Birt sem augl. í Stjtíð. C 2001 nr. 29. Öðlaðist gildi 18. janúar 2002, sbr. augl. C 12/2002.
Ríkin, sem eru aðilar að bókun þessari,
telja að til þess að ná enn frekar markmiðum samningsins um réttindi barnsins og koma ákvæðum hans í framkvæmd, einkum 1., 11., 21., 32., 33., 34., 35. og 36. gr., sé viðeigandi að aðildarríkin geri frekari ráðstafanir til þess að tryggja að barnið njóti verndar gegn sölu á börnum, barnavændi og barnaklámi,
telja einnig að samningurinn um réttindi barnsins viðurkenni rétt barnsins til þess að njóta verndar gegn arðráni og vinnu sem líklegt er að því stafi hætta af eða gæti komið niður á námi barnsins eða verið skaðlegt heilsu þess eða líkamlegum, sálrænum, andlegum, siðferðislegum eða félagslegum þroska,
hafa þungar áhyggjur af umtalsverðri og síaukinni verslun með börn milli landa í þeim tilgangi að selja þau, vegna barnavændis og barnakláms,
hafa af því alvarlegar áhyggjur að kynlífsferðamennska, sem börn eru sérstaklega varnarlaus gegn, hefur breiðst út og færst í aukana, þar sem slíkt stuðlar að sölu á börnum, barnavændi og barnaklámi,
viðurkenna að til eru margir hópar sem eru sérlega varnarlausir, þar á meðal eru stúlkubörn, sem eru frekar í hættu að sæta kynlífsmisnotkun og að fjöldi stúlkubarna er vantalinn meðal þeirra sem sæta kynlífsmisnotkun,
hafa áhyggjur af auknu framboði á barnaklámi á Netinu og í gegnum aðra tækni sem er í þróun og með alþjóðaráðstefnuna um baráttuna gegn barnaklámi á Netinu, sem haldin var í Vín 1999, í huga, einkum ályktun hennar um að krefjast þess að framleiðsla, dreifing, útflutningur, sending, innflutningur, eign af ásetningi og auglýsingar á barnaklámi verði flokkuð sem glæpsamlegt athæfi um heim allan og að leggja áherslu á mikilvægi náinnar samvinnu milli stjórnvalda og Netiðnaðarins og að þau bindist samtökum,
álíta að með heildarnálgun verði auðveldara að útrýma sölu barna, barnavændi og barnaklámi, og með því að takast á við áhrifaþætti, þar á meðal vanþróun, fátækt, mismunandi efnahag, ójöfnuð í félagslegu og efnhagslegu skipulagi, vanhæfar fjölskyldur, menntunarskort, búferlaflutninga fólks úr sveit í borg, mismunun kynjanna, óábyrga kynlífshegðun fullorðinna, skaðlegar hefðir, vopnuð átök og verslun með börn,
álíta að aðgerða sé þörf til að auka skilning almennings í þeim tilgangi að draga úr eftirspurn neytenda eftir börnum sem söluvöru, barnavændi og barnaklámi og álíta einnig að mikilvægt sé að styrkja alheimssamtök allra þátttakenda og að bæta framkvæmd á landsvísu,
vekja athygli á ákvæðum alþjóðalagagerninga sem skipta máli vegna verndar á börnum, þar á meðal Haag-samningnum um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingu milli landa, Haag-samningnum um einkaréttarleg áhrif af brottnámi barna til flutnings milli landa og Haag-samningnum um lögsögu, gildandi lög, viðurkenningu, fullnustu og samvinnu vegna ábyrgðar foreldra og aðgerða til verndar börnum og samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 182 um bann við barnavinnu í sinni verstu mynd og tafarlausar aðgerðir til að afnema hana,
finna til hvatningar vegna yfirgnæfandi stuðnings við samninginn um réttindi barnsins sem sýnir hve útbreitt fylgið er við að stuðla að og vernda réttindi barnsins,
viðurkenna mikilvægi þess að komið verði í framkvæmd ákvæðum aðgerðaáætlunar um að hindra sölu á börnum, barnavændi og barnaklám og yfirlýsingu og dagskrá sem samþykkt var á heimsþingi í Stokkhólmi dagana 27. til 31. ágúst 1996 um aðgerðir gegn því að hafa börn að féþúfu og til kynlífsnota, og öðrum ákvörðunum og tilmælum viðeigandi alþjóðlegra stofnana sem máli skipta,
taka tilhlýðilegt tillit til þess hversu siðvenjur og menningarleg gildi sérhverrar þjóðar eiga stóran þátt í því að vernda barnið og tryggja að það þroskist á jákvæðan hátt,
og hafa orðið ásátt um eftirfarandi:
1. gr. Aðildarríki skulu banna sölu á börnum, barnavændi og barnaklám eins og kveðið er á um í bókun þessari.
