Á síðustu árum hefur hlutfallslega fjölgað mjög í hópi aldraðra á Íslandi. Samkvæmt lögum um málefni aldraðra teljast til aldraðra einstaklingar sem náð hafa 67 ára aldri. Opinberum starfsmönnum er gert að láta af störfum þegar þeir verða 70 ára og félög eldri borgara eru opin öllum einstaklingum 60 ára og eldri. Því má segja að aldraðir séu fólk á aldrinum yfir sextugu en auðvitað er aldur mjög afstætt hugtak því aldur leggst á ólíkan hátt á mismunandi einstaklinga.
Lög um málefni aldraðra
Árið 1982 var sett fyrsta heildstæða löggjöfin um málefni aldraðra. Tilgangur hennar var að skipuleggja betur þjónustu við aldraða, t.d með því að tengja hana heilbrigðisþjónustu heilsugæslustöðva og félagslegri þjónustu á vegum sveitarfélaganna. Árið 1989 voru lögin endurskoðuð og ný lög voru sett um málefni aldraðra nr. 82/1989 en þau gengu í gildi 1. janúar árið 1990. Aftur voru lögin endurskoðuð og eru nú í gildi lög nr. 125/1999 en þau voru samþykkt á Alþingi 31. desember árið 1999.
Lögin fela í sér þau markmið að gera öldruðum fært að lifa eðlilegu heimilislífi eins lengi og kostur er og að öldruðum sé tryggð þjónusta þegar hennar er þörf og í samræmi við þarfir hvers og eins. Ásamt því er lögð áhersla á að aldraðir njóti jafnréttis og að sjálfstæði þeirra sé virt.
Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála fer með eftirlit með gæðum þjónustu sem veitt er á grundvelli laganna, nema þjónustu hjúkrunarheimila, dvalarheimila og dagdvalar aldraðra. Hægt er að senda inn kvartanir frá notendum og ábendingar um misbresti í þjónustu hér í gegnum vefsíðu stofnunarinnar. Veitendum þjónustu ber jafnframt skylda til að tilkynna stofnuninni án tafar um alvarleg óvænt atvik, en með því er átt við atvik sem valdið hefur eða hefði getað valdið notanda þjónustu varanlegu líkamlegu eða andlegu tjóni eða orðið honum að bana.
Á Íslandi er yfirstjórn öldrunarmála í höndum þess ráðherra sem fer með málefni aldraðra samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, en samkvæmt gildandi forsetaúrskurði (frá 31. janúar 2023) er það félags- og vinnumarkaðsráðherra. Ráðuneytið hefur frumkvæði að stefnumótun um málefni er varða aldraða og á það einnig að annast áætlanagerð í málaflokknum fyrir landið í heild sinni. Samkvæmt lögunum skipar velferðarráðherra fimm manna nefnd sem hefur málefni aldraðra á sinni könnu. Er einn nefndarmaðurinn tilnefndur af Landssambandi eldri borgara, einn af Öldrunarráði Íslands og einn af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og tveir skipaðir án tilnefningar og skal annar þeirra vera formaður. Ráðherra skipar formann úr hópi nefndarmanna. Verkefni nefndarinnar eru ráðgefandi ásamt því að vera tengiliður á milli ráðuneyta, stofnana og samtaka sem starfa að málefnum aldraðra.
Framkvæmdasjóður aldraðra
Framkvæmdasjóður aldraðra var stofnaður með lögum árið 1981. Hefur hann það hlutverk að vinna að uppbyggingu öldrunarþjónustu á Íslandi. Fjármagn sjóðsins á að styrkja byggingu þjónustumiðstöðva fyrir aldraða. Sjóðurinn á einnig að styrkja nauðsynlegar breytingar og endurbætur á húsnæði sem nýtt er fyrir þjónustu í málefnum aldraðra. Sjóðurinn styrkir einnig sveitarfélög og heilsugæslustöðvar til að þróa skipulagða heimaþjónustu fyrir aldraða. Ásamt því er sjóðnum ætlað að styrkja rannsóknir, kennslu og kynningu á öldrunarmálum ásamt öðrum verkefnum.
