Flóttamenn og umsækjendur um alþjóðlega vernd

Ástæður fólksflutninga eru fjölmargar.
Sumir flytjast búferlum vegna matarskorts, aðrir vegna bágs efnahagsástands og aðrir vegna vopnaðra átaka. Sumu fólki er ekki vært í heimalandi sínu vegna ofsókna af hendi yfirvalda eða annarra aðila.

Það er grundvallarréttur hvers manns að geta flúið heimaland sitt og fá vernd í öðru landi verði hann fyrir ofsóknum af hendi ríkisvalds í eigin ríki eða ef ríkisvaldið getur ekki veitt viðkomandi vernd fyrir ofsóknum.

Eftir að Schengen samkomulagið gekk í gildi á Íslandi þann 25. mars árið 2001 hefur orðið aukning  á umsóknum um pólitískt hæli. Að auki gerðist Ísland aðili að Dyflinnarsamningnum frá 2001 en nú er í gildi Dyflinnarreglugerð lll frá 2013, sem kveður á um að aðeins eitt ríki tekur umsókn um alþjóðlega vernd til meðferðar og viðkomandi ræður ekki hvaða ríki það verður. Það er einungis hægt að sækja um alþjóðlega vernd í einu landi og aðeins eitt ríki veitir viðkomandi vernd. Felur þetta í sér að þó að umsækjandi sæki um alþjóðlega vernd á Íslandi þá getur verið að annað ríki beri ábyrgð á umsókn hans samkvæmt ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar. Venjulega verður viðkomandi umsækjandi sendur til þess ríkis þar sem umsókn hans verður tekin til umfjöllunar, að því uppfylltu að það ríki sem á í hlut samþykki endurviðtöku. Þess ber að geta að ríkjum ber ekki skylda til að endursenda umsækjendur til annarra ríkja samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni heldur er um heimildarákvæði að ræða.

Til og með nóvember 2022 komu 4420 umsóknir um alþjóðlega vernd inn á borð Útlendingastofnunar og fjölgaði þeim 3548 frá fyrra ári. Hlutfallslega eru umsóknir um alþjóðlega vernd flestar á Íslandi af Norðurlöndunum.

Ísland hefur þá sérstöðu að hingað er ekki hægt að komast beint frá flestum þeirra landa þar sem fólk þarf að búa við styrjaldir og ofsóknir og því oftast nauðsynlegt að fara í gegnum annað land á Schengen-svæðinu. Þetta leiðir til þess að yfirvöld á Íslandi geta endursent hluta af því fólki sem sækir um alþjóðlega vernd til þess Schengen lands sem það kom frá, eins og heimilt er samkvæmt Dyflinarreglugerðinni. Á árinu 2021 voru 285 umsækjendur um alþjóðlega vernd endursendir frá Íslandi til annarra Evrópuríkja, 71 á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og 214 vegna þess að þeim hafði þegar verið veitt alþjóðleg vernd í öðru ríki.

Í lögum um útlendinga, nr. 80/2016, er að finna ýmis ákvæði um umsækjendur um alþjóðlega vernd og hvaða reglur gilda um meðferð umsókna þeirra. Einnig hafa verið settar viðmiðunarreglur um móttöku og aðstoð við hópa flóttafólks og hefur Félagsmálaráðuneytið yfirumsjón með framfylgd þeirra.

Íslensk stjórnvöld verða ávallt að ganga úr skugga um að umsækjendur um alþjóðlega vernd fái umsókn sína til meðferðar svo þeir eigi ekki á hættu að vera sendir til heimaríkis þar sem þeir verða fyrir ofsóknum. Stjórnvöld á Íslandi eru bundin af flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlegum mannréttindasáttmálum sem banna brottvísun til heimalands eða annars ríkis þar sem lífi eða mannhelgi einstaklinga er stofnað í hættu eða fólk á á hættu að verða fyrir ofsóknum.

Hver er flóttamaður?

