16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi 2010

Berjumst gegn ofbeldi gegn konum á átakasvæðum -

í ofbeldismálum ber gerandinn ábyrgðina.

Fimmtudaginn 25. nóvember verður 16 daga átakinu ýtt úr vör í 20. sinn. Verður það gert með Ljósagöngu til að vekja athygli á ofbeldi gegn konum og hvetja til aðgerða. Er þetta í annað sinn sem farið er í Ljósagönguna, en það er UNIFEM sem stendur fyrir henni og er hugsunin að gera hana að árlegum viðburði.

Gangan er fyrsti viðburðurinn af fjölmörgum sem markar alþjóðlegt 16 daga átak gegn ofbeldi gegn konum. Alþjóðlega yfirskrift átaksins í ár er: Berjumst gegn ofbeldi gegn konum á átakasvæðum og viljum við á Íslandi leggja áherslu á ábyrgð gerenda í ofbeldismálum.

Kyndilberar í ár eru Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra, Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðhera, Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Ögmundur Jónasson dómsmála- og mannréttindaráðherra, Stefán Eiríksson lögreglustjóri höfuðborgarsvæðis, Ragnhildur Gísladóttir, Auður Jónsdóttir rithöfundur, Guðrún Jónsdóttir talskona Stígamóta, Sigurlaug Viborg forseti Kvenfélagasambands Íslands, og nemendur Jafnréttisskólans.

Gengið verður frá Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu klukkan 19.00, að Sólfarinu við Sæbraut. Bæði áður en gengið er af stað og eftir að á áfangastað er komið, munu konur af ýmsum þjóðernum lesa ljóð sem tengjast baráttumálum kvenna. Að því loknu verður friðarsúlan tendruð.

Með Ljósagöngunni er tilgangurinn að vekja athygli á stöðu þeirra milljóna kvenna sem verða fyrir ofbeldi, bæði hér heima og erlendis.

Markmiðið er einnig að minna á þá skömm og niðurlægingu sem slíku ofbeldi fylgir þegar ábyrgðin ætti að öllu leyti að hvíla á herðum gerandans.

Slökkt verður á friðarsúlunni þennan dag klukkan 19.45 til að vekja athygli á því myrkri og einangrun sem fórnarlömb kynbundins ofbeldis þurfa að búa við. Með því að tendra ljósið á ný fylgir sú von að hægt verði að vinna bug á ofbeldi gegn konum í heiminum og því kynjamisrétti sem því fylgir.

Friður ríkir ekki fyrr en búið er að uppræta ofbeldi gegn konum, í öllum þeim myndum sem það birtist.

16 daga átak hefur í frá 1991 unnið að því að draga kynbundið ofbeldi fram í dagsljósið sem mannréttindabrot. Hópar og samtök um allan heim nýta átakið til að krefjast aðstoðar og stuðnings til handa fórnarlömbum ofbeldis, til að styrkja forvarnastarf og þrýsta á um breytingar á löggjöf til að bæta réttarstöðu þolenda. Þá hefur átakið verið nýtt til að stuðla að því alþjóðlegum mannréttindareglum sé beitt til að vinna gegn kynbundu ofbeldi sem mannréttindabroti, heilbrigðisvandamáli og ógn við mannfrelsi og frið um allan heim. Enda þótt staða íslenskra kvenna sé sterk á mörgum sviðum þá er kynbundið ofbeldi alvarlegt vandamál hér á landi.

Dagskrá 16 daga átaksins í ár má sjá hér, en einnig er hægt að fylgjast með 16 daga átakinu og viðburðum því tengdu á Facebook-síðu átaksins (http://www.facebook.com/group.php?gid=40241720377).

Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16