Réttindi samkynhneigðra

Það var Danmörk sem rann á vaðið og varð fyrst landa til að setja lög um staðfesta samvist árið 1989. Í kjölfarið fylgdu önnur Norðurlönd, Noregur árið 1993, Svíþjóð árið 1995, Ísland árið 1996 og Finnland árið 2001. Svíþjóð var fyrst landa til að lögfesta rétt samkynhneigðra til frumættleiðinga en á Íslandi var slíkur réttur leiddur í lög í júní árið 2006.

Í þjóðveldislögum Íslendinga er hvergi getið um refsingar fyrir kynmök einstaklinga af sama kyni. Slíkt þótti þó svívirðilegt því að í Grágás er nefnt að einu meiðyrði sem hefna mátti fyrir, var ásökun um bleyðimennsku eða aðra kynvillu, að maður yrði sagður ragur, stroðinn eða sorðinn. Í elstu norsku lögunum og í kristnirétti Jóns erkibiskups var refsing lögð við kynmökum tveggja karla. Þaðan barst síðan ákvæðið í kristnirétt Árna biskups og var hegningin samkvæmt kristnirétti útlegð og missir eigna, en ekki dauðarefsing.

Eftir siðaskiptin um miðja 16. öld var kristinréttur lagður niður. Ákvæði Stóradóms um refsingar fyrir siðferðisbrot giltu þá hér á landi í rúmlega 270 ár, frá 1565-1838. Þá var Stóridómur afnuminn og ákveðið var með tilskipun að hér á landi skyldu gilda dönsk hegningarlög eftir því sem við gæti átt. Árið 1869 tóku fyrstu heildstæðu hegningarlög Íslands gildi en þau voru að fyrirmynd danskra laga sem nýlega höfðu verið sett þar í landi. Í hegningarlögunum var refsing lögð við kynmökum tveggja einstaklinga af sama kyni án tillits til samþykkis þeirra og aldurs. Lagagrein nr. 178 gilti í rúmlega 70 ár, eða allt þar til ný hegningarlög voru samþykkt á Alþingi árið 1940. Tók lagagreinin jafnt til kynmaka tveggja einstaklinga af sama kyni og kynmaka við dýr, eins og tíðkaðist víða í Evrópu. Greinin hljóðaði svo; ,,samræði gegn náttúrulegu eðli varðar betrunarhúsavinnu”.

Þann 12. febrúar árið 1940 samþykkti Alþingi ný hegningarlög nr. 19/1940 og voru þau að danskri fyrirmynd. Með lögunum voru felld úr gildi ákvæði hegningarlaganna frá 1869 þar sem lögð var refsing við mökum tveggja einstaklinga af sama kyni en Ísland var annað Norðurlandanna til að afnema refsingar við mökum samkynhneigðra án tillits til aldurs þeirra eða samþykkis. Danir afnámu hliðstæð ákvæði árið 1930, Svíar 1944, Finnar 1971 og Norðmenn 1972. Írland var síðasta ríki Vestur- Evrópu til að afnema slík refsiákvæði, eða árið 1993.

Á síðastliðnum árum hefur mikil þróun orðið á réttarstöðu samkynhneigðra í þjóðfélaginu, hvort sem er á sviði löggjafar eða í samfélagslegu samhengi. Mikil breyting hefur orðið á viðhorfum almennings og töluvert hefur dregið úr fordómum í garð samkynhneigðra.

Í hegningarlögunum frá 1940 var kveðið á um samræðisaldur í kaflanum sem kallaður var Skírlífsbrot. Kynmök karls og konu utan hjónabands var gert refsilaust ef bæði voru orðin 16 ára. Væri karlinn eldri og konan yngri var það sakarefni karlsins. Með þessum sömu lögum var aldurinn 18 ára fyrir einstaklinga af sama kyni og varðaði allt að þriggja ára fangelsi fyrir þann sem eldri var, ef sannað var að einstaklingur hafði beitt yfirburðum vegna aldurs og reynslu til að koma öðrum af sama kyni til þess að taka þátt í mökunum og væri sá á aldrinum 18-21 árs, varðaði það allt að tveggja ára fangelsi. Lög þessi giltu í rúm fjörtíu ár, allt til ársins 1992, og var þeim ákvæðum er vörðuðu einstaklinga af sama kyni beitt þó nokkrum sinnum, nægjanlega oft til að stuðla að því að samkynhneigðir hræddust að stofna til náinna kynna við sína líka.

