Sá sem telur að stjórnvaldsákvörðun brjóti gegn réttindum sínum samkvæmt mannréttindalögum, getur yfirleitt kært hana til æðra stjórnvalds. Æðra stjórnvald er venjulega ráðuneyti eða stjórnsýslunefnd sem hefur það hlutverk að leysa úr kærumálum. Með stjórnsýslulögum nr. 37/1993 er kærurétturinn og aðrar reglur til þess að tryggja réttaröryggi í málsmeðferð stjórnvalda lögfestur.
Einnig getur hver sá sem telur að stjórnvald hafi á sér brotið borið fram kvörtun við umboðsmann Alþingis, en hann hefur eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og á hann að tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnsýslunni, eins og fram kemur í lögum um hann, nr. 85/1997.
Umboðsmaðurinn hefur það hlutverk að fylgjast með því hvort lög brjóti í bága við stjórnarskrá, eða séu á einhvern annan hátt gölluð, eða brjóti á alþjóðlegum mannréttindasamningum sem Ísland er aðili að. Álit umboðsmanns er þó ekki formlega bindandi gagnvart stjórnvöldum á sama hátt og dómur. Jafnframt því getur hann ekki ógilt ákvarðanir stjórnvalda.
Í 1. mgr. 126. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, segir að heimilt sé að veita einstaklingi gjafsókn, ef fjárhagur hans er þannig að kostnaður af gæslu hagsmuna hans í máli yrði honum ofviða, enda sé nægjanlegt tilefni til málshöfðunar eða málsvarnar og eðlilegt teljist að gjafsókn sé kostuð af almannafé.
Einnig eru sérstök úrræði tryggð þeim sem álíta að þvingunaraðgerðir lögreglu samkvæmt ákvæðum, eins og til dæmis handtaka, leit, hald á munum, gæsluvarðhald eða önnur frelsissvipting, hafi brotið gegn réttindum þeirra. Í 176. gr. laganna er fjallað um bótarétt vegna slíkra aðgerða ef sýnt er fram á lögmæt skilyrði hafi brostið til þeirra eða ekki hefur verið, eins og á stóð, nægilegt tilefni til þeirra eða þær framkvæmdar á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt.
Í 178. gr. einkamálalaga segir að þeir sem sækja bótakröfu í slíku máli eigi fortakslausan rétt á gjafsókn fyrir dómstólum í bótamáli gegn ríkinu og ber ríkið hlutlæga bótaábyrgð á tjóni sem rekja má til aðgerðanna. Bótamál gegn slíkum lögregluaðgerðum verður að höfða innan sex mánaða frá því að aðgerðin var framkvæmd eða frelsissviptingu lauk.