Alþjóðasamningur um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi

Inngangsorð.

Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum

hafa í huga, í samræmi við grundvallaratriði þau sem sett eru fram í sáttmála Sameinuðu þjóðanna, að viðurkenning á meðfæddri göfgi mannsins og jöfnum óaðskiljanlegum réttindum allra manna sé grundvöllur frelsis, réttlætis og friðar í heiminum,

viðurkenna að þessi réttindi leiðir af meðfæddri göfgi mannsins,
viðurkenna, í samræmi við Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, að sú hugsjón að menn séu frjálsir og njóti borgaralegs og stjórnmálalegs frelsis, séu óttalausir og þurfi ekki að líða skort, rætist því aðeins að sköpuð verði skilyrði til þess að allir geti notið borgaralegra og stjórnmálalegra réttinda, jafnt sem efnahagslegra, félagslegra og menningarlegra réttinda,

hafa í huga skyldur ríkja samkvæmt sáttmála Sameinuðu þjóðanna til þess að stuðla að almennri virðingu fyrir og varðveislu mannréttinda og frelsis,

gera sér grein fyrir að einstaklingurinn sem hefur skyldur gagnvart öðrum einstaklingum og samfélagi því sem hann tilheyrir hefur þá ábyrgð að leitast við að stuðla að og halda í heiðri réttindi þau sem viðurkennd eru í þessum samningi,

samþykkja eftirfarandi greinar:

I. hluti.

1. gr. 1. Allar þjóðir hafa sjálfsákvörðunarrétt. Vegna þess réttar ákveða þær frjálst stjórnmálalegar aðstæður sínar og framfylgja frjálst efnahagslegri, félagslegri og menningarlegri þróun sinni.
2. Allar þjóðir mega, í sínu eigin markmiði, ráðstafa óhindrað náttúruauðæfum og auðlindum sínum brjóti það ekki í bága við neinar skuldbindingar sem leiðir af alþjóðlegri efnahagssamvinnu, byggðri á grundvallarreglunni um gagnkvæman ábata, og þjóðarétti. Aldrei má svipta þjóð ráðum sínum til lífsviðurværis.
3. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum, þar með talin þau sem bera ábyrgð á stjórnun lendna sem ekki ráða sér sjálfar og gæsluverndarlendna, skulu stuðla að viðurkenningu á sjálfsákvörðunarrétti og skulu virða þann rétt í samræmi við ákvæði sáttmála Sameinuðu þjóðanna.

II. hluti.

2. gr. 1. Sérhvert ríki sem aðili er að samningi þessum tekst á hendur að virða og ábyrgjast öllum einstaklingum innan landsvæðis síns og undir lögsögu sinni réttindi þau sem viðurkennd eru í samningi þessum án nokkurs konar mismununar svo sem vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúarbragða, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernisuppruna eða félagslegs uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna.
2. Sérhvert ríki sem aðili er að samningi þessum tekst á hendur, sé ekki þegar gert ráð fyrir því í lagaákvæðum sem fyrir eru eða með öðrum ráðstöfunum, að gera nauðsynlegar ráðstafanir í samræmi við stjórnskipulega meðferð og ákvæði þessa samnings, að koma á slíkum lögum eða öðrum ráðstöfunum er kunna að vera nauðsynlegar til þess að réttindum samkvæmt samningi þessum sé framfylgt.
3. Sérhvert ríki sem aðili er að samningi þessum tekst á hendur:
(a) að ábyrgjast að sérhver maður sem hefur viðurkenndan rétt eða frelsi eins og hér er viðurkennt og brotið hefur verið á honum, skuli fá raunhæfar úrbætur, enda þótt skerðingin hafi verið framin af mönnum sem fara með stjórnvald;
(b) að ábyrgjast að sérhver maður sem krefst slíkra úrbóta skuli fá rétt sinn til þessa ákveðinn af lögbæru dóms-, stjórn- eða löggjafarvaldi eða einhverju öðru lögbæru yfirvaldi sem gert er ráð fyrir í réttarkerfi ríkisins, og hlutast til um möguleika á úrbótum samkvæmt dómi;
(c) að ábyrgjast að lögbær yfirvöld skuli framfylgja slíkum úrbótum sem veittar hafa verið.

3. gr. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum takast á hendur að ábyrgjast jöfn réttindi til handa körlum og konum til þess að njóta allra þeirra borgaralegu og stjórnmálalegu réttinda sem sett eru fram í samningi þessum.

4. gr. 1. Þegar um er að ræða almennt neyðarástand sem ógnar lífi þjóðarinnar og slíku ástandi hefur verið opinberlega lýst yfir mega ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum gera ráðstafanir sem víkja frá skyldum þeirra samkvæmt samningi þessum að því marki sem bráðnauðsynlegt er vegna hættuástandsins að því tilskildu að slíkar ráðstafanir séu ekki í ósamræmi við aðrar skyldur þeirra samkvæmt þjóðarétti og feli ekki í sér mismunun sem byggist eingöngu á aðstæðum vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúarbragða eða félagslegs uppruna.
2. Ekki má víkja í neinu frá 6., 7., 8. (1. og 2. mgr.), 11., 15., 16. og 18. gr. samkvæmt þessu ákvæði.
3. Sérhvert ríki sem aðili er að samningi þessum og notfærir sér rétt til fráviks skal þegar í stað tilkynna hinum ríkjunum sem aðilar eru að samningi þessum, fyrir milligöngu aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, um þau ákvæði sem það hefur vikið frá og þær ástæður sem knúðu það til þess. Önnur orðsending skal send fyrir milligöngu sama þann dag sem það fellir slíkt frávik niður.

5. gr. 1. Ekkert í samningi þessum má túlka þannig að það feli í sér að ríki, hópur eða einstaklingur hafi rétt til þess að takast á hendur neinar athafnir né aðhafast neitt sem miðar að eyðileggingu neins þess réttar eða frelsis sem hér er viðurkennt eða takmörkun á þeim að frekara marki en gert er ráð fyrir í þessum samningi.
2. Ekki skulu vera neinar takmarkanir á eða frávik frá neinum þeim grundvallarmannréttindum sem viðurkennd eru eða fyrir hendi eru í einhverju ríki, sem aðili er að samningi þessum, samkvæmt lögum, samningum, reglugerðum eða venju undir því yfirskini að samningur þessi viðurkenni ekki slík réttindi eða viðurkenni þau að minna marki.