2. gr. Í bókun þessari merkir:
a) sala á börnum: hvers kyns aðgerð eða viðskipti þar sem einstaklingur eða hópur fólks framselur öðrum barn gegn þóknun eða hvers kyns öðru endurgjaldi;
b) barnavændi: notkun barns í kynlífsathöfnum gegn þóknun eða hvers kyns öðru endurgjaldi;
c) barnaklám: hvers kyns framsetning, með hvaða hætti sem hún er, á barni sem tekur þátt í augljósum kynlífsathöfnum, við raunverulegar eða tilbúnar aðstæður eða hvers kyns framsetning á kynfærum barns þegar megintilgangurinn með henni tengist kynlífi.
3. gr. 1. Hvert aðildarríki skal að lágmarki tryggja að eftirfarandi aðgerðir og athafnir falli að öllu leyti undir hegningar- og refsilög þar í landi hvort sem brotin eru framin í landinu eða milli landa eða hvort um einstök eða skipulögð tilvik er að ræða:
a) þegar um er að ræða sölu á börnum eins og hún er skilgreind í 2. gr.:
i) að bjóða, afhenda eða þiggja barn, með hvaða hætti sem er, í þeim tilgangi að:
a. misnota barnið í kynlífi;
b. hagnast á líffæraflutningi úr barninu;
c. setja barnið í vinnuþrælkun;
ii) að fá fram, sem milligöngumaður, samþykki fyrir ættleiðingu barns á óviðeigandi hátt og með því að brjóta gegn gildandi alþjóðalagagerningum um ættleiðingu;
b) að bjóða, ná í, festa kaup á eða útvega barn vegna barnavændis, eins og það er skilgreint í 2. gr.;
c) að framleiða, dreifa, breiða út, flytja inn, flytja út, bjóða, selja eða eiga barnaklám í þeim tilgangi sem að ofan greinir eins og það er skilgreint í 2. gr.
2. Með fyrirvara um ákvæði í landslögum aðildarríkis skal hið sama gilda um tilraun til að fremja einhverja þessara athafna og um samsekt eða þátttöku í einhverri þessara athafna.
3. Hvert aðildarríki skal gera þessi brot refsiverð með viðeigandi hegningu þar sem tekið er tillit til þess hversu alvarleg þau eru.
4. Með fyrirvara um ákvæði í landslögum skal hvert aðildarríki gera ráðstafanir, þar sem við á, til að færa sönnur á ábyrgð lögaðila vegna brota sem staðfest eru í 1. mgr. þessarar greinar. Með fyrirvara um lagalegar meginreglur í aðildarríkinu getur, að því er lögaðila varðar, verið um að ræða refsiábyrgð, einkaréttarábyrgð eða stjórnsýsluábyrgð.
5. Aðildarríki skulu gera allar viðeigandi lagalegar og stjórnsýslulegar ráðstafanir til að tryggja að allir einstaklingar sem hlut eiga að máli við ættleiðingu barns aðhafist í samræmi við þá alþjóðalagagerninga sem við eiga.
