Með fyrstu verkefnum MRSÍ var að efna til námskeiðs um mannréttindi í samvinnu við Lögmannafélag Íslands. Voru fyrirlesarar fengnir til landsins erlendis frá, þar á meðal tveir mestu og reyndustu sérfræðingar Íslands á sviði mannréttindamála, þeir Guðmundur Alfreðsson og Jakob Möller, sem þá voru báðir starfandi hjá Sameinuðu þjóðunum og höfðu verið í áratugi.
Skrifstofan stóð einnig um árabil fyrir námskeiðum um mannréttindi ásamt Barnaheillum og Endurmenntunardeild Kennaraháskóla Íslands. Þá hafa verið haldin mannréttindanámskeið í samvinnu við Háskóla Íslands, samtök nýbúa og ýmsa fleiri aðila. Af hálfu skrifstofunnar hafa verið haldin erindi fyrir félög og stofnanir, m.a. fyrir svonefnda Nýbúa og Lögregluskóla Ríksins, ORATOR, félag laganema Háskóla Íslands og utanríkisráðuneytið.
Þá hefur skrifstofan í nokkur ár verið í samstarfi við alþjóðleg samtök um fjölþjóðlega menntun og tekið þátt í verkefnum er varða gerð kennsluefnis um mannréttindi sem Evrópusambandið hefur styrkt og samstarfsverkefni Friðarháskóla Sameinuðu þjóðanna og ríkisstjórnar Hollands, hið s.k. Human Rights Education Project. Hún hefur einnig átt þess kost að taka þátt í námskeiðahaldi erlendis, í þróunarríkjunum í samvinnu við norrænu stofnanirnar, en ekki haft til þess fjármagn. Sökum fjárskorts hefur hún heldur ekki getað þegið boð úr ýmsum áttum um að halda erindi og fyrirlestra um mannréttindamál á Íslandi.
Með PROGRESS styrks Evrópusambandsins hefur skrifstofan haldið nokkur námskeið undanfarin ár og má þá helst nefna tvö námskeið sem haldin voru í Reykjavík og á Akureyri sem fjalla um jafnrétti og bann við mismunun en þau sóttu frjáls félagasamtök og launþegahreyfingar. Fjallað var um hlutverk frjálsra félagasamtaka og launþegahreyfingarinnar í baráttu gegn mismunun á grundvellli ESB tilskipana er banna mismunun vegna kynþáttar, þjóðernisuppruna, aldurs, fötlunar, kynhneigðar og trúar eða annarra lífsskoðana.