Réttindi aldraðra
Í íslenskum lögum er að finna margs konar ákvæði sem hafa það markmið að gæta að hagsmunum þeirra sem geta ekki, vegna ýmissa ástæðna, borið fulla ábyrgð á sjálfum sér og gjörðum sínum. Hver einstaklingur eldist á mismunandi hátt og sumir aldraðir eru ófærir um að gæta hagsmuna sinna.
Í 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er fjallað um sakhæfi, þar sem segir að þeim mönnum skuli ekki refsað sem sökum geðveiki, andlegs vanþroska eða hrörnunar, rænuskerðingar eða annars samsvarandi ástands voru alls ófærir á þeim tíma, er þeir unnu verkið, til að stjórna verkum sínum. Rétt er þó að taka fram að ölvun eða vímuástand sem einstaklingur hefur sjálfur komið sér í leiðir ekki til ósakhæfis.
Í lögum um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936 er að finna ákvæði sem leyst getur einstaklinga undan ábyrgð sinni á samningi ef þeir eru taldir ósanngjarnir. Samkvæmt 36. gr. laganna má víkja samningi í heild sinni eða að hluta til frá, eða breyta honum, ef að það er talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig, samkvæmt nánari skilgreiningu á því hvað fellur þar undir síðar í ákvæðinu. Jafnframt því kemur fram í ákvæðinu að við mat á aðstæðum skuli líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningaviðræður og atvika sem síðar komu til. Ákvæði þetta er sérlega mikilvægt til að vernda þá sem þess þurfa gegn misnotkun annarra á skilningsskorti þess sem í hlut á hverju sinni.
Þegar kemur að mannréttindum aldraðra eru það helst réttur til aðgengis og þátttöku, réttur til framfærslu og félagsþjónustu, réttur til persónufrelsis og friðhelgi einkalífs, réttur til verndar fjölskyldulífs, réttur til heilbrigðis- og endurmenntunar, réttur til atvinnu og tómstunda, búsetu og eigin heimilis og bann við ómannlegri og vanvirðandi meðferð sem koma við sögu.
Réttindi aldraðra á alþjóðavettvangi
Ísland er aðili að öllum helstu samningum um mannréttindi hvort sem það er á vettvangi Sameinuðu þjóðanna eða Evrópusambandsins.
Sameinuðu þjóðirnar
Eins og fyrr greinir voru Sameinuðu þjóðirnar stofnaðar árið 1948, í kjölfar hörmunga seinni heimsstyrjaldarinnar. Markmið samtakanna er að koma á alþjóðasamvinnu um lausn alþjóðavandamála, fjárhagslegs-, félagslegs-, menningarlegs- og mannúðarlegs eðlis, og að styrkja og stuðla að virðingu fyrir mannréttindum og grundvallar frelsi allra án tillits til kynþáttar, kyns, tungu eða trúarbragða. Allir helstu mannréttindasamningar stofnunarinnar kveða á um bann við mismunun en ætla má að grundvallarreglan um jafnræði sem sett er fram í alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, samningi um afnám alls kynþáttamisréttis og samningi um afnám allrar mismununar gagnvart konum, banni mismunun á grundvelli aldurs. Þess ber að geta að hinn nýi samningur um réttindi farandverkafólks sem tók gildi árið 2003 kveður á um bann við mismunun á grundvelli aldurs.[1]
Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna
Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna var samþykkt á allsherjarþinginu 10. desember 1948. Hún lagði grunninn að uppbyggingu hins alþjóðlega mannréttindakerfis og raunverulegri samningsgerð Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi þar sem ríki skyldu gangast undir þjóðréttarlegar skuldbindingar um að virða og vernda mannréttindi. Yfirlýsingin hefur með árunum orðið viðurkennt leiðarljós þeirra sem vinna að eflingu og virðingu mannréttinda um allan heim.
Þó mannréttindayfirlýsingin sé ekki bindandi þjóðréttarsamningur heldur fyrst og fremst stefnumótandi yfirlýsing um markmið sem ríkjum ber að stefna að, þá telja margir fræðimenn hana hafi öðlast vægi réttarvenju vegna áhrifa hennar víða um heim. Fjöldi stjórnarskráa ríkja byggir á yfirlýsingunni, hún er grunnplagg í mannréttindastarfi Sameinuðu þjóðanna, svæðasamvinna um mannréttindi í heiminum er grundvölluð í henni, þ.m.t. starf Evrópuráðsins[2] og stöðugt er til hennar vitnað af leiðtogum þjóða heims. Þá eru ákvæði yfirlýsingarinnar endurspegluð í alþjóðasamningunum um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi og sértækum samningum sem ætlað er að vernda réttindi ákveðinna hópa.
