Í nóvember árið 2004 stóðu 16 félagasamtök og stofnanir fyrir 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi. Átakinu lauk með afhendingu áskorunar til yfirvalda um að setja fram heildstæða aðgerðaáætlun gegn kynbundnu ofbeldi á Íslandi er hefði réttlæti, forvarnir, stuðning og vernd til handa fórnarlömbum að leiðarljósi.
Í kjölfar átaksins var settur á fót aðgerðahópur gegn kynbundnu ofbeldi á Íslandi með það að markmiði að stuðla að upplýstri umræðu um málefnið og vera stjórnvöldum til stuðnings og leiðbeiningar við gerð aðgerðaáætlunar er tæki til löggjafar, dómstóla, saksóknara og löggæslu, félagslegra úrræða, fræðslu til almennings og fagaðila; ásamt sértækum aðgerðum innan mennta-, heilbrigðis- og félagslega kerfisins.
Hópurinn tók saman meðfylgjandi drög að aðgerðaáætlun og kom henni á framfæri við dómsmálaráðuneytið, félagsmálaráðuneytið, menntamálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið (bréf til stjórnvalda). Hópurinn fundaði síðan með ráðherrum og hélt opinn samráðsfund með yfirvöldum þar sem tillögur hópsins voru kynntar.
Aðgerðarhópurinn leggur ríka áherslu á heildarendurskoðun löggjafar um kynbundið ofbeldi en undir hana flokkast fyrningarákvæði kynferðisbrota á börnum.