III. hluti.

6. gr. 1. Sérhver maður hefur meðfæddan rétt til lífs. Þennan rétt skal vernda með lögum. Engan mann má svipta lífi að geðþótta.
2. Í löndum sem ekki hafa afnumið dauðarefsingu má aðeins kveða upp dauðadóm fyrir alvarlegustu glæpi í samræmi við þau lög sem í gildi voru á þeim tíma er glæpurinn var framinn og ekki eru andstæð ákvæðum samnings þessa né ákvæðum sáttmálans um ráðstafanir gegn og refsingar fyrir hópmorð. Þessari refsingu má aðeins framfylgja samkvæmt lokadómi, uppkveðnum af lögbærum dómstóli.
3. Þegar svipting lífs felur í sér hópmorð skal ljóst vera að ekkert í þessari grein skal heimila neinu ríki sem aðili er að samningi þessum að víkja á nokkurn hátt frá neinni skyldu sem það hefur gengist undir samkvæmt ákvæðum sáttmálans um ráðstafanir gegn og refsingar fyrir hópmorð.
4. Hver sá maður sem dæmdur hefur verið til dauða skal eiga rétt á að sækja um náðun eða mildun á dóminum. Sakaruppgjöf, náðun eða mildun á dauðadómi má í öllum tilvikum veita.
5. Dauðadómi skal ekki beitt fyrir glæpi sem menn undir átján ára aldri hafa framið né framfylgt gagnvart vanfærum konum.
6. Engu í þessari grein skal beitt til þess að fresta eða koma í veg fyrir afnám dauðarefsingar í neinu ríki sem aðili er að samningi þessum.

7. gr. Enginn maður skal sæta pyndingum eða grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Sérstaklega skal enginn sæta án frjáls samþykkis hans læknisfræðilegum eða vísindalegum tilraunum.

8. gr. 1. Engum manni skal haldið í þrældómi; hvers konar þrældómur og þrælaverslun skulu vera bönnuð.
2. Engum manni skal haldið í þrælkun.
3. (a) Eigi skal þess krafist af neinum manni að hann vinni þvingunar- eða nauðungarvinnu;
(b) Ekki skal 3. mgr. (a) útiloka, í löndum þar sem fangelsun ásamt skyldu til erfiðisvinnu má beita sem refsingu fyrir glæp, að erfiðisvinna sé unnin í samræmi við dóm um slíka refsingu sem lögbær dómstóll kveður upp;
(c) „Þvingunar- og nauðungarvinna“ í merkingu þessarar málsgreinar skal eigi taka til:
(i) vinnu eða þjónustu, sem ekki er getið í málslið (b), sem almennt er krafist af manni sem er í varðhaldi sem afleiðingu af löglegri skipun dómstóls, eða af manni sem hefur skilorðsbundið verið leystur úr slíku varðhaldi;
(ii) herþjónustu og, í löndum þar sem synjun til herþjónustu samvisku manna vegna er viðurkennd, þegnskylduvinnu sem krafist er að lögum af mönnum sem synja herþjónustu samvisku sinnar vegna;
(iii) þjónustu sem krafist er vegna hættu- eða neyðarástands sem ógnar lífi eða velferð almennings;
(iv) vinnu eða þjónustu sem er þáttur í venjulegum borgaraskyldum.

9. gr. 1. Allir menn eiga rétt til frelsis og mannhelgi. Enginn maður skal sæta handtöku eða annarri frelsisskerðingu að geðþótta. Engan mann skal svipta frelsi nema af þeim ástæðum og í samræmi við þær aðferðir sem ákveðið er í lögum.
2. Hver sá maður sem tekinn er höndum skal þegar handtakan fer fram fá vitneskju um ástæðurnar fyrir handtökunni og skal án tafar tilkynnt um sakir þær sem hann er borinn.
3. Hvern þann mann sem tekinn er höndum eða sætir annarri frelsisskerðingu fyrir glæpsamlegar sakir skal án tafar færa fyrir dómara eða annað stjórnvald sem lögheimild hefur til að fara með dómsvald, og skal hann eiga rétt til rannsóknar á máli sínu fyrir dómi innan hæfilegs frests eða að vera látinn laus. Það skal ekki vera hin almenna regla að menn sem bíða rannsóknar máls fyrir dómi skuli hafðir í gæslu, en lausn má binda skilyrði um tryggingu fyrir því að mæta til rannsóknar í máli fyrir dómi, á sérhverju öðru stigi dómsmeðferðar og, ef tilefni gefst til, til að dóminum sé fullnægt.
4. Hver sá maður sem sviptur er frelsi með handtöku eða annarri frelsiskerðingu skal eiga rétt á að gera ráðstafanir fyrir dómi til þess að sá dómur geti ákveðið án tafar um lögmæti frelsisskerðingar hans og fyrirskipa að hann skuli látinn laus ef frelsisskerðingin er ólögmæt.
5. Hver sá maður sem ólöglega hefur verið tekinn höndum eða sætt annarri frelsisskerðingu skal eiga framkvæmanlegan rétt til skaðabóta.

10. gr. 1. Alla menn sem sviptir hafa verið frelsi skal fara með af mannúð og með virðingu fyrir meðfæddri göfgi mannsins.
2. (a) Menn sem ákærðir eru skulu, nema í sérstökum tilvikum, vera aðskildir frá sakfelldum mönnum og skulu sæta sérstakri meðferð sem hæfir aðstæðum þeirra sem ósakfelldum mönnum;
(b) Ákærðir, ófullveðja menn skulu vera aðskildir frá fullorðnum mönnum og skulu færðir svo fljótt sem unnt er til dómsálagningar.
3. Í refsikerfinu skal gert ráð fyrir meðferð fanga þar sem aðalmarkmiðið skal vera betrun og félagsleg endurhæfing þeirra. Ófullveðja brotamenn skulu aðskildir frá fullorðnum mönnum og sæta meðferð sem hæfir aldri þeirra og réttarstöðu.

