Strassborg, 26. XI. 1987 - Safn Evrópusamninga/126
Birtist í Stjórnartíðindum C 19/1990.
Tvær bókanir hafa verið gerðar til breytinga á samningnum. Bókanirnar hafa verið undirritaðar og fullgiltar af Íslandi og tóku gildi 1. mars 2002. Breytingarnar hafa verið felldar inn í megintexta samningsins hér á eftir.
Aðildarríki Evrópuráðsins, sem undirritað hafa samning þennan,
sem hafa hliðsjón af ákvæðum sáttmála um verndun mannréttinda og mannfrelsis,
sem minnast þess að "enginn maður skal sæta pyndingum, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu" samkvæmt 3. gr. þess sáttmála,
sem líta til þess að úrræði þau sem sáttmálinn gerir ráð fyrir verka gagnvart þeim sem telja sig hafa orðið fyrir broti gegn 3. gr.,
sem eru sannfærð um að vernd manna sem sætt hafa frelsissviptingu gegn pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu megi efla með fyrirbyggjandi aðgerðum sem grundvallast á vitjunum fremur en með réttarúrræðum,
hafa orðið ásátt um eftirfarandi:
I. kafli
1. gr.
Stofnsett skal Evrópunefnd um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (hér á eftir nefnd "nefndin"). Skal nefndin með vitjunum kanna meðferð manna sem sætt hafa frelsissviptingu í því skyni að efla, ef nauðsyn krefur, vernd þeirra gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.
2. gr.
Hver aðili skal heimila vitjanir samkvæmt samningi þessum til sérhvers staðar innan lögsögu hans þar sem frelsissviptir menn eru vegna ákvörðunar opinbers yfirvalds.
3. gr.
Við framkvæmd þessa skulu nefndin og þar til bær yfirvöld þess aðila, sem við á, hafa samvinnu sín í milli.
II. kafli
4. gr.
1. Nefndin skal skipuð jafnmörgum mönnum og aðilar eru.
2. Nefndarmenn skulu kjörnir úr hópi manna sem eru vammlausir og viðurkenndir fyrir hæfni á sviði mannréttinda eða með starfsreynslu á því sviði sem samningur þessi tekur til.
3. Engir tveir nefndarmenn skulu vera þegnar sama ríkis.
4. Nefndarmenn eru einungis bundnir við sannfæringu sína í störfum sínum og skulu starfa sem einstaklingar, vera sjálfstæðir og óhlutdrægir, og tiltækir til virkra starfa í þágu nefndarinnar.
5. gr.
1. Ráðherranefnd Evrópuráðsins kýs nefndarmenn af skrá sem stjórnarnefnd ráðgjafarþings Evrópuráðsins tekur saman. Skulu þeir kjörnir með hreinum meirihluta atkvæða. Hver sendinefnd aðilanna á þinginu tilnefnir þrjá frambjóðendur, og skulu að minnsta kosti tveir þeirra vera þegnar hlutaðeigandi ríkis.
Þegar kjósa skal nefndarmann af hálfu ríkis sem ekki er aðili að Evrópuráðinu skal stjórnarnefnd ráðgjafarþingsins bjóða þjóðþingi þess ríkis að tilnefna þrjá frambjóðendur, og skulu að minnsta kosti tveir þeirra vera þegnar hlutaðeigandi ríkis. Kosning ráðherranefndarinnar skal fara fram að höfðu samráði við viðkomandi ríki.
2. Fara skal að með sama hætti þegar fylla þarf sæti sem kunna að losna.
3. Nefndarmenn skulu kjörnir til fjögurra ára. Þá má endurkjósa tvisvar. Þó skal kjörtímabili þriggja nefndarmanna sem kjörnir eru í fyrstu kosningu lokið að tveimur árum liðnum. Nefndarmenn, sem ganga eiga úr nefndinni að fyrstu tveimur árum liðnum, skulu valdir með hlutkesti af aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins þegar að afloknu fyrsta kjöri.
4. Til að tryggja, eftir því sem unnt er, að helmingur nefndarmanna sé endurnýjaður annað hvort ár getur ráðherranefndin ákveðið áður en gengið er til eftirfarandi kosninga að kjörtímabil eins eða fleiri þeirra nefndarmanna sem kjósa skal skuli ver annað en fjögur ár en þó ekki lengra en sex ár og ekki skemmra en tvö ár.