4. gr. 1. Hvert aðildarríki skal gera þær ráðstafanir sem kunna að vera nauðsynlegar til að færa sönnur á lögsögu þess yfir brotunum sem vísað er til í 1. mgr. 3. gr. þegar brotin eru framin á yfirráðasvæði þess eða um borð í skipi eða flugvél sem skráð er í því ríki.
2. Hvert aðildarríki getur gert þær ráðstafanir sem kunna að vera nauðsynlegar til að koma á lögsögu þess vegna þeirra brota sem um getur í 1. mgr. 3. gr. í eftirfarandi tilvikum:
a) ef meintur afbrotamaður er ríkisborgari þess ríkis eða einstaklingur með fasta búsetu á yfirráðasvæði þess;
b) ef fórnarlambið er ríkisborgari þess ríkis.
3. Hvert aðildarríki skal einnig gera þær ráðstafanir sem kunna að vera nauðsynlegar til að koma á lögsögu sinni yfir þeim brotum sem nefnd eru hér að framan þegar meintur afbrotamaður er staddur á yfirráðasvæði þess og það framselur hann ekki til annars aðildarríkis af þeirri ástæðu að brotið hafi verið framið af ríkisborgara í því ríki.
4. Þessi bókun undanskilur ekki neina refsilögsögu sem er beitt í samræmi við innlend lög.
5. gr. 1. Brotin, sem um getur í 1. mgr. 3. gr., skulu flokkuð sem afbrot sem geta varðað framsali í öllum framsalssamningum sem til eru á milli aðildarríkja og sem afbrot sem geta varðað framsali í öllum framsalssamningum sem síðar verða gerðir milli þeirra í samræmi við skilyrðin sem sett eru fram í þessum samningum.
2. Ef aðildarríki, sem setur það skilyrði fyrir framsali að til sé samningur, fær beiðni um framsal frá öðru aðildarríki sem það hefur ekki framsalssamning við má líta á þessa bókun sem lagalegan grunn fyrir framsali með tilliti til þessara brota. Framsal skal háð skilyrðum sem kveðið er á um í lögum ríkisins sem beiðni er beint til.
3. Aðildarríki, sem ekki setja það skilyrði fyrir framsali að til sé samningur, skulu sín í milli viðurkenna þessi brot sem afbrot sem varða framsali með fyrirvara um skilyrðin sem kveðið er á um í lögum ríkisins sem beiðni er beint til.
4. Að því er varðar framsal milli aðildarríkja skal fara með þessi afbrot eins og þau hefðu ekki aðeins verið framin á þeim stað þar sem þau áttu sér stað heldur einnig á yfirráðasvæði þeirra ríkja sem farið er fram á að færi sönnur á lögsögu sína í samræmi við 4. gr.
5. Ef beiðni um framsal með tilliti til brots sem lýst er í 1. mgr. 3. gr. kemur fram og ef aðildarríkið sem beiðni er beint til fer ekki fram á eða vill ekki verða við beiðni um framsal vegna ríkisfangs brotamannsins skal það ríki gera tilheyrandi ráðstafanir til að leggja málið fyrir lögbær yfirvöld þess til saksóknar.
6. gr. 1. Aðildarríki skulu gefa hvort öðru kost á ómældri aðstoð í tengslum við málsmeðferð vegna rannsóknar, saksóknar eða framsals sem varðar þau afbrot sem sett eru fram í 1. mgr. 3. gr., þar á meðal aðstoð við að afla sönnunargagna sem þau hafa handbær og eru nauðsynleg málsmeðferðinni.
2. Aðildarríki skulu standa við skuldbindingar sínar skv. 1. mgr. þessarar greinar í samræmi við samninga eða annars konar samkomulag um gagnkvæma réttaraðstoð sem kann að vera í gildi milli þeirra. Þegar slíkir samningar eða samkomulag er ekki fyrir hendi skulu aðildarríkin veita hvert öðru aðstoð í samræmi við landslög.