Flóttamaður er samkvæmt skilningi flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) frá 1951 og viðauka hans frá 1967 skilgreindur sem; sá sem er utan við heimaland sitt og af ástæðuríkum ótta við að verða ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar í sérstökum félagsmálaflokkum, eða stjórnmálaskoðana, og getur ekki eða vill ekki, vegna slíks ótta, færa sér í nyt vernd þess lands. Flóttamaður getur einnig verið sá sem er ríkisfangslaus, og er utan þess lands, þar sem hann hafði reglulegt aðsetur, vegna ofsókna og getur ekki eða vill ekki, vegna ótta við slíka atburði, hverfa aftur þangað.

Þegar einstaklingur sækir um alþjóðlega vernd utan eigin ríkis er hann í fyrstu skilgreindur sem umsækjandi alþjóðlegrar verndar af stjórnvöldum viðkomandi ríkis. Með umsókn sinni um alþjóðlega vernd er viðkomandi einstaklingur að biðja um viðurkenningu á stöðu sinni sem flóttamaður. Ef stjórnvöld fallast á réttmæti slíkrar umsóknar þá fær einstaklingurinn viðurkenningu á stöðu sinni sem flóttamaður samkvæmt flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna.

Sá sem telur sig vera flóttamann, og sækir um alþjóðlega vernd á Íslandi, ber að mestu sönnunarbyrðina fyrir því að honum beri að veita vernd. Oft er þó erfitt og jafnvel útilokað að framvísa gögnum sem styðja framburð umsækjandans. Framburður þess sem leitar alþjóðlegrar verndar er því oft og tíðum eina sönnunargagnið sem hægt er að styðjast við, þegar meta á hvort veita eigi viðkomandi pólitískt hæli eða ekki. Jafnvel þó stjórnvöld rannsaki mál umsækjanda um alþjóðlega vernd með ítarlegum hætti er óvíst að hægt sé að staðfesta framburð viðkomandi með fullri vissu. Ef framburður umsækjandans telst trúverðugur á hann að fá að njóta vafans og fá vernd enda eru ekki gildar ástæður fyrir því að neita viðkomandi um vernd.

Stjórnvöldum þess ríkis, þar sem umsókn um alþjóðlega vernd var lögð fram, er ekki heimilt að hafa samband við stjórnvald í upprunaríki umsækjandans til þess að afla um hann upplýsinga. Slíkt er talið geta stefnt umsækjandanum í mikla hættu, ef honum skyldi snúið til baka. Slíkt gæti einnig komið fjölskyldu hans og vinum í vandræði.

Ef stjórnvöld á Íslandi synja umsókn um alþjóðlega vernd, þá geta þau veitt umsækjanda dvalarleyfi af mannúðarástæðum, sent viðkomandi einstakling úr landi eða veitt honum bráðabirgðaleyfi ef ekki er hægt að vísa honum úr landi.

Dvalarleyfi af mannúðarástæðum

Með lögum um útlendinga nr. 96/2002  var nýju ákvæði bætt inn í lögin. Er það heimildin til þess að veita dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Í 74. gr. núgildandi laga um útlendinga, nr. 80/2016, segir að heimilt sé að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða eftir að úr því hafi verið með efnismeðferð að hann uppfylli ekki skilyrði alþjóðlegrar verndar. 

Bann við brottvísun

Samkvæmt 1. mgr. 33. gr. flóttamannasamningsins er óheimilt að endursenda umsækjaned um alþjóðlega vernd eða flóttamann til síns heima, eða til annars ríkis, ef ljóst er að þeir eigi á hættu að verða fyrir pyndingum, lífláti eða annarri ómannúðlegri meðferð. Þetta ákvæði var lögfest í 45. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002 og er nú að finna í 42. gr. núgildandi laga um útlendinga. Ákvæðið er einnig styrkt í alþjóðasamningnum gegn pyndingum eða annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu og einnig í Mannréttindasáttmála Evrópu og alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Undantekningar eru þó á reglunni og má þær finna í 2. mgr. 33. gr. flóttamannasamningsins.

Umsóknir um alþjóðlega vernd

Oftast er umsókn um alþjóðlega vernd lögð fram hjá lögreglunni sem sér um að taka framburðaskýrslu af umsækjandanum. Umsækjandi á að gera grein fyrir persónulegum upplýsingum og ferðaleið sinni til landsins. Ásamt því á hann að greina frá þeim aðstæðum sem leiddu til þess að hann ákvað að sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi. Við skýrslutöku er einnig leitað eftir því hvort viðkomandi eigi eða hafi átt umsókn um alþjóðlega vernd í öðrum löndum.