5. Þegar um kjörtímabil fleiri en eins nefndarmanns er að ræða og ráðherranefndin beitir undanfarandi málsgrein skal úthlutun kjörtímabila nefndarmanna framkvæmd með hlutkesti af aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins þegar eftir kosninguna.
6. gr.
1. Fundi nefndarinnar skal halda fyrir luktum dyrum. Fundur er lögmætur þegar meirihluti nefndarmanna er viðstaddur. Ákvarðanir nefndarinnar skulu teknar með meirihluta þeirra nefndarmanna sem viðstaddir eru, sbr. þó 2. tl. 10. gr.
2. Nefndin setur sér sjálf fundarsköp.
3 Aðalframkvæmdastjóri Evrópuráðsins skal annast skrifstofuhald fyrir nefndina.
III. kafli
7. gr.
1. Nefndin skal skipuleggja vitjanir til staða sem um getur í 2. gr. Auk reglubundinna vitjana getur nefndin skipulagt aðrar vitjanir sem henni virðist þörf á með hliðsjón af aðstæðum.
2. Að jafnaði skulu að minnsta kosti tveir nefndarmenn fara í vitjun. Nefndin má, ef hún telur nauðsynlegt, hafa sérfræðinga og túlka sér til aðstoðar.
8. gr.
1. Nefndin skal tilkynna ríkisstjórn þess aðila sem í hlut á um þá fyrirætlun að koma í vitjun. Er það hefur verið tilkynnt má nefndin hvenær sem er fara til hvers þess staðar sem um getur í 2. gr.
2. Aðili skal veita nefndinni eftirfarandi aðstöðu til að sinna hlutverki sínu:
a - Aðgang að landsvæði sínu og rétt til ferðar án hindrunar,
b - allar upplýsingar um þá staði þar sem frelsissviptir menn eru,
c - ótakmarkaðan aðgang að hverjum þeim stað þar sem frelsissviptir menn eru, þar með talinn réttur til að fara um þá staði án hindrunar,
d - allar aðrar upplýsingar sem aðilanum eru tiltækar og nefndinni nauðsynlegar til að sinna hlutverki sínu. Þegar nefndin leitar þessara upplýsinga skal hún taka tillit til þeirra laga og siðareglna sem við eiga í landinu.
3. Nefndin má eiga viðtöl í einrúmi við frelsissvipta menn.
4. Nefndin getur átt óheft samskipti við hvern þann sem hún telur geta veitt gagnlegar upplýsingar.
5. Sé þess þörf getur nefndin þegar komið athugasemdum sínum á framfæri við þar til bær yfirvöld þess aðila sem í hlut á.
9. gr.
1. Ef alveg sérstaklega stendur á geta þar til bær yfirvöld þess aðila sem í hlut á andmælt því við nefndina að hún komi í vitjun á þeim tíma eða til þess ákveðna tiltekna staðar sem hún hyggst vitja. Slík andmæli verða aðeins borin fram vegna landvarna, öryggis almennings, alvarlegrar upplausnar á stöðum þar sem frelsissviptir menn eru, heilsufars manns, eða vegna þess að áríðandi yfirheyrsla vegna alvarlegs afbrots stendur yfir.
2. Er slík andmæli hafa verið borin fram skulu nefndin og aðilinn þegar ráðgast sín á milli til að skýra aðstæður og leita samkomulags um tilhögun sem geri nefndinni kleift að rækja störf sín án tafa. Slík tilhögun getur falið í sér flutning manns, sem nefndin hyggst vitja, til annars staðar. Þar til vitjun á sér stað skal aðilinn veita nefndinni upplýsingar um hvern þann sem í hlut á.
10. gr.
1. Að lokinni hverri vitjun skal nefndin gera skýrslu um þau atriði sem í ljós hafa komið við vitjunina, og skal tekið tillit til allra athugasemda sem viðkomandi aðili kann að hafa lagt fram. Skal nefndin senda honum skýrslu sína með þeim tillögum sem hún telur nauðsynlegar. Getur nefndin ráðgast við aðilann í því skyni að leggja til, ef þörf er á, umbætur varðandi vernd frelsissviptra manna.
2. Ef aðili hafnar samvinnu eða neitar að bæta aðstæður í ljósi tillagna nefndarinnar getur nefndin með atkvæðum tveggja þriðju hluta nefndarmanna ákveðið, er aðilanum hefur verið veittur kostur á að kynna sjónarmið sín, að gefa út opinbera yfirlýsingu um málið.
11. gr.
