“Það ber að viðurkenna að hver maður sé jafnborinn til virðingar og réttinda, er eigi verði af honum tekin, og er þetta undirstaða frelsis, réttlætis og friðar í heiminum.”
“Hafi mannréttindi verið fyrir borð borin og lítilsvirt, hefur slíkt í för með sér siðlausar athafnir, er ofboðið hafa samvisku mannkynsins, enda hefur því verið yfir lýst, að æðsta markmið almennings um heim allan sé að skapa veröld, þar sem menn fái notið málfrelsis, trúfrelsis og óttaleysis um einkalíf og afkomu.”
“Mannréttindi á að vernda með lögum. Að öðrum kosti hljóta menn að grípa til þess örþirfaráðs að rísa upp gegn kúgun og ofbeldi.”
Þannig hefst inngangur Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna sem samþykkt var hinn 10. desember 1948. Með henni var lagður grundvöllur að uppbyggingu hins alþjóðlega mannréttindakerfis og hún hefur með árunum orðið viðurkennt leiðarljós þeirra sem vinna að eflingu og virðingu mannréttinda og þeirra sem mannréttindi eru brotin á um heim allan.
Stjórnmálaleiðtogar allra landa, jafnvel þeir sem láta mannréttindabrot viðgangast, hafa í áranna rás vísað til yfirlýsingarinnar á tyllidögum og viðurkennt þannig í orði efni hennar og inntak þótt þeir hafi ekki farið eftir henni á borði. Víða um heim hefur Mannréttindayfirlýsingin eða réttindin, sem þar er kveðið á um, verið tekin upp í stjórnarskrár ríkja. Hún hefur þannig haft ómælda þýðingu fyrir heimsbyggðina alla.
Þessa yfirlýsingu þurfa sem flestir að kunna og gera að sínu leiðarljósi; virða ber mannréttindi allra, allsstaðar og jafnan ber að hafa í huga hina gullnu jafnræðisreglu 2. gr. yfirlýsingarinnar og margra alþjóðlegra mannréttindasamninga, að allir skuli eiga kröfu á réttindunum sem þar eru tilgreind, allir skuli jafnir gagnvart lögum og dómstólum og megi þar engan greinarmun gera vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis eða annarra sambærilegra aðstæðna.
Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. yfirlýsingarinnar má ekki heldur gera greinarmun á mönnum fyrir sakir stjórnskipulags lands þeirra eða landsvæðis, þjóðréttarstöðu þess eða lögsögu yfir því, hvort sem landið er sjálfstætt ríki, umráðasvæði, sjálfsstjórnarlaust eða á annan hátt háð takmörkunum á fullveldi sínu.
Kaflarnir á þessari síðu eru til þess hugsaðir að gefa örstutt yfirlit yfir hugmyndir manna um hugtakið mannréttindi og alþjóðlega mannréttindakerfið, sem byggt var upp eftir stofnun Sameinuðu þjóðanna. Með því var viðurkennt að mannréttindi væru alþjóðlegt viðfangsefni sem gæti gengið gegn fullveldisrétti einstakra ríkja. Samtímis alþjóðakerfinu voru byggð upp sérstök svæðisbundin mannréttindakerfi í Evrópu og Ameríku og með tímanum hefur mannréttindastarf stóreflst í einstökum ríkjum, grundvallað á landsrétti einstakra ríkja sem og alþjóðalögum.