Á undanförnum árum hefur mikil aukning verið á erlendu vinnuafli á Íslandi. Í kjölfar góðæris tíma 2004 - 2007 varð nokkur vakning á stöðu þessa verkafólks og þeirri nauðsyn að tryggja að ekki sé brotið á réttindum þeirra. Alþýðusamband Íslands stóð fyrir átaki gegn félagslegum undirboðum og ólöglegri atvinnustarfsemi með erlendu jafnt sem innlendu vinnuafli. Miðaði átakið að því að ljóstra upp um og uppræta félagsleg undirboð og ólöglega atvinnustarfsemi með erlendu verkafólki á íslenskum vinnumarkaði. Átakið bar góðan árangur og varð til þess að erlendar starfsmannaleigur festu ekki rætur hér á landi. Ljóst er að með undirboðum og ólöglegri atvinnustarfsemi eru útlendingar hlunnfarnir um laun, aðbúnað og starfskjör. Samfélagið í heild sinni tapar einnig á þessari starfsemi þar sem hún grefur undan velferðarkerfi okkar. Lög um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002 eru grundvöllur um réttindi erlendra starfsmanna hér lá landi en einnig voru sett lög árið 2005 um starfsmannaleigur (lög nr. 139/2005).
Félagsmálasáttmáli Evrópuráðsins
Félagsmálasáttmálinn var samþykktur í Tórínó 18. október 1961 og tók gildi 26. febrúar 1965. Ísland undirritaði samninginn 15. janúar 1976 og var hann fullgiltur sama dag. Hann tók gildi gagnvart Íslandi þann 14. febrúar 1976. Ísland telur sig þó ekki bundið af öllum ákvæðum samningsins. Meðal þeirra ákvæða sem Ísland er bundið af eru 1. gr., 5. mgr. 2. gr., 3 - 6. gr., og 11. - 18. gr. Ásamt þeim viðauka sem fylgir upprunalega sáttmálanum hafa þrír viðaukar verið gerðir, frá 6. maí 1988, 21. október 1991 og 9. nóvember 1995. Var samningurinn endurútgefinn með breytingum 3. maí 1996. Ísland hefur ekki undirritað viðaukann frá 1995. Hefur viðaukinn frá 1988 og endurútgefni sáttmálinn verið undirritaðir af Íslands hálfu, en þeir hafa enn ekki verið fullgiltir. Viðaukinn frá 1991 var undirritaður af Íslands hálfu 12. desember 2001 og fullgiltur þann 21. febrúar 2002.
Í 19. gr. sáttmálans er sérstaklega fjallað um réttindi farandverkafólks. Ísland er að svo stöddu ekki bundið af ákvæðinu en þar segir að, í því skyni að tryggja, að réttur farandverkafólks og fjölskyldna þeirra til verndar og aðstoðar sé raunverulega nýttur, skuldbinda samningsaðilar sig til;
-
að viðhalda, eða ganga úr skugga um, að viðhaldið sé, nægri ókeypis þjónustu til að aðstoða slíkt verkafólk, einkum við að afla sér nákvæmra upplýsinga, og að gera allar viðeigandi ráðstafanir, sem landslög og reglugerðir leyfa, til að koma í veg fyrir villandi áróður varðandi útflutning og innflutning fólks,
-
að gera viðeigandi ráðstafanir innan lögsagnarumdæma sinna til að auðvelda brottför, ferðalög og móttöku slíks verkafólks og fjölskyldna þess, og láta í té innan lögsagnarumdæma sinna viðeigandi þjónustu á sviði heilbrigðismála, læknisþjónustu og góðra hollustuhátta meðan á ferðinni stendur,
-
að efla, eftir því sem við á, samvinnu félagslegra þjónustustofnana opinberra aðila og einkaaðila í löndum, sem flutt er frá eða til,
-
að tryggja slíku verkafólki, sem löglega dvelur í löndum þeirra, að því marki sem lög eða reglugerðir taka til slíkra mála eða þau eru háð eftirliti stjórnvalda, meðferð, sem sé ekki óhagstæðari meðferð eigin þegna, þegar um er að ræða: (a) launakjör og önnur starfs- og vinnuskilyrði,
(b) aðild að stéttarfélögum og að njóta góðs af heildarsamningum,
(c)húsnæði, -
að tryggja slíku verkafólki, sem löglega dvelur í löndum þeirra, meðferð, sem sé eigi óhagstæðari meðferð eigin þegna, að því er varðar skatta, gjöld eða framlög, sem lögð eru á vinnandi fólk,
-
að greiða fyrir því, eftir því sem hægt er, að fjölskylda erlends starfsmanns, sem fengið hefir heimild til að setjast að í landinu, geti flutt til hans,
-
að tryggja slíku verkafólki, sem löglega dvelur í löndum þeirra, meðferð, sem sé eigi óhagstæðari meðferð eigin þegna að því er varðar dómsmeðferð mála, er um getur í þessari grein,
-
að tryggja, að slíkt verkafólk, sem löglega dvelur í löndum þeirra, verði ekki gert landrækt nema öryggi þjóðarinnar stafi hætta af því, eða það gerist brotlegt við almenningshagsmuni eða siðgæði,
-
að leyfa innan lögmætra takmarka yfirfærslu þess hluta tekna og sparifjár slíks vinnandi fólks, sem það kann að óska eftir,
-
að láta þá vernd og aðstoð, sem kveðið er á um í grein þessari, einnig ná til farandverkafólks í eigin atvinnu að því marki, sem slíkar ráðstafanir eiga við. Ofbeldi á börnum hefur lengi viðgengist vegna þagnar og aðgerðaleysis. Ástæður fyrir því eru margar en helst sú að börn, sérstaklega þau sem eru fórnarlömb misnotkunar og ofbeldis hafa litlar bjargir til að leita réttar síns, oft vegna ótta við refsingu ofbeldismanna sinna. Það er einnig staðreynd að umkvartanir barna eru oft ekki teknar alvarlega.
Sameinuðu þjóðirnar
Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna var samþykktur alþjóðsamningur um réttindi farandverkafólks og fjölskyldna þeirra en Ísland á enn sem komið er ekki aðild að samningnum. Alþjóðasamningur um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi kveður á um ýmis réttindi sem farandverkafólk sem og aðrir njóta í samfélaginu í tengslum við atvinnumál.
Alþjóðavinnumálastofnun (ILO) er stofnun á vegum Sameinuðu þjóðanna sem var sett á fót árið 1919. Ísland gerðist aðili að henni árið 1945. Þau ákvæði sem lágu til grundvallar stofnuninni er að finna í friðarsamningunum sem voru undirritaðir í Versölum 28. júní 1918. Er þar kveðið á um að komið skuli á fót sérstakri stofnun sem hafi það hlutverk að reyna að ráða bót á þeim félagslegu vandamálum sem öll ríki eiga við að stríða og verður aðeins unnið á með sameiginlegu félagslegu átaki þjóðanna.
Starf ILO beinist einkum að grundvallarréttindum í atvinnulífinu, atvinnu, félagslegri vernd og samráði aðila vinnumarkaðarins. Á vettvangi ILO hafa verið sett alþjóðleg viðmið um grundvallarréttindi við vinnu sem birtast í fjölmörgum samþykktum og tilmælum stofnunarinnar um félagafrelsi, réttinn til að gera kjarasamninga, afnám nauðungarvinnu, takmörkun barnavinnu, jafnrétti til vinnu og fjölmörg önnur réttindamál tengd vinnu.