Útlendingar og fólk af erlendum uppruna

Ísland er á hraðri þróun í átt að auknum fjölbreytileika hvað varðar menningu, kynþætti, þjóðerni, tungumál og fleira. Í raun má segja að það sé liðin tíð að á Íslandi búi einsleit þjóð þar sem allir tala sama tungumál.

Fjölmargar ástæður liggja að baki auknum fjölbreytileika á Íslandi. Landamæri flestra landa hafa opnast og fólki gert auðveldara að flytjast búferlum á milli landa. Í sumum löndum er unnið markvisst að því að gera slíka flutninga auðveldari og má sjá dæmi þess víða í Evrópu. Önnur ástæða fyrir auknum fjölbreytileika eru stríðsátök og aðrar hörmungar sem hafa leitt til þess að straumur flóttamanna hefur aukist um allan heim. Skortur á vinnuafli er þó ein helsta ástæða búferlaflutninga. Margir Íslendingar ganga í hjónaband með útlendingum, og fjölskyldutengsl myndast milli landa. Fólksflutningar eru eðlilegur hluti af þessari þróun. Mannlífið verður sífellt fjölbreytilegra og menningin margþætt. Íslendingar flytjast sjálfir búferlum á sama tíma og útlendingar setjast að á Íslandi.

Ísland er hluti af alþjóðasamfélaginu og nálægðin við aðrar þjóðir er meiri en áður vegna aukinnar samskiptatækni og mun betri samgangna. Óhætt er að segja að nýjar aðstæður hafi skapast á Íslandi þar sem útlendingar setja mikinn svip á samfélagið. Á sama tíma hafa ný vandamál skotið upp kollinum sem virðast vera afleiðing þess að ólíkir menningarhópar koma saman.

Samþætting fjölmenningarlegs samfélags

Á síðastliðnum árum hafa viðhorf um það hvernig standa eigi að aðlögun og þátttöku útlendinga í samfélagi þar sem þeir eru í minnihluta tekið miklum breytingum. Á áttunda áratugnum var á Norðurlöndunum mikil þörf fyrir vinnuafl. Fólk flykktist þangað frá Suður-Evrópu og Asíu með von um vinnu og betra líf.

Í fyrstu var talið mikilvægt að innflytjendur tileinkuðu sér menningu og samfélag innfæddra. Aðskilnaður barna var jafnvel talinn æskilegur til þess að flýta fyrir því að barnið lærði tungumálið. Markmið þessarar stefnu var að gera útlendinga sem líkasta innfæddum í siðum og venjum þannig að þeir myndu samlagast nýrri menningu og tungu og segðu þar af leiðandi skilið við sína eigin.

Hugmyndafræðin sem er ríkjandi í dag byggir á því sem kallast samþætting. Með því er átt við að reynt er að koma til móts við þarfir útlendinga til að gera þeim kleift að vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Áhersla er lögð á að útlendingar missi ekki þau sérkenni sem þeir búa yfir, missi ekki tengsl við menningu sína og tungumál heldur eiga þessir þættir að fá notið sín  í samfélagi sem einkennist af fjölmenningu. Með því að viðurkenna ólíka menningu og virða hana þá styrkir það samfélagið í heild sinni. Nýjar hugmyndir koma fram, nýir hæfileikar líta dagsins ljós og hægt er að finna nýjar leiðir til að taka á vandamálum sem upp koma. Leiðin að markmiðum samþættingar byggja að miklu leyti á fræðslu, bæði fyrir Íslendinga sem og útlendinga. Fræðslan fjallar um það hvernig er að búa í fjölmenningarlegu samfélagi og hvernig megi koma í veg fyrir fordóma og mismunun. Á vettvangi Evrópuráðsins var árið 1992 samþykktur samningur um þátttöku útlendinga í opinberu lífi í sveitarfélögum sem að fjallar einmitt um að útlendingar búsettir í ríki geti tekið virkan þátt í mannlífi og framþróun sveitarfélaga.

