Samningsviðauki nr. 13 við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis

VIÐBÓTARSAMNINGUR NR. 13 við sáttmálann um verndun mannréttinda og mannfrelsis, varðandi afnám dauðarefsingar í öllum tilvikum.

Aðildarríki Evrópuráðsins, sem undirrita viðbótarsamning þennan,

  • eru sannfærð um að réttur allra manna til lífs sé ein af undirstöðunum í lýðræðisþjóðfélagi og að afnám dauðarefsingar sé grundvallaratriði í vernd þessa réttar og því að mannleg reisn hljóti fulla viðurkenningu sem óvefengjanlegur réttur allra manna,
  • vilja efla vernd réttarins til lífs sem tryggður er með sáttmálanum um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sem undirritaður var í Róm 4. nóvember 1950 (hér á eftir nefndur „samningurinn“),
  • gera sér ljóst að í samningsviðauka nr.6, varðandi afnám dauðarefsingar, við samninginn, sem undirritaður var í Strassborg 28. apríl 1983, er dauðarefsing fyrir verknaði, framda á stríðstímum, eða þegar bráð stríðshætta vofir yfir, ekki útilokuð,
  • eru staðráðin í að taka skrefið til fulls í þá átt að afnema dauðarefsingu í öllum tilvikum,

hafa orðið ásátt um eftirfarandi:

1. gr.
Afnám dauðarefsingar.
Dauðarefsing skal afnumin. Engan skal dæma til slíkrar refsingar eða lífláta.

2. gr.
Bann við frávikum.
Óheimilt er að víkja frá ákvæðum þessa samningsviðauka á grundvelli 15. gr. samningsins.

3. gr.
Bann við fyrirvörum.
Óheimilt er að gera fyrirvara skv. 57. gr. samningsins um ákvæði þessa samningsviðauka.

4. gr.
Svæðisbundið gildissvið.
1. Sérhverju ríki er heimilt við undirritun eða afhendingu fullgildingar-, staðfestingar- eða samþykktarskjals að tilgreina það eða þau landsvæði sem samningsviðauki þessi skal ná til.
2. Með yfirlýsingu til aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins getur sérhvert ríki hvenær sem er síðar látið samningsviðauka þennan ná til hvaða annars landsvæðis sem tilgreint er í yfirlýsingunni. Samningsviðaukinn öðlast gildi gagnvart slíku landsvæði fyrsta dag næsta mánaðar eftir að liðnir eru þrír mánuður frá því að aðalframkvæmdastjóra berst slík yfirlýsing.
3. Sérhverja yfirlýsingu, sem gefin er samkvæmt undanfarandi tveimur málsgreinum, má afturkalla eða breyta fyrir hvert það landsvæði sem þar er tilgreint með tilkynningu til aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins. Afturköllunin eða breytingin öðlast gildi fyrsta dag næsta mánaðar eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi er aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins berst slík tilkynning.

5. gr.
Tengsl við samninginn.
Milli aðildarríkjanna skulu ákvæði 1.– 4. gr. þessa samningsviðauka skoðuð sem viðbótargreinar við samninginn og skulu öll ákvæði samningsins gilda í samræmi við það.

6. gr.
Undirritun og fullgilding.
Samningsviðauki þessi skal liggja frammi til undirritunar aðildarríkjum Evrópuráðsins sem undirritað hafa samninginn. Hann er háður fullgildingu, staðfestingu eða samþykki. Aðildarríki Evrópuráðsins getur ekki fullgilt, staðfest eða samþykkt þennan samningsviðauka nema það hafi áður fullgilt samninginn eða geri það samtímis. Fullgildingar-, staðfestingar- og samþykktarskjöl skulu afhent aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins til vörslu.

7. gr.
Gildistaka.
1. Samningsviðauki þessi öðlast gildi fyrsta dag næsta mánaðar eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá því að tíu aðildarríki Evrópuráðsins hafa lýst sig samþykk því að vera bundin af samningsviðaukanum í samræmi við ákvæði 6. gr.
2. Gagnvart aðildarríki, sem síðar lýsir samþykki sínu til að vera bundið af samningsviðaukanum, skal hann öðlast gildi fyrsta dag næsta mánaðar eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá afhendingu fullgildingar-, staðfestingar- eða samþykktarskjalsins.

8. gr.
Hlutverk vörsluaðila.
Aðalframkvæmdastjóri Evrópuráðsins skal tilkynna öllum aðildarríkjum Evrópuráðsins um:
a. Sérhverja undirritun.
b. Afhendingu sérhvers fullgildingar-, staðfestingar- eða samþykktarskjals.
c. Sérhvern gildistökudag samningsviðauka þessa skv. 4. og 7. gr.
d. Sérhvern gerning, tilkynningu eða yfirlýsingu varðandi samningsviðauka þennan.

Þessu til staðfestu hafa undirrituð, sem til þess hafa fullt umboð, ritað undir samningsviðauka þennan.

Gjört í Vilníus hinn 3. maí 2002 á ensku og frönsku í einu eintaki sem varðveitt skal í skjalasafni Evrópuráðsins, og eru báðir textarnir jafngildir. Aðalframkvæmdastjóri Evrópuráðsins skal senda staðfest endurrit til allra aðildarríkja Evrópuráðsins.

Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16