7. gr. Aðildarríki skulu, með fyrirvara um ákvæði í landslögum þeirra:
a) gera ráðstafanir til að kveða á um haldlagningu og eignaupptöku, eftir því sem við á, á:
i) búnaði, eins og efnum, eignum og öðrum hlutum sem notaðir eru til að fremja afbrot eða auðvelda þau samkvæmt bókun þessari;
ii) hagnaði sem fenginn er með slíkum afbrotum;
b) framkvæma beiðnir frá öðrum aðildarríkjum um haldlagningu og eignaupptöku muna eða hagnaðar sem um getur í i-lið a-liðar;
c) gera ráðstafanir sem miða að því að loka tímabundið eða til frambúðar athafnasvæðum sem notuð eru til að fremja slík afbrot á.
8. gr. 1. Aðildarríki skulu samþykkja viðeigandi ráðstafanir til að vernda réttindi og hagsmuni barna sem eru fórnarlömb þeirra athafna sem eru bönnuð samkvæmt þessari bókun á öllum meðferðarstigum sakamáls, sérstaklega með því að:
a) viðurkenna varnarleysi barna sem eru fórnarlömb og aðlaga málsmeðferð þannig að tekið sé tillit til sérstakra þarfa þeirra, þar á meðal sérstakar þarfir þeirra sem vitna;
b) upplýsa börn sem eru fórnarlömb um réttindi þeirra, hlutverk þeirra og umfang, tímasetningu og framvindu málsmeðferðarinnar og lúkningu mála þeirra;
c) gefa færi á að sjónarmið, þarfir og áhyggjuefni barna sem eru fórnarlömb komi fram og séu tekin til greina við málsmeðferð þar sem persónulegir hagsmunir þeirra eru í húfi á þann hátt sem er í samræmi við málsmeðferðarreglur landslaga;
d) veita börnum sem eru fórnarlömb viðeigandi stuðningsþjónustu meðan á málarekstri stendur;
e) vernda, eftir því sem við á, einkalíf og upplýsingar um hver þau börn eru sem eru fórnarlömb og gera ráðstafanir í samræmi við landslög til að forðast óviðeigandi dreifingu upplýsinga sem gætu leitt til þess að borin væru kennsl á börn sem eru fórnarlömb;
f) sjá til þess, þegar við á, að tryggja öryggi barna sem eru fórnarlömb, fjölskyldna þeirra og þeirra sem vitna í þeirra þágu, gegn ógnunum og hefndum;
g) forðast óþarfa tafir í lúkningu mála og framkvæmd fyrirmæla og réttarúrskurðar þar sem börnum sem eru fórnarlömb eru ákvarðaðar skaðabætur.
2. Aðildarríki skulu tryggja að óvissa um raunverulegan aldur fórnarlambsins komi ekki í veg fyrir að hafin sé rannsókn sakamáls, þar á meðal rannsókn sem miðar að því að komast að aldri fórnarlambsins.
3. Aðildarríki skulu tryggja að fyrst og fremst sé hugað að hvernig hagmunum barnsins sé best borgið í meðferð réttarkerfisins á börnum sem eru fórnarlömb þeirra afbrota sem er lýst í þessari bókun.
4. Aðildarríki skulu gera ráðstafanir til að tryggja viðeigandi menntun fyrir þá einstaklinga sem vinna með fórnarlömbum afbrotanna sem eru bönnuð samkvæmt þessari bókun, sérstaklega í lögum og sálfræði.
5. Aðildarríki skulu, þegar við á, samþykkja ráðstafanir til þess að tryggja öryggi og heiðarleika þeirra einstaklinga og/eða samtaka sem taka þátt í fyrirbyggjandi aðgerðum og/eða vernd og endurhæfingu fórnarlamba slíkra afbrota.
6. Ekkert í þessari grein skal túlkað sem skaðlegt eða í ósamræmi við réttindi hins ákærða til að fá réttláta og óhlutdræga dómsmeðferð.