Í 1. tl. 25. greinar yfirlýsingarinnar er sérstaklega minnst á aldur,
Hver maður á kröfu til lífskjara, sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og vellíðan hans sjálfs og fjölskyldu hans. Telst þar til matur, klæðnaður, húsnæði, læknishjálp og nauðsynleg félagshjálp, svo og réttindi til öryggis gegn atvinnuleysi, veikindum, örorku, fyrirvinnumissi, elli eða öðrum áföllum, sem skorti valda og hann getur ekki við gert.
Alþjóðasamningur um borgaraleg- og stjórnmálaleg réttindi
Alþjóðasamningur um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 16. desember 1966 og tók gildi 23. mars 1976. Samningurinn var undirritaður af Íslands hálfu 30. desember 1968 og fullgiltur með ákveðnum fyrirvörum auk þess sem Ísland fullgilti tvær valfrjálsar bókanir við samninginn árið 1979 og 1991.[3]
Í 1. tl. 2. gr. samningsins kemur fram að allir borgarar aðildarríkjanna eigi jafnan rétt til að njóta þeirra réttinda sem samningurinn á að tryggja en flest eiga ákvæðin rætur að rekja til mannréttindayfirlýsingarinnar. Í 1. tl. 2. gr segir:
Sérhvert ríki sem er aðili að samningi þessum tekst á hendur að virða og ábyrgjast öllum einstaklingum innan landsvæðis síns og undir lögsögu sinni réttindi þau sem viðurkennd eru í samningi þessum án nokkurs konar mismununar svo sem vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúarbragða, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernisuppruna eða félagslegs uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna.
Aldur er ekki tiltekinn sérstaklega í ákvæðinu en færa má fyrir því rök að aldur geti fallið undir hugtakið “aðrar aðstæður”.
Alþjóðasamningur um efnahagsleg-, félagsleg og menningarleg réttindi
Á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þann 16. desember 1966 var samþykktur alþjóðasamningur um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi og tók hann gildi 3. janúar 1976. Samningurinn var undirritaður af Íslands hálfu 30. desember 1968 og fullgiltur 22. ágúst 1979.[4]
Í 2. tl. 2. gr. samningsins er undirstrikað að mannréttindi gildi fyrir alla. Eins og í samningnum um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi þá er aldur ekki tiltekinn en eftirlitsnefnd samningsins hefur tileinkað efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum réttindum aldraðra almenna athugasemd [General Comment] nr. 6. Þar er kveðið á um að elli geti fallið undir “aðrar aðstæður”:[5]
Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum takast á hendur að ábyrgjast að réttindum þeim sem greind eru í samningi þessum muni verða framfylgt án nokkurrar mismununar vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúarbragða, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernisuppruna eða félagslegs uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna.
Þá mælist nefndin einnig til þess að ríki veiti réttindum eldri kvenna sérstaka athygli vegna þess að þær eiga oft ekki full eftirlaunaréttindi. Nefndin hvetur ríki til að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli aldurs á vinnumarkaði, að þau tryggi skilvirkt eftirlaunakerfi og styðji fjölskyldur þar sem aldraðir ættingjar eru á heimilinu. Jafnframt hvetur nefndin ríki til að aðstoða eldri borgara er vilja búa á heimilum sínum í stað stofnana.[6]
Samningur gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu
Ísland er aðili að tveimur alþjóðasamningum sem fjalla sérstaklega um bann við og varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð. Annar er samningur Sameinuðu þjóðanna um bann við pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu frá 1984.[7]
Í 1. mgr. 2. gr. samningsins segir:
Hvert aðildarríki skal gera virkar ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu og réttarvörslu eða aðrar ráðstafanir til að koma í veg fyrir pyndingar á sérhverju landsvæði í lögsögu þess.
