Mannréttindadómstóll Evrópu
Mannréttindadómstóll Evrópu starfar á grundvelli Mannréttindasáttmálans. Er dómstóllinn staðsettur í Strassborg í Frakklandi og þangað geta borgarar í aðildarríkjum Evrópuráðsins leitað, ef þeir telja að stjórnvöld hafi beitt þá órétti.
Hvert aðildarríkja Evrópuráðsins útnefnir einn dómara. Í nóvember árið 1998 tók til starfa „nýr” Mannréttindadómstóll Evrópu, en með viðauka nr. 11 við Mannréttindasáttmála Evrópu var Mannréttindanefnd Evrópu og Mannréttindadómstóllinn sameinuð í eina stofnun. Tilgangur sameiningarinnar var að málsmeðferðin yrði hraðari og skilvirkari.
Er það í höndum Ráðherranefndar Evrópuráðsins að fylgjast með að dómum dómstólsins sé framfylgt. Ráðherranefndin getur þó ekki beitt þvingunarúrræðum gagnvart þeim aðildarríkjum sem ekki fara eftir úrskurði dómstólsins.
Hlutverk dómstólsins er að tryggja að aðildarríki virði þau réttindi sem kveðið er á um í Mannréttindasáttmála Evrópu. Dómstóllinn framkvæmir þetta hlutverk sitt með því að rannsaka kvartanir sem honum hafa borist frá einstaklingum eða ríkjum. Ef dómstóllinn telur að aðildarríki hafi brotið gegn ákvæðum sáttmálans þá dæmir hann í málinu. Dómurinn er bindandi fyrir það ríki sem á í hlut og er því skylt að fara eftir dómnum.
Nánari upplýsingar um dómstólinn má finna á heimasíðu hans hér.
Sérfræðihópur á sviði aðgerða gegn mansali – GRETA
GRETA hefur eftirlit með því að aðildarríki framfylgi og innleiði Evrópuráðssamningnum um aðgerðir gegn mansali, sem samþykktur var 3. maí 2005 og tók gildi 1. febrúar 2008. GRETA gefur reglulega skýrslur þar sem metnar eru aðgerðir stjórnvalda og þau stjórnvöld sem ekki eru að standa sig í innleiðingu samningsins eru hvött til þess að bæta sig.
Í GRETA hópnum starfa 15 óháðir og óhlutdrægir sérfræðingar á sviði mannréttindamála, verndun þolenda og þekkingu á mansalsmálum. Eftirlitsstarfsemi GRETA skiptist í fjórar lotur. GRETA metur frammistöðu ríkja með því að senda þeim spurningalista. Svörin við honum eru síðan greindar og kallað eftir frekari upplýsingum er þörf er á. Ef GRETA telur þörf á þá er skipulögð heimsókn til aðildarríkisins til þess að afla frekari gagna eða meta framkvæmd aðgerða. Slíkar heimsóknir eru einnig vettvangur til þess að funda með stjórnvöldum sem og frjálsum félagsamtökum en einnig að skoða stofnanir og aðstöðu þar sem þolendum mansals er veitt aðstoð. Að lokum er gefin út skýrsla um hvert ríki og tilmæli um það sem betur má fara Skýrslurnar og tilmælin eru gerð opinber og gefin út á vefsíðu Evrópuráðsins gegn mansali.
Frekari upplýsingar um GRETA má finna á heimasíðu Evrópuráðsins gegn mansali hér og í bæklingi gefnum út af Evrópuráðinu sem finna má á íslensku hér.
Evrópunefndin gegn kynþáttafordómum og umburðarleysi (ECRI)
Evrópunefndin gegn kynþáttafordómum er sjálfstæður eftirlitsaðili á sviði mannréttinda sem sérhæfir sig í málum er varða kynþáttafordóma og umburðarleysi. Nefndin samanstendur af óháðum og óhlutdrægum meðlimum sem eru skipaðir á grundvelli siðferðisvitundar sinnar og sérþekkingar á því hvernig megi sporna gegn kynþáttafordómum, útlendingahatri, gyðingaandúð og öðru umburðarleysi.
Nefndin hefur eftirlit með aðildarríkjum og greinir stöðuna og leggur fram ráðleggingar og tillögur um hvernig best sé að bregðast við vandamálum sem hún telur vera til staðar. Skýrslur ECRI byggja á greiningu á upplýsingum sem safnað er víða en ekki beint kallað eftir frá ríkinu sjálfu. Einstök ríki eru síðan heimsótt til þess að afla frekari upplýsinga og heimsækja aðila og skoða aðstæður. Samráð er haft við ríki við gerð skýrslunnar þar sem ríkinu gefst kostur á að leiðrétta staðreyndavillur og ríkin hafa kost á því að sjónarmiðum þeirra verði gerð skil í viðauka við skýrslu ECRI.
Nefndin gefur einnig út almenn stefnutilmæli (e. General Policy Recommendation) um ákveðin þemu sem beint er til stjórnvalda allra aðildarríkjanna. Tilmælin eru eiginlegar leiðbeiningarreglur sem stjórnvöld ættu að hafa hliðsjón af þegar þau setja sér stefnur og aðgerðaráætlanir í málum er lúta að kynþáttfordómum og umburðarleysi.
Skýrslur ECRI og frekari upplýsingar um starf hennar er að finna á heimasíðu hennar hér.
Pyntinganefnd Evrópuráðsins (CPT)
Evrópunefnd um pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða pyntinganefnd Evrópuráðsins var stofnuð á grundvelli Evrópuráðssamningsins um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu sem tók gildi 1989.
Nefndin hefur eftirlit með innleiðingu og framfylgd samningsins hjá aðildarríkjum hans. Nefndin skipuleggur heimsóknir til ríkja þar sem að hún skoðar fangelsisstofnanir og annars konar stofnanir þar sem einstaklingar eru vistaðir, í lengri eða skemmri tíma, s.s. lögreglustöðvar, hjúkrunarheimil og geðdeildir sjúkrahúsa.
Nefndarmenn eiga að hafa ótakmarkaðan aðgang að þessum stöðum og hafa rétt til þess að skoða þá án takmarkana. Þeir taka viðtöl við frelsissvipta einstaklinga og eiga rétt á að ræða við hvern þann sem þeir telja geta veitt upplýsingar. Eftir hverja heimsókn gerir nefndin ítarlega skýrslu um stöðu þessara mála hjá viðkomandi ríki. Í skýrslunni má finna greiningu nefndarinnar, ásamt tilmælum, athugasemdum og óskum um frekari upplýsingar. Nefndin óskar síðan eftir ítarlegu svari frá viðkomandi ríki um þau atriði sem sérstaklega er vakin athygli á í skýrslunni.
Nánari upplýsingar um nefndina og störf hennar ásamt skýrslum hennar má finna á heimasíðu hennar hér.