9. gr. 1. Aðildarríki skulu samþykkja eða efla, framkvæma og breiða út lög, stjórnsýsluaðgerðir, félagslega stefnu og áætlanir til að koma í veg fyrir afbrotin sem um getur í þessari bókun. Sérstaka athygli skal gefa að því að vernda börn sem standa sérstaklega varnarlaus gagnvart þessum athöfnum.
2. Aðildarríki skulu með öllum viðeigandi ráðum veita upplýsingar, menntun og fræðslu sem stuðlar að því að allur almenningur, þar á meðal börn, vakni til vitundar um skaðleg áhrif þeirra afbrota sem um getur í þessari bókun og um forvarnarráðstafanir gegn þeim. Aðildarríki skulu til að fullnægja skuldbindingum sínum samkvæmt þessari grein hvetja til þátttöku samfélagsins, sérstaklega barna og þeirra barna sem eru fórnarlömb, til að veita þessar upplýsingar, menntun og fræðslu, þar á meðal á alþjóðlegum vettvangi.
3. Aðildarríki skulu gera allar raunhæfar ráðstafanir með það að markmiði að tryggja alla viðeigandi aðstoð við fórnarlömb slíkra afbrota, þar á meðal að þau aðlagist samfélaginu á ný og hljóti fullan líkamlegan og sálrænan bata.
4. Aðildarríki skulu tryggja að öll börn sem eru fórnarlömb afbrotanna sem lýst er í þessari bókun eigi rétt á fullnægjandi málsmeðferð til að krefjast, án mismununar, skaðabóta vegna tjónsins frá þeim sem bera lagalega ábyrgð.
5. Aðildarríki skulu gera viðeigandi ráðstafanir sem miða að því að banna á skilvirkan hátt framleiðslu og dreifingu efnis þar sem auglýst eru afbrot þau sem lýst er í þessari bókun.
10. gr. 1. Aðildarríki skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að efla alþjóðlegt samstarf með marghliða, svæðisbundinni og tvíhliða tilhögun í því skyni að hindra, ljóstra upp um, rannsaka, saksækja og refsa þeim sem bera ábyrgð á gerðum sem felast í sölu á börnum, barnavændi, barnaklámi og kynlífsferðamennsku tengdri börnum. Aðildarríki skulu einnig hvetja til alþjóðasamvinnu og samræmingar milli yfirvalda í ríkjunum, innlendra og alþjóðlegra frjálsra félagasamtaka og alþjóðasamtaka.
2. Aðildarríki skulu stuðla að alþjóðlegri samvinnu til að aðstoða börn sem eru fórnarlömb við að ná líkamlegum og sálrænum bata, aðlagast samfélaginu á ný og senda þau til heimkynna sinna.
3. Aðildarríki skulu stuðla að því að efla alþjóðlega samvinnu í því skyni að taka á grundvallarorsökunum fyrir varnarleysi barna, sölu á börnum, barnavændi, barnaklámi og kynlífsferðamennsku tengdri börnum, til að mynda fátækt og vanþróun.
4. Aðildarríki sem hafa tækifæri til þess skulu veita fjárhagslega, tæknilega eða aðra aðstoð með marghliða, svæðisbundnum, tvíhliða eða öðrum áætlunum sem til eru.
11. gr. Ekkert í bókun þessari skal hafa áhrif á neinar reglur sem stuðla frekar að því að réttindi barnsins komist til framkvæmda og kunna að vera í:
a) lögum aðildarríkis;
b) alþjóðalögum sem í gildi eru að því er það ríki varðar.
12. gr. 1. Hvert aðildarríki skal, innan tveggja ára frá því að bókunin öðlast gildi að því er það aðildarríki varðar, leggja skýrslu fyrir nefndina um réttindi barnsins þar sem fram koma ítarlegar upplýsingar um ráðstafanir sem gerðar hafa verið til að koma ákvæðum bókunarinnar í framkvæmd.
