Réttur til heilsuverndar

Iðnbyltingin leiddi til grundvallarbreytinga á samfélögum hins Vestræna heims. Í kjölfarið spruttu upp margs konar verksmiðjur og gömlu landbúnaðarsamfélögin tóku stakkaskiptum. Þessi mikla bylting hafði í för með sér ýmsa fylgifiska. Marga jákvæða, líkt og aukinn hagvöxt og betri lífsgæði fyrir almúgann, en nýjungarnar áttu líka á sér dekkri hliðar. Iðnaðinum fylgdi mikil óþrif þar sem hreinlætiskerfi borganna var ekki í takt við þá framþróun sem átt hafði sér stað. Fólk vann myrkranna á milli og margir við óviðunandi aðstæður sem yfirleitt voru mjög skaðlegar heilsu þeirra. Þessi heilsufarslegu vandamál ýttu undir þörfina á að ríkið tæki að sér almenna heilsugæslu. Fyrsta löggjöfin á þessu sviði var sett í Bretlandi, en þar hafði verið þrýst á stjórnvöld og þess krafist að brugðist yrði við þeim heilsufarslegu vandamálum sem iðnbyltingunni fylgdi.

Alþjóðasamfélagið viðurkenndi heilsuvernd sem mannréttindi á alþjóðaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna árið 1945. Það var svo árið 1946 sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin var sett á fót. Var það fyrsta alþjóðastofnunin sem sérstaklega fjallaði um heilsuvernd sem mannréttindi.

Samkvæmt mannréttindasamningum Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar fela réttindi til heilsuverndar í sér að:

Öllum ríkjum, óháð aðstæðum þeirra, er skylt að veita þjóðfélagsþegnum grunnþjónustu líkt og:

a) aðgang að mæðraeftirliti og barnaeftirliti; b) bólusetningu gegn helstu smitsjúkdómum; c) viðunandi læknisþjónustu vegna algengra sjúkdóma og meiðsla;     d) aðgang að lyfjum; e) viðunandi magn af ómenguðu vatni og grunnhreinlætisaðstöðu;  f) vernd gegn alvarlegum umhverfishættum.

Ásamt þessum grunnþáttum eru fjölmörg atriði sem ber að hafa að leiðarljósi þegar réttindi til heilsuverndar eru annarsvegar:

  1. aðgangur að heilsugæslu,
  2. fjárhagslegur, landfræðilegur og menningarlegur aðgangur að heilbrigðisþjónustu,
  3. heilbrigðisþjónustan þarf að uppfylla ákveðin gæðaskilyrði,
  4. jafn aðgangur að þeirri heilbrigðisþjónustu sem í boði er.
Á Íslandi eru fjölmörg lög sem að fjalla um þessi málefni á einn eða annan hátt ber helst að nefna lög um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007 og lög um réttindi sjúklinga nr. 74/1997

Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16