Rétturinn til lífs felur í sér tvenns konar réttindi.
Annars vegar felur hugtakið í sér að bann er lagt við því að taka mann af lífi. Hins vegar felur það í sér skylduna til þess að vernda réttinn til lífs.
Ríki skulu því beita öllum tiltækum aðferðum til þess að draga úr ungbarnadauða og auka lífslíkur einstaklinga. Ríkjum ber sérstaklega skylda til að uppræta vannæringu og koma í veg fyrir að farsóttir nái útbreiðslu.
Til þess að vernda réttinn til lífs er einnig mikilvægt að til staðar séu úrræði sem vinna að upprætingu ofbeldis í hvaða mynd sem það birtist.
Rétturinn til lífs og íslensk lög
Í Stjórnarskrá Íslands er ekki sérstaklega fjallað um réttinn til lífs, en í 2. mgr. 69. gr. segir að í lögum megi aldrei mæla fyrir um dauðarefsingu.
Í almennum hegningarlögum nr. 19/1940 er refsing lögð við því að svipta mann lífi. Enn fremur er í 221. gr. lögð refsing við því að koma manneskju, sem er í lífsháska, ekki til hjálpar.