Menntun telst til mannréttinda í sjálfu sér og á sama tíma er hún nauðsynleg til skilnings á mannréttindum. Menntun er grunnurinn að því að fólk fái notið þeirra samfélagslegu gæða sem í kringum það er, hvort sem gæðin eru efnahagsleg, félagsleg eða menningarleg. Menntun getur gefið einstaklingum tækifæri til að brjótast úr fátækt og hún gefur þeim líka tækifæri til að vera virkir þátttakendur í þjóðfélaginu sem þeir tilheyra, til dæmis með þátttöku í kosningum.
Menntun er mikilvæg til að auka réttindi kvenna með því að virkja þær og efla. Menntun er einnig mikilvæg til þess að vernda börn gegn hvers konar misnotkun, hún er mikilvæg til þess að virkja mannréttindi, lýðræðið og jafnframt því eykur hún skilning fólks á mikilvægi umhverfisverndar.
Réttur til menntunar felur í sér félagslegan rétt og rétt til frelsis. Félagslegi rétturinn leggur þá skyldu á ríki að þau bjóði upp á fjölbreytta gjaldfrjálsa menntun og að einstaklingar hafi góðan aðgang að menntakerfinu. Rétturinn til frelsis tekur til sjálfstæðis menntastofnana sem og frelsi einstaklinga til þess að velja þá menntun sem hentar börnum þeirra eða þeim sjálfum. Val byggist oft á siðferðislegum og trúarlegum gildum og til þeirra þátta ber ríkinu að taka tillit til.
Réttur til menntunar og íslenskur réttur
Núgildandi ákvæði stjórnarkrárinnar um menntun eiga sér langa sögu. Þegar mannréttindakafla stjórnarskrárinnar var breytt árið 1995 var ákvæði um rétt til menntunar sett í 2. mgr. 76. gr. Ákvæðið var ekki nýtt af nálinni, því eldra ákvæði var endurskoðað, en það hafði nánast staðið óbreytt frá árinu 1874. Gamla ákvæðið fjallaði um skyldu til uppfræðslu vegna bágs fjárhags, en í því sagði að hefðu foreldrar ekki efni á að fræða sjálfir börn sín eða séu þau munaðarlaus og öreigar væri skylt að sjá þeim fyrir uppfræðingu af almannafé. Með núgildandi stjórnarskrárákvæði var verulegu bætt við þennan rétt og hljóðar 2. mgr. 76. gr. svo; ,, öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi.” Er ákvæðinu ætlað að tryggja að allir hafi aðgang að almennri menntun. Með því er þó átt við aðra menntun en sérnám, eins og nám á háskólastigi og annað sérhæft framhaldsnám.
Samkvæmt lögum er skylda lögð á sveitarfélög að halda grunnskóla fyrir öll börn og unglinga á aldrinum 6 -16 ára, fái þau ekki hliðstæða kennslu annars staðar. Þó skólaskyldan nái einungis til grunnskólastigsins þá skulu þeir sem honum hafa lokið eiga kost á því að hefja nám í framhaldsskóla, samanber 1. mgr. 32. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008.