Mannréttindaráð Sameinuð þjóðanna

Efnahags– og félagsmálaráð Sameinuðu þjóðanna skipaði árið 1946 sérstaka mannréttindanefnd sem kallaðist „The Human Rights Commission“. Á íslensku er hún oft kölluð Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna til aðgreiningar frá Mannréttindanefndinni, „The Human Rights Committee”, sem starfar á grundvelli alþjóðsamningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.

Fyrstu verkefni þessa ráðs voru að setja saman mannréttindalöggjöfina svonefndu (The Bill of Rights), þ.e.a.s. fyrst Mannréttindayfirlýsinguna, sem Allsherjarþingið samþykkti 10. desember 1948, og síðan alþjóðasamningana tvo þar sem ákvæði hennar voru nánar útfærð, þ.e. alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og alþjóðasamninginn um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Báðir samningarnir voru samþykktir á Allsherjarþinginu í desember 1966 og gengu í gildi árið 1976 (fullgiltir á Íslandi árið 1979). Af ártölunum má sjá að það var ekki þrautalaust að koma samningunum saman. Það gerði ágreiningur stórveldanna í Kalda stríðinu og hin mismunandi afstaða til réttindanna.

Síðan tók við vinna að fleiri samningum um hin ýmsu svið mannréttindamála - reyndar hafði tekist að koma nokkrum samningum saman áður, meðal annars samningunum um stöðu flóttamanna og bann við kynþáttamisrétti. Ráðið hefur jafnframt haft yfirumsjón með margháttuðum störfum, þar á meðal rannsóknum á meintum meiriháttar mannréttindabrotum í ýmsum löndum og það hefur látið gera skýrslur um margvísleg mál.

Fyrstu tuttugu árin kom afstaða stórveldanna í veg fyrir að ráðið skipti sér af kvörtunum vegna mannréttindabrota – þau notuðu mannréttindabrot á áhrifasvæðum hvors annars sem gagnkvæm vopn í áróðursstríðinu á alþjóðavettvangi.

Hinum pólitísku fulltrúum í ráðinu var í upphafi stranglega bannað að taka aðra afstöðu í einstökum málum en ríkisstjórnir segðu til um á hverjum tíma. Þannig var Eleanor Roosevelt, fyrrum forsetafrú Bandaríkjanna, sem var fyrsti formaður Mannréttindaráðsins, hrakin úr því embætti; hún sætti sig ekki við að verða múlbundin eftir allt það starf sem hún hafði innt af hendi. Því hefur margoft verið haldið fram að aldrei hefði tekist að koma saman mannréttindalöggjöfinni ef hennar hefði ekki notið við. Hún stjórnaði ráðinu af einstökum skörungsskap og naut virðingar allra fræðimannanna þar frá upphafi vegna yfirburða þekkingar sinnar.

Á þessu „afstöðuleysi” Mannréttindaráðsins var ráðin bót árið 1967 og aftur 1970 þegar Efnahags- og félagsmálaráðið heimilaði því sérstaklega að rannsaka upplýsingar um mannréttindabrot og gera tillögur þar um. Var hér einkum um að ræða ástand í löndum þar sem talið var að mannréttindabrot væru meiriháttar og færu eftir tilteknu mynstri - þetta var á ensku nefnt „A Consistent Pattern of Gross Violations of Human Rights".

Var þá farið að fylgjast betur með, afla upplýsinga frá einstökum löndum og gera sérstakar kannanir og skýrslur um tiltekin brot, svo sem mannshvörf, pyndingar og handahófskenndar aftökur án dóms og laga ásamt öðrum mannréttindabrotum. Vinnuhópur var settur á laggirnar til að fjalla um kærur einstaklinga og hópa og farið var að senda á vettvang rannsóknarnefndir - þó alltaf að fengnu samkomulagi viðkomandi ríkisstjórna. Skipaðir voru sérstakir eftirlitsmenn - kallaðir „Special Rapporteurs" - bæði með einstökum löndum og einstökum málaflokkum. Starf Mannréttindaráðsins hefur þannig aukist og eflst verulega á síðustu áratugum.

