Allir eiga rétt
Allir eiga rétt er kennsluefni um mannréttindi ætlað efstu bekkjum grunnskóla. Það er gefið út í samstarfi Unicef Ísland og Námsgagnastofnunar. Um er að ræða kennsluleiðbeiningar með áhugaverðum verkefnum þar sem lögð er áhersla á virkar kennsluaðferðir.
Efninu er ætlað að auka þekkingu ungmenna á mannréttindum, draga úr fordómum og efla færni nemenda til að verða virkir þátttakendur í fjölmenningarsamfélagi nútímans.
Fjallað er um réttindi og skyldur og nemendur eru m.a. hvattir til að þroska umburðarlyndi og samstöðu með öðrum íbúum jarðar, friðarvilja, skilning á félagslegu réttlæti og meðvitund um umhverfið og verndun þess.
Kompás - handbók um mannréttindafræðslu og -menntun
Kompás er handbók um mannréttindafræðslu og -menntun, ætluð æskulýðsleiðtogum, kennurum og öðrum sem vinna með ungu fólki sem fagaðilar eða áhugafólk.
Á síðu Námsgagnastofnunar má finna vefútgáfu handbókar.
Handbókin hefur að geyma raunhæfar hugmyndir og hagnýt verkefni sem ætluð er að virkja og vekja jákvæða vitund ungs fólks um mannréttindi og fá það til að vinna í þágu mannréttinda á sinn eigin hátt, í sínu samfélagi.
Kompás spannar vítt svið mannréttinda og efnistökin taka mið af áherslu á jafnrétti og mannlega reisn þar sem litið er til mannauðsins sem býr í ungi fólki.
Handbókin Kompás var þróuð af þverfaglegu og þvermenningarlegu teymi fagfólks. Hún er m.a. byggð á hugmyndum um reynslunám þar sem áhersla er á nemendur, umhverfi þeirra og vangaveltur.
Nemendur eru sjálfir útgangspunktarnir í náminu. Handbókin Kompás var samin innan ramma áætlunar æskulýðs og íþróttadeildar Evrópuráðsins um mannréttindi sem hleypt var af stokkunum árið 2000 í tilefni af 50 ára afmæli mannréttindasáttmála Evrópu. Með áætluninni er stefnt að því að efla þátt mannréttinda í æskulýðsstarfi og að mannréttindafræðsla verði liður í almennri menntun.
Í Kompás er að finna ólikar leiðir og nálganir fyrir hvern þann sem hefur áhuga á mannréttindum, lýðræði og borgaravitund.
Bókin er gefin út í samvinnu Námsgagnastofnunar og Mennta- og menningarmálaráðuneytisins með leyfi Evrópuráðsins.