Það á alltaf að gefa umsækjendum kost á því að segja sögu sína. Í framburðaskýrslu eru umsækjendur hvattir til þess að segja satt og rétt frá högum sínum. Láta á umsækjenda vita, að ef ekki er sagt rétt frá málsatvikum og ef upplýsingum er haldið frá stjórnvöldum þá getur það haft áhrif á umsókn hans.

Þegar skýrslutöku er lokið er umsóknin send Útlendingastofnun sem ákveður hvaða afgreiðslu umsóknin á að fá. Þrjár leiðir koma til greina:

Venjubundin meðferð

Ef umsækjandi á ekki umsókn um alþjóðlega vernd í öðru aðildarríki Dyflinnarreglugerðarinnar og ef Útlendingastofnun telur að umsóknin sé ekki tilhæfulaus er hún tekin til venjubundinnar meðferðar.

Umsækjandinn er venjulega kallaður í viðtal til Útlendingastofnunar og gefst honum þá kostur á að útskýra betur aðstæður sínar og hvað hafi orðið til þess að hann ákvað að leggjast á flótta og sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi.

Útlendingastofnun úrskurðar síðan á grundvelli þeirra upplýsinga hvort einstaklingnum verði veitt staða flóttamanns, honum veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum eða að umsókn hans verði synjað.

Ef umsækjandinn er mótfallinn afgreiðslu umsóknarinnar, t.d ef umsókn hans hefur verið synjað, getur hann kært úrskurðinn til kærunefndar útlendingamála. Ásamt því hefur hann kost á því að fá skipaðan löglærðan talsmann sér til aðstoðar við meðferð málsins hjá stórnvöldum og helst sá réttur við mögulega kærumeðferð.

Kærunefnd útlendingamála getur breytt úrskurði Útlendingastofnunar og veitt einstaklingnum stöðu flóttamanns eða breytt úrskurði á þá leið að einstaklingurinn fær dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Kærunefndin getur einnig staðfest synjun Útlendingastofnunar. Ef kærunefndin staðfestir synjun er einstaklingnum vísað úr landi og fylgir því endurkomubann á Schengen svæðið, ekki til skemmri tíma en þriggja ára.

Endursending

Ísland er aðili að tveimur samningum í Evrópu, Norðurlandasamningnum og Dyflinarreglugerðinni, sem beita má til þess að endursenda umsækjendur um alþjóðlega vernd til þeirra ríkja þar sem þeir áttu umsókn áður eða til þeirra ríkja sem þeir komu frá áður en leið þeirra lá til Íslands.

Dyflinnarreglugerðin kveður sérstaklega á um að aðeins eitt ríki skuli bera ábyrgð á meðferð upplýsinga um alþjóðlega vernd og kemur það því í veg fyrir að einn einstaklingur geti átt umsóknir í mörgum ríkjum samtímis. Ef í ljós kemur að umsækjandi á umsókn í öðru aðildarríki Dyflinarreglugerðarinnar þá geta stjórnvöld á Íslandi farið fram á að það ríki taki við viðkomandi umsækjanda.

Ef viðkomandi umsækjandi á umsókn í öðru aðildarríki er honum gefinn kostur á því að skila inn greinargerð til Útlendingastofnunar þar sem hann rekur ástæður þess af hverju íslensk stjórnvöld ættu ekki að endursenda viðkomandi til ríkisins þar sem hann á fyrir umsókn. Hefur umsækjandinn þrjá daga frá fyrstu skýrslutöku til að koma greinargerð sinn á framfæri til stjórnvalda.

Ef umsækjandi um alþjóðlega vernd verður endursendur með þessum máta gefst honum kostur á að kæra niðurstöðu Útlendingastofnunar til kærunefndar útlendingamála. Þessir einstaklingar hafa þó ekki rétt á lögfræðiaðstoð nema þeir geti sjálfir greitt fyrir þá þjónustu. Oftast líður skammur tími frá birtingu úrskurðar þar til umsækjendur eru endursendir. Ef umsækjendur vilja hafa þeir fimmtán daga til að skila inn greinargerð til Dómsmálaráðuneytisins máli þeirra til stuðnings.

