Á tímum seinni heimsstyrjaldar áttu sér stað ógnvekjandi mannréttindabrot. Gyðingar og aðrir „óæskilegir“ einstaklingar voru pyndaðir, misnotaðir og myrtir í milljóna tali. Við lok heimsstyrjaldarinnar þurfti heimsbyggðin því að horfast í augu við þá atburði sem höfðu átt sér stað og flestir áttu erfitt með að skilja hvernig slík mannréttindabrot gátu viðgengist óáreitt.
Reynsla þjóðanna af atburðum seinni heimsstyrjaldar var kveikjan að stofnun Sameinuðu þjóðanna og nútíma mannréttindalaga. Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna var undirritaður í San Francisco 26. júní árið 1945 og lagði grunn að því mannréttindastarfi sem stofnunin hefur unnið að allt til dagsins í dag. Var þetta fyrsti alþjóðlegi sáttmálinn sem sérstaklega stefndi að því að viðhalda og varðveita mannréttindi allra, hvar sem er í heiminum. Þær þjóðir sem undirrituðu sáttmálann viðurkenndu því þörfina á að vernda og viðhalda virðingu fyrir mannréttindum og lögðu þannig mikilvægan grunn að starfsemi Sameinuðu þjóðanna.
Eftir að sáttmálinn var undirritaður voru grunnstofnanir Sameinuðu þjóðanna settar á fót sem flestum er ætlað hlutverk á sviði mannréttinda, sem síðan hafa verið skilgreind og skýrð í sérstökum mannréttindasamningum.
Frá árinu 1948 einkenndist starfsemi Sameinuðu þjóðanna af mikilli spennu og áttu aðildarríkin erfitt með að ná samkomulagi um mikilvæga þætti í starfsemi stofnunarinnar. Má segja að kalda stríðið milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna hafi átt þar stærstan hlut að máli. Þrátt fyrir það þokaðist smám saman í rétta átt og hefur stofnunin náð miklum árangri á sviði mannréttinda og að miklu leyti hefur náðst eining um sameiginleg „mannréttindagildi“ innan stofnunarinnar sem flest aðildarríkin hafa fallist á og samþykkt.