11. gr. Engan mann skal fangelsa eingöngu vegna þess að hann getur ekki efnt samningsbundna skyldu.

12. gr. 1. Hver sá sem er á löglegan hátt innan landsvæðis ríkis skal eiga rétt á umferðarfrelsi og frelsi til þess að velja sér dvalarstað á því landsvæði.
2. Allir menn skulu frjálsir að því að yfirgefa hvaða land sem er, þar með talið sitt eigið land.
3. Ofangreindur réttur skal ekki vera neinum takmörkunum háður nema þeim sem ákveðnar eru í lögum, eru nauðsynlegar til þess að vernda þjóðaröryggi, allsherjarreglu (ordre public), heilbrigði almennings eða siðgæði, eða réttindi og frelsi annarra, og eru samrýmanlegar öðrum réttindum sem viðurkennd eru í samningi þessum.
4. Enginn maður skal að geðþótta sviptur rétti til þess að koma til síns eigin lands.

13. gr. Útlendingi, sem er á löglegan hátt á landsvæði ríkis sem er aðili að samningi þessum, má aðeins vísa þaðan eftir ákvörðun sem tekin hefur verið í samræmi við lög og skal, nema þar sem brýnar ástæður vegna þjóðaröryggis krefjast annars, leyfast að skjóta ástæðunum gegn brottvísuninni til lögbærs stjórnvalds eða manns eða manna sem sérstaklega eru til þess tilnefndir af því lögbæra stjórnvaldi, og fá mál sitt tekið til endurskoðunar og hafa málsvarnarmann í þessu skyni.

14. gr. 1. Allir menn skulu vera jafnir fyrir dómstólunum. Við ákvarðanir, er menn hafa verið bornir sökum um glæpsamlegt athæfi, eða er ákveða skal um réttindi og skyldur manna í dómsmáli, skulu allir menn njóta réttlátrar og opinberrar rannsóknar fyrir lögbærum, óháðum og óhlutdrægum dómstóli sem stofnaður er með lögum. Blaðamönnum og almenningi má banna aðgang að réttarhöldum með öllu eða að hluta þeirra vegna siðgæðis, allsherjarreglu (ordre public) eða þjóðaröryggis í lýðfrjálsu þjóðfélagi, eða þegar hagsmunir einkalífs aðila krefjast þess, eða að svo miklu leyti sem dómstóllinn telur brýna nauðsyn bera til í sérstökum tilvikum þar sem vitneskja almennings mundi skaða réttarhagsmuni, en alla dóma uppkveðna í sakamálum eða í einkamálum skal kunngera opinberlega nema þar sem hagsmunir ófullveðja manna krefjast annars eða réttarhöldin varða hjúskapardeilur eða lögráð barna.
2. Allir menn sem bornir eru sökum um glæpsamlegt athæfi eiga rétt á að vera taldir saklausir þar til þeir eru fundnir sekir að lögum.
3. Við ákvarðanir er maður hefur verið borinn sökum um glæpsamlegt athæfi skal hann eiga rétt á að honum séu tryggð eftirtalin lágmarksréttindi sem skulu talin fullkomlega jafnrétthá:
(a) að fá tafarlaust vitneskju, á máli sem hann skilur, um eðli og orsök kærunnar gegn honum í einstökum atriðum;
(b) að hafa nægilegan tíma og aðstöðu til þess að undirbúa vörn sína og að hafa samband við málsvara sem hann velur sér sjálfur;
(c) að mál hans sé rannsakað án óhæfilegrar tafar;
(d) að mál hans sé rannsakað í hans viðurvist og að verja sig sjálfur eða að verja sig fyrir lögfræðilega aðstoð sem hann velur sér sjálfur; að honum sé tilkynnt, hafi hann ekki lögfræðilega aðstoð, um þennan rétt hans; og að honum sé séð fyrir lögfræðilegri aðstoð í öllum þeim tilvikum sem réttarhagsmunir krefjast þess, og án greiðslu af hans hálfu í öllum slíkum tilvikum, hafi hann ekki næg efni til þess að greiða aðstoðina;
(e) að spyrja eða láta spyrja vitni sem leidd eru gegn honum og að hans vitni komi fyrir og séu spurð við sömu aðstæður og vitni sem leidd eru gegn honum;
(f) að fá ókeypis aðstoð túlks ef hann skilur ekki eða talar ekki mál það sem notað er fyrir dómi;
(g) að vera ekki þröngvað til þess að bera gegn sjálfum sér eða að játa sök.
4. Sé um að ræða ófullveðja menn skal málsmeðferð vera slík að tekið sé tillit til aldurs þeirra og þeirrar viðleitni að stuðla að endurhæfingu þeirra.
5. Hver sá sem sakfelldur hefur verið fyrir glæp skal eiga rétt á að sakfelling hans og dómur séu endurskoðuð af æðra dómi samkvæmt lögum.
6. Nú hefur maður verið sakfelldur fyrir glæpsamlegt athæfi með lokadómi en hann síðan verið sýknaður eða hann hefur verið náðaður vegna þess að ný eða nýuppgötvuð staðreynd sýnir ótvírætt að réttarspjöll hafa verið framin, þá skal sá maður sem hefur þolað refsingu vegna slíkrar sakfellingar fá bætur samkvæmt lögum nema sannað sé að það var að öllu eða nokkru leyti um að kenna honum sjálfum að hin óupplýsta staðreynd kom ekki í ljós á réttum tíma.
7. Enginn skal þurfa að þola að mál hans sé rannsakað fyrir dómi eða honum refsað í annað sinn fyrir misgerð sem hann hefur þegar verið sakfelldur fyrir eða sýknaður af með lokadómi samkvæmt lögum og réttarfari í sakamálum í því landi sem um ræðir.

