Eignarétturinn er afar umdeildur. Hann er mótsagnakenndur, því margir álíta eignaréttinn sem mikilvæg mannréttindi á meðan aðrir líta á hann sem verkfæri til misnotkunar. Jafnvel einungis rétt þeirra sem hafa yfir eignum að ráða en ekki þeirra sem eru eignarlausir. Eignarétturinn er flókinn og hann tengist mörgum öðrum réttindum, eins og borgaralegum réttindum, félagslegum réttindum, réttinum til lífsgæða, réttinum til þess að geta aflað sér lífsviðurværis með vinnu, réttinum til menntunar og réttinum til mannsæmandi húsaskjóls.
Á Vesturlöndunum er eign einstaklinga grunnurinn að þjóðfélagslegu skipulagi. Eignir eru mikilvægar fyrir samfélagið og eru grunnurinn að hagkerfi þjóðanna. En á sama tíma og mikilvægi eigna er mikið þá hafa fjölmörg lög tekið gildi sem stefna að því að verja einstaklinga gegn misnotkun af völdum eigna. Enn er þó skortur á lögum sem vinna sérstaklega að uppsöfnun eigna. Þegar miklar eignir komast á hendur fárra er mikilvægt að gæta að réttindum þeirra sem eru undir þessum eignum komnir.
Þó að eignarétturinn sé flókinn og mjög mótsagnakenndur í eðli sínu, hefur venjan orðið sú að fólk, sérstaklega Vesturlandabúar telja mikilvægt að eignarétturinn sé verndaður með lögum. Eignir eru álitnar mikilvægar til þess að viðhalda efnahag ríkja sem og öryggi einstaklinganna sem í þeim búa.
Í fátækari ríkjum heims þar sem iðnaður er skammt á veg kominn eru eignir að stórum hluta bundnar í landsvæðum. Skortur á landsvæðum er mikið vandamál fyrir íbúa þessara ríkja, í ljósi þess að aðgangur að landi er grunnur að velferð þeirra.
Eign eða leiga á landsvæði tryggir mörgum einstaklingum öryggi og afkomuvernd. Það er því ekki undarlegt að landsvæði séu eitt helsta bitbein íbúa þessa heimshluta. Margir hafa neyðst til að flytjast nauðugir af því landi sem þeir búa á.
Í mörgum fátækari ríkjum heims hefur mikill misbrestur orðið á skráningu landsvæða sem leitt hefur til þess að einstaklingar sem jafnvel hafa búið á ákveðnu landi í áratugi eru neyddir til að halda á brott. Þar sem réttur þeirra er ekki skráður, þá er pálminn í höndum þeirra sem ásælast landið. Dæmi eru einnig um að vegna skorts á skráningu hefur mörgum ættbálkum verið meinaður aðgangur að vatnsbólum sem þeir hafa áður haft aðgang að, jafnvel kynslóðir aftur í tímann. Einstaklingar í þessari aðstöðu og þá sérstaklega frumbyggjar eru sérstaklega viðkvæm fórnarlömb, þar sem lítið er gert til þess að gæta að réttindum þeirra.
Eignaréttur og íslenskur réttur
Í 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar er eignarétturinn lýstur friðhelgur. Ákvæðið segir að engan megi skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Er það þó gert að skilyrði að lagaheimild sé fyrir hendi og að fullt verð komi fyrir. Ákvæði 72. gr. tryggir eiganda fullar bætur við eignarnám og þær skerðingar sem að jafnaði verður til eignarnáms. Meginregla íslensks réttar hefur þó verið sú að 72. gr. stjórnarskrárinnar taki ekki til hinna svokölluðu almennu takmarkana á eignarétti og leiði þar af leiðandi ekki til bótaskyldu. Löggjafinn hefur þó gert ráð fyrir greiðslu bóta í ákveðnum tilvikum, eins og þegar um mjög íþyngjandi skerðingu er að ræða.