Mikilvægi íslenskukunnáttu

Óhætt er að segja að íslenskukunnátta sé lykill að þátttöku í íslensku samfélagi. Tungumálið er mikilvægasta tækið sem útlendingar geta nýtt sér til þess að verða virkir þátttakendur í samfélaginu. Íslenskukunnátta er grundvallarforsenda aðlögunar að íslensku samfélagi. Jafnframt þessu er íslenskukennsla mjög mikilvæg fyrir börn af erlendum uppruna og ef henni er ekki sinnt er hætta á því að börn innflytjenda verði utanveltu í samfélaginu og ófær um að uppfylla þær kröfur sem íslensk menning gerir til ungs fólks. Það er einnig mjög mikilvægt að börn fái kennslu í sínu móðurmáli svo þau tapi ekki niður geti og taki framförum og læri meira en aðeins grunn. Í rannsóknum og viðtölum við fólk hefur ítrekað komið fram að mikill meirihluti fólks vill læra íslensku en víða er framboð á námskeiðum mjög takmarkað.

Upplýsingamiðlun

Fjölmenningarsetur á Ísafirði hefur það hlutverk að greiða fyrir samskiptum fólks af ólíkum uppruna og efla þjónustu við innflytjendur sem búsettir eru á Íslandi. Verkefni Fjölmenningarseturs eru meðal annars að veita stjórnvöldum, stofnunum, fyrirtækjum, félögum og einstaklingum ráðgjöf og upplýsingar í tengslum við málefni innflytjenda, miðla upplýsingum til innflytjenda um réttindi þeirra og skyldur, fylgjast með þróun innflytjendamála í þjóðfélaginu, meðal annars með upplýsingaöflun, rannsóknum, greiningu og upplýsingamiðlun og koma á framfæri við ráðherra, innflytjendaráð og önnur stjórnvöld ábendingum og tillögum um aðgerðir sem hafa það að markmiði að allir einstaklingar geti verið virkir þátttakendur í samfélaginu óháð þjóðerni og uppruna.

Stofnanir sem koma að málum útlendinga

Menntamálaráðuneytið

Tungumálið er lykill að hverju samfélagi og einn mikilvægasti þáttur aðlögunar og löggjafinn leggur mikla áherslu á íslenskukennslu innflytjenda. Menntamálaráðuneytið fer með stefnumörkun varðandi íslensku sem annað tungumál og sérstaka íslenskukennslu.

Í 16. gr. laga um grunnskóla, nr. 91/2008, kemur fram að nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku eigi rétt á sérstakri kennslu í íslensku. Það er heimilt að veita þessum nemendum undanþágu frá því að þreyta samræmt próf í íslensku í 4. og 7. bekk hafi þeir dvalið skemur á landinu en eitt ár.

Í 35. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008, segir að nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku eigi rétt á sérstakri kennslu í íslensku. Reglugerð kveður nánar á um rétt þessara nemenda. Lögin veita einnig heimild til að stofna fullorðnisfræðslumiðstöðvar. Í þessum stöðvum fer m.a. fram íslenskukennsla fyrir útlendinga og veitir ráðuneytið styrki til kennslunnar.

Í aðalnámskrá fyrir grunnskóla og framhaldsskóla segir að mikilvægt sé að nemendur öðlist færni í að nýta íslensku í námi, leik og starfi. Leggja skuli áherslu á þjálfun í íslensku í öllu námi og gildir það jafnt um þá sem að eiga íslensku að móðurmáli, þá sem eru af erlendu bergi brotnir og þá sem hafa táknmál að móðurmáli.

Innanríkisráðuneytið

Innanríkisráðherra fer með yfirstjórn útlendingamála. Veiting búsetuleyfa og dvalarleyfa heyrir undir innanríkisráðuneytið. Í lögum um útlendinga, nr. 96/2002, sem tóku gildi 1. janúar 2003, er kveðið á um að útlendingur sem óskar eftir búsetuleyfi skuli hafa sótt námskeið í íslensku fyrir útlendinga.