Í 45 ár var hvergi minnst á samkynhneigða í íslenskri löggjafarumræðu en eftir að Samtökin ´78 voru stofnsett hófst barátta fyrir bættri réttarstöðu homma og lesbía. Það var baráttunni til mikils stuðnings þegar Evrópuráðið samþykkti ályktun þann 1. október árið 1981 og þegar Norðurlandaráðið samþykkti svipaða ályktun 1. mars árið 1984. Báðar ályktanirnar fjölluðu um afnám misréttis gagnvart samkynhneigðum. Í Noregi hafði þá verið aukið við ákvæði í norskum hegningarlögum til verndar samkynhneigðum.

Áhrifa þessa gætti fljótlega á Íslandi, sérstaklega eftir fund Norðurlandaráðs lesbía og homma haustið 1983 sem haldið var í Reykjavík. Fundurinn sendi ályktun til Alþingis og ríkisstjórnar Íslands þar sem þess var krafist að unnið yrði að jafnréttis- og verndarlöggjöf fyrir samkynhneigða. Einnig var þess krafist að mannréttindasamþykktir Evrópuráðsins og sameinuðu þjóðanna um afnám misréttis gagnvart minnihlutahópum yrðu virktar.

Það var síðan árið 1985 að þingsályktunartillaga um afnám misréttis gagnvart samkynhneigðu fólki var í fyrsta sinn borin fram á Alþingi af þingmönnum allra stjórnmálaflokka nema Sjálfstæðisflokks. Tillögunni var vísað til allsherjanefndar en dagaði þar uppi.

Straumhvörf í réttindabaráttu samkynhneigðra urðu þegar Alþingi gaf í annað sinn frá sér ályktun um málefni samkynhneigðra þann 19. maí árið 1992. Tillagan var samhljóða þeirri frá 1985 og var hún flutt af fulltrúum allra stjórnmálaflokka. Með ályktuninni var Alþingi að lýsa yfir vilja sínum til þess að tryggja að misrétti gagnvart samkynhneigðum ætti sér ekki stað. Í kjölfar ályktuninnar setti ríkisstjórnin á fót nefnd sem gerði ítarlega úttekt á stöðu samkynhneigðra í samfélaginu útfrá lagalegu, menningarlegu og félagslegu sjónarhorni. Skýrslan myndaði síðan grundvöll fyrir þeirri löggjafarvinnu sem varðaði samkynhneigða í lok 20. aldarinnar. Ásamt því gerði nefndin tillögur um úrbætur á stöðu samkynhneigðra innan samfélagsins.

Sama dag og þingsályktunartillagan í maí árið 1992 var samþykkt voru einnig samþykktar af Alþingi róttækar breytingar á hegningarlögunum. Kaflinn, sem áður hét skírlífisbrot, var endurtitlaður sem kynferðisbrot og voru ýmsar breytingar og nýmæli að finna í honum. Í honum er samræðisaldur ákvarðaður 15 ár. Kynmök einstaklinga sem eru 15 ára og eldri eru því refsilaus ef þau eru að vilja beggja aðila. Nú er ekki lengur gerður munur á aðilum brots eftir kyni og öll mismunun gagnvart samkynhneigðum varðandi samræðisaldur heyrir nú sögunni til.

Að tillögu nefndarinnar um málefni samkynhneigðra frá 1994 var mótað lagafrumvarp um staðfesta samvist og samvist fólks af sama kyni og það lagt fram á Alþingi. Lög um staðfesta samvist nr. 87/1996 voru samþykkt og tóku gildi þann 27. júní 1996. Staðfest samvist var jafngild hjónabandi gagnkynhneigðra með þeim undantekningum að ættleiðingar og tæknifrjóvganir voru ekki heimilar. Einungis borgaralegum vígslumönnum en ekki kirkjulegum var heimilt að staðfesta samvist fólks af sama kyni.

Haustið 1996 lagði dómsmálaráðherra frumvarp fyrir Alþingi sem fól í sér breytingar á 180. gr. og 233. a. gr. almennra hegningarlaga en þær fjalla um mismunun vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða vegna kynhneigðar. Fór svo að frumvarpið var samþykkt og þar með gert refsivert að neita fólki um vöru eða þjónustu vegna kynhneigðar þess og óheimilt að ráðast opinberlega með háði, rógi, smánun eða með ógnunum á mann eða hóp manna vegna kynhneigðar.

