Réttindi kvenna

Ljóst er að áhrif kynferðis eru víðtæk og hafa djúpstæð áhrif á líf fólks. Að baki áhrifanna liggja fjölmargar orsakir hvort sem þær eru áþreifanlegar líffræðilegar orsakir eða óáþreifanleg áhrif hefða, gilda og viðhorfa. Áhrif kynferðis eru oft á tíðum dulin og því er hætta á að þau séu vanmetin, sérstaklega í ljósi þess hve umræða um áhrif kynferðis hefur verið lituð af viðteknum hefðum og viðhorfum.

Áhrifanna er þó að gæta hvarvetna. Innan menntakerfisins virðist val á námsgrein nátengt kynferði. Í félagsvísindadeild eru að jafnaði fleiri konur en karlar og á sama tíma eru fleiri karlar í ýmis konar tækni- og iðnnámi. Kynferði virðist einnig segja mikið til um hvernig verkaskipting innan heimilisins er háttað, þar sem karlar samkvæmt hefðinni axla ábyrgð sem fyrirvinnur en konur sjá oft og tíðum um að heimilishaldið gangi vel fyrir sig.

Á vinnumarkaði er staða kynjanna einnig ólík, sérstaklega hvað varðar metorð og laun. Rannsóknir Jafnréttisstofu (áður Skrifstofu jafnréttismála) hafa sýnt að störf innan uppeldis-, ummönnunar- og þjónustugeirans eru að miklu leyti í höndum kvenna. Í iðnaðar- og tæknistörfum og embættis- eða stjórnunarstörfum eru karlar í miklum meirihluta. Mikill fjöldi kvenna er i hlutastarfi á meðan slíkt heyrir til undantekninga hjá körlum. Árið 2013 voru 65 % kvenna í fullu starfi samanborið við 86 % karla, árið 2004 voru tölurnar 63% kvenna á móti 90% karla. Mælingar hafa einnig leitt í ljós að kynjabundinn launamunur sé mikill. Árið 1980 voru konur með um 47% af atvinnutekjum karla, 52% árið 1995 og 65% árið 2013. Ásamt því skipa konur aðeins um 12% áhrifastaða á vinnumarkaðnum. Það er ljóst að staða kvenna er almennt veikari en staða karla í samfélaginu, einkum þegar litið er til launa og möguleika á starfsframa.[1]

Konur og stjórnmál

Konur á Íslandi hafa um langt skeið barist fyrir auknum stjórnmálalegum réttindum sínum. Árið 1915 fengu konur kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Fyrsta konan tók sæti á Alþingi árið 1922. Lengi vel sátu á Alþingi ein til tvær konur og stundum engin. Árið 1978 var hlutfall kvenna á þingi orðið 5%. Árið 1983 jókst hlutur kvenna töluvert, m.a annars með tilkomu Kvennalistans. Árið 1991 var hlutfall kvenna á þingi orðið 24% og árið 1999 komst hlutfallið upp í 25% en þá voru konur á þingi orðnar 22 en þá áttu karlar 41 sæti. Árið 2003 fækkaði konum hinsvegar úr 22 í 19 sem má teljast töluverð fækkun. Í alþingiskosningunum 25. apríl 2009 náðu 27 konur kjöri og varð hlutfall kvenna á þingi þá 42,9% en í alþingiskosningunum 27. apríl 2013 fækkaði konum aftur niður í 25 konur eða 39,7%.

Hlutfall kvenna í sveitarstjórnum hefur farið hægt vaxandi. Árið 1950 voru 0,6 % konur í sveitarstjórnum, 12,4% árið 1982, 31,1% árið 2002 og árið 2010 voru konur 39,8 % kjörinna fulltrúa. Talað er um að jafnrétti sé náð þegar hlutfallsskiptingunni 40%-60% hefur verið náð.

Borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi

Á Íslandi öðluðust ógiftar konur lögræði árið 1861. Giftar konur fengu rétt til að ráðstafa sínu eigin fé árið 1890, en eiginmaðurinn réð þó enn yfir eignum búsins og stóðu þær undir öllum skuldbindingum hans. Þó mátti ekki ganga að eignum konunnar vegna slíkra skuldbindinga. Árið 1923 komst fyrst á fullt jafnræði með hjónum sem byggist á því að hvort um sig ráði eignum sínum og fé. Núgildandi lög byggja á sama grunni, sjálfstæði hvors um sig og jafnræði hjóna.