Og í 1.tl. 16. greinar segir:
Hvert aðildarríki skuldbindur sig til að hindra að á nokkru landsvæði í lögsögu þess séu framin önnur verk er teljast til grimmilegrar, ómannlegrar eða vanvirðandi meðferðar eða refsingar, en skilgreining hugtaksins pynding í 1. gr. nær þó ekki til, þegar slík verk eru framin af eða fyrir frumkvæði eða með samþykki eða umlíðun opinbers starfsmanns eða annars manns sem er handhafi opinbers valds. Sérstaklega skulu skuldbindingar þær gilda sem um getur í 10., 11., 12. og 13. gr. þannig að í stað þess að vísað sé til pyndinga sé vísað til annarrar grimmilegrar, ómannlegrar eða vanvirðandi meðferðar eða refsingar.
Samningur um afnám allrar mismununar gagnvart konum
Samningur um afnám allrar mismununar gagnvart konum var samþykktur árið 1979 og tók gildi gagnvart Íslandi 18. júlí 1985. 13. gr. kveður á um að aðildarríkin skuli gera allar viðeigandi ráðstafanir til að afnema mismunun gagnvart konum á sviði atvinnu til að tryggja þeim sömu réttindi á grundvelli jafnréttis karla og kvenna, en þar segir í e-lið:
Rétt til almannatrygginga, sérstaklega þegar hætt er störfum vegna aldurs, atvinnuleysis, veikinda, örorku og elli og vegna annars vanhæfis til vinnu, sem og rétt til orlofs.
Yfirlýsingar, ályktanir og meginreglur Sameinuðu þjóðanna um aldraða
Þó ekki hafi verið samþykktur sérstakur samningur um réttindi aldraðra, eins og gert hefur verið til að tryggja réttindi kvenna og barna, þá hafa Sameinuðu þjóðirnar unnið margvíslegt starf sem miðar að því að tryggja öldruðum mannsæmandi líf. Í Vín, árið 1982, samþykkti heimsþing um málefni aldraðra alþjóðlega aðgerðaáætlun um öldrun sem síðan var styrkt með ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna nr. 37/51. Til að fylgja eftir þessari áætlun samþykkti allsherjarþingið, 16. desember 1991, ályktun nr. 46/1991 um stefnumið í málefnum aldraðra “til þess að lífga við árin sem bæst hafa við lífið”.[9] Aðildarríki voru hvött til að vinna að framgangi markmiða yfirlýsingarinnar en sérstök áhersla var lögð á að á ári aldraðra, 1999, yrði unnið að almennri viðhorfsbreytingu til öldrunar til að styrkja stöðu þeirra og stuðla að aukinni samstöðu kynslóða í framtíðinni. Í ályktun Allsherjarþingsins var átján grundvallarmarkmiðum skipt í fimm efnisþætti: sjálfstæði, virkni, lífsfyllingu, reisn og umönnun, með áherslu á að aldraðir þurfi að njóta allra þessara þátta til jafns við aðra þegna þjóðfélagsins. Hér að neðan er að finna yfirlit yfir efnisþætti stefnumiða Sameinuðu þjóðanna í málefnum aldraðra:
Sjálfstæði – stefnt skal að því að aldraðir:
- Geti aflað sér nægs matar, vatns, heppilegs húsaskjóls, fatnaðar og viðeigandi heilsugæslu með opinberum bótum, félagslegri aðstoð og fyrir eigin atbeina;
- Eigi þess kost að stunda vinnu eða afla sér tekna með öðrum hætti;
- Fái sjálfir að taka þátt í að ákveða hvenær og hversu hratt þeir hætta þátttöku á vinnumarkaði;
- Eigi kost á viðeigandi námskeiðum, bóklegum og verklegum;
- Geti búið þar sem þeir eru öruggir og þar sem jafnframt er hægt að laga aðstæður að persónulegum þörfum og breytilegri líkamsgetu þeirra;
- Geti búið heima hjá sér eins lengi og kostur er.
