Hinir alþjóðlegu mannréttindasamningar gera flestir ráð fyrir sérstökum nefndum til þess að hafa eftirlit með því hvernig aðildarríkjunum gengur að gegna þeim skyldum, sem þau takast á hendur með aðild að þeim. Það eru 10 samningsnefndir starfandi sem hafa það markmið að hafa eftirlit með framfylgd viðkomandi samningi í aðildarríkjum hans. Þessar nefndir eru;
- Mannréttindanefndin (CCPR - NBSR),(Samningur um borgarleg og stjórnmálaleg réttindi)
- nefnd um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi (CESCR - NEFMR),
- nefnd um afnám alls kynþáttamisréttis (CERD - NAK),
- nefnd um afnám allrar mismununar gagnvart konum (CEDAW – SAMK),
- nefnd gegn pyntingum (CAT), undirnefnd um aðgerðir gegn pyntingum (SPT),
- nefnd um réttindi barnsins (CRC – NRB),
- nefnd um farandverkamenn (CMW – NFV),
- nefnd um réttindi fólks með fötlun (CRPD – NRFF)
- nefnd um mannshvörf af mannavöldum (CED – NMM).
Einstaklingar og hópar, sem telja að stjórnvöld hafi brotið á mannréttindum þeirra, geta undir sérstökum kringumstæðum beint kvörtunum sínum til Sameinuðu þjóðanna. Kæruleiðirnar eru tvenns konar;
- til Mannréttindanefndar sameinuðu þjóðanna,
- til samningsnefnda, ef um brot á sérstökum samningum er að ræða
Nánari upplýsingar um nefndirnar má finna á heimasíðu þeirra hér einnig má hér fletta upp upplýsingum um samskipti nefndanna við Ísland.
Allsherjarúttekt á mannréttindamálum
Allsherjarúttekt á mannréttindamálum (e.The Universal Periodic Review (UPR)) er nýtt eftirlitsferli þar sem aðildarríkin skoða stöðuna hjá hvert öðru með beinum hætti. Gerð er úttekt á stöðu mannréttindamála í öllum aðildarríkjunum 193. Ferlinu er ætlað að tryggja jafnrétti á meðal þjóða þegar staða þeirra er metin. Markmiðið er að bæta stöðu mannréttindamála í heiminum og að hvetja ríkin til að uppfylla skuldbindingar sínar á sviði mannréttindamála. Úttektarferlið var skapað með ályktun Allsherjarþings Sþ., frá 15. mars 2006, nr. 60/251, þeirri sömu og stofnsetti Mannréttindaráðið sjálft.
Sérstakir skýrslugjafar
Mannréttindaráðið hefur yfirumsjón með sérstökum skýrslugjöfum (e. special procedures/special rapporteurs) sem eru sjálfstæðir mannréttindasérfræðingar sem hafa það verkefni að gefa skýrslu og ráðgjöf um mannréttindi út frá sjónarhorni ákveðins þema eða ákveðins lands. Þessir sérstöku talsmenn eru miðlægur þáttur í mannréttindakerfi Sameinuðu þjóðanna og fjalla um öll mannréttindi; s.s. borgalegum, menningarlegum, efnahagslegum, stjórnmálalegum og félagslegum réttindum. Þann 1. október 2013 voru 37 sérstakir skýrslugjafar sem fjölluðu um mannréttindi út frá ákveðnu þema og 14 sem fjölluðu um mannréttindi út frá ákveðnum löndum.
Með stuðningi Mannréttindastofnunar Sameinuðu þjóðanna fara sérstöku skýrslugjararnir í heimsóknir til landa, vinna að einstökum málum ásamt því að vinna að víðtækari uppbyggingu ákveðinna mála með því að senda orðsendingar til ríkja og annarra til þess að vekja athygli þeirra á ætluðum brotum eða misnotkun. Skýrslugjafarnir gera einnig þematengdar rannsóknir og skipuleggja samráð með sérfræðingum, vinna að framþróun viðmiðana fyrir alþjóðleg mannréttindi, berjast fyrir auknum réttindum og vekja athygli almennings á stöðu mála. Skýrslugjafarnir gefa árlega skýrslur til Mannréttindaráðsins og flestir þeirra gefa einnig skýrslu til Allsherjarráðsins.
Hægt er að kynna sér störf sérstöku skýrslugjafanna frekar á heimasíðu þeirra hér.
Alþjóðadómstóllinn í Haag
Alþjóðadómstóllinn (e. The International Court of Justice (ICJ)) er megin dómstóll Sameinuðu þjóðanna. Hann var stofnaður í júní 1945 með sáttmála Sameinuðu þjóðanna og hóf störf í apríl 1946.
Dómstóllinn er staðsettur í friðarhöllinni í Haag (Hollandi). Hlutverk dómstólsins er að leiða til lykta lagalegar deilur sem sendar eru þangað af ríkjum og til þess að gefa ráðgefandi álit um lagalegar spurningar sem vísað er til hans af þar til bærum stofnunum Sameinuðu þjóðanna og sérstofnunum.
Í dómstólnum eiga sæti 15 dómarar sem eru kosnir af allsherjarþingi Sameinuðum þjóðanna og Öryggisráðinu. Kjörtímabil þeirra eru níu ár. Dómstóllinn nýtur aðstoðar sérstakrar skrifstofu, opinber tungumál hans eru enska og franska.
Nánari upplýsingar um dómstólinn má finna á heimasíðu hans hér.