Í tilefni af vikunni tóku Mannréttindskrifstofa, Þjóðkirkjan, Rauði Krossinn, Soka Gakkai Íslandi, Fjölmenningarsetur, Rætur og KFUM og KFUK höndum saman og héldu ýmsa viðburði í víða um land til að vekja athygli á vikunni og fagna fjölmenningu á Íslandi.
Í Reykjavík var vikunni fagnað í Smáralindinni þar sem ungt fólk kom saman til að vinna gegn fordómum með því að spjalla við gesti og gangandi um kynþáttafordóma, dreifa fræðsluefni, barmmerkjum, póstkortum og nammi. Krakkarnir máluðu sig í framan í mismunandi litum og klæddust bolum með slagorðinu, gegn fordómum af öllu hjarta!
Nemendur úr Menntaskólanum í Kópavogi skemmtu krökkunum og gestum Smáralindar með söng úr söngleiknum "Skítt með það" við góðar undirtektir. Eftir það var boðið upp á breik-sýningu en í kjölfarið fengu krakkarnir og gestir og gangandi að spreyta sig á nokkrum sporum. Farið var í fjölmenningartwister og fordómum hent í ruslið. Fluttur var áhugaverður gjörningur um jarðarsáttmálann en deginum var síðan lokið með flutningi tveggja laga úr rokksöngleiknum Hero.
Viðburðurinn var afar velheppnaður í alla staði. Krakkarnir stóðu sig með mikilli prýði og skemmtu sér konunglega en Mannréttindaskrifstofan kann þeim miklar þakkir fyrir ánægjulegt samstarf.
Aðstandendur viðburðarins vilja einnig þakka Smáralind, Leturprent, bros bolum og Þórdísi Claessen (fyrir hönnun á bolunum) fyrir frábærar viðtökur og mikilvægan stuðning.