Undir stjórn og eftirliti Mannréttindaráðsins starfar fjöldi undirnefnda, bæði fastanefndir og nefndir, sem starfa að tilteknum málaflokkum í tiltekinn tíma. Þær eru yfirleitt skipaðar sérfræðingum, sem eiga stóran þátt í undirbúningi allra samninga. Nefndirnar leggja tillögur fyrir Mannréttindaráðið sem fjallar um þær út frá pólitískum sjónarmiðum og þegar samningsdrög eru tilbúin eru þau lögð fyrir Allsherjarþingið til endanlegrar afgreiðslu – á því stigi, þegar verið er að leggja síðustu hönd á samningana, geta drögin komið til kasta undirnefnda þingsins.

Breyttir tímar kalla á nýja nálgun; 

Þann 15. mars árið 2006 var nýtt Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna (Human Rights Council) sett á fót. Tók það við af því mannréttindaráði sem stofnsett var árið 1946.

Mannréttindaráðið hafði um langt skeið sætt mikilli gagnrýni. Einkenndist starfsemi þess af stjórnmálalegum deilum og blokkamyndunum. Ríki sem hafa staðið sig illa þegar kemur að verndun mannréttinda áttu sæti í ráðinu og takmarkaði að miklu leyti starfsemi ráðsins. Það var af þessum sökum sem Allsherjarþingið ákvað að leggja Mannréttindaráðið niður í þeirri mynd sem það var í.

Nýja Mannréttindaráðið hefur öflugt umboð til að lyfta grettistaki í að efla mannréttindakerfi Sameinuðu þjóðanna og gera það hæfara til að bregðast við kröfum breyttra tíma. Stofnun Mannréttindaráðsins er mikilvægt skref í starfi samtakanna sem miðar að því að „vernda öll mannréttindi og grundvallarréttindi allra.”
Það væri hins vegar grundvallarmisskilningur að halda að það sé að byrja frá grunni. Sameinuðu þjóðirnar geta verið stoltar af mannréttindastarfi sínu í 61 ár og þar átti Mannréttindaráðið, sem nú hefur verið lagt niður, hlut að máli.

Alþjóðlegir mannréttindastaðlar- og viðmið hafa verið skrásett, komið hefur verið upp regluverki til að fylgjast með því að þessir staðlar séu hafðir í heiðri, stutt hefur verið við bakið á mannréttindafrömuðum og hlúð að fórnarlömbum mannréttindabrota um allan heim. Verkefni ráðsins er að sjá til þess að það standist þær kröfur sem gerðar eru til þess í ljósi sögunnar en efli og verndi jafnframt mannréttindi í samræmi við kröfur samtímans.

Ýmiss teikn eru á lofti um að stofnun ráðsins sé heillaspor. Kosning aðildarríkja þess er til marks um að ný vinnubrögð hafi verið tekin upp.  Aðildarríki Mannréttindaráðsins sáluga voru valin á lokuðum fundum en síðan var lagður fram listi sem var samþykktur með lófataki. Ný aðildarríki Mannréttindaráðsins kepptust aftur á móti um að ná kjöri og þurftu að njóta stuðnings meirihluta allra aðildarríkja til að ná kjöri í leynilegum kosningum. Í fyrsta sinni í sögunni skuldbundu ríki sig til að virða og efla mannréttindi en eiga ella á hætti að vera vikið úr ráðinu.

Með stofnun Mannréttindaráðsins er lagt til atlögu við þann tvískinnung sem hamlaði starfi fyrra Mannréttindaráðs þar sem umræður urðu oft um of pólitískar. Öll ríki eiga við mannréttindavanda að stríða og það á að vera hægt að draga öll ríki til ábyrgðar. Það er ekki lagður dómur á ríki með því að kjósa það til setu í ráðinu, heldur með því að lagt sé mat á mannréttindavernd þess. Til þess að svo megi verða, verður komið upp regluverki sem gerir ráðinu og þar með heiminum kleyft, að fara yfir mannréttindaástand í öllum 191 aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna. Þetta er afdrifaríkt skref sem stigið hefur verið og gefur vonir um að hægt verði að efla mannréttindi um allan heim. 

Það skiptir ef til vill mestu að Mannréttindaráðið fundar allt árið en ekki aðeins einu sinni í sex vikur eins og áður tíðkaðist. Það dró verulega úr virkni og sveigjanleika ráðsins. Lengri fundir gera ráðið betur í stakk búið til fyrirbyggjandi aðgerða þegar teikn eru á lofti um að meiriháttar mannréttindabrot séu yfirvofandi. Einnig mun ráðið setja á fót ferli sem ætlað er að bregðast hratt og örugglega við vandmálum tengdum mannréttinum.

