Styrkt verkefni árið 2011 voru fjölbreytt. Sem dæmi má nefna Evrópuviku gegn kynþáttamisrétti, Fjölmenningardaginn, jafningjafræðslu og rannsóknir.
Evrópuvika gegn kynþáttamisrétti
Skrifstofan hélt hönnunarsamkeppni um merki fyrir slagorð vikunnar, sem að þessu sinni var Rasisti? Ekki ég... Er það? Keppnin var haldin í samstarfi við Listaháskóla Íslands og dómarar komu frá Samtökunum '78, Jafnréttisstofu og Mannréttindaskrifstofu, og fengu hjálp hjá grafískum hönnuðum við dóminn. Vinningsmerkið var prentað á póstkort, bæklinga og barmerki sem var svo dreift á aðalviðburði vikunnar í Smáralind, þar sem ungmenni komu saman, fræddu almenning um kynþáttamisrétti og horfðu á skemmtiatriði. Einnig fengu ungmennin boli með merki vikunnar.
Þátttakendur voru frá Rauða krossi Íslands, Þjóðkirkjunni og Alþjóðatorgi ungmenna. Ásamt Reykjavík var einnig haldið upp á Evrópuvikuna á Akureyri og Akranesi.
Þátttakendur í Reykjavík hittust þann tólfta í Salaskóla þar sem haldnar voru ýmis konar smiðjur þar sem unnið var með þema Evrópuvikunnar. Boðið var upp á leiklistarsmiðju, trúðasmiðju, listasmiðju og mannréttindasmiðju, og gátu ungmennin valið sér 3 smiðjur hvert til að taka þátt í.
Málstofur fyrir fjölmiðla
Skrifstofan hélt málstofur fyrir fjölmiðla sem fjölluðu um bann við mismunun á fimm sviðum – vegna kynþáttar, trúar/ lífsskoðunar, fötlunar, aldurs, kynhneigðar og kyns. Málstofurnar fengu misjafna athygli, Ríkisútvarpið og Blaðamannafélag Íslands sýndu verkefninu mikinn áhuga, á meðan að aðrir fjölmiðlar töldu sig ekki hafa þörf fyrir þjálfun sem þessa.
Rannsókn á virkri þátttöku innflytjenda í íslensku samfélagi
Flutningur til Íslands hefur fjölgað mjög á undanförnum árum og skortur er á bæði tölfræði og rannsóknum í málum innflytjenda. Því framkvæmdi Mannréttindaskrifstofan rannsókn á þátttöku innflytjenda á Íslandi í almennu samfélagi og á vinnumarkaði í efnahagskreppunni. Athygli var beint að hinum ýmsu hópum innflytjenda á Íslandi, sérstaklega var sjónum beint annars vegar að ungmennum (15- 24 ára) og fullorðnum (eldri en 24 ára). Bæði innflytjendur og einstaklingar sem starfa við þjónustu til innflytjenda voru tekin í viðtöl. Niðurstöður rannsóknarinnar voru kynntar á alþjóðlegri ráðstefnu í október.
Brjótum Múrana
Brjótum múrana er margþætt verkefni sem haldið var árið 2011. Haldnar voru málstofur sem fjölluðu til dæmis um mismunun, fjölmenningu, sálræn viðbrögð við flutningum milli menningarheima og sammenningarleg tengsl. Málstofurnar voru haldnar fyrir starfsmenn og sjálfboðaliða Rauða krossins, starfsfólk félagsmiðstöðva, fjölmiðla og fleiri.
Ráðstefna um fjölmenningu var haldin í samstafi við Rauða krossinn og Samband íslenskra sveitafélaga undir heitinu Brjótum múra! á Akranesi í nóvember. Sérstaklega var athyglinni beint að atvinnulausum innflytjendum og aðgerðum sem hægt er að beita til að hvetja þá til að taka þátt í félagslegum viðburðum og virkja þá í atvinnuleit. Ýmsir viðburðir voru haldnir á meðan að ráðstefnan var í gangi, til dæmis Þjóðhátíð sem haldin var í lok ráðstefnunnar.
Jafningjafræðsla í grunnskólum:
Ungmenni fóru í unglingadeild grunnskóla Reykjavíkur sem fulltrúar innflytjenda, fatlaðra og hinsegin fólks og ræddu við jafnaldra sína um eigin reynslu. Verkefnið gekk afar vel og þótti auka skilning nemenda á lífi þessara hópa, og jafnframt minnka fordóma í þeirra garð.
Sveitafélög gegn fordómum, staðalímyndum og neikvæðum viðhorfum til þjóðernishópa sem eru í minnihluta
Ýmsir viðburðir voru haldnir á tímabilinu 15. desember 2010 til 30. desember 2011 með það að markmiði að koma löggjöf um bann við mismunun í framkvæmd, setja af stað stefnu til að berjast gegn mismunun og efla jafnrétti umfram löggjöf. Verkefni sem unnin voru á þessu tímabili voru til dæmis útgáfa og dreifing á bæklingum á mismunandi tungumálum sem innihéldu upplýsingar frá ríkinu, sveitafélögum, frjálsum félagasamtökum og fleirum með það að markmiði að bæta aðgang innflytjenda að almennri þjónustu. Einnig var gerð könnun til að mæla viðhorf til mismununar vegna kynþáttar eða uppruna og til að sýna þær hindranir sem ungt fólk stendur frammi fyrir vegna uppruna síns. Auk þess var málþing haldið fyrir menntaskólakennara um samvinnu í námi hjá fjölmenningarhópum og var það vel sótt. Aðalviðburður verkefnisins var svo Fjölmenningardagurinn.