Frávísun

Lögreglustjóri tekur ákvörðun um frávísun við komu til landsins skv. a–j-lið 1. mgr. 106. gr. Útlendingalaga en Útlendingastofnun tekur ákvörðun um frávísun eftir komu til landsins og aðrar ákvarðanir samkvæmt XII kafla laganna. Ef Útlendingastofnun telur ljóst að umsókn um alþjóðlega vernd og fyrirliggjandi upplýsingar um umsækjanda uppfylli ekki skilyrði þess að umsækjandi teljist flóttamaður samkvæmt flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna, úrskurðar stofnunin um synjun og frávísun umsækjanda. Umsækjendum gefst tækifæri á því að kæra úrskurðinn til kærunefndar útlendingamála, en þrátt fyrir það frestar kæra ekki framkvæmd á úrskurðinum, en sækja má um frest til kærunefndarinnar ef ætlunin er að kæra ákvörðun Útlendingastofnunar þangað. Frávísun hefur ekki í för með sér endurkomubann til landsins eða inn á Schengen svæðið. 

 

Flóttamannasamningur Sameinuðu þjóðanna í 50 ár

Hinn 1. mars 2006 voru 50 ár liðin frá því að samningur um réttarstöðu flóttamanna (flóttamannasamningurinn) gekk í gildi fyrir Ísland. Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna kveður á um rétt manna til að leita og njóta griðlands erlendis en tilgangur flóttamannasamningsins er að gefa þeim einstaklingum sem ekki njóta verndar gegn ofsóknum í eigin landi kost á því að leita verndar hjá öðrum þjóðum. Samningurinn kveður á um vernd til handa þeim sem eru í hættu vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar í sérstökum félagsmálaflokkum eða stjórnmálaskoðana. Ofsóknir geta verið af ýmsum toga: Fólk leitar ásjár utan heimalands af ótta við kynbundið ofbeldi s.s. kynfæralimlestingu eða heiðursmorð; börn flýja nauðungarvinnu og barnahermennsku; fólk er ofsótt vegna kynhneigðar eða vegna þess að það tilheyrir tilteknum trúarhópi eða kynþætti, svo fátt eitt sé nefnt.

Árið 2005 aðstoðaði Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna rúmar 19 milljónir manna en af þeim teljast um 10 milljónir til flóttamanna og umsækjenda um alþjóðlega vernd. Mikill meirihluti þessa fólks leitar ásjár í nágrannaríkjum sem oftast nær eru vanþróuð ríki og mjög fátæk. Aðeins lítill hluti sækir um alþjóðlega vernd í iðnríkjunum - 235.000 á fyrstu níu mánuðum ársins 2005, þar af 181.000 í Evrópu. Norðurlönd tóku við 21.000 umsóknum, flestum frá einstaklingum frá Serbíu og Svartfjallalandi, þá Írak, Rússlandi og Sómalíu.

Ísland hefur frá árinu 1956 tekið á móti 516 flóttamönnum sem komið hafa á vegum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, s.k. kvótaflóttamönnum. Stærsti hópurinn kom frá Ungverjalandi árið 1956, 52 einstaklingar en flestir hafa komið frá löndum fyrrum Júgóslavíu, 32 árið 1959 en alls 223 á árabilinu 1996-2005. Þrír hópar komu frá Víetnam á árunum 1979, 1990 og 1991, alls 94 manns. Tuttugu og sex einstaklingar komu frá Póllandi árið 1982 og árið 2005 komu tveir hópar, 24 konur og börn frá Kólumbíu og sjö manna fjölskylda frá Kosovó. Árið 2008 komu 29 einstaklingar frá Palestínu, átta konur og 21 kona. Tekið hefur verið á móti flóttafólki á hverju ári frá 1996, að árunum 2002 og 2004 undanskildum.

