Fangar og frelsissviptir

Meðferð frelsissviptra einstaklinga

Meginlöggjöf á þessu sviði eru lög um fullnustu refsinga nr. 49/2005. Er þar fjallað um stjórn og skipulag fangelsismála, atriði sem varða fangavistina og um réttindi fanga og samfélagsþjónustu. En einnig snerta almenn hegningarlög nr. 19/1940, Evrópusamningur um framsal sakamanna og Samningur um flutning dæmdra manna málefni fanga.

Á Íslandi eru fimm fangelsi sem vistað geta alls 136 fanga og er þar með talið fangar í afplánun sem og í gæsluvarðhaldi.

Innanríkisráðherra fer með yfirstjórn fangelsismála, en Fangelsismálastofnun sér um fullnustu refsinga ásamt því að hafa umsjón með rekstri fangelsa. Fangelsismálastofnun hefur einnig eftirlit með þeim sem frestað er ákæru gegn, þeim sem dæmdir eru skilorðsbundið, fá skilorðsbundna reynslulausn, náðun, frestun afplánunar eða gegna samfélagsþjónustu.

Við upphaf afplánunar skal afhenda fanga og kynna, á því tungumáli sem hann skilur, samantekt um þær reglur sem um afplánun gilda, um réttindi og skyldur fanga, vinnu og nám sem föngum stendur til boða, reglur viðkomandi fangelsis, hvaða háttsemi varðar agaviðurlögum, um meðferð slíkra mála, upplýsingar um hvert fangi getur skotið ákvörðunum er varða fullnustu refsingarinnar og upplýsingar um heimild til að beina kvörtunum til umboðsmanns Alþingis, sem og rétt fanga til að hafa samband við lögmann.

Vinna í fangelsi

Fanga er rétt og skylt, eftir því sem aðstæður leyfa, að stunda vinnu eða aðra viðurkennda starfsemi í fangelsi. Er það í höndum forstöðumanns fangelsis að ákveða hvaða vinnu fanga er falið að inna af hendi. Þegar ákvörðun er tekin um vinnu fanga skal tekið tillit til aðstæðna hans og óska eftir því sem unnt er. 

Nám og starfsþjálfun

Fangi skal eiga kost á því að stunda nám, starfsþjálfun eða taka þátt í annarri starfsemi sem fram fer í fangelsi eftir því sem unnt er og hann telst hæfur til. Reglubundið nám kemur í stað vinnuskyldu. 

Heilbrigðisþjónusta

Í fangelsum skulu fangar njóta sambærilegrar heilbrigðisþjónustu og almennt gildir, auk þeirrar sérstöku heilbrigðisþjónustu sem lög og reglur um fanga segja til um. 

Samfélagsþjónusta

Samfélagsþjónusta felur í sér tímabundið ólaunað starf í þágu samfélagsins sem kemur í stað afplánunar í fangelsi. Samfélagsþjónusta leggur þá skyldu á brotamann að inna af hendi launalausa vinnu í ákveðinn tímafjölda á tilgreindu tímabili. Samfélagsþjónustan hefur þann kost að brotamaður getur haldið sambandi við fjölskyldu, stundað vinnu sína eða nám á meðan hann afplánar refsinguna. Felst vinnan í líknar- eða hjálparstörfum og hefur uppeldislegt gildi fyrir brotamann og nýtist samfélaginu.

Heimsóknir og samskipti

Fangi getur fengið heimsóknir í fangelsi, eigi sjaldnar en vikulega eftir aðstæðum í hverju fangelsi fyrir sig.  Forstöðumanni fangelsis ber að skipuleggja aðstæður þannig að börn geti komið með í heimsóknir og að þeim sé sýnd nærgætni. Fangar eiga einnig rétt á símtölum við fólk utan fangelsins og að senda og taka við bréfum.

Erlendir fangar

Erlendur fangi á rétt á að hafa samband við sendiráð lands síns eða ræðismann þess. Ef fangi er ríkisfangslaus eða flóttamaður skal fangelsi aðstoða hann við að hafa samband við fulltrúa innlendra eða alþjóðlegra stofnana sem gæta hagsmuna slíkra einstaklinga. Erlendur fangi á rétt á túlki þegar honum er gerð grein fyrir réttindum sínum og skyldum í afplánun. Hann á einnig rétt á að hafa samband við lögmann sinn með aðstoð túlks þegar þurfa þykir.

Trúariðkun

Fangi skal eiga kost á að hafa samband við prest eða annan sambærilegan fulltrúa skráðs trúfélags.

Talsmenn fanga

Fangar geta kosið sér talsmenn til að vinna að málefnum fanga og til að koma fram fyrir þeirra hönd.

Sálfræðiþjónusta

Tveir sálfræðingar eru í fullu starfi hjá Fangelsismálastofnun og er verksvið þeirra fjölbreytt. Þeir sinna sálfræðilegri meðferð skjólstæðinga stofnunarinnar. Sálfræðingar veita ráðgjöf varðandi vistun og meðferð og varðandi áfengis- og vímuefnameðferð fanga. Önnur verkefni þeirra eru t.d kennsla í Fangavarðaskólanum, fræðsla til starfsmanna, starfsmannamálefni og rannsóknir.

Fangaprestur

Fangaprestur er starfsmaður þjóðkirkju Íslands og var starf hans fyrst sett á laggirnar með lögum árið 1970. Þjónustu fangaprests má skipta í þrjá þætti. Í fyrsta lagi er það þjónusta kirkjunnar við fanga, í öðru lagi við fjölskyldu fanganna og í þriðja lagi sér fangaprestur um hefðbundið helgihald. Fangaprestur heimsækir reglulega öll fangelsi landsins og þar að auki réttargeðdeildina að Sogni.

Heimsóknir frá Rauða Krossinum

Fangar geta óskað eftir heimsóknum ,,fangavina” en þeir eru sjálfboðaliðar Rauða kross Íslands. Slíkar heimsóknir eru ætlaðar föngum sem litlar eða engar heimsóknir fá frá öðrum aðilum. Fangar geta einnig leitað til Rauða krossins og fengið notaðan fatnað bæði á meðan á fangelsisdvöl stendur og þegar henni er lokið.

Málefni fanga undir 18 ára aldri

Á Íslandi er ekkert unglingafangelsi. Fangar sem eru undir 18 ára aldri skulu vistaðir á heimili á vegum barnaverndaryfirvalda nema sérstakar ástæður séu til að vista þá í fangelsi. Þegar fangelsismálastofnun berst dómur til fullnustu þar sem dómþoli er yngri en 18 ára og er dæmdur í óskilorðsbundið fangelsi skal Barnaverndarstofu þegar í stað tilkynnt um það. 

 

Frekari upplýsingar er hægt að nálgast á heimasíðu Fangelsismálastofnunar og heimasíðu innanríkisráðuneytisins.

Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16