Útlendingastofnun

Útlendingastofnun er ein af undirstofnunum innanríkisráðuneytisins og starfar samkvæmt lögum nr. 96/2002 um útlendinga og reglugerð, nr. 53/2003, um útlendinga. Útlendingalöggjöfin gildir um heimild útlendinga til að koma til landsins og dvelja hér á landi. Útlendingur telst vera hver sá sem ekki er íslenskur ríkisborgari samkvæmt lögum um íslenskan ríkisborgararétt. Samkvæmt lögum um vegabréf, nr. 136/1998, annast Útlendingastofnun útgáfu allra íslenskra vegabréfa.

Utanríkisráðuneytið

Íslensk sendiráð sjá um að taka á móti umsóknum um vegabréf fyrir íslenska ríkisborgara sem eru búsettir erlendis. Ræðismenn Íslands taka einnig við umsóknum. Ráðuneytið fer með margskonar alþjóðlega samningagerð sem snertir aðlögun útlendinga. Samstarf utanríkisráðuneytisins við innflytjendur og íslenska aðila sem hafa með innflytjendur að gera er mikilvægt sérstaklega þegar innflytjendur þurfa upplýsingar frá heimalandi sínu. Sérstaklega þegar um ræðir fólk frá löndum sem eiga ekki sendiráð á Íslandi.

Velferðarráðuneytið

Velferðarráðuneytið kemur að málum útlendinga í gegnum landlæknisembættið, Tryggingastofnun og Sjúkratryggingar Íslands. Þjónusta heilsugæslustöðvanna skiptir innflytjendur miklu máli og mikilvægt að þær geti komið til móts við þarfir innflytjenda.

Ríkislögreglustjóri

Alþjóðadeild ríkislögreglustjóra samræmir stjórn lögreglunnar við eftirlit með útlendingum og landamæragæslu. Deildin kemur einnig með ýmsum hætti að málefnum hælisleitenda og ólöglegra útlendinga. Hún rannsakar feril þeirra sem eiga í hlut og reynir að bera kennsl á útlendinga með ýmis konar samskiptum við erlend stjórnvöld og stofnanir. Alþjóðadeildin undirbýr og framkvæmir brottvísun útlendinga úr landinu.

Lögreglan

Lögreglan kemur að hælismálum og útlendingamálum almennt. Mikilvægasta hlutverk lögreglunnar er að hafa eftirlit með því hvort útlendingar dveljist á Íslandi með lögmætum hætti. Lögreglan hefur eftirlit með dvalarleyfi útlendinga og atvinnuleyfi ef það á við. Lögreglan sér einnig um landamæragæslu, skýrslutökur af hælisleitendum ásamt frávísunum útlendinga.

Vinnumálastofnun

Vinnumálastofnun sér um veitingu atvinnuleyfa fyrir útlendinga. Útlendingur getur ekki fengið atvinnuleyfi samkvæmt lögum um atvinnuréttindi nema hann hafi dvalarleyfi. Um rétt útlendinga til að starfa hér á landi gilda lög um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002.

Rauði krossinn

Rauði krossinn sinnir meðal annarra verkefna málsvarnarhlutverki og réttindagæslu fyrir hælisleitendur. Rauði krossinn veitir einnig þeim útlendingum sem á þurfa að halda aðstoð við að nálgast upplýsingar um rétt sinn og skyldur í íslensku samfélagi.

Réttarstaða útlendinga vegna brottvísunar

Á Íslandi gildir sú grundvallarregla, samkvæmt 2. mgr. 66. gr. Stjórnarskrárinnar, að skipa skuli með lögum rétti útlendinga til að koma til landsins og dveljast þar, svo og fyrir hvaða sakir hægt sé að vísa þeim úr landi.

Vorið 2002 var samþykkt ný heildarlöggjöf um útlendinga, lög nr. 96/2002, en þau tóku gildi 1. janúar 2003. Lögin leystu af hólmi lög um eftirlit með útlendingum nr. 42/1965. Í nýju lögunum má finna ítarlegar reglur um réttarstöðu útlendinga hér á landi við komu, dvöl og brottför. Þá eru settar þar reglur um rétt flóttamanna til hælis hér á landi og um vernd gegn ofsóknum. Lögin sækja í nokkru fyrirmynd til norskrar útlendingalöggjafar.