Einstaklingur sem fær stöðu flóttamanns nýtur verndar og tiltekinna réttinda í landinu sem veitir þeim alþjóðlega vernd. Þeir flóttamannahópar sem hingað koma fá ýmsa aðstoð til að verða virkir þátttakendur í íslensku samfélagi. Í byrjun stendur flóttamönnum til boða fjárhags- og húsnæðisaðstoð, heilbrigðisþjónusta, aðgangur að skólakerfinu, túlkaþjónusta og aðstoð við atvinnuleit. Þá hefur kerfi stuðningsfjölskyldna reynst afar vel en sjálfboðaliðar á vegum Rauða kross Íslands eru flóttafólkinu til halds og trausts meðan það aðlagast aðstæðum í nýju landi. Í könnun sem Flóttamannaráð lét gera í fyrra kemur fram að flóttamennirnir eru ánægðir með þá aðstoð sem þeir fá við komuna til landsins, þeim finnst gott að búa á Íslandi og meirihluti lítur á Ísland sem heimaland sitt.

Á hverju ári koma einnig einstaklingar og sækja um alþjóðlega vernd hér á landi ,,á eigin vegum”, þ.e. þeir koma hingað til lands og sækja um viðurkenningu á stöðu sinni sem flóttamenn, án aðstoðar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Einvherjir þeirra hverfa af landi brott áður en umsókn þeirra er afgreidd en einnig er hluta þeirra vísað úr landi á grundvelli Dyflinarreglugerðarinnar (71 á árinu 2021) eða vegna þess að þeir hafi fengið alþjóðlega vernd í öðru aðildarríki (214 á árinu 2021). Í einhverjum tilvikum er umsækjendum um alþjóðlega vernd, sem fengið hafa synjun, veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum. 

Að sækja um alþjóðlega vernd og fá griðland gegn ofsóknum eru mannréttindi. Vopnuð átök um allan heim bitna í síauknum mæli á óbreyttum borgurum sem neyðast til að yfirgefa ættjörð sína og fjölskyldur og þola ómældar þjáningar í leit að öruggu skjóli. Mönnum hættir til að líta á flóttamenn sem fórnarlömb eða beiningamenn en hafa ber hugfast hvernig þeir geta auðgað íslenskt samfélag; Albert Einstein, Chagall, Freud, Marlene Dietrich, Dalai Lama, Isabel Allende, Mila Kunis og Madeline Albright voru öll flóttamenn.

Ísland hefur tekið vel á móti kvótaflóttamönnum en ávallt er hægt að gera betur; í tilefni af 50 ára afmæli samningsins á Íslandi væri sómi að því að við tækjum virkari þátt í alþjóðlegri flóttamannahjálp og settum okkur ákveðin markmið í málefnum flóttamanna og umsækjenda um alþjóðlega vernd. Það væri fagnaðarefni ef framlag Íslands til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna yrði aukið. Þá er brýnt að stjórnvöld taki til athugunar tilmæli alþjóðlegra mannréttindastofnana um umbætur á málsmeðferð í málum umsækjenda um alþjóðlega vernd.

 


 

Árið 2005 vann félagsvísindastofnun Háskóla Íslands skýrslu um reynslu og viðhorf flóttamanna á Íslandi. Höfundar skýrslunnar voru Kristín Erla Harðardóttir, Heiður Hrund Jónsdóttir og Friðrik H. Jónsson. Markmið með rannsókn var að skoða hvernig flóttamönnum hafði gengið að aðlagast lífinu á Íslandi og að fá fram viðhorf þeirra til íslensks samfélags. Mat þeirra á líðan hér á landi, mat á ánægju með þá þjónustu sem þeim hefur verið veitt og að leggja mat á þá þörf sem er til staðar fyrir þjónustuþætti við þennan hóp. Auk þess voru skoðuð lífsgæði þessara mismunandi hópa og lífsgæði þeirra í heimalandi áður en þeir urðu flóttamenn. 

Skýrsluna má lesa hér á pdf formi. 

Á vef velferðarráðuneytisins er að finna ýmsar upplýsingar varðandi flóttamenn hér á landi og má m.a. finna upplýsingar um komur flóttamanna allt frá árinu 1956.

 



Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16