Mannréttindaskrifstofan hélt utan um styrkt verkefni PROGRESS-áætlunar ESB fyrir árin 2012-2013 á Íslandi og var það í fimmta sinn sem skrifstofan tekur það að sér.
Styrkt verkefni fyrir árið 2013 voru fjölbreytt, t.d. verðlaunasamkeppni um merki Evrópuviku gegn rasisma, auglýsingaherferð í útvarpi og á samfélagsmiðlum, gerð stefnumarkandi áætlunar í mannréttindamálum hjá Akranes kaupstað, rannsókn á fjölþættri mismunun á vinnumarkaði, námskeið um mismunun fyrir stofnanir og sveitarfélög, kannanir, ráðstefnur og skýrslugerð.
Evrópuvika gegn kynþáttamisrétti
Evrópuvika gegn kynþáttamisrétti var haldin dagana 16. – 24. mars með viðburðum um gjörvalla Evrópu. Á Íslandi voru skipulagðir viðburðir á alþjóðlegum degi gegn kynþáttamisrétti þann 21. mars. Slagorðið að þessu sinni var: Hver segir að við pössum ekki saman?
Merki ársins var hannað af Stefaníu Ósk Ómarsdóttur, meistaranema í teiknimyndagerð við IDEC-Universitat Pompeu Fabra í Barcelona. Merkið, sem þótti afar vel gert, var prentað á boli og bæklinga sem dreift var til þátttakenda og annarra áhugsamra.
Dagurinn hófst með hádegistónleikum Jafnréttisnefndar stúdentaráðs í Stúdentakjallaranum þar sem Friðrik Dór söng fyrir gesti og gangandi, og einnig var bæklingum með fræðsluefni um kynþáttafordóma og kynþáttamisrétti dreift til gesta Stúdentakjallarans og nemenda á Háskólatorgi.
Mannréttindaskrifstofa hélt utan um viðburð seinna um daginn í Kringlunni. Þangað mættu ungmenni frá ýmsum deildum Rauða krossins og dreifðu bæklingum um kynþáttafordóma og fræddu fólk um málefnið. Einnig gáfu þau almenningi kost á það setja mark sitt á fingralistaverk og taka þátt leikjum tengdum fræðslu um kynþáttafordóma. Sjálfboðaliðasamtökin SEEDS héldu ljósmyndasýningu sem sjálfboðaliðar höfðu unnið að með þema vikunnar að leiðarljósi.
Auglýsingaherferð gegn mismunun
Skrifstofan stóð fyrir auglýsingaherferð gegn mismunun, eis og nokkur undanfarin ár, en í ár var hún með ögn breyttu sniði. Auk þess að vera með auglýsingarnar í útvarpi var svokölluðum vefborðum bætt við sem birtust á netmiðlum. Auglýsingin var tilbúin fyrir jól 2013 en til þess að hún týndist ekki í jólaflóðinu var hún sett í gang í janúar 2014.
Auglýsingaherferðin gekk undir nafninu „Það er ekkert EN“, sem tilvitnun í setningar eins og „Nú þekki ég fullt af þannig fólki, en ... „ þar sem áhersla var lögð á neikvæðar staðalmyndir og áhrif þeirra. Allar auglýsingarnar eru aðgengilegar á heimasíðu skrifstofunnar.
Nánari umfjöllun um auglýsingarnar má finna hér.