum málaflokkum og í þeim sitja sérfræðingar í þeim málefnum sem nefndin sérhæfir sig í.
Nefndirnar eru eftirfarandi;
-
nefnd sem sérhæfir sig í landbúnaðarmálum og efnahagsmálum dreifbýlisins,
-
nefnd sem sérhæfir sig í gengis- og fjármálum,
-
nefnd sem sér um viðskipti, tollamál og innflytjendamál,
-
nefnd sem sér um málefni er tengjast iðnaði, vísindum, tækni, orku og náttúruauðlindum sem og umhverfismálum hverskonar,
-
nefnd sem sér um samgöngumál og málefni er tengjast ferðamennsku og ferðaþjónustu,
-
nefnd sem fjallar um heilsuvernd, atvinnu- og félagsmál
-
og nefnd sem hefur á sinni könnu menntamál, menningarmál og mannauðsstjórnun.
Fjármálastofnanir
Fjármálastofnanir samtakanna eru eftirfarandi;
-
The African Central Bank
-
The African Monetary Fund – gjaldeyrissjóður Afríku
-
The African Investment Bank – Fjárfestingabanki Afríku
Frekari upplýsingar er hægt að fá á heimasíðu Einingarsamtaka Afríku.