Virkni – stefnt skal að því að aldraðir:
- Haldi áfram þátttöku í þjóðfélaginu, taki virkan þátt í stefnumótun og framkvæmd mála sem hafa bein áhrif á afkomu þeirra og deili þekkingu sinni og hæfileikum með yngri kynslóðum;
- Eigi þess kost að þjóna samfélaginu og starfa sem sjálfboðaliðar að málum sem henta áhugasviðum þeirra og getu;
- Geti stofnað samtök eða félög aldraðra
Umönnun – stefnt skal að því að aldraðir:
- Fái notið félagslegrar aðstoðar og verndar í samræmi við menningarmat þess þjóðfélags sem viðkomandi býr í;
- Eigi kost á heilsugæslu til að viðhalda andlegri og líkamlegri heilsu eða til að endurheimta hana eftir því sem kostur er og til að hindra eða tefja fyrir að sjúkdómar nái tökum á viðkomandi;
- Eigi kost á félags- og lögfræðiráðgjöf til að efla sjálfstæði þeirra og öryggi;
- Geti komist á viðeigandi umönnunarstofnanir til að njóta þar öryggis, endurhæfingar og félagslegrar og andlegrar örvunar í mannúðlegu og tryggu umhverfi;
- Fáið notið mannréttinda og grundvallarfrelsis þegar þeir flytjast á umönnunarstofnun. Þar skal tekið fullt tillit til mannlegrar reisnar þeirra, trúarskoðana, líkamlegra og andlegra þarfa, einkalífs og réttar þeirra til að taka ákvarðanir um umönnunina og hvernig lífi þeirra skuli háttað.
Lífsfylling – stefnt skal að því að aldraðir:
- Eigi þess kost að þroska og nýta hæfileika sína til fulls;
- Geti tekið þátt í námskeiðum, menningarviðburðum, trúarlegum samkomum og öðru félagslífi sem býðst í þjóðfélaginu.
Reisn – stefnt skal að því að aldraðir:
- Geti haldið reisn sinni og búið við öryggi og þurfi ekki að óttast misnotkun, hvorki andlega né líkamlega;
- Njóti sanngirni í viðmóti án tillits til aldurs, kynferðis, kynþáttar, heilsufars eða annarra þátta og framkoman við þá sé óháð efnahag þeirra.[10]
Árið 1992 samþykkti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna yfirlýsingu um öldrun [Proclamation on Aging] þar sem aðildarríki eru meðal annars hvött til að styðja eldri konur sérstaklega og tryggja að framlag þeirra til samfélagsins sé virt að verðleikum. Einnig er mælst til að aðildarríki veiti fjölskyldum er sjá fyrir öldruðum ættingjum stuðning og allir fjölskyldumeðlimir eru hvattir til að taka þátt í umönnun. Þá eru ríki hvött til að stuðla að því að eldri mönnum sé gert kleift að þróa með sér félagslega, menningarlega og tilfinningalega færni sem þeir áttu ekki kost meðan þeir voru brauðvinningar. [11]
Til að fylgja eftir hinni alþjóðlegu framkvæmdaáætlun helgaði allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna öldruðum árið 1999, undir yfirskriftinni: “Þjóðfélag fyrir fólk á öllum aldri”. Lögð var áhersla á að brúa bilið milli kynslóða, auka samskipti ungs fólks og aldraðra og efla gagnkvæman skilning og virðingu þessara aldurshópa. [12]
Árið 2002, á heimsþingi um öldrun í Madrid, var samþykkt önnur framkvæmdaáætlun um öldrun. Áætlunin inniheldur fimm meginflokka er lúta að: virðingu fyrir öllum mannréttindum aldraðra, öruggri elli, þátttöku aldraðra í samfélaginu, aðgerðir gegn mismunun og ofbeldi gagnvart öldruðum, því að tryggja kynjajafnrétti meðal aldraðra, mikilvægi fjölskyldunnar sé viðurkennt, því að heilbrigðis- og félagsþjónusta sé tryggð til handa öldruðum og viðurkenningu á sérstakri aðstöðu aldraðra frumbyggja.
Evrópuráðið
Evrópuráðið var stofnað árið 1949 með það að meginmarkmiði að stuðla að friði og efla vernd mannréttinda innan álfunnar og koma á fót samstarfi þar sem veitt yrðu virk úrræði til þess að koma í veg fyrir mannréttindabrot.[13] Einhver merkasti afrakstur þessa samstarfs var samþykkt mannréttindasáttmála Evrópu árið 1950 en fullgilding sáttmálans er nú skilyrði aðildar að Evrópuráðinu. Árið 1961 leit sambærilegur samningur á sviði efnahagslegra og félagslegra réttinda dagsins ljós, félagsmálasáttmáli Evrópu, en fjöldi annarra samninga er snerta mannréttindi hafa verið samþykktir undir merkjum Evrópuráðsins. Ísland gerðist aðili að ráðinu árið 1950.
