Evrópuvika gegn kynþáttamisrétti 2011

Smiðjur og viðburðir á höfuðborgarsvæðinu, Akureyri og Akranesi

Hinn 21. mars sl. var Evrópudagur gegn kynþáttamisrétti og er þátttaka Íslands orðin árviss viðburður. 

EGK-2011-logo

Mannréttindaskrifstofan hélt utan um Evrópuvikunni í ár sem fyrri ár, og skipulagði viðburði ásamt leiðbeinendum og krökkum úr deildum Rauða kross Íslands, Æskulýðsstarfi Þjóðkirkjunnar, Alþjóðatorgi ungmenna og ÍTR.

Þema ársins var „Rasisti! Ekki ég! Er það ... ?“ og var áhersla lögð á að hver og einn horfi inn á við og takist á við þá fordóma sem þar finnast. Það kom mörgum á óvart að hverju þeir komust um sig sjálf, og fengu tækifæri til að læra að það er aldrei of seint að breyta sér til hins betra, ef þess þarf.

Evrópuviku-átakinu var ýtt úr vör með hönnunarsamkepnni um logo sem passaði við þema ársins. Þátttakendur voru m.a. nemendur úr LHÍ og vinningshafinn var Egill Rúnar Viðarsson, nemandi við skólann. 

Í ár var bryddað upp á þeirri nýjung að halda smiðjur á undan viðburðunum sjálfum og hópurinn fékk leyfi til að verja laugardeginum 12. mars í Salaskóla í Kópavogi. Aðstaðan þar var eins og best var á kosið, og kunnum við skólastjórnendum, og öðrum frá skólanum sem lögðu sitt af mörkum, bestu þakkir fyrir.

Smiðjurnar stóðu yfir frá kl. 11:00 til 16:00, og byrjuðu og enduðu á hópefli þar sem hópurinn fékk að kynnast betur. Boðið var upp á leiklistarsmiðju, trúðasmiðju, listasmiðju og mannréttindasmiðju, og gátu ungmennin valið sér 3 smiðjur hvert til að taka þátt í. Allar höfðu þær það sameiginlegt að vinna með þema Evrópuvikunnar í ár, og undirbúa þátttakendur fyrir viðburðinn fimmtudeginum eftir. Í lok dags voru allir afar ánægðir með smiðjurnar og var þá tekin sameiginleg ákvörðun um að halda álíka smiðjur að ári.

EGK-2011-Salaskoli

Verkefnið var sérstaklega heppið að njóta góðs af reynslu tveggja trúða frá Palestínu, Mumma og Nael, en trúðasmiðjan þeirra var sérstaklega vinsæl, eins og sjá má á myndasíðu Mannréttindaskrifstofunnar.

Fimmtudaginn 17. mars voru síðan haldnir viðburðir í Smáralind í Kópavoginum fyrir höfuðborgarsvæðið, við Bónus á Akranesi og á Glerártorgi á Akureyri. Þar komu krakkarnir saman til að deila því sem þau höfðu lært með gestum og gangandi. Þau dreifðu barmmerkjum með logo vikunnar og sælgæti til fólks sem þau hittu, og einnig kortum og bæklingum með upplýsingum um kynþáttamisrétti.

Fjöldi skemmtiatriða var í boði. Í Smáralind sáu Hulda Hvönn og Dagbjört Rós, sjálfboðaliðar frá RkÍ-Kópavogi og nemendur í MK, um kynningu á Evrópuvikuna og dagskránni, en hún hófst á því að Margrét Steinarsdóttir, frkvstj MRSÍ, veitti Agli Rúnari Viðarssyni verðlaun fyrir vinningstillögu hans í logokeppninni. Skemmtiatriðin voru úr ýmsum áttum – atriði úr Mamma Mia frá Menntaskólanum í Kópavogi, leikrit um mismunun sem Leikfélagið Ævintýrabörn bæði samdi og lék, dansarar úr Dansíþróttafélagi Hafnarfjarðar, og að lokum söngvarinn Friðrik Dór en hann lauk dagskránni við góðar undirtektir viðstaddra. Lifandi bókasafn á vegum Alþjóðatorgs ungmenna var á staðnum með „bókasafns“þjónustu sína, og einnig var gestum Smáralindar boðið að taka þátt í leikjum og gerð listaverka.

EGK-2011-Smaralind

Á Glerártorgi komu unglingar frá unglingadeild Hjálpræðishersins, ÆFAK, Adrenalín gegn rasisma og Breytendur tróðu upp með söng og leik, röltu um torgið og dreifðu bæklingum, barmmerkjum og sælgæti á meðan þau spjölluðu við fólk um fordóma.

Á Akranesi hittust krakkarnir fyrir utan Bónus og dreifðu kortum, bæklingum o.s.frv., en einnig buðu þau fólki að losa sig við fordóma sína á táknrænan hátt, henda fordómum með því að krumpa saman blað og henda því í ruslafötu sem þau höfðu meðferðis.

Hér fyrir neðan eru hlekkir á aðrar síður með fréttum, myndum og myndböndum frá Evrópuvikunni, og til að sjá myndir af myndasíðu Mannréttindaskrifstofu má smella á myndirnar hér fyrir ofan.

http://kirkjan.is/frett/2011/03/11247

http://www.flickr.com/photos/kirkjan/5536571381/

Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16