Evrópuráðið
Mannréttindakerfi Evrópu var sett á fót með stofnun Evrópuráðsins (CoE) þann 5. maí 1949. Eitt markmiðanna með stofnun Evrópuráðsins var að standa vörð um mannréttindi, lýðræði og grundvallarreglur réttarríkisins. Einnig var stefnt að því að koma á samningum og samræmi á milli Evrópuríkjanna á grundvelli félagslegra og lagalegra framkvæmda ásamt því að vinna að sameiginlegri evrópskri sjálfsmynd, sem byggja átti á sameiginlegum evrópskum gildum.
Ríki sem óska eftir því að verða þátttakendur í Evrópuráðinu þurfa að virða mannréttindi og þau grundvallarréttindi sem mannréttindasamningar kveða á um (skylda er að fullgilda Mannréttindasáttmála Evrópu). Einnig þurfa ríki að viðurkenna lýðræðislega stjórnarhætti, byggða á lögum og reglu.
Hlutverk Evrópuráðsins er að standa vörð um mannréttindi og lýðræði, ásamt því að stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum í öllum aðildarríkjunum. Til þess beitir Evrópuráðið fyrir sér samningum og samþykktum bindandi fjölþjóðasáttmála.