Norrænt samstarf

 Hugmyndin að stofnun Mannréttindaskrifstofu Íslands kviknaði í kjölfar þess, að Norrænt mannréttindaþing var haldið hér á landi, á Laugarvatni, árið 1992. Að því stóðu eftirfarandi norrænar mannréttindastofnanir:
 
*Danska Mannréttindaskrifstofan í Kaupmannahöfn (Det Danske Center for Menneskerettigheder) Damörku.

*Mannréttindastofnun Abo Akademi háskólans í Turku (The Institute for Human Rights Abo Akademi University) í Finnlandi.

*Norska mannréttindastofnunin (Det Norske Institutt for menneskerettigheter) í Osló, Noregi.

*Raoul Wallenberg Mannréttindastofnunin (The Raoul Wallenberg Institute of Human Rights and Humanitarian Law) í Lundi , Svíþjóð.

Íslenskir einstaklingar sáu um undirbúning þingsins með styrk frá íslenskum stjórnvöldum.

Eftir ráðstefnuna hvöttu norrænu stofnanirnar eindregið til þess að stofnuð yrði sérstök mannréttindaskrifstofa á Íslandi, sem gæti orðið einskonar systurstofnun þeirra. Veittu þær margvíslega aðstoð og stuðning til þess að svo mætti verða. Framkvæmdastjórar þeirra héldu sérstakan fund á Íslandi 1994 og voru viðstaddir síðasta undirbúningsfundinn þar sem endanleg ákvörðun var tekin um stofnun skrifstofunnar.
Hefur samstarf skrifstofunnar við þær verið náið æ síðan, reyndar farið sívaxandi og verið henni mikils virði.

Sem dæmi má nefna að; 
*MRSÍ tekur þátt í samráðsfundum framkvæmdastjóra norrænu stofnananna nokkrum sinnum á ári. Síðustu fundir þeirra voru í Kaupmannahöfn í nóvember 2001 og Lundi í mars 2002. Í framhaldi af fundinum í Kaupmannahöfn var haldinn sérstakur fundur þeirra með Mary Robinson, umboðsmanni Sameinuðu þjóðanna í mannréttindamálum og í framhaldi af fundinum í Lundi var sérstakur fundur með fulltrúum utanríkisráðuneyta Norðurlanda.

*MRSÍ á aðild að samnorrænu upplýsinganeti, sem opnað var í lok ársins 2001 og getur komið þar á framfæri upplýsingum um starfsemi sína auk þess það tengist heimasíðu skrifstofunnar.

*Á afmælisári Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna stóðu Norrænu skrifstofurnar sameiginlega að útgáfu bókarinnar "The Universal Declaration of Human Rights - A Common Standard of Achievements," sem í er umfjöllun um hverja einstaka grein Mannréttindayfirlýsingarinnar. Ritstjórar voru Guðmundur Alfreðsson og Asbjörn Eide, sem báðir voru einnig meðal höfunda. Aðrir Íslendingar meðal höfunda eru; Ágúst Þór Árnason, Gunnar G. Schram., Jakob Th. Möller, Páll Þórhallsson og Ragnar Aðalsteinsson.

*MRSÍ átti fulltrúa í ritstjórn norræna mannaréttindaritsins “Mennesker og rettigheder” sem gefið er út í Osló allt til ársins 2006.

*MRSÍ á fulltrúa í stjórn norrænnar rannsóknarmiðstöðvar sem stofnuð hefur verið með bækistöð hjá Abo Akademi háskólanum í Turku í Finnlandi.

*MRSÍ átti aðild að útgáfu rits um mannréttindamál í þróunarlöndum “Human rights in Development” sem var sameiginleg útgáfa átta Evrópskra mannréttindastofnana og kom út einu sinni á ári. 

Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16