1. Upplýsingar sem nefndin aflar í tengslum við vitjun og skýrsla hennar og viðræður við viðkomandi aðila eru trúnaðarmál.
2. Nefndin skal birta skýrslu sína, með hverjum þeim athugasemdum sem viðkomandi aðili kann að hafa gert, hvenær sem aðilinn fer fram á það.
3. Þó skal ekki birta persónulegar upplýsingar án skýlauss samþykkis þess manns sem í hlut á.
12. gr.
Að uppfylltum reglum 11. gr. um trúnað skal nefndin árlega gefa ráðherranefndinni almenna skýrslu um störf sín og skal skýrslan send ráðgjafarþinginu og hverju því ríki sem ekki er aðili að Evrópuráðinu en er aðili að samningnum og gerð opinber.
13. gr.
Nefndarmenn, svo og sérfræðingar og aðrir aðstoðarmenn nefndarinnar, skulu meðan á starfstímabili þeirra stendur og síðar halda trúnað um atvik og upplýsingar sem þeir hafa fengið vitneskju um í störfum sínum.
14. gr.
1. Nöfn aðstoðarmanna nefndarinnar skulu tilgreind í tilkynningu samkvæmt 1. tl. 8. gr.
2. Sérfræðingar skulu starfa samkvæmt fyrirmælum og í umboði nefndarinnar. Þeir skulu hafa sérstaka þekkingu og reynslu á þeim sviðum sem samningur þessi tekur til, og vera sjálfstæðir, óhlutdrægir og tiltækir til starfa á sama hátt og nefndarmenn.
3. Aðili getur, ef sérstaklega stendur á, lýst því yfir að sérfræðingur eða annar aðstoðarmaður nefndarinnar fái ekki að koma í vitjun til staðar innan lögsögu hans.
IV. kafli
15. gr.
Hver aðili skal tilkynna nefndinni um nafn og aðsetur þess stjórnvalds sem bært er til að taka við tilkynningum til ríkisstjórnar hans, og um hvern þann tengilið sem hann kann að skipa.
16. gr.
Nefndin, nefndarmenn og sérfræðingar þeir sem um getur í 2. tl. 7. gr. skulu njóta þeirra forréttinda og friðhelgi sem greinir í viðauka við samning þennan.
17. gr.
1. Samningur þessi skal ekki skerða gildi ákvæða í landslögum eða alþjóðasamningum sem veita frelsissviptum mönnum betri vernd.
2. Ekkert í samningi þessum skal talið takmarka eða raska löghæfi stofnana Mannréttindasáttmála Evrópu eða skyldum þeim sem aðilar hafa tekist á hendur samkvæmt þeim sáttmála.
3. Nefndin skal ekki vitja staða sem fulltrúar eða sendimenn verndarríkja eða Alþjóðanefndar Rauða krossins vitja á virkan hátt reglubundið samkvæmt Genfarsamningunum frá 12. ágúst 1949 og viðbótarbókunum við þá frá 8. júní 1977.
V. kafli
18. gr.
1. Samningur þessi skal liggja frammi til undirritunar fyrir aðildarríki Evrópuráðsins. Hann er háður fullgildingu, viðurkenningu eða samþykki. Fullgildingar-, viðurkenningar- og samþykktarskjöl skulu afhent aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins.
2. Ráðherranefnd Evrópuráðsins getur boðið ríkjum sem ekki eru aðilar að Evrópuráðinu að gerast aðilar að samningnum
19. gr.
1. Samningur þessi gengur í gildi fyrsta þess mánaðar sem hefst eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi er sjö aðildarríki Evrópuráðsins hafa lýst samþykki sínu á að vera bundin af honum samkvæmt 18. gr.
2. Gagnvart aðildarríki, sem síðar lýsir samþykki sínu á að vera bundið af samningi þessum, öðlast hann gildi fyrsta dag þess mánaðar sem hefst eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi er fullgildingar-, viðurkenningar- eða samþykktarskjal þess er afhent.
20. gr.
1. Sérhverju ríki er heimilt við undirritun eða við afhendingu fullgildingar-, viðurkenningar- eða samþykktarskjals að tilgreina það eða þau landssvæði sem samningur þessi nær til.
2. Með yfirlýsingu til aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins getur sérhvert ríki hvenær sem er síðar látið samning þennan ná til hvaða annars landssvæðis sem tilgreint er í yfirlýsingunni. Samningurinn tekur gildi gagnvart slíku landssvæði fyrsta dag þess mánaðar sem hefst eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi er aðalframkvæmdastjóra berst slík yfirlýsing.