Mannréttindasáttmáli Evrópu
Mannréttindasáttmáli Evrópu (MSE) var undirritaður í Róm 4. nóvember 1950 og tók gildi 3. september 1953 en fjöldi viðauka hafa verið gerðir við hann síðan. Samningurinn var lögfestur hér á landi árið 1994 með lögum nr. 62/1994.
Í 14. gr. samningsins er kveðið á um bann við mismunun, þar sem segir að allir eigi jafnan rétt til að njóta þeirra réttinda sem samningurinn kveður á um:
Réttindi þau og frelsi, sem lýst er í samningi þessum, skulu tryggð án nokkurs manngreinarálits, svo sem vegna kynferðis, kynþáttar, litarháttar, tungu, trúarbragða, stjórnmála- eða annarra skoðana, þjóðernis eða þjóðfélagsstöðu, tengsla við þjóðernisminnihluta, eigna, uppruna eða annarrar stöðu.
Líkt og í helstu samningum Sameinuðu þjóðanna er elli ekki nefnd sérstaklega heldur félli hún undir “aðra stöðu”.
Við gerð MSE var mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna að verulegu leyti höfð sem fyrirmynd, svo og drög þau sem þá lágu fyrir að alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Samkvæmt samningnum, tryggja aðildarríki borgurum sínum, sem og öðrum innan umdæmis þess, helstu borgaraleg og pólitísk réttindi réttarríkis. Með samningnum er einnig komið á fót einu skilvirkasta eftirlitskerfi sem um getur, Mannréttindadómstól Evrópu, en ríkjum jafnt sem einstaklingum er gert kleift að fara með kærur fyrir dómstólinn, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Samningsríki eru skuldbundin til að hlíta lögsögu dómstólsins og ber að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að bæta fyrir afleiðingar brots. Dómar dómstólsins hafa haft mikla þýðingu fyrir þróun alþjóðlegrar mannréttindaverndar en áhrifa nokkuð samfellds og samkvæms fordæmisréttar dómstólsins er að gæta um allan heim.
Félagsmálasáttmáli Evrópu
Annar mikilvægur þáttur í mannréttindavernd á vettvangi Evrópuráðsins er félagsmálasáttmáli Evrópu. Hann var samþykktur af aðilum Evrópuráðsins í Tórínó 18. október 1961 og tók gildi 26. febrúar 1965. Sáttmálinn var undirritaður og fullgiltur fyrir Íslands hönd 15. janúar 1976 og tók gildi 14. febrúar 1976.[14]Með sáttmálanum og samningsviðauka frá 1988 eru þegnum aðildarríkjanna tryggð margs konar grundvallarréttindi en ríkin verða að samþykkja tiltekinn lágmarksfjölda þeirra. Brot vegna réttinda sem kveðið er á um í félagsmálasáttmálanum er ekki hægt að kæra til Mannréttindadómstólsins. Í viðauka við samninginn er sérstakri nefnd, evrópunefnd um félagsleg réttindi, falið eftirlit með framkvæmd samningsins. Eftirlit er helst í formi skýrslna aðildarríkja en með viðauka, sem öðlaðist gildi árið 1998, var nefndinni einnig heimilað að veita viðtöku hópkærum frá tilteknum frjálsum félagasamtökum, stéttarfélögum og vinnuveitendasamtökum. Ríkisstjórnarnefnd Evrópuráðsins og ráðherranefndin samþykkja síðan ályktun þegar eftirlitsferli er lokið. Ísland hefur ekki fullgilt viðaukana við sáttmálann.
Í inngangi sáttmálans er tiltekið að aðildarríki áliti:
Að tryggja beri að menn fái notið félagslegra réttinda án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, trúarbragða, stjórnmálaskoðana, þjóðernis eða félagslegs uppruna.
Hvorki er elli getið sérstaklega né “annarra aðstæðna” líkt og í öðrum sambærilegum sáttmálum. Eigi verður talið að elli falli ekki hér undir heldur ber að líta á þetta sem dæmi um helstu þætti sem leitt geta til mismununar, en ekki tæmandi talningu.[15]
Í endurskoðaðri útgáfu sáttmálans sem samþykkt var árið 1996 er öldruðum tryggður réttur til félagslegrar verndar í 23. grein.
