Samningsviðauki nr. 4 við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis

Samningsviðauki nr. 4 við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis með breytingum skv. samningsviðauka nr. 11, um tiltekin önnur mannréttindi en greinir þegar í samningnum og samningsviðauka nr. 1 við hann (1963), SES nr. 46

 

Strassborg, 16. IX. 1963 - Safn Evrópusamninga/46
Fyrirsögnum greina bætt við og texta breytt í samræmi við ákvæði samningsviðauka nr. 11 (SES nr. 155), frá og með gildistöku hans 1. nóvember 1998.
Birtist í lögum nr. 25/1998.


Aðildarríki Evrópuráðs, þau er hér undirrita og ákveðið hafa að gera ráðstafanir til þess að tryggja sameiginlega vernd tiltekinna réttinda og mannfrelsis umfram það er þegar greinir í I. kafla samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, er undirritaður var í Róm 4. nóvember 1950 (og hér eftir nefnist "samningurinn"), og í 1., 2. og 3. gr. samningsviðauka nr. 1 við samninginn er undirritaður var í París 20. mars 1952,

hafa orðið ásátt um eftirfarandi:


1. gr. – Bann við skuldafangelsi
Engan mann má svipta frelsi af þeirri ástæðu einni að hann getur ekki staðið við gerða samninga.

2. gr. – Ferðafrelsi
1. Öllum þeim sem á löglegan hátt eru staddir á landi einhvers ríkis skulu frjálsir ferða og dvalarstaðar þar í landi.
2. Öllum ber réttur til brottfarar úr landi, einnig úr eigin landi.
3. Eigi má leggja nokkrar hömlur á vernd slíkra réttinda, umfram það sem lög standa til og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis eða almannaheilla, í þágu allsherjarreglu, til að firra glæpum, til verndar heilsu manna eða siðgæði eða réttindum og frelsi annarra.
4. Réttindi þau, er greinir í 1. mgr., geta á tilteknum landsvæðum sætt takmörkunum, svo fremi að þeim sé beitt að lögum og séu réttlætanlegar vegna almennra hagsmuna í lýðræðislegu þjóðfélagi.

3. gr. – Bann við brottvísun eigin borgara
1. Eigi má vísa nokkrum manni úr landi þess ríkis sem hann er þegn í, hvort heldur sem einstaklingi eða samkvæmt ráðstöfun sem beinist gegn hópi manna.
2. Eigi má banna nokkrum manni að koma til þess ríkis sem hann er þegn í.

4. gr. – Bann við hópbrottvísun útlendinga
Bannað er að gera hópa útlendinga landræka.

5. gr. – Svæðisbundið gildissvið
1. Heimilt er aðildarríkjum, um leið og þau undirrita samningsviðauka þennan, eða hvenær sem er síðar, að afhenda aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðs yfirlýsingu um það að hve miklu leyti þau ábyrgist, að ákvæði samningsviðauka þessa nái til þeirra landsvæða, er þau fara með utanríkismál fyrir og nefnd eru í yfirlýsingunni.
2. Aðildarríki, sem afhent hefur yfirlýsingu samkvæmt næsta tölulið á undan, getur hvenær sem er afhent aðra yfirlýsingu um breytingar á fyrri yfirlýsingu eða um uppsögn á gildi samningsviðauka þessa gagnvart einhverju landsvæði.
3. Yfirlýsing, sem fram er lögð samkvæmt þessari grein, telst vera gerð í samræmi við 1. mgr. 56. gr. samningsins.
Texta breytt í samræmi við ákvæði samningsviðauka nr. 11 (SES nr. 155).
4. Landsvæði hvers ríkis, sem þessi samningsviðauki nær til samkvæmt fullgildingu eða samþykki ríkis, og hvert landsvæði, sem hann nær til samkvæmt yfirlýsingu ríkis í samræmi við grein þessa, ber að skoða sem aðgreind landsvæði að því er varðar ákvæðin í 2. og 3. gr. um landsvæði ríkis.
5. Hvert það ríki sem gefið hefur yfirlýsingu í samræmi við 1. og 2. mgr. þessarar greinar getur hvenær sem er síðar lýst því yfir vegna eins eða fleiri landsvæða þeirra sem yfirlýsingin tekur til, að það fallist á að dómstóllinn sé bær um að taka við kærum frá einstaklingum, samtökum eða hópum einstaklinga skv. 34. gr. samningsins varðandi
1.–4. gr. þessa samningsviðauka, eina eða allar.
Texta bætt við í samræmi við ákvæði samningsviðauka nr. 11 (SES nr. 155).

6. gr. – Tengsl við samninginn
Texta breytt í samræmi við ákvæði samningsviðauka nr. 11 (SES nr. 155).
Aðildarríkja í milli skal líta á ákvæði 1. til 5. gr. þessa samningsviðauka sem viðaukagreinar við samninginn, og skulu öll ákvæði hans gilda í samræmi við það.

7. gr. – Undirritun og fullgilding
1. Samningsviðauki þessi liggur frammi til undirskriftar þeim aðildarríkjum Evrópuráðs sem undirritað hafa samninginn. Skal fullgilda hann um leið og samninginn eða síðar. Skal hann öðlast gildi þegar fimm fullgildingarskjöl hafa verið lögð fram. Nú fullgilda ríki hann síðar og gengur hann í gildi gagnvart þeim þann dag sem fullgilding er fram lögð.
2. Fullgildingarskjöl ber að afhenda aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðs, og tilkynnir hann öllum aðildarríkjum um hver þeirra fullgilt hafi.


Þessu til staðfestu hafa undirritaðir, sem til þess hafa fullt umboð, ritað undir samningsviðauka þennan.

Strassborg, 16. dag septembermánaðar 1963, á ensku og frönsku – jafngildir textar báðir – í einu eintaki sem geyma ber í skjalasafni Evrópuráðs. Skal aðalframkvæmdastjóri láta öllum ríkjum, er undirritað hafa, staðfest afrit í té.

Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16