3. Sérhverja yfirlýsingu, sem gefin er samkvæmt tveimur undanfarandi töluliðum, má afturkalla fyrir hvert það landssvæði, sem þar er tilgreint, með tilkynningu til aðalframkvæmdastjórans. Afturköllun tekur gildi fyrsta dag þess mánaðar, sem hefst eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi er aðalframkvæmdastjóra berst slík tilkynning.
21. gr.
Enga fyrirvara má gera við ákvæði samnings þessa.
22. gr.
1. Sérhver aðili getur hvenær sem er sagt upp samningi þessum með tilkynningu til aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins.
2. Slík uppsögn tekur gildi fyrsta dag þess mánaðar sem hefst eftir að liðnir eru tólf mánuðir frá þeim degi er aðalframkvæmdastjóra berst tilkynningin.
23. gr.
Aðalframkvæmdarstjóri Evrópuráðsins skal tilkynna aðildarríkjum Evrópuráðsins og ríkjum sem ekki eru aðilar að Evrópuráðinu en aðilar að samningnum um:
a - sérhverja undirritun,
b - afhendingu sérhvers fullgildingar-, viðurkenningar- eða samþykktarskjals,
c - sérhvern gildistökudag samnings þessa samkvæmt 19. og 20. gr.,
d - sérhvern annan gerning, tilkynningu eða orðsendingu sem samning þennan varðar, nema hvað snertir gerninga samkvæmt 8. og 10. gr.
Þessu til staðfestu hafa undirritaðir, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað samning þennan.
Gjört í Strassborg 26. nóvember 1987 á ensku og frönsku í einu eintaki sem varðveitt skal í skjalasafni Evrópuráðsins og eru báðir textarnir jafngildir. Aðalframkvæmdastjóri Evrópuráðsins skal senda staðfest endurrit til allra aðildarríkja Evrópuráðsins.
VIÐAUKI
Forréttindi og friðhelgi (16. gr.)
1. Þegar rætt er um nefndarmenn í viðauka þessum er einnig átt við sérfræðinga þá sem í 2. tl. 7. gr. getur.
2. Er nefndarmenn rækja störf sín og meðan þeir ferðast vegna starfa sinna njóta þeir eftirtalinna forréttinda og friðhelgi:
a - friðhelgi að því er varðar handtöku og kyrrsetningu, og hald á einkafarangri, svo og að því er varðar hvers kyns lögsókn vegna allra athafna þeirra í starfi þ. á. m. vegna ummæla í ræðu eða riti,
b - undanþága frá öllum hömlum á ferðafrelsi við brottför frá búsetulandi sínu og við endurkomu þangað, og þegar komið er til og farið frá landi því þar sem þeir rækja störf sín; og frá skráningu útlendinga í landi þar sem komið er í vitjun eða landi sem þeir fara um vegna starfa sinna.
3. Er nefndarmenn ferðast vegna starfa sinna skal þeim hvað varðar tollgæslu og gjaldeyriseftirlit veitt
a - af hálfu stjórnvalda lands síns sama aðstaða og veitt er háttsettum embættismönnum sem ferðast utanlands í tímabundnum opinberum erindum,
b - af hálfu stjórnvalda annarra aðila sama aðstaða og veitt er fulltrúum erlendra ríkisstjórna sem gegna tímabundnum opinberum erindum.
4. Skjöl og gögn nefndarinnar eru friðhelg að því leyti sem þau varða störf hennar.
Ekki má hefta eða ritskoða opinber bréf eða önnur opinber boðskipti nefndarinnar.
5. Svo nefndarmönnum sé tryggð óskorað málfrelsi og að þeir séu að öllu leyti sjálfstæðir við störf sín, skal friðhelgi þeirra að því er varðar lögsókn vegna ummæla í ræðu eða riti og allra athafna þeirra við störf haldast eftir að þeir láta af störfum.
6. Forréttindi og friðhelgi eru veitt nefndarmönnum til að vernda sjálfstæði þeirra við störf, en ekki vegna þeirra sjálfra. Eingöngu nefndin er til þess bær að afsala nefndarmönnum friðhelgi þeirra, og hún hefur ekki einungis rétt til þess, heldur er henni skylt að afsala nefndarmanni friðhelgi hans hvenær sem hún telur að friðhelgin hefti réttan gang máls og þar sem unnt er að afsala friðhelgi án þess að skaða tilgang hennar.