Lögum samkvæmt er mismunun eftir kynferði óheimil. Þó teljast sérstakar tímabundnar aðgerðir, sem ætlaðar eru til þess að bæta stöðu kvenna og koma á jafnrétti og jafnri stöðu kynjanna, ekki ganga gegn lögum. Einnig telst ekki til mismununar að taka sérstakt tillit til kvenna vegna þungunar eða barnsburðar.

Réttur kvenna til menntunar

Á Íslandi var réttur kvenna til menntunar takmarkaður allt fram til ársins 1911. Konur voru ekki taldar þurfa á annarri menntun að halda en þeirri sem átti við þeirra hefðbundnu félagslegu stöðu. Enda var hæfileiki kvenna til þess að mennta sig talinn afar takmarkaður. Konum var boðin kennsla í sérstökum stúlknaskólum og húsmæðraskólum. Kennslan fólst í leiðsögn í hefðbundnum verkefnum kvenna, heimilisfræðum, umönnun og hjúkrun.

Fram yfir aldamótin 1900 var aðgangur kvenna að æðri menntastofnunum takmarkaður. Þær fengu ekki námsstyrki og þeim var ekki heimilt að gegna opinberum embættum að námi loknu. Árið 1911 fengu konur sama rétt og karlar til menntunar og próftöku í öllum menntastofnunum landsins. Þær fengu einnig jafnan aðgang að styrkjum, ásamt heimild til að gegna opinberum embættum.

Grunnregla í íslensku menntakerfi í dag er að allir hafi jafna möguleika til náms, óháð kyni, efnahag, búsetu, menningarlegum og félagslegum bakgrunni.

Réttur til sömu launa

Á Íslandi hafa konur ávallt verið mjög virkar á vinnumarkaði. Framlag þeirra hefur þó ekki verið metið til jafns við framlag karla. Hér á árum áður var talið eðlilegt að konur fengju lægri laun en karlar og þá tíðkuðust jafnvel sérstakir kvenna-og karlataxtar þrátt fyrir að um sömu störf og sama vinnutíma hafi verið að ræða.

Árið 1958 var Ísland fyrst Norðurlandanna til að fullgilda samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 100 frá 1951. Kveður samþykktin á um jöfn laun karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf. Alþingi samþykkti síðan árið 1961 lög um að sömu laun skyldi veita fyrir jafn verðmæt störf. Í lögunum fólst að launajöfnuður ætti að ríkja á Íslandi frá og með árinu 1967. Svo varð þó ekki og úr varð að árið 1973 var jafnlaunaráði komið á með lögum, en hlutverk þess var að stuðla að jafnrétti kvenna og karla á vinnumarkaðnum.

Fyrstu almennu jafnréttislögin voru sett árið 1976 og felldu þau fyrri lög um jafnrétti kynjanna úr gildi og Jafnréttisráð var stofnað.

Núverandi lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla eru nr. 10 frá árinu 2008. 

Réttindi bundin í stjórnarskrá

Árið 1995 var á vorþingi Alþingis samþykktur nýr mannréttindakafli. Í honum er að finna ákvæði um réttindi kynjanna og er þar kveðið á um að konur og karlar skuli njóta jafns réttar í öllu. Lögð var sérstök áhersla á að ákveðnar aðgerðir til að styrkja stöðu annars kyns eða ákveðins hóps í samfélaginu til þess að jafna stöðu þeirra svo kölluð ,,jákvæð mismunun” bryti ekki gegn ofangreindu ákvæðu um bann við mismunun.

 

Ýmis lagaleg réttindi kvenna

Jafnréttislög

Lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, hafa það markmið að  koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Allir einstaklingar skulu eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni. Markmiði þessu skal náð m.a. með því að: 

  •    gæta jafnréttissjónarmiða og vinna að kynjasamþættingu í stefnumótun og ákvörðunum á öllum sviðum samfélagsins,
  •    vinna að jöfnum áhrifum kvenna og karla í samfélaginu,
  •    bæta sérstaklega stöðu kvenna og auka möguleika þeirra í samfélaginu,
  •    vinna gegn launamisrétti og annarri mismunun á grundvelli kyns á vinnumarkaði,
  •    gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf,
  •    efla fræðslu um jafnréttismál,
  •    greina tölfræðiupplýsingar eftir kyni,
  •    efla rannsóknir í kynjafræðum,
  •    vinna gegn kynbundnu ofbeldi og áreitni,
  •    breyta hefðbundnum kynjaímyndum og vinna gegn neikvæðum staðalímyndum um hlutverk kvenna og karla.

