Í tilefni 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi boðuðu aðstandendur átaksins til morgunvarðarfundar með forsvarsmönnum stjórnmálaflokkanna um aðgerðir til að útrýma kynbundnu ofbeldi. Framsögur á fundinum fluttu: Drífa Snædal, framkvæmdastýra Samtaka um kvennaathvarf fyrir hönd aðstandenda átaksins, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins, Steingrímur J. Sigfússon, fyrir hönd Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Sigurjón Örn Þórsson, aðstoðarmaður félagsmálaráðherra, Guðjón A. Kristjánsson, fyrir hönd Frjálslynda flokksins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrir hönd Samfylkingarinnar. Í pallborði tók Ásta Möller sæti Þorgerðar Katrínar og Siv Friðleifsdóttir sat fyrir hönd Framsóknarflokksins.
Fram kom á fundinum að einhugur var meðal fundarmanna um að brýnt væri að taka alvarlega á málum er varða kynbundið ofbeldi. Þátttakendum var tíðrætt um tengsl kynbundins ofbeldis við klámvæðinguna og mikilvægi þess að halda á lofti mannhelgi og jafnrétti. Fulltrúar flokkanna voru hlynntir ,,austurrísku leiðinni" í heimilisofbeldismálum, þar sem lögreglu er heimilt að vísa ofbeldismanni af heimili og setja á tímabundið heimsóknarbann.
Fram kom að margt hefur áunnist á liðnu ári og það sé að þakka öflugri samvinnu félagasamtaka og samstarfi þeirra við stjórnvöld. Fyrirhugað er kynningarátak fyrir heilbrigðisstéttir, staðla á upplýsingar um kynbundið ofbeldi og setja vinnureglur innan heilbrigðisstofnana. Dómsmálaráðuneytið hefur kynnt frumvarp til laga sem stefnt er gegn heimilisofbeldi, kynferðisbrotakafli hegningarlaganna er til endurskoðunar og sömuleiðis lög um meðferð opinberra mála. Þá hafa verið settar verklagsreglur fyrir lögreglu um heimilisofbeldi og markviss skráning tilvika hafin. Þegar hafa verið sett lög sem banna limlestingar á kynfærum kvenna. Handbækur eru í smíðum fyrir fagfólk um viðbrögð við ofbeldi og meðferðarúrræði fyrir menn sem beita maka ofbeldi verður styrkt á nýju ári.
Mikil umræða hefur átt sér stað í samfélaginu samhliða breytingum á lagaumhverfi og vinnureglum og hefur umræða um kynbundið ofbeldi opnast svo um munar. Margt er enn ógert en ljóst er að stjórnmálaflokkarnir munu allir beita sér í þessum málaflokki. Sérstaklega var rætt um samhæfingu aðgerða á sveitastjórnarstiginu þar sem vinna við forvarnir og viðbrögð er mikilvæg í nærþjónustu allri.
Félagasamtökin sem stóðu að átakinu ítreka nauðsyn þess að fjármagn fylgi fyrirheitum og munu fylgjast vel með áherslum á vettvangi stjórnmálanna.
Fréttatilkynnig vegna fundar með fulltrúum stjórnvalda maí 2005
Aðgerðahópur gegn kynbundnu ofbeldi fagnar yfirlýsingum dómsmálaráðherra, Björns Bjarnasonar um aðgerðir sem hafnar eru gegn kynbundnu ofbeldi. Á morgunverðafundi með fulltrúum félagasamtaka og stjórnvalda tjáði ráðherra fundarmönnum að hafin væri vinna við endurskoðun kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga. Í máli hans kom einnig fram að refsiréttanefnd hefur verið fengin til umfjöllunar fyrirspurn ráðherra um sérstakt refsiákvæði er lýtur að heimilisofbeldi. Þá kom fram að bættar verklagsreglur lögreglu um heimilisofbeldi er í vinnslu hjá ríkislögreglustjóra.
Í máli ráðuneytisstjóra félagsmálaráðuneytisins, Ragnhildar Arnljótsdóttur, mátti sömuleiðis greina jákvæð viðbrögð við aðgerðaáætluninni. Fulltrúar félagsmála- og heilbrigðisráðuneytisins lögðu áherslu á útvíkkun starfssviðs Neyðarmóttöku vegna nauðgunar í þá átt að hún verði gerð í stakk búin til að taka á móti konum sem beittar hafa verið heimilisofbeldi. Þá var vilji hjá stjórnvöldum til að endurvekja verkefnið Karlar til ábyrgðar sem lýtur að meðferð fyrir ofbeldismenn. Í yfirstandandi fjárlagagerð leggur félagsmálaráðuneytið áherslu á að verkefninu verði tryggt fjármagn.
Á fundinum kom fram mikill skilningur og áhersla á mikilvægi þverfaglegrar samvinnu til að vinna gegn kynbundnu ofbeldi en nauðsynlegt er að samráð ráðuneyta, sveitastjórna og félagasamtaka sé tryggt. Aðgerðahópurinn lýsir yfir ánægju sinni með jákvæð viðbrögð stjórnvalda og jafnframt eindregnum vilja sínum til áframhaldandi samstarfs