PROGRESS áætlunin - verkefni 2012

MRSÍ hélt utan um styrkt verkefni PROGRESS-áætlunar ESB fyrir árin 2011-2012 á Íslandi og var það í fjórða sinn sem skrifstofan tekur það að sér. 

Styrkt verkefni fyrir árið 2012 voru fjölbreytt, t.d. verðlaunasamkeppni um merki Evrópuviku gegn rasisma, fræðsla um mismunun til stofnana og félagasamtaka, útvarpsauglýsingaherferð, aðgerðir á vegum sveitarfélaga til að vinna gegn gagnkvæmri aðlögun og jafnrétti, ráðstefnur, kannanir, jafningjafræðsla og skýrslugerð.


 
Evrópuvika gegn kynþáttamisrétti

MRSÍ heldur utan Evrópuvikuna ár hvert og samstarfsaðilar 2012 voru Þjóðkirkjan, Rauði kross Íslands, ÍTR,evrópuvika 2012 Félag ungra jafnréttissinna og Jafnréttisnefnd SHÍ. Evrópuvikan byrjaði með hönnunarsamkeppni um merki Evrópuvikunnar sem var haldin að þessu sinni í samstarfi við Listaháskóla Íslands. Sigurvegari hönnunarsamkeppninnar var Sigríður Hulda Sigurðardóttir. Föstudaginn 23. mars hélt svo jafnréttisnefnd SHÍ hádegistónleika með Retro Stefson á háskólatorgi Háskóla Íslands í samstarfi við MRSÍ. Nefndarmeðlimir og starfskonur Mannréttindaskrifstofu dreifðu bæklingum með fræðsluefni um kynþáttafordóma og kynþáttamisrétti til nemenda og gesta Háskólatorgs. MRSÍ hélt svo utan um  vitundarvakningarviðburð í Smáralind á föstudagseftirmiðdag þar sem hundrað ungmenni á aldrinum 13-19 ára frá RKÍ, félagsmiðstöðvum Reykjavíkurborgar og Þjóðkirkjunnar dreifðu bæklingum um kynþáttafordóma og kynþáttamisrétti og fræddu fólk um málefnið. Ýmislegt annað var í boði eins og að taka þátt í lukkuhjóli, setja mark sitt á listaverk, leika sér í Mannréttinda-Twisterspili og skoða ljósmyndir frá Pólska Ljósmyndarafélaginu á Íslandi. Rithöfundurinn og grínistinn Sóli Hólm kynnti svo fjögur bráðskemmtileg skemmtiatriði fyrir krökkunum og gestum Smáralindar. Mikill áhugi var á uppákomunni hjá gestum Smáralindar sem mörg hver fengu boli merkta Evrópuvikunni og fræddust um hversu mikilvægt það er að útrýma kynþáttafordómum og -misrétti. Félag ungra jafnréttissinna hélt opinn fræðslufund í tengslum við Evrópuvikuna í Hinu Húsinu. 

Könnun um viðhorf til mismununar

Í september endurtók MRSÍ könnun sem fyrst var gerð árið 2009 í samstarfi við velferðarráðuneytið (þá félags- og tryggingamálaráðuneyti). Könnunin snýst um að kanna viðhorf til ýmissa þjóðfélagshópa sem hætt er við að sæti mismunun en hún var styrkt af PROGRESS áætlun ESB og framkvæmd af Capacent Gallup. Könnunin greindi mismunun út frá sex forsendum. Það eru kynferði, fötlun, kynhneigð, trú, aldur og uppruni/kynþáttur. Athugað var hvort viðhorf almennings til framangreindra hópa hafi breyst á þessum þremur árum.
Spurningar voru unnar með hliðsjón af Eurobarometer könnun Evrópusambandsins, Discrimination in the könnun Evrópusambandsins, Discrimination in the European Union, og því er könnunin samanburðarhæf í ríkjum ESB. Niðurstöðurnar sýndu ekki marktækar breytingar frá 2009.

Könnunin er aðgengileg hér.

Auglýsingaherferð gegn mismunun

Í október setti MRSÍ útvarpsauglýsingaherferð sem var ætlað að vekja fólk til umhugsunar um mismunun. Voru auglýsingarnar með öðru sniði en undanfarin ár. Í þeim mátti heyra yfirmenn vinnustaða beita starfsfólk sitt misrétti vegna kynþáttar, kynhneigðar og fötlunar. Auglýsingarnar voru lesnar í útvarpsmiðlum í október og nóvember. Auglýsingarnar voru tilnefndar til „Lúðursins“- hinna árlegu íslensku auglýsingaverðlauna, en hlutu hann ekki að þessu sinni.

Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16