Lögum um staðfesta samvist var fyrst breytt árið 2000 og var með breytingunum m.a. rýmkaður réttur útlendinga sem búsettir eru hér á landi til að staðfesta samvist sína ásamt því að kveðið var á um gagnkvæmt gildi löggerningsins í öðrum ríkjum sem búa við samsvarandi lög. Jafnframt var samkynhneigðum aðilum heimilt að ættleiða barn maka sinna. Mikilvægar breytingar voru svo gerðar árið 2006 þar sem samkynhneigðum pörum var heimilt að ættleiða börn samkvæmt ættleiðingarlögum, nr. 130/1999, og lesbískum pörum var heimil aðstoð við tæknifrjóvgun samkvæmt lögum um tæknifrjóvgun, nr. 55/1996. Samstaða var um að engin rök væru fyrir því að samkynhneigðir aðilar væru síðri uppalendur en gagnkynhneigðir. Lögin útrýmdu því þeirri mismunun sem samkynhneigðir urðu fyrir þegar kom að ættleiðingum barna og tæknifrjóvgunum. Árið 2008 voru aðrar mikilvægar breytingar gerðar á lögunum og var þá prestum og forstöðumönnum skráðra trúfélaga veitt heimild til að staðfesta samvist.

Með ofangreindum breytingum var réttarstaða samkynhneigðra í staðfestri samvist orðin að mestu leyti til samræmis við réttarstöðu karls og konu í hjúskap. Engu að síður var enn gerður greinarmunur á einstaklingum af gagnstæðu kyni annars vegar og einstaklingum af sama kyni hins vegar, t.d. með því að nota mismunandi hugtök um fjölskylduform gagnkynhneigðra og samkynhneigðra. Með því að nota mismunandi hugtök á þennan hátt gaf það til kynna að grundvallarmunur væri á fólki eftir kynhneigð þess.  

Eitt stærsta skrefið í réttindabaráttu samkynhneigðra var tekið árið 2010 þegar Alþingi samþykkti að ein hjúskaparlög skyldu gilda um alla. Með þessum breytingum féllu lög um staðfesta samvist úr gildi og í hjúskaparlögum nr. 31/1993 segir nú að lögin gildi um hjúskap ,,tveggja einstaklinga" en ekki ,,karls og konu" eins og áður. Lögin gilda því um hjúskap allra, burtséð frá kyni eða kynhneigð.

Miklir lagalegir ávinningar hafa orðið á Íslandi á síðastliðnum árum og áratugum og gildismat þjóðarinnar gagnvart samkynhneigð hefur tekið miklum breytingum. Óhætt er að segja að Ísland standi einna fremst þegar kemur að réttindum samkynhneigðra og fylgja fast á hæla Hollendinga, Svía og Dana.

 

Greinin er að hluta til unnin upp úr tveimur greinum sem birtar eru á vef Samtakanna '78. Þorvaldur Kristinsson. ,,Löggjöf og pólitísk barátta" og Rannveig Traustadóttir. ,,Samkynhneigðir og rétturinn til fjölskyldulífs".


Skýrsla um réttarstöðu samkynhneigðra; Nefnd um réttarstöðu samkynhneigðs fólks sem forsætisráðherra skipaði 8. september 2003  í samræmi við ályktun Alþingis frá 11. mars 2003 sem fól ríkisstjórninni að skipa nefnd til þess að gera úttekt á réttarstöðu samkynhneigðs fólks á Íslandi. Nefndin átti jafnframt gera tillögur um úrbætur og nauðsynlegar aðgerðir til þess að jafna stöðu samkynhneigðra og gagnkynhneigðra í samfélaginu. Skýrsluna er að finna á vef forsætisráðuneytisins hér.

Réttindi transgender fólks á Íslandi; MRSÍ vann skýrslu árið 2012 með það markmið að kanna réttarstöðu trans einstaklinga hér á landi og koma með tillögur að úrbótum í málaflokknum. Skýrsluna er hægt að nálgast á skrifstofu MRSÍ en einnig hér á vefnum sem pdf skjal.

Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16