Lög um fæðingar- og foreldraorlof

Ný lög um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, tóku gildi þann 6. janúar árið 2000 en ýmsar breytingar hafa verið gerðar á þeim síðan. Helstu markmiðin eru að tryggja rétt barnsins til að njóta samvista við báða foreldra og gera körlum og konum mögulegt að samræma fjölskyldulíf og atvinnuþátttöku.

Lögin kváðu á um samtals níu mánaða tekjutengt orlof foreldra. Hvort foreldri hafði þriggja mánaða sjálfstæðan rétt en svo voru réttur til þriggja mánaða sameiginlega skiptanlegs tíma Sjálfstæði rétturinn er ekki framseljanlegur. Breytingar voru gerðar á lögunum á í desember 2012 þar sem orlofstíminn er lengdur í áföngum í fimm mánaða sjálfstæðan rétt á hvort foreldri og tveggja mánaða sameiginlegan rétt. Einnig voru gerðar breytingar þar sem þak hármarkstekna var hækkað lítillega.

Lögin tryggja einnig sjálfstæðan rétt foreldris til fjögurra mánaða foreldraorlofs til að annast barn. Þessi réttur er ekki framseljanlegur og nær til sömu tilvika og rétturinn til fæðingarorlofs. Rétturinn til foreldraorlofs skapast eftir sex mánaða samfellt starf, en fellur niður þegar barn hefur náð 8 ára aldri. Þessum rétti fylgir ekki réttur til greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Lögin kveða einnig sérstaklega á um réttarstöðu þungaðra kvenna, kvenna sem nýlega hafa alið börn og kvenna sem eru með barn á brjósti og þær skyldur sem atvinnurekandi hefur gagnvart þeim.

Lögin kveða einnig á um skyldur starfsmanna til að tilkynna atvinnurekenda um töku fæðingar- eða feðraorlofs. Þá skilgreina þau einnig réttarstöðu foreldra í fæðingar- eða foreldraorlofi gagnvart atvinnurekenda og ávinnslu réttinda meðan á orlofstöku stendur.

Lög um fóstureyðingar og fræðsla um kynlíf og barneignir

Í lögum um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og fóstureyðingar ófrjósemisaðgerðir, nr. 25/1975, má finna ákvæði um kynfræðslu og getnaðarvarnir. Í lögunum er einnig kveðið á um að heimilt sé að framkvæma fóstureyðingar af félagslegum og /eða læknisfræðilegum ástæðum. Kona sem verður barnshafandi í kjölfar nauðgunar hefur rétt á að fara í fóstureyðingu.

Helst skal fóstureyðing framkvæmd fyrir lok 12. viku meðgöngu og aldrei eftir 16. viku hennar, nema sérstakar læknisfræðilegar ástæður séu fyrir hendi.

Áður en aðgerð er framkvæmd er skylt að fræða konuna um þá áhættu sem hlotist getur af aðgerðinni og hvaða félagsleg aðstoð henni stendur til boða í samfélaginu. Einnig er í lögunum mælt fyrir um að við fóstureyðingu skuli farið að viðurkenndum kröfum læknisfræðinnar og sömu ráðstafanir gerðar þegar fóstureyðing er framkvæmd og við aðrar aðgerðir á spítalanum.

Hjúskaparlög

Hjúskaparlög, nr. 31/1993, kveða á um að hjón skuli í hvívetna vera jafnrétthá í hjúskap sínum og bera jafnar skyldur gagnvart hvert öðru og gagnvart börnum sínum. Hvort hjónanna ræður yfir eign sinni og svarar til skulda sinna. Sérákvæði gilda þó varðandi tilteknar eignir eins og t.d þá fasteign sem fjölskyldan býr í.

