Stefna í starfsemi Mannréttindaskrifstofu Íslands
2020-2024
Tilgangur og markmið Mannréttindaskrifstofu Íslands (MRSÍ)
- 1. Hlutverk
- Tilgangur MRSÍ er að vinna að framgangi mannréttinda innanlands, jafnt sem á alþjóðlegum vettvangi. Það gerir skrifstofan með því að safna og miðla upplýsingum um mannréttindamál og stuðla að fræðslu og rannsóknum. Skrifstofan gegnir einnig ákveðnu eftirlitshlutverki gagnvart stjórnvöldum sem felst í umsögnum um lagafrumvörp og skýrslugerð fyrir eftirlitsnefndir Sameinuðu þjóðanna og Evrópuráðið. Þannig veitir skrifstofan stjórnvöldum aðhald og stuðlar að því að mannréttindi séu virt. Mannréttindi og sjálfbærni haldast í hendur og MRSÍ leggur áherslu á að varpa ljósi á þetta samspil við innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. MRSÍ stefnir að lögleiðingu og innleiðingu alþjóðlegra mannréttindasskuldbindinga í íslensk lög og að reynsla skrifstofunnar og þekking verði nýtt við stofnun sjálfstæðrar, innlendrar mannréttindastofnunar.
- Framtíðarsýn
- MRSÍ stefnir að lögbundnum starfsgrundvelli og sjálfstæðum fjárhag til að uppfylla skilyrði Parísarviðmiða SÞ[1] um innlendar mannréttindastofnanir.
- Í starfsemi sinni til framtíðar hyggst MRSÍ auka enn gildi og vegferð mannréttinda hér á landi, m.a. með því að veita stjórnvöldum aðhald með gerð umsagna um lagafrumvörp, reglugerðir og þingsályktunartillögur ásamt gerð svokallaðra skuggaskýrslna til alþjóðlegra mannréttindanefnda. Einnig með því að varpa ljósi á samspil mannréttinda og sjálfbærni og hvernig mannréttindasamningar eru mikilvæg forsenda árangursríkrar innleiðingar Heimsmarkmiðanna. Þá hyggst skrifstofan einnig bjóða fram þekkingu, ráðgjöf og aðstöðu við framkvæmd rannsóknarverkefna á sviði mannréttinda í samræmi við Parísarviðmið SÞ.
- Einnig vill MRSÍ auka þekkingu og skilning almennings á réttindum þeirra og skyldum sem felast í alþjóðlegum mannréttindasamningum sem Ísland er aðili að og hvernig einstaklingur getur nýtt sér þau og leitað réttar sín ef hann telur á sér brotið.
- MRSÍ telur einnig mikilvægt að starfsfólk skrifstofunnar nái að viðhalda þekkingu sinni og hæfni á sviði mannréttinda almennt og því er mikilvægt að starfsmenn taki virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi um mannréttindi ásamt því að sækja málstofur og ráðstefnur er lúta að mannréttindum hér á landi.
- MRSÍ stefnir að því að kynna starfsemi skrifstofunnar út á við og styrkja núverandi ímynd, að almenningur þekki störf skrifstofunnar og beri traust til hennar.
- MRSÍ stefnir að því að hætta ráðgjöf til einstakra hópa og taka í staðinn að sér fræðslu, ráðgjöf og þjálfun einstaklinga sem vinna að slíkri ráðgjöf og koma að ábendingum til aðila sem annast kennslu á sviði mannréttinda.
Starfsemi Mannréttindaskrifstofu Íslands
- Aðildarfélög
- Aðilar að Mannréttindaskrifstofu Íslands geta orðið samtök, sem beint eða óbeint fjalla um eða hafa sérstakan áhuga á málefnum á sviði mannréttinda og vinna að framgangi mannréttinda almennt og/eða að réttindum einstakra hópa. Samtökin skulu byggja vinnu sína á staðreyndum og þekkingu sem nýta má til að þrýsta á stjórnvöld um endurbætur og til að stöðva eða koma í veg fyrir mannréttindabrot.