Stofnun Mannréttindaráðsins er þó til lítils ef aðildarríkin leggja ekki eigin pólitíska hagsmuni til hliðar. Aðildarríki verða að vera reiðubúin að styðja fórnarlömb mannréttindabrota um allan heim af alefli. Slíkt gerist ekki án pólitískrar forystu af hálfu allra ríkja. Kjör öflugs mannréttindafrömuðar, Luis Alfonso De Alba Gongóra, sendiherra frá Mexíkó til formennsku í ráðinu er merki um að aðildarríkjum ráðsins sé full alvara. De Alba var fyrsti forseti ráðsins en hver forseti situr heldur aðeins um stjórnartaumana í hverri lotu, þannig að nýr forseti er skipaður fyrir hvert ferli. Krefjandi verkefni biðu nýja ráðsins og mörg álitamálin þykja afar erfið viðureignar. Sérstaklega þótti mikilvægt að endurskoða eftirlitshlutverk ráðsins.

Meginmarkmið með hinu nýja ráði er að aðildarríki ráðsins geti á árangursríkari hátt séð til þess að gildandi mannréttindastaðlar séu í heiðri hafðir. Vonir standa til að öllum mannréttindum verði gert jafn hátt undir höfði, jafnt efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum sem og stjórnmálalegum og borgaralegum. Umfram allt gerir þessi nýi mannréttindarammi þá kröfu til aðildarríkja að þau láti ekki sitja við orðin tóm, heldur grípi til aðgerða. Mannréttindaráðið setti á sínum tíma algilda mannréttindastaðla. Tími nýja Mannréttindaráðsins á að vera tími aðgerða; aðildarríkin hafa heitið því. Almenningur væntir aðgerða og fórnarlömb mannréttindabrota um allan heim eiga rétt á þeim.

Meðal þeirra breytinga sem verða á hinu nýja ráði er að aðildarríkjum fækkar úr 53 í 47, þau verða kosin til þriggja ára í senn og sitja þau ekki lengur en í tvö kjörtímabil. Áhersla er lögð á að möguleiki sé á því að kalla ráðið saman með stuttum fyrirvara, einnig er hægt að víkja ríkjum úr ráðinu ef þau gerast uppvís að ítrekuðum mannréttindabrotum.

Meðal hlutverka Mannréttindaráðsins eru;

  • að efla alþjóðlega virðingu fyrir grundvallarmannréttindum og frelsi manna án þess að hún sé byggð á mismunun hvers konar.
  • að fjalla um mannréttindabrot og kringumstæður þeirra og leggja fram álitsgerð um mögulegar úrbætur um það efni. Mannréttindaráðið á jafnframt að efla skilvirka samhæfingu í mannréttindamálum innan Sameinuðu þjóðanna.
  • að hafa að leiðarljósi hlutleysi, hlutlægni, jafnræði, efla til  alþjóðlegra samræðna og samvinnu sem miða á að því að efla og vernda öll mannréttindi, stjórnmálaleg, borgaraleg, efnahagsleg, félagsleg, menningarleg og einnig réttindin til þróunar.
  • að efla mannréttindafræðslu sem og mannréttindaráðgjöf.
  • að vera vettvangur fyrir samræður ríkja um mannréttindamál.
  • að leggja fram fyrir Allsherjarþingið ráðgefandi álit á framþróun alþjóðlegra mannréttindalaga.
  • að þrýsta á framkvæmd samninga sem ríki hafa skrifað undir á sviði mannréttinda til þess að hægt sé að stefna að þeim markmiðum sem sett eru á fundum og ráðstefnum Sameinuðu þjóðanna.
  • að hafa reglubundið eftirlit með framkvæmd aðildarríkjanna á þeim samningum sem það hefur skuldbundið sig til þess að framfylgja. Eftirlitið skal fara fram á grundvelli samvinnu og í formi samræðna þar sem ríkið sem í hlut á er að fullu þátttakandi.
  • mannréttindaráðið á með samræðum og samvinnu aðildarríkjanna að reyna að koma í veg fyrir mannréttindabrot og bregðast fljótt við ef neyðartilvik koma upp sem tengd eru mannréttindum.
  • að vinna að mannréttindamálum í náinni samvinnu við stjórnvöld, svæðisbundnar stofnanir, þjóðbundnar mannréttindastofnanir og samfélög í heild.
  • að gefa álit sitt á því hvernig best sé að stuðla að eflingu og verndun mannréttinda.
  • að leggja fram skýrslu til Allsherjaráðsins einu sinni á ári.

Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16