Samkvæmt 20. gr. laganna er heimilt að vísa útlendingi úr landi ef:

  • a. hann dvelur ólöglega í landinu, hefur brotið alvarlega eða margsinnis gegn einu eða fleiri ákvæðum laganna eða kemur sér hjá að hlíta ákvörðun sem felur í sér að hann skuli yfirgefa landið,
  • b. hann hefur á síðustu fimm árum afplánað refsingu erlendis eða verið dæmdur þar til refsingar fyrir háttsemi sem að íslenskum lögum getur varðað fangelsi lengur en þrjá mánuði; samsvarandi gildir um sérstakar ráðstafanir sem ákvarðaðar eru vegna slíkrar refsiverðrar háttsemi,
  • c. hann hefur verið dæmdur hér á landi til refsingar eða til að sæta öryggisráðstöfunum fyrir háttsemi sem getur varðað fangelsi lengur en þrjá mánuði eða oftar en einu sinni verið dæmdur á síðustu þremur árum til fangelsisrefsingar,
  • d. það er nauðsynlegt vegna öryggis ríkisins eða almannahagsmuna.

Ýmsar takmarkanir eru settar við heimild brottvísunar, að því er varðar útlendinga sem fæddir eru hér á landi eða hafa búsetuleyfi.

Ákvörðun um brottvísun útlendinga er í höndum Útlendingastofnunar. Í V. kafla laga um útlendinga eru ítarlegar reglur um málsmeðferð í öllum málum sem tengjast réttindum og skyldum útlendinga og eiga þar með við um brottvísun. Eru þar áréttaðar nokkrar meginreglur sem gilda samkvæmt stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, svo sem andmælaréttur og leiðbeiningarskylda við aðila, en að stjórnsýslulögin gildi annars um meðferð mála.

Ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun er ávallt kæranleg til innanríkisráðuneytisins sem getur fellt hana úr gildi eða staðfest. Ber að kynna útlendingi um kæruheimildina og vilji hann nýta hana skal hann lýsa kæru innan 15 daga frá því að honum var kynnt ákvörðunin.

Í 34. gr. laganna, er fjallað um réttaraðstoð við útlendinga. Þegar útlendingur kærir ákvörðun sem varðar frávísun, brottvísun eða afturköllun leyfis og í máli vegna umsóknar um hæli skal hann eiga rétt á að stjórnvald skipi honum talsmann og ber stjórnvaldi að gera honum grein fyrir þeim rétti. Þetta gildir þó ekki í málum vegna brottvísunar sem ákveðin eru vegna refsidóma sem hann hefur verið dæmdur til erlendis eða hérlendis, eða þegar krafa um hæli er ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi heldur er tekin til úrlausnar í öðru samningsríki Dyflinnarsamningsins (reglugerð Evrópuráðsins nr. 343/2003) og þar með mat á því hvort umsækjandi hafi stöðu flóttamanns eða ekki.

Ákvæði IV. kafla laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, sem fjalla um verjendur gilda eftir því sem við á um réttaraðstoð fyrir útlendinga. Krefja skal útlending um endurgreiðslu kostnaðar af réttaraðstoð að hluta til eða að öllu leyti ef að hann hefur ráð á því.

Um rétt barna til að öðlast þjóðerni

Í 1. gr. laga um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100/1952, skal barn, sem fundist hefur hér á landi, teljast, þar til annað reynist sannara, vera íslenskur ríkisborgari. Einnig skal ítrekað að með lögum nr. 62/1998 sem breyttu lögunum um ríkisborgararétt, var breytt reglum sem ákvarða þjóðerni barns erlendrar móður á grundvelli þess hvort það er fætt innan eða utan hjónabands. Þannig öðlast barn erlendrar móður og íslensks föður sem fæðist á Íslandi íslenskt ríkisfang þegar uppfyllt eru ákvæði barnalaga um feðrun, og því er ekki um neina mismunun að ræða lengur eftir því hvort um er að ræða gifta eða ógifta foreldra.

Frekari upplýsingar má nálgast á vef Útlendingastofnunar, á vef innanríkisráðuneytisins, velferðarráðuneytisins og menntamálaráðuneytisins.

Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16