- Fjárhagur
- MRSÍ er með samning við dómsmálaráðuneyti sem gildir frá 2020-2024, um árlegt framlag til skrifstofunnar. Þá hefur skrifstofan um árabil haft svokallaðan samstarfssamning við utanríkisráðuneytið og gegnir skrifstofan hlutverki tengiliðar við frjáls félagasamtök sem leita samstarfsaðila til verkefna sem studd eru af Uppbyggingarsjóði EES. Skrifstofan hefur enn með höndum lögfræðiráðgjöf fyrir innflytjendur í gegnum þjónustusamning við velferðarráðuneytið og samning við Gæða- og eftirlitsstofnun á sviði stjórnsýslu um lögfræðiráðgjöf fyrir réttindagæslumenn fatlaðs fólks. . Auk þessa hefur skrifstofan fengið tilfallandi styrki til ýmissa verkefna, m.a. frá Erasmus áætluninni og ýmsum ráðuneytum.
- Stefna – Hlutverk skrifstofunnar og framtíðarsýn hefur verið skilgreint hér að ofan. Þessu tvennu ætlar skrifstofan að ná fram með eftirfarandi stefnumiðum:
- Veita stjórnvöldum aðhald og eftirlit með gerð umsagna um lagafrumvörp, reglugerðir og þingsályktunartillögur og leita eftir þátttöku í nefndum og ráðum á vegum stjórnvalda á sviði mannréttindamála.
- Veita stjórnvöldum aðhald og eftirlit með gerð skuggaskýrslna/viðbótarskýrslna til alþjóðlegra eftirlitsnefnda sem og því að svara fyrirspurnum alþjóðastofnana og fulltrúa þeirra um stöðu mannréttindamála á Íslandi.
- Vinna að innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, í samvinnu við aðra, og gæta mannréttinda jaðarsettra hópa í því umbreytingarferli sem innleiðingunni fylgir.
- Efla kynningar- og fræðslustarf, auka sýnileika skrifstofunnar og vitund um mannréttindi hér á landi s.s. með greinaskrifum í fjölmiðla og sýnilegum átaksverkefnum, fræðslu til almennings og stjórnvalda, auglýsingaherferðum og kynningu á fræðsluefni sem skrifstofan hefur yfir að ráða. Þannig þekki allir skrifstofuna og leiti til hannar sem þekkingarmiðstöðvar um mannréttindi.
- Stuðla að fjárhagslegum vexti og tryggja styrka fjármálastjórnun með ákveðnum reglum um nýtingu styrkja og fjárveitinga til skrifstofunnar.
- Veita fagaðilum og almenningi fræðslu og vera aflvaki faglegrar umræðu s.s. með sérhæfðum námskeiðum, ráðstefnum og málþingum.
- Auka þekkingu og hæfni starfsmanna MRSÍ með þátttöku í alþjóðlegu samstarfi t.d. með því að þeir sæki ráðstefnur, námskeið og fundi á vegum samtaka mannréttindaskrifstofa eða annarra alþjóðlegra samstarfsaðila, ásamt því að sækja málstofur og ráðstefnur er lúta að mannréttindum hér á landi.
- Veita ráðgjöf í formi viðtala til þeirra sem eru í viðkvæmri stöðu og geta ekki leitað annað.
- Efla heimasíðu, útfæra á auðlesnu máli og á mismunandi tungumálum og tryggja að hún verði fræðslusíða fyrir ólíka hópa, og auka við og uppfæra fræðslu og upplýsingar sem þar er að finna og lúta að mannréttindum og útgáfu skrifstofunnar.
- Halda ráðstefnu eða þing, á hverju ári eða annað hvert ár og skapa þannig samræðu- og umræðuvettvang um mannréttindamál á Íslandi og gefa út skýrslu í kjölfarið um stöðu mannréttindamála á Íslandi.
- Varðveita stofnanaminni með því að skýra verkferla og efla þekkingu stjórnar og fulltrúaráðs á starfsemi skrifstofunnar, einn liður í því væri fræðsla til nýrra meðlima í stjórn og fulltrúaráði skrifstofunnar.