16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi 2011

Alþjóðlegt 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi má rekja aftur til ársins 1991 og er þetta því í 21. skiptið sem átakið er haldið á heimsvísu.  Dagsetning átaksins, frá 25. nóvember, alþjóðlegum baráttudegi gegn kynbundnu ofbeldi, til 10. desember, hins alþjóðlega mannréttindadags, var valin til að tengja á táknrænan hátt kynbundið ofbeldi og mannréttindi. Tímasetningin var einnig valin til að leggja áherslu á mannréttindabrotin sem felast í slíku ofbeldi. Markmið átaksins er að knýja á um afnám alls kynbundins ofbeldis.

Í ár er þema átaksins á heimsvísu kynbundið ofbeldi í stríði og vopnuðum átökum. En jafnframt er sjónum beint að heimilisofbeldi því að aðeins þegar er friður á heimilum næst friður í heiminum. Hér heima höfum við því einbeitt okkur að yfirskrift átaksins „Heimilisfriður – heimsfriður“.

Kynbundið ofbeldi er ein af verstu birtingarmyndum kynjamisréttis hér á landi sem og annars staðar. Hundruð kvenna leita árlega til Neyðarmóttöku, Stígamóta og Kvennaathvarfsins vegna nauðgana og annars ofbeldis af hendi karla. Kynbundið ofbeldi lýsir sér í nauðgunum, sifjaspellum, klámi, vændi, mansali, kynferðisáreitni og annars konar líkamlegu og andlegu ofbeldi gegn konum og stúlkum inni á heimilum þeirra sem utan.

Upplýsingar frá Kvennaathvarfinu frá árinu 2009 sýna að það árið leituðu þangað 605 konur, en frá upphafi hafa 9,410 konur komið í athvarfið. Árið 2010 leituðu 526 einstaklingar til Stígamóta, og frá upphafi samtakanna til ársloka 2009 höfðu alls 4,998 konur leitað til Stígamóta vegna kynferðisofbeldis sem þær höfðu verið beittar. Á milli áranna 2008 og 2009 hafði orðið fækkun í nýjum málum en árið 2010 fjölgaði þeim aftur. Í ársskýrslu sinni vekja Stígamót sérstaka athygli á því að aðeins 16,5% ofbeldis­mannanna sem nefndir voru árið 2010 voru ókunnugir þeim sem þeir beittu ofbeldinu – það þýðir að í rúmum 80% tilvika þekkti brotaþolinn ofbeldismanninn. Eiginmaður, fyrrverandi eiginmaður, kærasti, faðir, frændi, bróðir, vinur. Af þeim stafar íslenskum konum helsta hættan en ekki af ókunnugum.

Staðreyndin er því sú að ofbeldi gegn konum þrífst á Íslandi sem annars staðar, og það þrífst hvergi eins vel og í skjóli heimila, og í skjóli upplýsingaskorts, þöggunar og aðgerðaleysis. Skömmin sem réttilega tilheyrir gerendum hvílir af þessum og öðrum sökum sem mara á þolendum. Þó að kreppa ríki í landinu er síður en svo ástæða til að ætla að minna fari fyrir þessari tegund af ranglæti. Reynslan frá nágrannalöndum sýnir að kynbundið ofbeldi eykst á tímum kreppu en á meðan fækkar almennum líkamsárásum. Ofbeldi verður minna sjáanlegt en það hverfur ekki heldur færist inn á heimilin.

Við getum ekki litið framhjá þeim staðreyndum um kynferðisofbeldi sem blasa við okkur. Með árlegu 16 daga átaki viljum við hvetja til opinnar og hispurslausrar umræðu, sem leið til vitundarvakningar meðal almennings og frekari aðgerða í kjölfarið. Dagskrá átaksins í ár er fjölbreytt og samanstendur af Ljósagöngu, tónleikum, bíósýningum, bókaupplestrum og málstofum. Hvetjum við alla til að kynna sér dagskrána nánar á heimasíðu átaksins http://www.humanrights.is/servefir/16dagar og á facebook.

Dagskrá 2011.

Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16