15. gr. 1. Engan skal telja sekan um glæpsamlegt athæfi hafi verknaður sá eða aðgerðaleysi sem hann er borinn ekki varðað refsingu að landslögum eða þjóðarétti á þeim tíma er verknaðurinn eða aðgerðaleysið átti sér stað. Eigi má heldur dæma hann til þyngri refsingar en þeirrar sem að lögum var leyfð þegar verknaðurinn var framinn. Nú er, eftir að hið glæpsamlega athæfi var framið, lögleitt ákvæði þar sem beita má vægari refsingu og skal þá misgerðamaðurinn njóta góðs af því.
2. Ekkert ákvæði þessarar greinar skal fyrirgirða réttarrannsókn og refsingu á hendur neinum manni fyrir verknað eða aðgerðaleysi sem var refsivert, þegar það var framið, samkvæmt almennum grundvallarreglum laga, viðurkenndum af samfélagi þjóðanna.

16. gr. Allir skulu eiga rétt til þess að vera viðurkenndir hvar sem er sem aðilar að lögum.

17. gr. 1. Enginn skal þurfa að þola geðþótta- eða ólögmæta röskun á einkalífi, fjölskyldu, heimili eða bréfaskiptum, né ólögmætar árásir á heiður eða mannorð sitt.
2. Allir eiga rétt á lagavernd gegn slíkri röskun eða árásum.

18. gr. 1. Allir menn skulu frjálsir hugsana sinna, sannfæringar og trúar. Í þessum rétti felst frelsi til þess að hafa eða aðhyllast trú eða skoðun að þeirra vali, og frelsi til þess að láta í ljós trú sína eða játningu, einir sér eða í félagi við aðra, opinberlega eða einslega, með tilbeiðslu, helgihaldi, guðsþjónustu og kennslu.
2. Enginn skal þurfa að sæta þvingun sem mundi hefta frelsi hans til þess að hafa eða aðhyllast trú eða skoðun að hans vali.
3. Frelsi til þess að láta í ljós trú eða skoðun skal einungis háð þeim takmörkunum sem mælt er í lögum og eru nauðsynlegar til þess að vernda öryggi almennings, reglu, heilbrigði eða siðgæði, eða grundvallarréttindi og frelsi annarra.
4. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum takast á hendur að virða frelsi foreldra og, eftir því sem við á, lögráðamanna til þess að tryggja trúarlegt og siðferðislegt uppeldi barna sinna í samræmi við þeirra eigin sannfæringu.

19. gr. 1. Allir skulu eiga rétt á að ráða skoðunum sínum afskiptalaust.
2. Allir skulu eiga rétt til að láta í ljós skoðanir sínar; í þessum rétti felst frelsi til þess að leita, taka við og miðla alls konar vitneskju og hugmyndum án tillits til landamæra, annaðhvort munnlega, skriflega eða á prenti, í formi lista, eða eftir hverjum öðrum leiðum að þeirra vali.
3. Sérstakar skyldur og ábyrgð felast í því að nota sér réttindi þau sem um getur í 2. mgr. þessarar greinar. Því má takmarka þessi réttindi að vissu marki, en þó aðeins að því marki sem mælt er í lögum og er nauðsynlegt:
(a) til þess að virða réttindi eða mannorð annarra;
(b) til þess að vernda þjóðaröryggi eða allsherjarreglu (ordre public), eða heilbrigði almennings eða siðgæði.

20. gr. 1. Allur stríðsáróður skal bannaður með lögum.
2. Allur málflutningur til stuðnings haturs af þjóðernis-, kynþáttar- eða trúarbragðalegum toga spunnið sem felur í sér hvatningu um mismunun, fjandskap eða ofbeldi skal bannaður með lögum.

21. gr. Rétt skal mönnum að koma saman með friðsömum hætti. Eigi skal réttur þessi öðrum takmörkunum háður en þeim sem settar eru í samræmi við lög og nauðsynlegar eru í lýðfrjálsu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis eða öryggis almennings, allsherjarreglu (ordre public), verndunar heilbrigði almennings eða siðgæðis, eða til verndunar réttindum og frelsi annarra.

22. gr. 1. Allir eiga rétt á að mynda félög með öðrum, þar á meðal að stofna og ganga í stéttarfélög til verndar hagsmunum sínum.
2. Eigi skal réttur þessi háður öðrum takmörkunum en þeim sem mælt er í lögum og nauðsynlegar eru í lýðfrjálsu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis eða öryggis almennings, allsherjarreglu (ordre public), verndunar heilbrigði almennings eða siðgæðis, eða til verndunar réttindum og frelsi annarra. Grein þessi skal ekki vera því til fyrirstöðu að lögmætar takmarkanir séu settar við því að herliðar og lögreglumenn beiti þessum réttindum.
3. Ekkert í grein þessari skal heimila ríkjum, sem aðilar eru að samþykkt á vegum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar frá 1948 um félagafrelsi og verndun þess, að gera ráðstafanir með lögum sem myndu skaða eða beita lögum á þann hátt að það myndi skaða það sem tryggt er í þeirri samþykkt.

23. gr. 1. Fjölskyldan er hin eðlilega grundvallarhópeining þjóðfélagsins og á rétt á vernd þjóðfélagsins og ríkisins.
2. Réttur karla og kvenna á hjúskaparaldri til þess að ganga í hjónaband og stofna fjölskyldu skal viðurkenndur.
3. Ekki skal stofnað til hjúskapar nema með frjálsu og fullkomnu samþykki hjónaefnanna.
4. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum skulu gera viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja jöfn réttindi og jafnar skyldur hjóna varðandi stofnun hjúskapar, á meðan á hjúskap stendur og við slit hjúskapar. Við hjúskaparslit skal gera ráðstafanir varðandi nauðsynlega vernd barna.

24. gr. 1. Öll börn skulu eiga rétt á þeim verndarráðstöfunum sem þau þarfnast vegna aðstæðna þeirra sem ófullveðja, af hendi fjölskyldu sinnar, þjóðfélagsins og ríkisins án nokkurrar mismununar vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúarbragða, þjóðernisuppruna eða félagslegs uppruna, eigna eða ætternis.
2. Öll börn skulu skráð þegar eftir fæðingu og skulu bera nafn.
3. Öll börn eiga rétt á að öðlast þjóðerni.