Evrópusamningur um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu
Evrópusamningi um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu frá 1987, sbr. lög nr. 15/1990[16] er ætlað að koma til framkvæmda banni við þeim athöfnum sem tilgreindar eru í 3. gr. MSE. Samningurinn kemur á vitjanakerfi þar sem nefnd óháðra sérfræðinga á ýmsum sviðum heimsækja staði þar sem opinbert vald vistar frelsissvipta einstaklinga.
Evrópusambandið
Réttindi aldraðra innan Evrópusambandsins byggja á banni við mismunun og þeirri grundvallarreglu að allir menn séu jafnbornir til virðingar. Réttindi aldraðra hafa að nokkru verið tryggð frá samþykkt Amsterdamsáttmálans er tók gildi 1999. Meðalaldur borgara Evrópusambandsins hækkar stöðugt, árið 2020 mun fólk 60 ára og eldra ná einum fimmta af íbúafjölda og einn af hverjum 14 íbúum verður þá 65 ára eða eldri. Því kemur ekki á óvart að í réttindaskrá Evrópusambandsins, sem samþykkt var af leiðtogaráðinu 2000, er kveðið sérstaklega á um réttindi eldri borgara. 25. gr. byggir á félagsmálasáttmála Evrópu og félagslegri réttindayfirlýsingu um grundvallarréttindi evrópsks launafólks sem samþykkt var 1989.[17] Í réttindaskránni segir:
Evrópusambandið virðir réttindi eldri borgara til að lifa lífi sínu með reisn og af sjálfstæði og rétt þeirra til að taka þátt í félags- og menningarlífi.
Í málum aldraðra hvílir löggjafarvaldið nær eingöngu á herðum aðildarríkjanna. Evrópusambandið styður þó stefnu aðildarríkja og framkvæmdir á viðeigandi stigum, og vinnur að því að breyta hugsunarhætti og miðla reynslu. Sambandið hefur því mikilvægu hlutverki að gegna í málefnum aldraðra, sem gagnast sambandinu sjálfu, jafnt sem stjórnvöldum einstakra sambandsríkja.[18]
Fjöldi yfirlýsinga og stefnumiða um réttindi aldraðra hafa verið samþykkt undir merkjum Evrópusambandsins.
[1] Ísland á ekki aðild að þessum samningi. Helstu aðildarríki eru upprunalönd farandverkafólks, fá vestræn ríki hafa gerast aðilar að samningunum.
[2] Alþingistíðindi A 1994, bls. 2077-2088.
[3] Stjórnartíðindi C nr. 10/1979 og 11/1991.
[4] Stjórnartíðindi C nr. 10/1979.
[5] Magdalena Sepulveda, Theo van Banning, Guðrún D. Guðmundsdóttir, Christine Chamoun,Willem van Genugten, Human Rights Reference Handbook, University for Peace, 2004, bls. 382. (516 bls)
[6] Magdalena Sepulveda, Theo van Banning, Guðrún D. Guðmundsdóttir, Christine Chamoun,Willem van Genugten, Human Rights Reference Handbook, University for Peace, 2004. Bls. 382. (516 bls)
[7] Stjórnartíðindi C nr. 19/1996.
[8] Íslenska ríkið hefur samþykkt slíka kæruleið á hendur sér samkvæmt samningunum þremur.
[9] UN Doc. A/RES/37/51. http://www.un.org .
[10] UN Doc. A/RES/37/51.
[11] UN Doc A/RES/47/5.
[12] Lokaskýrsla Framkvæmdastjórnar árs aldraðra 1999, bls. 5.
[13] Gunnar G. Schram: Stjórnskipunarréttur, bls. 455.
[14] Stjórnartíðindi C 3/1976.
[15] Brynhildur G. Flóvenz: Réttarstaða fatlaðra. Háskólaútgáfan, Reykjavík 2004, bls. 25.
[16] Gunnar G. Schram: Stjórnskipunarréttur, bls. 503.
[17] Greinargerð um Réttindaskrá Evrópusambandsins http://www.europarl.eu.int/charter/pdf/04473_en.pdf [heimsótt 20.september 2005].
[18] http://www.europarl.eu.int/comparl/libe/elsj/charter/art25/default_en.htm [heimsótt 20. september 2005].