2. Eftir framlagningu þessarar ítarlegu skýrslu skal hvert aðildarríki, í samræmi við 44. gr. samningsins, láta allar frekari upplýsingar í tengslum við framkvæmd bókunarinnar koma fram í skýrslum sem þau leggja fyrir nefndina um réttindi barnsins. Önnur aðildarríki bókunarinnar skulu leggja fram skýrslu á fimm ára fresti.
3. Nefndin um réttindi barnsins getur óskað eftir að aðildarríki leggi fram frekari upplýsingar sem skipta máli fyrir framkvæmd bókunar þessarar.
13. gr. 1. Bókun þessi skal liggja frammi til undirritunar af hálfu sérhvers ríkis sem er aðili að samningnum eða hefur undirritað hann.
2. Bókun þessi er háð fullgildingu og er sérhverju ríki, sem er aðili að samningnum eða hefur undirritað hann, heimilt að gerast aðili að henni. Fullgildingar- og aðildarskjöl skulu afhent aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til vörslu.
14. gr. 1. Bókun þessi skal öðlast gildi þremur mánuðum eftir að tíunda fullgildingar- eða aðildarskjalið er afhent til vörslu.
2. Að því er varðar hvert ríki sem fullgildir bókun þessa eða gerist aðili að henni eftir að hún hefur öðlast gildi öðlast bókun þessi gildi einum mánuði eftir að það ríki hefur afhent til vörslu eigið fullgildingar- eða aðildarskjal.
15. gr. 1. Sérhvert aðildarríki getur hvenær sem er sagt upp bókun þessari með skriflegri tilkynningu til aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna sem skal eftir það tilkynna það öðrum aðildarríkjum samningsins og öllum ríkjum sem hafa undirritað samninginn. Uppsögnin skal öðlast gildi einu ári eftir að aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna tekur við tilkynningunni.
2. Slík uppsögn skal ekki hafa þau áhrif að aðildarríkið sé leyst undan neinum skuldbindingum sínum samkvæmt bókun þessari að því er varðar nokkurt brot sem á sér stað fyrir þann dag sem uppsögnin öðlast gildi. Uppsögn skal eigi heldur á nokkurn hátt hafa áhrif á áframhaldandi meðferð máls sem þegar var til meðferðar hjá nefndinni fyrir þann dag sem uppsögnin öðlaðist gildi.
16. gr. 1. Sérhvert aðildarríki má gera breytingartillögu og fá hana skráða hjá aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Aðalframkvæmdastjórinn skal því næst senda breytingartillöguna til aðildarríkjanna ásamt tilmælum um að þau tilkynni hvort þau séu því hlynnt að haldin verði ráðstefna aðildarríkja til þess að taka tillögurnar til meðferðar og greiða atkvæði um þær. Ef að minnsta kosti einn þriðji hluti aðildarríkjanna er hlynntur slíkri ráðstefnu innan fjögurra mánaða frá þeim degi er tilmælin voru borin fram skal aðalframkvæmdastjórinn boða til hennar undir forystu Sameinuðu þjóðanna. Sérhver breytingartillaga sem samþykkt er af meiri hluta þeirra aðildarríkja sem ráðstefnuna sækja og atkvæði greiða skal lögð fyrir allsherjarþingið til samþykktar.
2. Breytingartillaga sem samþykkt er skv. 1. mgr. þessarar greinar skal öðlast gildi þegar allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt hana og hún hefur verið staðfest af tveimur þriðju hlutum aðildarríkjanna.
3. Þegar breytingartillaga öðlast gildi skal hún vera bindandi fyrir þau aðildarríki sem hafa staðfest hana en önnur aðildarríki skulu áfram bundin af ákvæðum þessarar bókunar og öllum fyrri breytingum sem þau hafa samþykkt.
17. gr. 1. Bókun þessi, en arabískur, enskur, franskur, kínverskur, rússneskur og spánskur texti hennar eru jafngildir, skal komið til vörslu í skjalasafni Sameinuðu þjóðanna.
2. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal senda staðfest afrit af bókun þessari til allra aðildarríkja samningsins og allra ríkja sem hafa undirritað samninginn.