25. gr. Án mismununar þeirrar sem um getur í 2. gr. og án ósanngjarnra takmarkana skal sérhver borgari eiga rétt á og hafa tækifæri til:
(a) að taka þátt í opinberri starfsemi, á beinan hátt eða fyrir milligöngu fulltrúa sem eru kosnir á frjálsan hátt;
(b) að kjósa og vera kjörinn í raunverulegum reglubundnum kosningum þar sem almennur og jafn kosningaréttur gildir og kosið er leynilegri kosningu sem tryggir frjálsa viljayfirlýsingu kjósendanna;
(c) að hafa aðgang að opinberu starfi í landi sínu á almennum jafnréttisgrundvelli.

26. gr. Allir eru jafnir fyrir lögunum og eiga rétt á sömu lagavernd án nokkurrar mismununar. Lögin skulu því í þessu skyni banna hvers konar mismunun og ábyrgjast öllum mönnum jafna og raunhæfa vernd gegn mismunun svo sem vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúarbragða, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernisuppruna eða félagslegs uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna.

27. gr. Í þeim ríkjum þar sem staðfélags-, trúarbragða- eða tungumálaminnihlutahópar eru skal þeim sem tilheyra slíkum minnihlutahópum ekki neitað um rétt til þess, í samfélagi við aðra í þeirra hópi, að njóta menningar sinnar, að játa og þjóna sinni eigin trú eða að nota sitt eigið tungumál.

IV. hluti.

28. gr. 1. Stofna skal mannréttindanefnd (í samningi þessum hér á eftir kölluð nefndin). Hún skal skipuð átján nefndarmönnum og skal framkvæma þau störf sem mælt er um hér á eftir.
2. Nefndin skal skipuð þegnum þeirra ríkja sem aðilar eru að samningi þessum og skulu þeir vera gæddir góðum siðgæðiseiginleikum og vera viðurkenndir að þekkingu á sviði mannréttinda og skal höfð í huga gagnsemi af þátttöku nokkurra manna sem hafa reynslu í lagastörfum.
3. Nefndarmenn skulu kjörnir og skulu starfa sem einstaklingar.

29. gr. 1. Nefndarmenn skulu kjörnir í leynilegum kosningum af lista með nöfnum manna sem hafa til að bera þá eiginleika sem mælt er í 28. gr. og tilnefndir eru í þessum tilgangi af ríkjum þeim sem aðilar eru að samningi þessum.
2. Sérhvert ríki sem aðili er að samningi þessum má tilnefna tvo menn en ekki fleiri. Þessir menn skulu vera þegnar þess lands sem tilnefnir þá.
3. Tilnefna má menn til endurkjörs.

30. gr. 1. Fyrstu kosningarnar skulu fara fram eigi síðar en sex mánuðum eftir að þessi samningur gengur í gildi.
2. Minnst fjórum mánuðum fyrir hvern kjördag til nefndarkosninga, annarra en kosninga til að skipa sæti sem lýst hefur verið laust í samræmi við 34. gr., skal aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna senda skriflegt erindi til ríkja þeirra sem aðilar eru að samningi þessum um að leggja fram tilnefningu til nefndarskipunar innan þriggja mánaða.
3. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal gera skrá í stafrófsröð um alla þá sem þannig eru tilnefndir og gefa til kynna aðildarríkin sem hafa tilnefnt þá, og skal leggja hana fyrir ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum eigi síðar en mánuði fyrir kjördag.
4. Kosning nefndarmanna skal fara fram á fundi aðildarríkja samnings þessa sem aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna kallar saman í aðalstöðvum Sameinuðu þjóðanna. Á þeim fundi, þar sem tveir þriðju ríkja þeirra sem aðilar eru að samningi þessum skulu mynda lögmætan fund, skulu þeir, sem tilnefndir hafa verið, taldir kjörnir í nefndina sem hljóta flest atkvæði og hreinan meiri hluta atkvæða fulltrúa aðildarríkjanna sem viðstaddir eru og greiða atkvæði.

31. gr. 1. Í nefndinni má ekki vera nema einn þegn sama ríkis.
2. Við kosningu í nefndina skal höfð í huga sanngjörn landfræðileg skipting nefndarmanna og að þeir séu fulltrúar hinna mismunandi menningartegunda og helstu lagakerfa.

32. gr. 1. Kjörtímabil nefndarmanna skal vera fjögur ár. Þá má endurkjósa ef þeir eru tilnefndir aftur. Þó skal kjörtímabil níu nefndarmanna sem kosnir eru í fyrstu kosningunum renna út að tveimur árum liðnum; þegar eftir fyrstu kosningarnar skal formaður fundarins sem um getur í 4. mgr. 30. gr. velja nöfn þessara níu nefndarmanna með hlutkesti.
2. Við lok embættisþjónustu skulu kosningar fara fram í samræmi við undanfarandi greinar þessa hluta samnings þessa.

33. gr. 1. Nú er það samhljóða álit annarra nefndarmanna að nefndarmaður hefur hætt að rækja starf af öðrum orsökum en tímabundinni fjarvist, og skal þá formaður nefndarinnar þegar tilkynna það aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna sem skal þá lýsa sæti þess nefndarmanns laust.
2. Þegar um er að ræða andlát eða afsögn nefndarmanns skal formaður nefndarinnar þegar tilkynna það aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna sem skal lýsa sætið laust frá dánardegi eða þeim degi er afsögnin tekur gildi.

34. gr. 1. Þegar lýst er lausu sæti í samræmi við 33. gr. og renni embættistímabil nefndarmanns, sem skipa skal fyrir, ekki út innan sex mánaða frá yfirlýsingunni um að sætið væri laust, skal aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna tilkynna þetta öllum ríkjum þeim sem aðilar eru að samningi þessum sem mega innan tveggja mánaða leggja fram tilnefningar í samræmi við 29. gr. til þess að skipa hið lausa sæti.
2. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal gera skrá í stafrófsröð um þá sem þannig eru tilnefndir og leggja hana fyrir ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum. Kosningar til þess að skipa laust sæti skulu síðan fara fram í samræmi við þau ákvæði þessa hluta samnings þessa sem við eiga.
3. Nefndarmaður sem kjörinn er til þess að skipa sæti sem lýst hefur verið laust í samræmi við 33. gr. skal gegna embætti það sem eftir er kjörtímabils þess nefndarmanns sem vék úr sæti í nefndinni samkvæmt ákvæðum þeirrar greinar.