Til að vernda fjölskylduna er lögfest að samþykki beggja hjóna þurfi að vera til sölu eða veðsetningar, óháð því hver telst eigandi fasteignarinnar. Hjón geta þó samið sín á milli um aðra skipan fjármála sinna eins og t.d að eign skuli teljast séreign annars þeirra.

Hvort hjóna um sig á rétt á að fá skilnað. Er meginreglan sú að veittur er skilnaður að borði og sæng sem einskonar reynslutími. Að sex mánuðum liðnum getur hvort hjóna um sig krafist lögskilnaðar en með honum telst hjónabandinu endanlega lokið. Um fjárskipti vegna skilnaðar gildir helmingaskiptaregla. Hún felur í sér að hreinum eignum hvors hjóna er skipt til helminga á milli þeirra, hafi þau ekki samið um að önnur skipan skuli höfð á eignarfyrirkomulagi þeirra.

Foreldrar geta samið um að annað hjóna eða bæði sameiginlega fari með forsjá þeirra barna sem þau eiga saman. Ef samkomulag næst ekki um skipan mála fer ágreiningur þeirra fyrir almenna dómstóla eða þá að Dómsmálaráðuneytið úrskurðar um ágreininginn að undangengnu samþykki hjónanna.

Þegar ákvörðun er tekin um hvaða foreldri skuli fara með forsjá barns skal byggja á því hvað talið er barninu fyrir bestu. Oftast er það móðirin sem fær forsjá yfir börnum sínum eftir skilnað.

Vert er að minnast á að hjúskaparlögin eiga aðeins við um hjúskap en ekki óvígða sambúð. Engar eiginlegar reglur gilda um slit sambúðar og er einstaklingum í sambúð heimilt að semja sína á milli um tilhögun eignaskipta en leita verður til sýslumanns vegna samninga um forsjá og umgengni barna.

Dánarbætur

Heimilt er að greiða dánarbætur í sex mánuði þeim sem eru í hjúskap eða staðfestri sambúð og hafa misst maka sinn. Til að eftirlifandi maki eigi rétt á dánarbótum þarf hann að vera yngri en 67 ára og eiga lögheimili hér á landi. Sjómenn sem hefja töku lífeyris 60-70 ára eiga ekki rétt á dánarbótum.

Fólk í skráðri sambúð getur átt rétt á dánarbótum hafi það átt barn saman eða hafi sambúðin varað í eitt ár samfleytt. Sami réttur skapast ef konan er barnshafandi þegar sambýlismaður hennar andast.

Sex mánaða dánarbætur eru greiddar án tillits til annarra bóta. Dánarbætur vegna bótaskylds slyss eru greiddar í átta ár eftir andlát maka og eru þær ekki tekjutengdar. Sex mánaða bætur eru greiddar áfram eftir að viðtakandi er orðinn 67 ára, ef réttur til bótanna hefur skapast fyrir 67 ára aldur.

Ef eftirlifandi maki er með barn undir 18 ára aldri á framfæri sínu eða ef fjárhagslegar og félagslegar aðstæður mæla með því skulu greiddar dánarbætur í 12 mánuði til viðbótar eftir að 6 mánaða tímabilinu lýkur.

Enn fremur er heimilt að framlengja greiðslur dánarbóta um allt að 36 mánuði til viðbótar ef sérstaklega erfiðar fjárhagslegar og félagslegar aðstæður eru fyrir hendi.

Staðfesting alþjóðasamninga um mannréttindi kvenna

Ísland hefur staðfest helstu alþjóðasamninga er varða mannréttindi kvenna. Ísland staðfesti samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) nr. 100 um jöfn laun karla og kvenna fyrir jafn verðmæt störf árið 1958 og samþykkt nr. 111 um misrétti með tilliti til atvinnu og starfs árið 1963.

Ísland staðfesti einnig alþjóðasamning Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum árið 1985. Ísland fullgilti auk þess Mannréttindasáttmála Evrópu árið 1953 og hefur samningurinn verið lögfestur hér á landi, með lögum nr. 62/1994. Ísland varð aðili að Félagsmálasáttmála Evrópu árið 1976. Ísland hefur undirritað en ekki fullgilt samning Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali.

 



[1] Nefnd um konur og fjölmiðla 2001 og bæklingurinn „Konur og karlar á Íslandi 2013“

Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16