35. gr. Nefndarmenn skulu, með samþykki allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, fá greiðslur af efnum Sameinuðu þjóðanna með þeim skilmálum og skilyrðum sem allsherjarþingið kann að ákveða og skal það taka tillit til þess hve ábyrgð nefndarinnar er mikilvæg.

36. gr. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal láta í té nauðsynlegt starfslið og aðstöðu til þess að nefndin geti rækt starf sitt á fullnægjandi hátt samkvæmt þessum samningi.

37. gr. 1. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal kalla saman fyrsta fund nefndarinnar í aðalstöðvum Sameinuðu þjóðanna.
2. Eftir fyrsta fund sinn skal nefndin koma saman á þeim tímum sem kveðið skal á um í fundarsköpum hennar.
3. Nefndin skal að jafnaði koma saman í aðalstöðvum Sameinuðu þjóðanna eða í skrifstofu Sameinuðu þjóðanna í Genf.

38. gr. Áður en nefndarmaður hefur störf skal hann gefa hátíðlega yfirlýsingu á opnum nefndarfundi um að hann muni rækja störf sín af óhlutdrægni og samviskusemi.

39. gr. 1. Nefndin skal kjósa embættismenn sína til tveggja ára kjörtímabils. Þá má endurkjósa.
2. Nefndin skal setja sér sín eigin fundarsköp, en þessi fundarsköp skulu meðal annars gera ráð fyrir að:
(a) tólf nefndarmenn myndi löglegan fund;
(b) ákvarðanir nefndarinnar skuli teknar með atkvæðum meiri hluta nefndarmanna sem viðstaddir eru.

40. gr. 1. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum takast á hendur að leggja fram skýrslur um þær ráðstafanir sem þau hafa gert og veita gildi þeim réttindum sem hér eru viðurkennd og um vaxandi viðgang þessara réttinda:
(a) innan eins árs frá gildistöku þessa samnings fyrir viðkomandi aðildarríki;
(b) síðan hvenær sem nefndin óskar þeirra.
2. Allar skýrslur skulu lagðar fyrir aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna sem skal koma þeim á framfæri við nefndina til athugunar. Skýrslurnar skulu greina þau atriði og vandkvæði, ef einhver eru, sem hafa áhrif á framkvæmd samnings þessa.
3. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna má, að höfðu samráði við nefndina, koma á framfæri við viðeigandi sérstofnanir afritum af þeim hlutum skýrslnanna sem kunna að falla undir valdsvið þeirra.
4. Nefndin skal athuga skýrslur þær sem aðildarríki að samningi þessum leggja fram. Hún skal koma skýrslum sínum á framfæri við aðildarríkin svo og þeim almennu umsögnum sem hún telur tilhlýðilegar. Nefndin má einnig koma þessum umsögnum á framfæri við fjárhags- og félagsmálaráðið ásamt afritum af þeim skýrslum sem hún hefur móttekið frá ríkjum sem aðilar eru að samningi þessum.
5. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum mega leggja fyrir nefndina athugasemdir við umsagnir sem kunna að vera gerðar samkvæmt 4. mgr. þessarar greinar.

41. gr. 1. Ríki sem aðili er að samningi þessum má hvenær sem er lýsa því yfir samkvæmt þessari grein að það viðurkenni lögbærni nefndarinnar til þess að taka við og athuga orðsendingar þess efnis að aðildarríki heldur því fram að annað aðildarríki framfylgi ekki skyldum sínum samkvæmt þessum samningi. Orðsendingum samkvæmt þessari grein má því aðeins veita móttöku og taka til athugunar að þær séu lagðar fram af aðildarríki sem hefur gefið yfirlýsingu um að það viðurkenni lögbærni nefndarinnar gagnvart sér sjálfu. Nefndin skal ekki veita móttöku neinni orðsendingu ef það varðar aðildarríki sem hefur ekki gefið slíka yfirlýsingu. Orðsendingar sem mótteknar eru samkvæmt þessari grein skulu hljóta eftirfarandi meðferð:
(a) Ef ríki sem aðili er að þessum samningi telur að annað aðildarríki framfylgi ekki ákvæðum þessa samnings, má það vekja athygli þess aðildarríkis á málinu með skriflegri orðsendingu. Innan þriggja mánaða frá móttöku orðsendingarinnar skal móttökuríkið láta ríkinu sem sendi orðsendinguna í té skýringu eða hverja aðra skriflega greinargerð sem varpar ljósi á málið, sem ætti að hafa að geyma, að svo miklu leyti sem hægt er og eftir því sem við á, tilvísun til þeirra aðgerða og úrbóta sem teknar hafa verið, sem til athugunar eru, eða sem tiltækar eru í málinu innan lands.
(b) Ef málið er ekki útkljáð svo fullnægjandi sé fyrir bæði þau aðildarríki sem í hlut eiga innan sex mánaða frá því að móttökuríkið veitti upphaflegu orðsendingunni móttöku, skal hvoru ríki um sig rétt að vísa málinu til nefndarinnar með tilkynningu til hennar og hins ríkisins.
(c) Nefndin skal því aðeins fjalla um mál sem vísað er til hennar að hún hafi áður fullvissað sig um að í málinu hafi verið beitt og tæmdar allar úrbætur innan lands í samræmi við almennt viðurkenndar grundvallarreglur þjóðaréttar. Þetta skal ekki gilda ef ráðstafanir til úrbóta eru dregnar óhæfilega á langinn.
(d) Nefndin skal halda lokaða fundi þegar hún rannsakar orðsendingar samkvæmt þessari grein.
(e) Að áskildum ákvæðum málsliðar (c) skal nefndin veita hlutaðeigandi aðildarríkjum liðsinni sitt af fremsta megni með það fyrir augum að komast að vinsamlegri lausn í málinu, byggðri á virðingu fyrir mannréttindum og grundvallarfrelsi eins og þau eru viðurkennd í samningi þessum.
(f) Í hverju því máli sem vísað er til nefndarinnar má hún beina til hlutaðeigandi aðildarríkja sem vikið er að í málslið (b) að láta í té allar upplýsingar sem máli skipta.
(g) Hlutaðeigandi aðildarríki sem vikið er að í málslið (b) eiga rétt á að eiga málsvara þegar málið er til athugunar hjá nefndinni og leggja sitt af mörkum munnlega og/eða skriflega.
(h) Innan tólf mánaða frá móttökudegi tilkynningar samkvæmt málslið (b) skal nefndin leggja fram skýrslu:
(i) Náist lausn samkvæmt ákvæðum málsliðar (e) skal nefndin einskorða skýrslu sína við stutta greinargerð um staðreyndir og lausn þá sem náðst hefur;
(ii) Náist ekki lausn samkvæmt ákvæðum málsliðar (e) skal nefndin einskorða skýrslu sína við stutta greinargerð um staðreyndir málsins; þau skriflegu gögn sem lögð voru fram af hlutaðeigandi aðildarríkjum svo og bókun um það sem munnlega kom fram af þeirra hálfu skulu fylgja skýrslunni.
Skýrslunni skal jafnan komið á framfæri við hlutaðeigandi aðildarríki.
2. Ákvæði þessarar greinar skulu öðlast gildi þegar tíu ríki sem aðilar eru að samningi þessum hafa gefið út yfirlýsingu samkvæmt 1. mgr. þessarar greinar. Aðildarríkin skulu afhenda aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna þessar yfirlýsingar og skal hann koma afritum af þeim til annarra aðildarríkja. Yfirlýsingu má afturkalla hvenær sem er með tilkynningu til aðalframkvæmdastjórans. Slík afturköllun skal ekki hafa áhrif á athugun á máli sem greinir í orðsendingu sem þegar hefur verið komið á framfæri samkvæmt þessari grein; engar frekari orðsendingar neins aðildarríkis skulu mótteknar eftir að aðalframkvæmdastjórinn hefur móttekið tilkynningu um afturköllun nema viðkomandi aðildarríki hafi gefið nýja yfirlýsingu.

42. gr. 1. (a) Nú er mál sem vísað er til nefndarinnar í samræmi við 41. gr. ekki leyst svo hlutaðeigandi aðildarríkjum þyki fullnægjandi og má þá nefndin, að fengnu samþykki hlutaðeigandi ríkja, skipa sérstaka sáttanefnd (hér á eftir kölluð sáttanefndin). Sáttanefndin skal veita hlutaðeigandi ríkjum liðsinni sitt af fremsta megni með það fyrir augum að komast að vinsamlegri lausn í málinu, byggðri á virðingu fyrir samningi þessum;
(b) Sáttanefndin skal skipuð fimm mönnum sem aðildarríkin sem í hlut eiga fallast á. Hafi hlutaðeigandi aðildarríki ekki komist að samkomulagi innan þriggja mánaða um skipan allrar eða hluta sáttanefndarinnar skulu þeir sáttanefndarmenn sem ekki hefur náðst samkomulag um kosnir af mannréttindanefndinni úr hennar hópi leynilegri kosningu með tveimur þriðju hlutum atkvæða.
2. Sáttanefndarmenn skulu starfa sem einstaklingar. Þeir skulu ekki vera þegnar þeirra aðildarríkja sem í hlut eiga, né ríkis sem ekki er aðili að samningi þessum, né aðildarríkis sem ekki hefur gefið yfirlýsingu samkvæmt 41. gr.
3. Sáttanefndin skal sjálf kjósa sér formann og setja sér sín eigin fundarsköp.
4. Fundir sáttanefndarinnar skulu að jafnaði haldnir í aðalstöðvum Sameinuðu þjóðanna eða í skrifstofu Sameinuðu þjóðanna í Genf. Þó má halda þá á öðrum hentugum stöðum sem sáttanefndin kann að ákveða í samráði við aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna og hlutaðeigandi aðildarríki.
5. Skrifstofa sú sem gert er ráð fyrir í 36. gr. skal einnig starfa fyrir sáttanefndir þær sem skipaðar eru samkvæmt þessari grein.
6. Upplýsingar sem mannréttindanefndin hefur móttekið og safnað saman skulu vera sáttanefndinni til reiðu og má sáttanefndin skora á ríkin sem í hlut eiga að láta í té allar aðrar upplýsingar sem máli skipta.
7. Þegar sáttanefndin hefur athugað málið til hlítar, þó alls ekki síðar en tólf mánuðum eftir að hafa fengið málið til meðferðar, skal hún leggja fyrir formann nefndarinnar skýrslu sem koma skal á framfæri við hlutaðeigandi aðildarríki:
(a) Geti sáttanefndin ekki lokið athugun sinni á málinu innan tólf mánaða skal hún einskorða skýrslu sína við stutta greinargerð um hve langt athugunin hefur náð;
(b) Hafi vinsamleg lausn málsins náðst á grundvelli virðingar fyrir mannréttindum eins og þau eru viðurkennd í samningi þessum skal sáttanefndin einskorða skýrslu sína við stutta greinargerð um staðreyndirnar og þá lausn sem náðst hefur;
(c) Náist ekki lausn samkvæmt ákvæðum málsliðar (b) skal í skýrslu sáttanefndarinnar greint frá því sem nefndin hefur orðið áskynja varðandi hvers kyns staðreyndir er snerta ágreiningsmál hlutaðeigandi aðildarríkja og áliti hennar á möguleikum til vinsamlegrar lausnar málsins. Skýrsla þessi skal ennfremur hafa að geyma þau skriflegu gögn sem lögð voru fram af hlutaðeigandi aðildarríkjum svo og bókanir um það sem munnlega kom fram af þeirra hálfu;
(d) Sé skýrsla sáttanefndarinnar lögð fyrir eins og greinir í málslið (c) skulu aðildarríki þau sem í hlut eiga tilkynna formanni nefndarinnar innan þriggja mánaða frá móttöku skýrslunnar hvort þau fallist á efni skýrslu sáttanefndarinnar eða ekki.
8. Ákvæði þessarar greinar skulu ekki hafa áhrif á ábyrgð mannréttindanefndarinnar samkvæmt 41. gr.
9. Aðildarríki þau sem í hlut eiga skulu bera að jöfnu allan kostnað sáttanefndarmannanna í samræmi við útreikning sem aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna lætur í té.
10. Aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna skal heimilt að greiða kostnað sáttanefndarmannanna, ef nauðsyn krefur, áður en endurgreiðsla af hálfu hlutaðeigandi aðildarríkja er innt af hendi í samræmi við 9. mgr. þessarar greinar.

43. gr. Þeir sem sæti eiga í mannréttindanefndinni og sérstökum sáttanefndum sem skipaðar kunna að vera samkvæmt 42. gr. skulu eiga rétt á aðstöðu, sérréttindum og griðhelgi sérfræðinga í erindagerðum fyrir Sameinuðu þjóðirnar svo sem ákveðið er í þeim köflum samnings um réttindi og griðhelgi Sameinuðu þjóðanna sem við eiga.

44. gr. Ákvæði um framkvæmd samnings þessa skulu eigi hafa áhrif á neina þá meðferð sem mælt er fyrir um á sviði mannréttinda samkvæmt stofnskrá og samningum Sameinuðu þjóðanna og sérstofnananna og skulu ekki vera því til fyrirstöðu að ríki sem eru aðilar að samningi þessum leiti annarra úrræða til lausnar deilumáls í samræmi við almenna eða sérstaka alþjóðasamninga sem í gildi eru milli þeirra.

45. gr. Nefndin skal leggja ársskýrslu um starfsemi sína fyrir allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna fyrir milligöngu fjárhags- og félagsmálaráðsins.

V. hluti.

46. gr. Ekkert ákvæði samnings þessa skal túlkað svo að það skerði ákvæði sáttmála Sameinuðu þjóðanna né ákvæði stofnskráa sérstofnananna sem skilgreina skyldur hinna ýmsu stofnana Sameinuðu þjóðanna og sérstofnananna með tilliti til málefna sem fjallað er um í samningi þessum.

47. gr. Ekkert ákvæði samnings þessa skal túlkað svo að það skerði þann rétt sem öllum þjóðum ber til þess að njóta og hagnýta til fullnustu og óhindrað náttúruauðæfi sín og auðlindir.

VI. hluti.

48. gr. 1. Þessi samningur skal liggja frammi til undirskriftar fyrir öll þau ríki sem aðilar eru að Sameinuðu þjóðunum eða sérstofnunum þeirra, fyrir aðildarríki að samþykktum Alþjóðadómstólsins og fyrir sérhvert það ríki sem allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hefur boðið að gerast aðili að samningi þessum.
2. Fullgilda skal samning þennan. Fullgildingarskjöl skal afhenda aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til varðveislu.
3. Samningur þessi skal liggja frammi til aðildar fyrir hvert það ríki sem vikið er að í 1. mgr. þessarar greinar.
4. Aðild skal öðlast gildi með því að aðildarskjal er afhent aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.
5. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal tilkynna öllum þeim ríkjum sem undirritað hafa þennan samning eða gerst aðilar að honum um afhendingu sérhvers fullgildingar- eða aðildarskjals.

49. gr. 1. Samningur þessi skal öðlast gildi þremur mánuðum eftir þann dag sem þrítugasta og fimmta fullgildingar- eða aðildarskjalið er afhent aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til varðveislu.
2. Nú fullgildir ríki samning þennan eða gerist aðili að honum eftir afhendingu þrítugasta og fimmta fullgildingar- eða aðildarskjalsins til varðveislu og skal þá þessi samningur öðlast gildi gagnvart því ríki þremur mánuðum eftir þann dag sem það afhendir sitt eigið fullgildingar- eða aðildarskjal til varðveislu.

50. gr. Ákvæði samnings þessa skulu ná til allra hluta sambandsríkja án nokkurra takmarkana eða undantekninga.

51. gr. 1. Hvert það ríki sem aðili er að samningi þessum má bera fram breytingartillögu og fá hana skráða hjá aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal þá koma frambornum breytingartillögum til ríkja sem aðilar eru að samningi þessum ásamt tilmælum um að þau tilkynni honum hvort þau séu því hlynnt að haldin verði ráðstefna aðildarríkjanna til þess að athuga og greiða atkvæði um tillögurnar. Ef að minnsta kosti einn þriðji aðildarríkjanna er hlynntur slíkri ráðstefnu skal aðalframkvæmdastjórinn kalla saman ráðstefnuna undir umsjá Sameinuðu þjóðanna. Sérhver breytingartillaga sem samþykkt er af meiri hluta þeirra aðildarríkja sem viðstödd eru og greiða atkvæði á ráðstefnunni skal lögð fyrir allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna til samþykktar.
2. Breytingartillögur skulu öðlast gildi þegar þær hafa verið samþykktar af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og af tveimur þriðju hlutum ríkja þeirra sem aðilar eru að samningi þessum í samræmi við stjórnskipunarhætti þeirra hvers um sig.
3. Þegar breytingartillögur öðlast gildi skulu þær vera bindandi fyrir þau aðildarríki sem hafa samþykkt þær, en önnur aðildarríki skulu áfram bundin af ákvæðum þessa samnings og sérhverri fyrri breytingartillögu sem þau hafa samþykkt.

52. gr. Án tillits til tilkynninga samkvæmt 5. mgr. 48. gr. skal aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna tilkynna öllum þeim ríkjum sem vikið er að í 1. mgr. þeirrar greinar um eftirfarandi atriði:
(a) undirskriftir, fullgildingar og aðildir samkvæmt 48. gr.;
(b) gildistökudag þessa samnings samkvæmt 49. gr. og gildistökudag sérhverra breytingartillagna samkvæmt 51. gr.

53. gr. 1. Samningi þessum skal komið til varðveislu í skjalasafni Sameinuðu þjóðanna og eru textarnir á kínversku, ensku, frönsku, rússnesku og spönsku jafngildir.
2. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal senda öllum þeim ríkjum sem vikið er að í 48. gr. staðfest afrit samnings þessa.

Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16